• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Jul

Tenging við launavísitölu í kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness við Norðurál skilað um 6,4% fyrstu 6 mánuðina.

Það er óhætt að segja að kjarasamningurinn sem Verkalýðfélag Akraness gerði 17. mars 2015 við forsvarsmenn Norðuráls sé svo sannarlega að svínvirka, en samningurinn hefur skilað starfsmönnum góðum ávinningi.  Í þessum samningi var í fyrsta skipti gengið frá því að launahækkanir taki mið af hækkun launavísitölunnar en í heildina gaf samningurinn á árinu 2015 starfsmönnum um 16% launahækkun.  Á árinu 2015 höfðu laun starfsmanna ekki bara hækkað um 16% heldur fengu starfsmenn einnig 300.000 kr. eingreiðslu samhliða kjarasamningnum í mars í fyrra. Á þessu eina ári hafa starfsmenn á vöktum í kerskála því hækkað með öllu um frá tæpum 72.000 kr. upp í 86.000 kr. á mánuði.

Á fyrstu 6 mánuðum þessa árs hefur launavísitalan gefið starfsmönnum 6,4% og enn eru 6 mánuðir eftir af launavísitölutímabilinu. Það má því allt eins reikna með því að 1. janúar 2017 muni laun starfsmanna Norðuráls hafa hækkað um allt að 10% ef sama ferð verður á launavísitölunni eins og verið hefur fyrstu 6 mánuði þessa árs.  Rétt er að geta þess að heildarlaun byrjanda í Norðuráli á 12 tíma vöktum í kerskála fyrir 182 tíma á mánuði eru núna komin upp í 525.940 kr. og starfsmaður sem er með lengsta starfsaldurinn er kominn upp í tæpar 633.000 kr. Þeir sem hafa lokið báði grunn og framhaldsnámi Stóriðjuskólans eru með tæpar 700 þúsund í heildarlaun með öllu fyrir 182 tíma vinnu á mánuði.

28
Jun

Nýr kjarasamningur sjómanna undirritaður

Sjómannasamband Íslands, sem fer með samningsumboð fyrir sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness undirritaði nýjan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). En eins og flestir muna rann kjarasamningur sjómanna út 1. janúar 2011 og hafa sjómenn því verið með lausan kjarasamning í 5 og hálft ár.

Það verður því miður að segjast að innihald þessa samnings sé fremur rýrt, enda er ekki tekið á stóru málunum eins og til dæmis mönnunarmálum og verðlagsmálum á sjávarafurðum. Þó er rétt að geta þess að í samningnum var gerð bókun sem kveður á um athugun á lágmarksmönnun um borð í uppsjávarskipum, ísfiskstogurum og dagróðrarbátum. Einnig er í þessari bókun kveðið á um að hvíldartími sjómanna verði skoðaður. Örlitlar bætur koma til vegna afnáms sjómannaafsláttar og nemur sú upphæð 500 kr. fyrir hvern lögskráningardag í skattfrjálsan frádrátt frá tekjum vegna fæðiskostnaðar. Rétt er einnig að geta þess að kauptrygging hækkar um rúm 23%, en eins og flestir sjómenn vita þá hefur sú hækkun fremur litla þýðingu í ljósi þess að sjómenn eru á aflahlut og í frekur fáum tilfellum reynir á kauptrygginguna.

Eins og áður sagði er þessi samningur að mati formanns VLFA fremur rýr og óttast formaður að þessi samningur verði ekki samþykktur af hálfu sjómanna, enda er eins og áður sagði ekki tekið á stærstu kröfum þeirra þótt vissulega beri að fagna því að málið sé sett í farveg með áðurnefndum bókunum.

Lesa má samninginn hér og er mikilvægt að sjómenn kynni sér vel og rækilega innihald hans. Kosið verður sameiginlega meðal allra sjómanna sem eiga aðild að Sjómannasambandi Íslands og fólu sambandinu umboð til kjarasamningsgerðarinnar.

22
Jun

Skrifstofan lokar kl. 15 í dag - Áfram Ísland!

Vegna leiks íslenska landsliðsins við Austurríki í dag verður skrifstofu félagsins lokað klukkan 15:00 í dag.

07
Jun

Jóhannes Eyleifsson heiðraður á sjómannadaginn

Á sunnudaginn var Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur, en Verkalýðsfélag Akraness leggur sitt af mörkum til hátíðarhaldanna eins og undanfarin ár. Aðkoma félagsins að sjómannadeginum er meðal annars fólgin í því að standa fyrir athöfn við minnismerki um týnda sjómenn í kirkjugarðinum, en þar er árlega lagður blómsveigur til að minnast þeirra sem drukknað hafa og týnst á sjó.

