• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Nov

Viðhorfskönnun um 12 eða 8 tímavaktakerfi í Norðuráli

Þessa dagana stendur yfir viðhorfskönnun meðal starfsmanna Norðuráls þar sem leitast er eftir því að kanna hvort vilji sé hjá starfsmönnum að fara úr 12 tíma vaktakerfi yfir í 8 tíma vaktakerfi eins og tíðkast hjá Elkem Ísland á Grundartanga og reyndar öllum þeim stóriðjum sem eru starfræktar hér á landi.

Í dag er vaktavinnufólk í ker- og steypuskála Norðuráls að vinna 182 tíma á mánuði sem þýðir að starfsmenn skila 26 föstum yfirvinnutímum á mánuði, en dagvinnuskylda í stóriðjum er 156 dagvinnustundir en ekki 173,33 eins og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Hjá Elkem Ísland er eins og áður sagði 8 tíma vaktakerfi þar sem starfsmenn standa 6 vaktir á 5 dögum og eiga 5 daga í frí. Það þýðir að á meðaltali eru þar 18,2 vaktir á mánuði sem gera 145,6 tíma á mánuði og til að fylla uppí 156 dagvinnustundaskylduna þurfa menn að taka 1 skilavakt í mánuði.

Það liggur fyrir að þetta 8 tíma vaktakerfi sem er við lýði hjá Alcan í Straumsvík, Fjarðaráli og Elkem Ísland er mjög gott vaktakerfi sem allir starfsmenn láta vel af. Hins vegar hefur verið töluverð ónægja á meðal sumra starfsmanna hjá Norðuráli með þetta 12 tíma vaktakerfi enda liggur fyrir að það getur tekið mjög á starfsmenn að vinna svo langar vaktir. Hins vegar er þetta 12 tíma vaktakerfi þannig uppbyggt að starfsmenn hafa 26 fasta yfirvinnutíma og við það að fara í 8 tíma vaktakerfi falla þessir 26 yfirvinnutímar út.

Það er hins vegar mjög mikilvægt að allar upplýsingar séu yfir allan vafa hafnar þegar kemur að því að upplýsa starfsmenn um kosti og galla þess að hverfa frá 12 tíma vaktakerfi yfir í 8 tíma kerfi.

Miðað við þau gögn sem formaður VLFA hefur farið yfir er ljóst að upplýsingagjöfin um kosti og galla þessara tveggja vaktakerfa er ekki hlutlaus, enda liggur fyrir að forsvarsmenn Norðuráls virðast frekar vilja halda í 12 tíma vaktakerfið enda mun 8 tíma kerfið kalla á aukakostnað fyrirtækisins. Formaður VLFA hefur enga hagsmuni af því að breytt verði um vaktakerfi í Norðuráli aðra en velferð starfsmanna og er formaður ekki í neinum vafa um að hagsmunum og velferð starfsmanna er betur borgið í 8 tíma vaktakerfi enda er gríðarlega erfitt að standa í 12 tíma nánast samfleytt í miklum hita og við krefjandi aðstæður.

Eins og áður sagði þá finnst formanni upplýsingarnar ekki vera hlutlausar af hálfu fyrirtækisins og sem dæmi þá er talað um að frí vaktavinnumanna Norðuráls sé á milli vaktatarna 5 dagar, 4 dagar og 5 dagar.  Þetta er bara alls ekki rétt því starfsmenn eru búnir að skila 8 tímum í vinnu á öllum þessum frídögum og því er hið rétta að starfsmenn eiga 4 daga, 3, daga og 4 daga frí.  Hvernig geta forsvarsmenn Norðuráls talið það frídag þegar starfsmenn hafa skilað 8 tímum í vinnu? Í 8 tíma vaktakerfinu vinna menn 6 vaktir á 5 dögum og eiga 5 daga í frí.

Það líka mikilvægt að starfsmenn átti sig á því að þeir munu vinna sem nemur 1,7 mánuði minna á ári en þeir gera á 12 tíma vöktum eða sem nemur tæpum 2 mánuðum.

