• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Jun

Sjómannadagurinn 2016

Næstkomandi sunnudag verður Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur um land allt. Björgunarfélag Akraness sér um fjölbreytta dagskrá við Akraneshöfn og víðs vegar um bæinn ættu allir að geta fundið afþreyingu við sitt hæfi.

Dagskrá:

Kl. 9.00-18.00
Frítt í sund í Jaðarsbakkalaug.

Kl. 10.00
Minningarstund við minnismerki um týnda sjómenn í kirkjugarði.

Kl. 10.00-16.00  
Opið í Akranesvita. Málverkasýning Sigfríðar Lárusdóttur prýðir veggi vitans.

Kl. 11.00       
Dýfingakeppni á vegum Sjóbaðsfélags Akraness. Keppendur og áhorfendur safnast saman við Aggapall við Langasand. Dýfingarnar munu fara fram af bátnum Jóni forseta. Keppt verður í tveimur greinum, annars vegar hefðbundinni stungu og hins vegar frjálsri aðferð. Aldursflokkar verða tveir, 49 ára og yngri og 50+. Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hvorum flokki.

Kl. 11.00            
Sjómannadagsmessa, sjómaður heiðraður. Blómsveigur lagður að sjómanninum á Akratorgi að lokinni athöfn.

Kl. 11.00
Íslandsmótið í Eldsmíði hefst á Byggðasafninu og stendur fram eftir degi. Eldsmíðahátíð fer fram 2.-5. júní á Byggðasafninu. Allir hjartanlega velkomnir að fylgjast með.

Kl. 13.00-14.00
Dorgveiðikeppni á Sementsbryggjunni.

Kl. 13.30            
Sigling á smábátum

Kl. 13.30-16.30  
Kaffisala í Jónsbúð á vegum Slysavarnafélagsins Líf. Allir hjartanlega velkomnir.

Kl.14.00-16.00  
Björgunarfélag Akraness sér um fjölskylduskemmtun í samstarfi við Akraneskaupstað, Verkalýðsfélag Akraness, HB Granda, Faxaflóahafnir og Runólf Hallfreðsson ehf. við Akraborgarbryggjuna. Á boðstólnum verða m.a.: Fyrirtækjakeppni Gamla Kaupfélagsins, þrautir og leikir fyrir börn, kassaklifur, hoppukastalar, úrval fiska til sýnis, koddaslagur, karahlaup og fleira.  

Kl. 14.00-16.00  
Félagar í Sjósportfélaginu Sigurfara verða á svæðinu með kajaka og fleira .

Kl. 15.00             
Þyrla landhelgisgæslunnar kemur til okkar og sýnir björgun úr sjó.

Kl. 19.00             
Sumargleði Kórs Akraneskirkju í Vinarminni. Fjölbreytt dagskrá í tali og tónum. Sérstakur gestur verður Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxflóahafna. Boðið verður upp á ljúffenga sjávarréttasúpu. Aðgangseyrir kr. 2.500.

Fleiri upplýsingar um Sjómannadaginn 2016 má finna á heimasíðu Akraneskaupstaðar www.akranes.is

01
Jun

Akraneskaupstaður leiðréttir laun upp á 5,7 milljónir

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur gengið frá samkomulagi við Akraneskaupstað vegna leiðréttingar á launum skólaliða í Brekkubæjarskóla og Grundaskóla. Málið laut að því að þegar Verkalýðsfélag Akraness fór að skoða mál er tengjast aðalhreingerningum skólaliða, en þær eru framkvæmdar eftir að skólanum lýkur ár hvert, kom í ljós að skólaliðar voru ekki að fá álagsgreiðslu sem nemur 55% af dagvinnutaxta vegna aðalhreingerninga eins og kveðið er á um í kjarasamningi á milli VLFA og Akraneskaupstaðar. Félagið gerði því athugasemdir vegna þessarar vangreiðslu við forsvarsmenn Akraneskaupstaðar og átti formaður nokkra fundi með bæjarstjóra og forsvarsmönnum bæjarins til að finna lausn á þessum ágreiningi. Eftir að bæjaryfirvöld höfðu skoðað málið og komist að því að þessi athugsemd VLFA var á rökum reist þá náðist samkomulag um lausn á málinu.

Samkomulagið fól það í sér að skólaliðar munu fá 55% álag vegna aðalræstinga endurgreitt fjögur ár aftur í tímann og nemur sú endurgreiðsla tæpum 200 þúsundum fyrir þá sem eiga fullan rétt, en í heildina nemur þessu endurgreiðsla til allra skólaliða um 5,7 milljónum króna. Auk þess var samið um viku í viðbótarorlof handa skólaliðum í fullu starfi. Formaður kynnti samkomulagið fyrir félagsmönnum sínum í Brekkubæjarskóla í gær og voru starfsmenn mjög ánægðir með þetta samkomulag. Verkalýðafélag Akraness vill þakka bæjaryfirvöldum fyrir að sameiginleg lausn hafi fundist á þessu máli ,enda byggðist vangreiðslan á vissum misskilningi og var alls ekki um neinn ásetning að ræða. 

