• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Mar

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, deilt með Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka er græðgi!

Hvað skyldi Vilhjálmur Egilsson segja við launahækkun bankastjórannaHvað skyldi Vilhjálmur Egilsson segja við launahækkun bankastjórannaSamtök atvinnulífsins hafa mótað skýra stefnu, stefnu sem byggist á því að allir launþegar skuli fá sömu launahækkanir sem byggjast á svokallaðri samræmdri launastefnu. SA vill semja til þriggja ára og að heildarkostnaðarhækkanirnar séu á bilinu 7-8% sem gerir um 2,5% á ári. Alþýðusamband Íslands er sammála því að gengið verði frá kjarasamningum á grundvelli samræmdrar launastefnu til þriggja ára.

Rugl deilt með tveimur er rugl

Samtök atvinnulífsins hafa alfarið hafnað rökum Verkalýðsfélags Akraness þar sem félagið hefur óskað eftir að þau fyrirtæki sem að eru starfandi í útflutningi skili sínum ávinningi að einhverju leyti til sinna starfsmanna enda eru þessi fyrirtæki að hagnast gríðarlega vegna gengisfalls íslensku krónunnar og hækkunar á afurðaverði. Þessum rökum hefur Vilhjálmur Egilsson hafnað alfarið og segir að það muni ekki koma til greina að samið verði við starfsmenn útflutningsfyrirtækja með öðrum hætti heldur en gert verður við önnur fyrirtæki.   Vilhjálmur sagði meðal annars þegar deilan um fiskimjölsverksmiðjurnar stóð sem hæst í febrúar að launakröfur starfsmanna væru allt of háar. Og sagði hann orðrétt: „Rugl deilt með tveimur er rugl“. Þetta var svar hans við launakröfu upp á 13,5% sem hefði þýtt 28 þúsund króna hækkun hjá starfsmönnum fiskimjölsverksmiðjanna.

Marka láglaunastefnuna

En hverjir sitja nú í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins? Það eru þessir aðilar sem marka meðal annars stefnu Samtaka atvinnulífsins í kjarasamningsmálum. Jú, það er meðal annarra Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka sem fékk hækkun á sínum launum um 7,5 milljónir á ársgrundvelli eða sem nemur 625 þúsund krónum á mánuði. Og rétt er að geta þess einnig að í fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins, sem fer með æðsta vald í SA á milli ársfunda, situr enginn annar en bankastjórinn í Arion banka, Höskuldur H. Ólafsson. Höskuldur fékk 10 milljóna króna mætingarbónus og því til viðbótar hafa laun bankastjóra Arion banka hækkað frá árinu 2009 um 65,7% eða sem nemur 13,8 milljónum á ársgrundvelli sem gerir 1,1 milljón á mánuði.

Þessir aðilar sitja í Samtökum atvinnulífsins og krefjast þess núna af íslenskum launþegum að gengið verði frá hófstilltum kjarasamningum í anda samræmdrar launastefnu þar sem hækkunin skuli vera um 2,5% á ári. Siðleysið hjá þessu fólki er algjört enda getur þetta fólk nánast skammtað sér sín laun eftir eigin geðþótta. Á sama tíma líta þau á íslenskt launafólk eins og sauðsvartan almúga sem á að lúta því ægivaldi sem Samtök atvinnulífsins marka í launamálum í komandi kjarasamningum.  

Hvað ætla Samtök atvinnulífsins að gera?

Hvað skyldi Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segja við Birnu Einarsdóttur sem situr með honum í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins, sem hefur hækkað laun sín um 650 þúsund krónur á mánuði eða sem nemur 7,5 milljónum á ári. Eða við Höskuld H. Ólafsson, sem hækkaði laun sín um 1,1 milljón á mánuði, samtals 13,5 milljónir á ársgrundvelli og fékk 10 milljónir fyrir að stimpla sig inn, á sama tíma og það á að troða ofan í almennt verkafólk láglaunastefnu í anda samræmdrar launastefnu. Ætla Samtök atvinnulífsins að láta þessar gríðarlegu hækkanir átölulaust eða eru þessar hækkanir í anda þeirrar samræmdu launastefnu sem þeir berjast nú fyrir?