Í kynningu um launabreytingar á 12 og 8 tíma vaktakerfi kemur fram að byrjandi í Norðuráli sé með 496 þúsund á mánuði en með því að taka 26 yfirvinnutíma út og fara á 8 tíma vaktakerfi þá eru launin 425 þúsund á mánuði eða sem nemur lækkun um 71 þúsund krónum. Hjá starfsmanni sem er með 10 ára starfsaldur eru launin miðað við 12 tíma vaktakerfi 603 þúsund á mánuði en á 8 tíma vaktakerfi verða launin 516 þúsund eða sem nemur lækkun um 86 þúsund. Mikilvægt er að átta sig á því að með 8 tíma vaktakerfinu eru starfsmenn að vinna 156 tíma á mánuði en ekki 182 tíma sem eru 26 færri tímar á mánuði eða samtals 312 tímar á ári. Með öðrum orðum þá vinna starfsmenn sem nemur tæpum 2 mánuðum minna á ári. Það líka mikilvægt að hafa í huga að þótt starfsmenn séu að lækka í heildarlaunum frá 71 þúsundum uppí 86 þúsund krónur á mánuði þá lækka útborguð laun mun minna og sem dæmi þá lækka útborguð laun byrjanda um 41 þúsund og starfsmanns með 10 ára starfsaldur um 50 þúsund á mánuði en starfsmenn eru líka að vinna 26 tímum minna á mánuði og einnig eru þetta 8 tíma vaktir en ekki 12 tíma.  Það líka mikilvægt að starfsmenn átti sig á því að þetta vaktakerfi gefur þeim sem það vilja möguleika á að taka aukavaktir ef starfsmenn þurfa að auka tekjur sínar.

Það er alls engin tilviljun að allar stóriðjur fyrir utan Norðurál eru með 8 tíma vaktakerfi enda liggur fyrir að það kerfi er mun fjölskylduvænna, vinnutíminn mun styttri og því hafa starfsmenn meiri frítíma með sinni fjölskyldu.

Eins og áður hefur komið fram þá hefur formaður félagsins enga hagsmuni af því að horfið verði frá 12 tíma vaktakerfi yfir í 8 tíma kerfi aðra en þá er lýtur að velferð starfsmanna enda telur formaður að langur vinnudagur í miklum hita og álagi sé lýðheilsumál og er hann ekki í nokkrum vafa um að 8 tíma vaktakerfi sé betra hvað velferð og heilsu starfsmanna áhrærir.

Formaður skorar á starfsmenn að skoða þessi mál vel og rækilega og því er mjög mikilvægt að allar upplýsingar sem starfsmenn fá séu hafnar yfir allan vafa en það liggur fyrir að fyrirtækið er hlynnt því að halda óbreyttu vaktakerfi og því verða starfsmenn að taka allri upplýsingagjöf frá fyrirtækinu með það í huga. Verkalýðsfélag Akraness skorar á vaktavinnufólk í Norðuráli að hafa samband ef það óskar eftir frekari upplýsingum er lýtur að kostum og göllum þess að vera á 12 eða 8 tíma vaktakerfi.

Það er mat formanns að ef tekið verður upp 8 tíma vaktakerfi eins og í hinum sóriðjunum þá verður Norðurál mjög eftirsóknarverður vinnustaður.

16
Nov

Gremja á meðal sjómanna

Í gær hélt formaður Verkalýðsfélags Akraness fund með sjómönnum sem tilheyra sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness. Á fundinum var farið yfir nýgerðan kjarasamning Sjómannasambands Íslands við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Það er óhætt að segja að veruleg gremja ríki hjá sjómönnum með nýgerðan kjarasamning og var að heyra á mönnum að þeim fyndist vanta umtalsvert í samninginn. Það fer einnig ekkert á milli mála að það hefur myndast gríðarleg gjá á milli sjómanna og útgerðarmanna hvað varðar traust, en sjómenn treysta því ekki að þau atriði sem um var samið verði framkvæmd eins og samningur kveður á um. Kom skýrt fram hjá sjómönnum að þar tala þeir af reynslu.