Þetta er ekki eina málið sem fékk farsæla niðurstöðu í gær því félagið var með annað mál í vinnslu hjá sér sem laut að ofgreiðslu sem starfsmaður Hvalfjarðarsveitar hefði fengið upp á tæpar 150 þúsund krónur, en hafði síðan verið dregin af honum. Slíkt er óheimilt ef starfsmaðurinn er í góðri trú um að laun hans séu rétt og hann er algerlega grandalaus um að um ofgreiðslu væri að ræða. Verkalýðsfélag Akraness óskaði eftir því að Hvalfjarðarsveit myndi endurgreiða það sem hafði verið dregið af starfsmanninum og vísaði félagið í dómafordæmi máli sínu til stuðnings. Eftir að málið hafði verið skoðað af sveitarstjóra var fallist á rök VLFA og starfsmanninum endurgreidd sú upphæð sem um var að ræða.

Þetta sýnir hversu mikilvæg stéttarfélögin eru þegar kemur að því að verja og varðveita þau réttindi sem um hefur verið samið og félagsmenn eiga rétt á.

27
May

Formaður með fræðslu á fiskvinnslunámskeiði

Í gær var formaður Verkalýðsfélags Akraness með kynningu á fiskvinnslunámskeiði sem milli 20 og 30 starfsmenn HB Granda hafa setið þessa vikuna. Í kynningunni fór formaður yfir réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði, fór yfir launatöflur, bónusmál og fleira því tengdu. Nemendur báru upp fjölmargar spurningar og var þetta afar lifandi og góð fræðsla.

Mikilvægt er að fyrirtæki bjóði reglulega upp á námskeið af þessu tagi og er það bæði hagur fyrirtækisins og starfsmanna, en sérhæfður fiskvinnslumaður fær tveggja flokka launahækkun eftir útskrift svo það er brýnt að þeim standi slíkt námskeið reglulega til boða.

20
May

95 starfsmenn Norðuráls hafa útskrifast úr stjóriðjuskóla Norðuráls

Árið 2011 samdi Verkalýðsfélag Akraness við forsvarsmenn Norðuráls um  stofnun stóriðjuskóla og það er óhætt að segja að þar hafi verið stigið mikið heillaspor að setja þennan skóla á laggirnar, ekki bara fyrir starfsmenn heldur einnig fyrirtækið. Það er morgunljóst að námið eykur færni og hæfni starfsmanna til muna og því til viðbótar er einnig fjárhagslegur ávinningur fyrir starfsmenn að fara í námið.

Grunnnám stóriðjuskólans er þrjár annir og gefur þeim starfsmönnum sem því ljúka launahækkun upp á 5%. Framhaldsnám skólans gefur svo 5% til viðbótar. Með öðrum orðum þá skilar námið ekki bara aukinni færni og hæfni nemenda heldur getur það skilað 10% launahækkun að afloknu grunn- og framhaldsnámi og nemur sá ávinningur um eða yfir 70 þúsundum króna á mánuði. Rétt er að geta þess líka að í stóriðjuskólanum öðlast starfsmenn aukna færni og þekkingu á lykilferlum við örugga og hagkvæma framleiðslu á áli. Þannig er rétt að ítreka enn og aftur að það er bæði hagur starfsmanna og fyrirtækisins að hafa þetta nám innan Norðuráls. Námið fer fram í húsakynnum Norðuráls á Grundartanga og koma kennarar frá Fjölbrautaskóla Vesturlands og einhver námskeið eru haldin á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands.
Glæsilegur hópur útskriftarnemaÍ gær útskrifaðist enn einn hópurinn úr stóriðjuskólanum en það voru 15 starfsmenn sem luku grunnnáminu og í heildina hafa 62 starfsmenn lokið grunnáminu frá því skólinn var settur á laggirnar. Í gær útskrifuðust líka starfsmenn í framhaldsnáminu og í heildina hafa 33 lokið framhaldsnáminu. Þetta þýðir að 95 starfsmenn hafa samtals lokið grunn- og framhaldsnámi úr stóriðjuskóla Norðuráls frá því hann hóf starfsemi sína.  

Það er óhætt að segja að útskriftarathöfnin sem haldin var í gær hafi verið öll hin glæsilegasta og mega starfsmenn og forsvarsmenn fyrirtækisins vera stoltir af allri umgjörð í kringum útskriftina enda skein mikil ánægja úr andlitum ústkriftarnema. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness sendir þeim sem útskrifuðust í gær innilegar hamingjuóskir með þennan glæsilega áfanga.