Að þeirri athöfn lokinni er haldið í hátíðarsjómannamessu í Akraneskirkju þar sem meðal annars er heiðraður sjómaður fyrir vel unnin störf í þágu þjóðar. Í ár var það Jóhannes Eyleifsson sem fékk æðstu viðurkenningu sjómannadagsráðs Verkalýðsfélags Akraness, en það má segja að Hanni á Lögbergi, eins og hann er ætíð kallaður hér á Akranesi, sé holdgervingur sjómennskunnar enda hóf hann sjómennsku með föður sínum einungis 12 ára gamall. Og enn er hann að og fyrir örfáum dögum síðan lauk hann sinni 60. grásleppuvertíð á sínum langa sjómannsferli, en Jóhannes á og rekur smábátinn Leifa AK 2.

Að heiðrun lokinni bauð Akraneskaupstaður þeim hjónum og fulltrúum sjómannadagsráðs til hátíðarkvöldverðar á veitingastaðnum Galito á Akranesi. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill óska Jóhannesi og konu hans, Drífu Garðarsdóttur, innilega til hamingju með heiðrunina.

Þessu til viðbótar kom Verkalýðsfélag Akraness að fjármögnun á fjölskyldudagskrá á hafnarsvæðinu vegna sjómannadagsins, en eins og undanfarin ár er það Björgunarfélag Akraness sem sá um framkvæmd dagskrárinnar. 

06
Jun

Ályktun um samningsrétt samþykkt á formannafundi SGS

Dagana 2. og 3. júní sl. var haldinn formannafundur Starfsgreinasambands Íslands í Grindavík. Rétt er að geta þess að Starfsgreinasamband Íslands er stærsta landssambandið innan ASÍ og er fjöldi félagsmanna sambandsins yfir 51.000. 

Fundurinn var nokkuð góður og voru fjölmörg mál til umræðu, en á fundinum lagði formaður VLFA fram ályktun um mikilvægi samningsfrelsis stéttarfélaga og launafólks. Spruttu miklar umræður um ályktun formannsins en hún laut að því að ef tekið verður upp nýtt vinnumarkaðslíkan, eins og æði margt bendir til að geti orðið, þá verði tryggt með afgerandi hætti að ekki verði hróflað við forræði, sjálfstæði og frjálsum samningsrétti stéttarfélaganna til kjarasamningsgerðar. En eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðu félagsins þá hefur VLFA verulegar áhyggjur af því að stefnt sé að því í nýju vinnumarkaðsmódeli að skerða og takmarka frjálsan rétt félaganna til kjarasamningsgerðar.

Formaður færði ítarleg rök máli sínu til stuðnings og það er skemmst frá því að segja og afar ánægjulegt að sjá og heyra að fleiri og fleiri forystumenn í verkalýðshreyfingunni eru farnir að hafa áhyggjur af því að samningsfrelsið verði hugsanlega skert og kom mikill stuðningur fram hjá mörgum formönnum SGS við ályktun VLFA. Ályktunin var borin undir atkvæði fundarins og fór atkvæðagreiðslan með þeim hætti að 9 formenn samþykktu ályktunina, enginn sagði nei, en nokkrir formenn sátu hjá. Það kom skýrt fram í máli formanns VLFA að það megi ekki undir nokkrum kringumstæðum skerða eða takmarka frjálsan samningsrétt launafólks enda er samningsrétturinn hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar á Íslandi, eins og fram kemur í ályktuninni.

Ályktunin hljóðaði með eftirfarandi hætti:

Ályktun um samningsrétt

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands haldinn í Grindavík dagana 2. og 3. júní vill taka það skýrt fram að SGS mun ekki verða aðili að nýju vinnumarkaðsmódeli sem nú er unnið að, ef það leiðir til þess að frjáls samningsréttur stéttarfélaganna verður skertur eða takmarkaður á nokkurn hátt.

Formannafundurinn vill einnig taka það sérstaklega fram að ef það kemur til þess að breyta þurfi lögum um stéttarfélög og vinnudeilur vegna nýs vinnumarkaðsmódels þá verði það tryggt að slíkar breytingar leiði alls ekki til skerðingar eða takmörkunar á frjálsum samningsrétti stéttarfélaganna.

Formannafundur SGS er sannfærður um að forræði hvers stéttarfélags til kjarasamningsgerðar og frjáls samningsréttur sé hornsteinn stéttarfélagsbaráttu á Íslandi og það frjálsræði og þann samningsrétt megi ekki skerða eða takmarka á nokkurn hátt

03
Jun

Verkalýðsfélag Akraness gefur leikskólabörnum á Akranesi harðfisk

Í dag heimsótti Júlíus Pétur Ingólfsson, stjórnarmaður í Verkalýðsfélagi Akraness, alla leikskólana á Akranesi sem eru Akrasel, Garðasel, Teigasel og Vallarsel. Tilefni heimsóknanna var Sjómannadagurinn sem er næstkomandi sunnudag en það er hefð hjá Verkalýðsfélagi Akraness að heimsækja öll leikskólabörn og gefa þeim harðfisk í tilefni dagsins.

Stjórn félagsins er það mikill heiður að geta glatt leikskólabörn á Akranesi með þessum hætti og minnt þau á mikilvægi sjómannsstarfsins. Það skein mikil gleði úr hverju andliti og kunnu börnin svo sannarlega að þakka fyrir sig.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image