Sjómönnum var t.d. tíðrætt um að þeir treysta því ekki að sú úttekt sem samið var um og lýtur t.d. að mönnunarmálum á uppsjávarskipum og ísfisktogurum verði hafin yfir alla vafa. Menn treysta ekki heldur útgerðarmönnum hvað varðar samræmda upplýsingagjöf á uppsjávarafurðum sem nota á til grundvallar á verðmyndun á uppsjávarafla. Það er svo sannarlega umhugsunarefni fyrir útgerðarmenn hvernig þeir virðast hafa glatað öllu trausti sjómanna.

Það verður að viðurkennast að margir sjómenn virðast upplifa hroka, yfirgang og virðingarleysi í sinn garð af hálfu sumra útgerðarmanna sem klárlega hefur gert

það að verkum að það ríkir því miður algert vantraust á milli sjómanna og útgerðarmanna. Það er ljóst að útgerðarmenn verða að  líta í eigin rann og spyrja sig af hverju þetta mikla vantraust ríki og hvað þeir geti gert til að bæta samskipti sín við sjómenn.

Það er algerlega morgunljóst að nýgerður kjarasamningur verður að vera innihaldsríkari, með öðrum orðum það þarf að koma meira inn í samninginn til að sjómenn verði á eitt sáttir. Útgerðarmenn verða líka að ávinna sér traust sjómanna og sýna þeim virðingu fyrir þau mikilvægu störf sem þeir inna af hendi fyrir útgerðarmenn og þjóðarbúið allt. Ugglaust vilja útgerðarmenn ekkert kannast við að þeir sýni sjómönnum hroka, vanvirðingu og skilningsleysi en það er hins

vegar staðreynd að fjölmargir sjómenn upplifa slíkt.

Hvernig ráðningarsamband er það á milli útgerðar og sjómanna þegar gríðarlegur fjöldi sjómanna þorir ekki undir nokkrum kringumstæðum að tjá sig um þau atriði sem þeir eru á eitt ósáttir við af ótta

við að verða látnir taka pokann sinn og missa þannig sitt lífsviðurværi. Að sjálfsögðu á allt launafólk að geta komið óánægju vegna sinna hagsmunamála á framfæri við sinn vinnuveitanda án þess að eiga von á því að vera refsað illilega fyrir þau sjálfsögðu mannréttindi að mega koma sínum skoðunum á framfæri.

Þegar atvinnurekendur haga sér með þessum hætti þá er ekki hægt annað en að kalla slíkt ráðningarsamband ofbeldissamband og er það þeim til skammar.

Eftir fundinn í gær þá myndi formaður telja yfirgnæfandi líkur á að þessi kjarasamningur verði felldur en það kemur í ljós 14. desember þegar kosningu lýkur. Það mikilvægt fyrir alla útgerðarmenn að líta í eigin rann og segja við verðum að ávinna traust sjómanna og við verðum að sýna okkar sjómönnum þá lágmarksvirðingu sem þeir eiga skilið fyrir sín störf.  Þetta eru menn sem vinna oft á tíðum við mjög erfiðar aðstæður fjarri sinni fjölskyldu svo dögum og vikum skiptir.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að útgerðarmenn eigi að nýta tíman vel til 14. desember og ræða hvernig þeir geti áunnið sér traust hjá sjómönnum og lagfært kjarasamninginn þannig á sjómenn séu á eitt sáttir.  Ef það gerist ekki þá telur formaður nokkuð ljóst að það sama muni gerast og gerist í flestum ofbeldissamböndum, að annar aðilinn lætur sig eðlilega hverfa og í þessu tilfelli verða það sjómenn sem munu láta sig hverfa ef kjarasamningurinn verður ekki lagfærður og þessari vanvirðingu sem þeir upplifa ljúki ekki í eitt skipti fyrir öll.