Samtök atvinnulífsins hafa sagt að ekki sé hægt að ganga frá hærri hækkunum til starfsmanna útflutningsfyrirtækja þó þessi fyrirtæki séu að skila milljörðum í hagnað. Ástæðan segja SA að umframhækkanir á þessa aðila myndu flæða yfir aðra hópa. Hvað með þessar hækkanir hjá stjórnarmönnum Samtaka atvinnulífsins upp á 30-65%? Á það ekki að hafa nein ruðningsáhrif á aðra hópa?

Rétt er að rifja upp aftur hvað Vilhjálmur Egilsson sagði um kröfu síldarbræðslumanna upp á 28 þúsund króna hækkun á mánuði: „Rugl deilt með tveimur er rugl.“

Ég vil svara þessari athugasemd frá Vilhjálmi Egilssyni um kröfu síldarbræðslumanna með því að segja: Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, deilt með Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka er græðgi í boði Samtaka atvinnulífsins.

09
Mar

Aðalfundir deilda haldnir í gær

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær var haldinn sameiginlegur aðalfundur fyrir allar deildir Verkalýðsfélags Akraness (að sjómannadeild undanskilinni) í gær. Fundurinn fór fram á Gamla kaupfélaginu og var hann ágætlega sóttur.

Á fundinum var meðal annars farið yfir stöðu kjaramála og ríkti gríðarleg samstaða meðal fundarmanna hvað þau málefni varðar. Fundarmenn fordæmdu hina samræmdu launastefnu sem Samtök atvinnulífsins vinna nú að enda er það með ólíkindum að ætla að setja útflutningsfyrirtæki undir sama hatt og þau fyrirtæki sem berjast í bökkum sé tekið mið af stöðu íslensku krónunnar og þeirri staðreynd að afurðaverð flestra útflutningsfyrirtækja hefur snarhækkað á undanförnum mánuðum. Það er eðlileg krafa að útflutningsfyrirtæki skili þeim ávinningi áfram til sinna starfsmanna.

08
Mar

Aðalfundir deilda félagsins

Í kvöld verða aðalfundir opinberrar deildar, almennrar deildar, iðnsveinadeildar, stóriðjudeildar og matvæladeildar Verkalýðsfélags Akraness haldnir sameiginlega. Þessi sameiginlegi fundur verður haldinn í Gamla kaupfélaginu og hefst klukkan 18.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Venjubundin aðalfundarstörf

2. Staða kjaramála

3. Önnur mál

Að fundi loknum verður boðið upp á súpu og brauð.

07
Mar

Græðgisvæðingin að skjóta rótum á nýjan leik

Það er óhætt að fullyrða að íslenskri alþýðu þessa lands ofbauð þau ofurlaun sem æðstu stjórnendur fjármálageirans skömmtuðu sér fyrir bankahrunið.  Á þessum tíma horfði almenningur upp á þessa snillinga skammta sér ofurlaun sem námu frá fleiri milljónum á mánuði upp í tugi milljóna svo ekki sé nú talað um þegar fyrrverandi bankastjóri Glitnis, Lárus Welding, fékk 300 milljónir fyrir það eitt að hefja störf hjá nýjum banka.

Þegar verkalýðshreyfingin og fleiri aðilar gagnrýndu kaupréttarsamninga, bónusa og önnur ofurlaun hjá starfsmönnum fjármálastofnana á sínum tíma þá komu skýr svör frá þeim aðilum sem þáðu þessi ofurlaun:  ykkur grálúsuga almúganum kemur þetta ekkert við.

Í búsáhaldabyltingunni var þess krafist að tekin yrðu upp ný gildi og gildi er lúta að græðgi, sérhagsmunagæslu og hroka í garð almennings yrðu látin víkja fyrir nýjum gildum sem lúta að réttlæti, jöfnuði og virðingu.  Á þessum gildum vildi alþýða þessa lands sjá hið nýja Ísland byggt upp.