11
May

Fyrsti heimaleikur ÍA á morgun - Félagsmenn VLFA njóta sérkjara á ársmiðum!

Félagsskírteini VLFA veitir félagsmönnum þess ýmsa afslætti eins og sjá má hér á heimasíðunni. Meðal annars geta félagsmenn VLFA fengið afslátt af ársmiðum á alla heimaleiki ÍA í Pepsideild karla og kvenna gegn framvísun félagsskírteinis, en ársmiðarnir eru til sölu á skrifstofu KFÍA sem og í gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og í síma 4331109. 

Fyrsti heimaleikurinn er á morgun og því ekki seinna vænna að drífa sig á völlinn!

 

Brons

Silfur

Gull

Pepsideild kvenna

Félagsmenn VLFA

9.000

16.000

30.000

6.000

Almennt verð

12.000

20.000

40.000

8.000

10
May

Norðurál skilar 6 milljörðum í hagnað = Gott starfsfólk

Góður árangur næst ekki nema með afbragðsstarfsmönnumNorðurál á Grundartanga tilkynnti afkomutölur sínar í dag og þar kemur fram að hagnaður fyrirtækisins nam rétt tæpum 6 milljörðum sem verður að teljast mjög góð afkoma í ljósi þess að heimsmarkaðsverð á áli lækkaði verulega á milli ára og stendur álverð í tæpum 1.600 dollurum fyrir tonnið.  

Það er morgunljóst að svona afkomutölur ár eftir ár nást ekki nema fyrirtækið hafi afbragðs starfsfólk innan sinna vébanda og því er það afar mikilvægt að stjórnendur íslenskra fyrirtækja átti sig á því að gott starfsfólk er í höfuðatriðum lykill að góðum árangri og afkomu. Það er líka morgunljóst að góð afkoma Norðuráls hefur m.a. gert Verkalýðsfélagi Akraness kleyft að krefjast aukinnar hlutdeildar í góðri afkomu fyrirtækisins til handa starfsmönnum eins og síðasti kjarasamningur sem félagið gerði við Norðurál sannar.  

Það skiptir launafólk og stéttarfélögin miklu máli að afkoma fyrirtækja sé góð, því góð afkoma gefur stéttarfélögunum aukið svigrúm til að krefjast hlutdeildar í góðri afkomu fyrirtækja og þannig á íslenskur vinnumarkaður að virka. Það er alveg ljóst að vinna Verkalýðsfélags Akraness við að bæta kjör sinna félagsmanna er hvergi nærri lokið og því er afar ánægjulegt að sjá að mörg fyrirtæki sem félagsmenn VLFA starfa hjá eru að skila góðri afkomu eins og Norðurál og HB Grandi svo einhver dæmi séu nefnd.  

Eins og áður sagði er vinnu við að hækka laun okkar félagsmanna hvergi nærri hætt enda lýkur þeirri baráttu aldrei, það er ánægjulegt að okkur hefur tekist vel við að láta eigendur Norðuráls skila góðri afkomu til starfsmanna þegar kjarasamningar hafa verið lausir. Í dag er byrjandi á vöktum hjá fyrirtækinu með í heildarlaun með öllu 522.000 krónur á mánuði fyrir 182 tíma og starfsmaður með 10 ára starfsreynslu er með 611.000 krónur með öllu fyrir sama vinnutíma. Þessu til viðbótar stendur starfsmönnum til boða að taka stóriðjuskóla sem getur skilað allt að 10% launahækkun að afloknum skólanum og með stóriðjuskólanum getur verkamaður náð tæpum 670.000 krónum í mánaðarlaunum með öllu.  En eins og áður sagði er VLFA hvergi hætt að berjast fyrir hærri launum og aukinni hlutdeild í góðum árangri fyrirtækja.

Það sem skyggir á góða afkomu Norðuráls og margra annarra fyrirtækja er að ASÍ ásamt aðilum sem tengjast svokölluðu Salek samkomulagi vinna nú leynt og ljóst að því að taka af eða skerða samningsfrelsi stéttarfélaganna með því að færa ákvörðunartöku um hámarkslaunabreytingar yfir á nýtt þjóðhagsráð sem á að ákveða hversu mikið svigrúm er til skiptanna og ef þjóðhagsráð kemst að því að svigrúmið sé einungis 3% þá verður stéttarfélögunum skylt að semja innan þess svigrúms. Sem sagt, stéttarfélögin munu ekki mega sækja í góða afkomu fyrirtækja eins og Norðuráls því ætlunin er að meitla í stein samræmda láglaunastefnu. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image