15
Nov

Sjómenn! Fundur í dag kl. 14:00

Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness boðar sjómenn til fundar í dag klukkan 14:00 á Gamla kaupfélaginu. 

Fundarefnið er nýgerður kjarasamningur Sjómannasambands Íslands við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Það hefur ekki farið framhjá mörgum að umtalsverðar gremju gætir á meðal sjómanna með nýgerðan kjarasamning. Það er mikilvægt að sjómenn mæti á fundinn þar sem farið verður yfir samninginn og þá gremju sem ríkir hjá sjómönnum.

14
Nov

Nýr kjarasamningur undirritaður vegna sjómanna

Í gærkveldi var undirritaður nýr kjarasamningur milli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjómannasambands Íslands en Sjómannasambandið hefur farið með samningsumboðið fyrir hönd Verkalýðsfélags Akraness í þessum kjaraviðræðum.

Kjarasamninginn má finna hér.

Kynningu á nýjum kjarasamningi má finna hér.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hófst verkfall hjá sjómönnum fimmtudaginn 10. nóvember en sjómenn hafa verið samningslausir frá 1. janúar 2011 og því var eðlilega farið að gæta verulegrar óþreyju hjá sjómönnum um að ná fram sanngjörnum kjarasamningi.

Helstu baráttumál sjómanna í þessum samningaviðræðum voru m.a. þessi:

- Verðlagsmálin
- Nýsmíðaálagið
- Hækkun á fatapeningum
- Mönnunarmál á uppsjávarskipum og ísfisktogurum

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að þessar kjaraviðræður voru gríðarlega erfiðar enda bar mikið á milli oft á tíðum.

Helstu atriði sem náðust í þessum samningi voru þau að kauptrygging hækkar um rétt rúm 23% og verður kauptrygging háseta frá 1. nóvember 2016 kr. 288.168 og hjá matsveini, neta- og bátsmanni kr. 360.210.

Eins flestir sjómenn vita þá hefur kauptryggingin frekar lítið að segja enda kemur sjaldan til þess að greiða þurfi einungis kauptryggingu. Hins vegar er rétt að geta þess að því miður hafa sumar útgerðir reynt að koma sér hjá því að greiða kauptryggingu þegar það á við, eins og þegar skip þurfa að fara í viðhald og slipptöku. En slík framkoma útgerðamanna er óþolandi með öllu enda ber útgerðum að greiða kauptryggingu ef skip stoppa vegna t.d. slipptöku. Það er rétt að árétta að gefnu tilefni að útgerðarmönnum ber skylda til að bjóða skipverjum vinnu um þegar skip fer í slipp og ef skipverjar afþakka vinnu á meðan eiga þeir ekki rétt á kauptryggingu. Að öðrum kosti ber útgerðamönnum að greiða kauptryggingu vegna slipptöku.

Verðalagsmálin voru eitt af stóru málunum í þessum kjaraviðræðum og vildu sjómenn að fiskverð á botnfiski yrði fært nær markaðsverði. En í þessum samningi var samið um það markmið að fiskverð miðist að jafnaði við 80% af vegnu meðalverði á grundvelli magns síðastliðinna þriggja mánaða á innlendum fiskmarkaði. En með þessu ákvæði telja menn að verið sé að færa fiskverð mun nær markaðsverði á fiskmörkuðum heldur en áður var.

Einnig er tekið á verðlagningu á uppsjávarskipum en þar hefur að mati sjómanna verið mikil brotlöm á undanförnum árum enda hafa útgerðamenn oft á tíðum ákveðið einhliða hvert fiskverð á uppsjávarafurðum eigi að vera og ekki uppfyllt framkvæmd kjarasamninga með því að viðhafa leynilega kosningu um fiskverð eins og kveðið er á um í kjarasamningi. En slíkt framferði þeirra útgerða sem slíkt gera er ólíðandi og verður alls ekki liðið framvegis.