Núna þurfum við hins vegar að horfa upp á græðgisvæðinguna skjóta rótum í bankakerfinu á nýjan leik ef marka má fréttir af ofurlaunum bankastjóra Arion banka. Eins og fram hefur komið í fréttum þá hafa laun Höskuldar Ólafssonar núverandi bankastjóra Arion  hækkað um 145% frá árinu 2008 og nema nú 4,3 milljónum á mánuði.

Þessar hækkanir áttu sér stað á sama tíma og íslenskir launþegar voru þvingaðir til að fresta og afsala sér hluta af sínum launahækkunum samhliða stöðugleikasáttmálanum sáluga vegna efnahagshrunsins. Það er ekki bara að fréttir af þessum ofurlaunum birtist íslensku launafólki þessa dagana, heldur var fyrir örfáum dögum síðan kynnt vegleg hækkun til héraðs- og hæstaréttadómarar sem nam rúmum 100.000 kr. á mánuði. Núna gera Samtök atvinnulífsins þá kröfu á íslenska launþega að þeir gangi frá afar hófstilltum kjarasamningum til að mæta efnahagsvanda íslensks atvinnulífs. Gangi það eftir verða mánaðarlegar hækkanir um eða undir 10.000 kr. á mánuði. Með öðrum orðum, enn og aftur á það að vera íslenskt launafólk sem á að slá af sínum kröfum á meðan einstakir hópar geta skammtað ríflega sín launakjör svo nemur hundruðum þúsunda króna hækkun á mánuði.

Nú held ég að sé komið að algjörri ögurstundu hjá alþýðu þessa lands og nú þurfi hún að rísa aftur upp og það með afgerandi hætti. Því það er alveg ljóst að það er stefnt leynt og ljóst að því að taka að nýju upp gömlu gildin, gildin sem lutu að græðgi, sérhagsmunagæslu og hroka í garð almennings. Á þeirri forsendu er það alþýða þessa lands sem þarf að sjá til þess að græðgisvæðingin nái ekki aftur að skjóta rótum í okkar samfélagi, það er búið að níðast nóg á almenningi í þessu landi og við vitum hvað þarf til að stjórnvöld og bankastjórnendur hlusti á almenning í þessu landi. Nú þarf að dusta rykið af búsáhöldunum.

04
Mar

Verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað um tæpa 300 milljarða

Nú þarf að standa við loforðinNú þarf að standa við loforðinEnn og aftur fá skuldsett heimili að finna fyrir þeim skelfilega skaðvaldi sem verðtryggingin er, en samkvæmt fréttum í gær þá hafa verðtryggð lán íslenskra heimila hækkað um sex milljarða króna vegna hækkunar á olíu- og bensínverði á síðustu tveimur vikum. Þessari hækkanir valda 0,5% hækkun á neysluvísitölu sem hefur það sjálfkrafa í för með sér að höfuðstóll verðtryggðra lána hækkar sem því nemur. 

Það alveg hægt að fullyrða að skuldsett heimili eru blóði drifin vegna verðtryggingarinnar í kjölfar efnahagshrunsins. Það er ekki bara að skuldsett heimili þurfi núna að taka við tugmilljarða Icesave-skuld sem sett hefur allt á annan endann í samfélaginu. Á meðan deilt er um Icesave þá liggur fyrir sú blákalda staðreynd að verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað um tæpa 300 milljarða frá janúar 2008 til dagsins í dag. Og halda áfram að hækka. Á sama tímabili hafa verðtryggðar innistæður fjármagnseiganda hækkað um fleiri hundruð milljarða.

Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að því að núverandi ráðamenn þjóðarinnar bæði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hafa ítrekað talað um að afnema þurfi þann dragbít sem verðtrygging er íslenskum heimilum en ekkert gerist. Það vafðist hins vegar ekki fyrir þessum aðilum að afnema verðtryggingu persónuafsláttar sem samið var umsamhliða kjarasamningum 2006 og 2008. En verðtrygging persónuafsláttar hefur verið eitt af helstu baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar í áraraðir.

