• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Kjarasamningsviðræður komnar á fulla ferð Verksmiðja Elkem á Grundartanga
26
Apr

Kjarasamningsviðræður komnar á fulla ferð

Nóg er að gera í kjarasamningsmálum Verkalýðsfélags Akraness þessa dagana en félagið er nú með þrjá lausa kjarasamninga. Þeir eru kjarsamningur Elkem Ísland á Grundartanga, kjarasamningur Klafa sem er þjónustufyrirtæki sem sér um út- og uppskipanir á Grundartanga og loks kjarasamningur starfsmanna síldarbræðslu HB Granda á Akranesi. 

Í dag var haldinn samningafundur með Samtökum atvinnulífsins og forsvarsmönnum Elkem Ísland vegna kjarasamnings starfsmanna Elkem. Á þeim fundi sendu stéttarfélagið og trúnaðarmenn skýr skilaboð til Samtaka atvinnulífsins um kröfur og áherslur starfsmanna í þessum viðræðum en kröfugerðin byggist á því að gerður sé sambærilegur samningur og Verkalýðsfélag Akraness gerði við Norðurál árið 2015. Blessunarlega hafa launakjör í stóriðjum almennt verið töluvert betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði en það er hörð barátta að viðhalda þessum réttindum og auka þau.

Það kom fram á þessum fundi að það er ófrávíkjanleg krafa af hálfu VLFA og trúnaðarmanna að svokölluð launavísitölutenging verði tekin upp í þessum kjarasamningi með sambærilegum hætti og gert var í kjarasamningum Norðuráls á Grundartanga. Frá þessari kröfu verður ekki vikið. 

Því miður hafa kjör í þeim kísilverum sem hafa verið að rísa á Íslandi að undanförnu ekki tekið mið af þeim stóriðjusamningum sem eru til staðar á Íslandi. Það er grafalvarlegt ef þessar nýju verksmiðjur bæði í Helguvík og á Húsavík ætla að fara að keyra hér á kjarasamningi sem miðar við laun á hinum almenna vinnumarkaði þar sem laun og kjör eru mun lakari en þeir stóriðjusamningar sem til dæmis eru í gildi á Grundartanga. 

Semsagt, á fundinum í gær var Samtökum atvinnulífsins skýrt frá því með afgerandi hætti hverjar áherslurnar og kröfugerðin eru en þær eru að mati VLFA og trúnaðarmanna sanngjarnar, réttlátar og í takti við það sem um hefur verið samið í stóriðjufyrirtækinu sem er við hliðina á Elkem Ísland - Norðuráli.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image