Það á að stórauka samræmda upplýsingagjöf um afurðaverð á uppsjávarafurðum til að hægt sé að ákvarða rétt verð á uppsjávarafla til áhafnar.  Við upphaf vertíðar í loðnu, kolmunna, makríl og síld, skulu fulltrúar útgerða halda fund með fulltrúum sjómanna sem eru í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna og starfsmönnum Verðlagsstofu skiptaverðs þar sem fulltrúum sjómanna verða veittar upplýsingar um það afurðaverð sem útgerð mun fá á erlendum mörkuðum fyrir sínar afurðir.  Þetta á að gefa fulltrúum sjómanna betri sýn á það hvað sé rétt fiskverð til sjómanna.

Skýrt er kveðið á í samningum að útgerðarmaður og áhöfn skulu gera sín í milli samning um fiskverð, þegar útgerð selur afla til eigin vinnslu, þ.e.a.s. í viðskiptum milli skyldra aðila. Til að slíkur samningur öðlist gildi, skal hann staðfestur í leynilegri atkvæðagreiðslu áhafnar og að því loknu undirritaður af fulltrúum áhafnar og útgerðar. Bara þannig að það sé á hreinu þá mun Sjómannasambandið alls ekki undir nokkrum kringumstæðum líða það að útgerðamenn uppfylli ekki þetta ákvæði kjarasamningsins.

Eitt mál sem brann mikið á sjómönnum var svokallað nýsmíðaálag sem sett var á fyrir 14 árum en með nýsmíðaálaginu geta sjómenn þurft að greiða allt að 10% í 7 ár. Samið var um að nýsmíðaálagið myndi fara út á jafn löngum tíma og það hefur verið í gildi, eða á 14 árum. Hins vegar er rétt að geta þess að í sumum tilfellum uppfylla útgerðir ekki ákvæðið til að mega nota nýsmíðaálagið enda þarf skip að auka aflaverðmætið sitt töluvert til að nýsmíðaálagið taki gildi. En vissulega er þetta nýsmíðaálag að bitna á sumum sjómönnum í dag.

Fatagreiðslur til sjómanna  voru líka deiluefni enda umtalsverður kostnaður sem sjómenn þurfa að reiða fram vegna hlífðarfatakaupa. En í þessum samningi hækka fatapeningar um 130% og verða hjá undirmönnum 11.400 á mánuði. Hjá dekkmönnum á frystitogurum verða fatapeningar 14.900 og hækka líka um 130%.

Í þessum viðræðum voru mönnunarmál á uppsjávarskipum og ísfisktogurum mikið deilumál, en sjómenn telja að sú fækkun sem átt hefur sér stað t.d. á uppsjávarskipunum sé farin að ógna öryggi sjómanna við sín störf m.a. vegna brota á hvíldartíma. Því var samið um það að framkvæma athugun á mönnun og hvíldartíma í íslenska fiskiskipaflotanum. Lögð skal áhersla á að setja athugun á uppsjávarskipum í forgang og kynna samningsaðilum niðurstöðu þeirrar könnunar. Skipaður verður starfshópur til að gera þessa könnun og verður hann skipaður þremur fulltrúum tilnefndum af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og þremur fulltrúum tilnefndum sameiginlega af Sjómannasambandi Íslands. Starfshópurinn skal hefja störf við undirritun kjarasamningsins og miða við að hafa lokið störfum sínum fyrir lok árs 2017.             Ef það verður niðurstaða starfshópsins að fækkun sjómanna hafi leitt til þess að öryggi þeirra sé ógnað eins og sjómenn telja, þá mun það eðlilega leiða til þess að útgerðin verður að bregðast við því með einum eða öðrum hætti t.d. með því að fjölga á skipunum. Á meðan þessi starfshópur er að störfum verður skiptaprósentan hækkuð þar sem 8 eru í áhöfn um 0,55%.