Svikin loforð

Rétt er að rifja um ummæli sem Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra lét falla 16. febrúar 2009 , en hann sagðist vilja afnema verðtrygginguna þegar að búið væri að ná niður verðbólgunni. Það liggur fyrir að verðbólgumarkmiðum Seðlabankans hefur verið náð og verðbólgan er komin niður fyrir neðri vikmörk Seðlabankans sem eru 2,5%. Hví í ósköpunum leggur fjármálaráðherrann ekki fram frumvarp um afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum í ljósi áðurnefndra loforða? Er ekkert að marka ráðamenn þessarar þjóðar?

Eins og áður hefur komið fram þá er það ekki aðeins fjármálaráðherrann sem hefur ýjað að því að afnema ætti verðtrygginguna, heldur hefur Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og 12 aðrir þingmenn Samfylkingarinnar, lagt fram nokkur frumvörp um afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum. Það gerðu þau á 128., 130. og 131. löggjafarþingi. Á þessu sést að nú hafa bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra talað digurbarkalega um afnám og ósanngirni verðtryggingarinnar fyrir skuldsett heimili.

Núna er kjörið tækifæri bæði fyrir stjórnarflokkana og stjórnarandstöðuflokkana að sýna í verki að þeir séu að vinna fyrir alþýðu þessa lands og afnema þennan skaðvald sem verðtryggingin er. Enda skuldar Alþingi Íslendinga skuldsettum heimilum það að þessi skefjalausa ósanngirni sem ríkir á milli fjármagnseigenda og skuldsettra heimila verði afnumin í eitt skipti fyrir öll.

Ætlar norræna velferða- og félagshyggju ríkisstjórnin að halda áfram að slá skjaldborg í kringum fjármagnseigendur af fullum þunga á meðan skuldsettum heimilum er fórnað á altari verðtryggingarinnar? Ef ríkisstjórnin hefur hvorki kjark né þor til að afnema verðtrygginguna þá verður verkalýðshreyfingin að tryggja að laun verði einnig verðtryggð. 

02
Mar

Óskiljanlegt framferði

Álfyrirtækin mala gull en mega ekki hækka launÁlfyrirtækin mala gull en mega ekki hækka launHún var afar jákvæð fréttin sem birtist í dag þar sem fram kemur að fari svo að haldist heimsmarkaðsverð á áli út árið eins og það er í dag gætu íslensku álverin hagnast um 38 milljarða kr. aukalega miðað við meðalverðið í fyrra.

Álverðið stendur nú í 2.612 dollurum á tonnið á málmmarkaðinum í London (LME) miðað við þriggja mánaða framvirka samninga og hefur ekki verið hærra síðan sumarið 2008. Samkvæmt upplýsingum frá LME var meðalverðið á markaðinum 2.197 dollarar á tonnið í fyrra. Mismunurinn þar á milli er því 415 dollarar á tonnið.

Það er því þyngra en tárum taki að þurfa að standa í því að Samtök atvinnulífsins neiti að ganga frá samningum m.a. við starfsmenn álfyrirtækja vegna þess að verið sé að vinna með forystu Alþýðusambands Íslands að samræmdri launastefnu, launastefnu þar sem ekkert tillit á að taka til þeirrar bláköldu staðreyndar að útflutningsfyrirtæki og m.a. álfyrirtæki eru að skila gríðarlegum hagnaði vegna gengisfalls krónunnar og hækkunar á afurðaverði.

Það er eins og áður sagði með ólíkindum að unnið sé að samræmdri launastefnu þar sem ekki má undir nokkrum kringumstæðum taka tillit til góðrar stöðu þessara útflutningsfyrirtækja. Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er VLFA algjörlega tilbúið að sýna skilning þeim atvinnugreinum sem eiga undir högg að sækja vegna efnahagshrunsins. En að sama skapi gerir félagið kröfu um það að þau fyrirtæki sem eru að skila tugum milljarða króna hagnaði skili kaupmáttarskerðingunni til baka til sinna starfsmanna enda eru engar forsendur fyrir því að setja starfsmenn útflutningsfyrirtækja undir sama hatt og fyrirtæki sem berjast í bökkum í núverandi árferði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image