Það er morgunljóst að þetta hafa verið gríðarlega erfiðar kjaraviðræður enda hefur ríkt mikil gremja á meðal sjómanna yfir því að hafa verið samningslausir frá 1. janúar 2011 og því til viðbótar hafa kjör sjómanna lækkað mikið á liðnum misserum vegna lækkunar á afurðaverði og styrkingu á íslensku krónunni.

Hins vegar gildir það í þessum kjarasamningum sem og í öðrum að það eru sjómennirnir sem hafa síðasta orðið enda þarf að kjósa um þennan samning og ef sjómenn eru sáttir segja þeir já en ef menn eru ósáttir þá segja þeir nei. Þannig virkar íslenskur vinnumarkaður að launafólk á blessunarlega alltaf síðasta orðið!      

11
Nov

Sjómenn komnir í verkfall

Eins og fram hefur komið í fréttum þá slitnaði upp á viðræðum Sjómannasambands Íslands við Samtök fyrirækja í sjávarútvegi í gærkvöldi og því skall á verkfall sjómanna klukkan 23:00 það sama kvöld.

Verkalýðsfélag Akraness hefur mikilla hagsmuna að gæta hér, enda er félagið með um 100 sjómenn í sínu félagi, en flestir þeirra starfa á skipum HB Granda. Þessu til viðbótar getur verkfallið haft áhrif á hátt í 300 félagsmenn sem starfa í fiskvinnslu.

Það er ósköp eðlilegt að töluverð harka sé í þessum kjaraviðræðum, enda hafa sjómenn verið kjarasamningslausir frá 1. janúar 2011. En eðli málsins samkvæmt er slíkt algjörlega óviðunandi. Og krafa sjómanna er skýr, það er að ná viðunandi samningi þar sem gengið er að þeirra helstu kröfum er lúta að þeirra réttindum og kjörum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem formaður VLFA hefur aflað sér náðu samninganefndir viðunandi niðurstöðu í nokkrum málum sem djúpur ágreiningur hefur verið um, áður en upp úr viðræðunum slitnaði, en þau mál eru:

  • Verðlagsmál 80% af fiskmarkaðsverði
  • Nýsmíðaálag, en tillaga var um að það myndi fjara út á jafnlöngum tíma og það hefur verið við lýði
  • Kauptrygging hækki umtalsvert
  • Bættur orlofsréttur
  • Ákvæði um sundurliðun á fjarskiptakostnaði sjómanna komi inn


Það eru hins vegar mál sem ennþá standa útaf og það sem viðræðurnar strönduðu á voru mönnunarmál á uppsjávarskipunum meðal annars. En það hefur verið skoðun sjómanna og stéttarfélaganna að sú fækkun sem hefur átt sér stað á þessum skipum sé farin að ógna illilega öryggi þeirra um borð í skipunum. Þetta er mál sem er mjög mikilvægt að finnist lausn á, því það er ekki hægt að láta það átölulaust að fækkun skipverja um borð í skipum stefni öryggi þeirra í tvísýnu.

Formaður ber von í brjósti um að á þessu finnist lausn sem báðir aðilar geti verið ásáttir um, en fyrst verða menn að vera sammála um að þessi mikla fækkun sé að leiða til þess að áðurnefndu öryggi skipverja sé stefnt í hættu. Sjómenn og stéttarfélögin eru eins og áður sagði ekki í neinum vafa um að svo sé.

Síðan er gríðarlega mikilvægt að ákvörðun um verðmyndun á uppsjávarafla sé hafin yfir allan vafa, en því miður hafa sumir útgerðarmenn ekki hagað sér með eðlilegum hætti þegar ákvörðun hefur verið tekin um verð á uppsjávarafla. Sem dæmi þá hafa útgerðir í sumum tilfellum ákveðið einhliða hvert verðið eigi að vera og það þrátt fyrir skýrt sé kveðið á um það í kjarasamningum að sjómenn kjósi um það hvort þeir séu sáttir við það verð sem útgerðin er tilbúin að greiða. Þetta framferði útgerða hefur valdið skipverjum á uppsjávarskipum eðlilega mikilli gremju, og því mikilvægt að á þessu máli sé tekið í þeim kjarasamningi sem nú er verið að vinna að.

Einnig þarf að hækka fatapeninga handa sjómönnum, en ekki var komið endanleg niðurstaða í það mál þegar uppúr slitnaði og einnig var krafa frá stéttarfélögunum um að sjómenn nytu þeirra sjálfsögðu réttinda eins og annað launafólk hér á landi að fá orlofs- og desemberuppbætur. Það er mikilvægt að menn setjist niður sem fyrst og reyni að finna flöt á þessum atriðum sem útaf standa. Hagsmunir okkar allra eru í húfi, enda græðir enginn á langtímaverkfalli og því ábyrgð okkar mikil að finna viðunandi lausn, en sú lausn þarf að vera með þeim hætti að sjómenn geti við unað.

11
Nov

Formaður með erindi hjá SÁÁ

Það er nokkuð algengt að hin ýmsu félaga- og góðgerðasamtök óski eftir að formaður Verkalýðsfélags Akraness komi og haldi erindi um verkalýðshreyfinguna og þá hagsmunabaráttu sem VLFA stendur fyrir á hverjum degi.

Í gær hélt formaður erindi fyrir svokallaða Heiðurmenn SÁÁ að Efstaleiti 7 en það er hópur manna sem hittist annan hvern fimmtudag.  Áður en formaður hélt sitt erindi þá var farið yfir sögu SÁÁ og þá starfsemi sem þar er innt af hendi.

Það er algerlaga morgunljóst að það er verið að vinna gjörsamlega frábært starf hjá SÁÁ við að hjálpa fólki sem haldið er þeim slæma sjúkdómi sem alkóhólmisti er. Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að SÁÁ er búið að bjarga svo mörgum mannslífum með sinni starfsemi í gegnum árin og áratugina að þeim verður seint þakkað nægilega fyrir það. Fram kom í ræðu frá starfsmanni SÁÁ að Verkalýðsfélag Akraness væri eina stéttarfélagið á Íslandi sem hefði stutt SÁÁ fjárhagslega.

Formaður byrjaði erindi sitt á þakka fyrir að hafa verið boðið og einnig þakkaði hann fyrir frábært starf sem unnið væri af hálfu SÁÁ enda eru fáar fjölskyldur sem eiga ekki einhvern ættingja eða vin sem hefur glímt við áfengis- eða fíkniefnavandamál. Formaður sagði líka að honum fyndist það undarlegt og hálf skammarlegt að Verkalýðsfélag Akraness væri eina stéttarfélagið sem hafi veitt SÁÁ fjárhagslegan stuðning.

Í erindi sínu fór formaður yfir mikilvægi stéttarfélaganna og nefndi sem dæmi að frá því ný stjórn tók við Verklýðsfélagi Akraness árið 2004 hafi félagið innheimt uppundir 400 milljónir vegna hina ýmsu kjarasamningsbrota á félagsmönnum. Hann kom líka að því að barátta fyrir bættum hag félagsmanna lykki aldrei og sem dæmi þá er VLFA með 4 mál fyrir dómstólum þar sem verið er að láta reyna á réttindi félagsmanna.

Formaður fór líka yfir það að verkalýðsbarátta er lýðheilsumál og sagði hann að þegar lágtekjufólk nær ekki að framfleyta sér og börnum sínum þá getur það eðlilega leitt til kvíða, þunglyndis og annarrar andlegrar vanlíðunar. Því miður erum við núna með lágmarkslaun og launataxta fyrir verkafólk sem ekki duga fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og til að verkafólk geti haldið mannlegri reisn. Á þessari forsendu er stéttarfélagsbarátta m.a. lýðheilsumál!

Það var mjög ánægjulegt að hitta þessa Heiðursmenn SÁÁ og var ekki annað á þeim að heyra en þeir væru mjög ánægðir með erindi formanns.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image