• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Apr

Leikritinu ætlar seint að ljúka

Leikritinu á milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands virðist ekki ætla að ljúka á næstu dögum ef marka má fréttir síðasta sólarhring. ASÍ og SA hafa sagt að ekki sé hægt að ganga frá kjarasamningum til þriggja ára nema fyrir liggi aðkoma ríkisvaldsins að komandi kjarasamningum og í gær lagði ríkisstjórnin fram drög að aðgerðapakka til að koma til móts við óskir þessara aðila.

Formaður hefur kynnt sér þessi drög og er margt jákvætt í þeim þó vissulega þurfi meira að koma til.  Hins vegar liggur  það  fyrir að Samtök atvinnulífsins eru afar óhress með að ekki sé tekið á deilu þeirra vegna fiskveiðistjórnunarkerfisins. Það hefur komið fram hér á heimasíðunni áður að það er með hreinustu ólíkindum að þurfa að sitja undir þessu ofbeldi af hálfu SA að neitað sé að ganga frá kjarasamningum vegna áðurnefnds ágreinings um fiskveiðistjórnunarkerfið og um leið halda þessir menn kjarasamningum launafólks í herkví.

Það er í raun og veru ótrúlegt að verða vitni að því að ASÍ og SA skuli krefjast þess að ríkisvaldið opinberi aðgerðapakka sinn til lausnar á kjarasamningi til þriggja ára, en á sama tíma fá launþegar ekkert að vita hvað standi til að semja um er lýtur að launahækkunum í komandi kjarasamningum. Eitt liggur þó fyrir að ASÍ og SA stefna að því að lágmarkslaun verði orðin 200 þúsund í lok samningstímans sem er árið 2014. Þetta er í raun og veru alveg með hreinustu ólíkindum í ljósi þess að nýtt neysluviðmið velferðarráðherra gerir ráð fyrir að einstaklingur þurfi að lágmarki um 214 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur eða sem nemur heildarlaunum í kringum 290 þúsund krónur á mánuði til að geta framfleytt sér. Það er ekki mikil reisn eða kraftur yfir slíkri kröfu að ætla sér að láta lágmarkslaun vera orðin 200 þúsund í lok samningstímans.

Það hefur algjörlega ræst sem formaður félagsins hefur margoft bent á, en forseti ASÍ hefur leynt og ljóst unnið að því að ná samningsumboðinu af stéttarfélögunu hér á landi og nú er það einungis 5-7 manna fámenn valdaklíka innan verkalýðshreyfingarinnar sem fer með allt samningsumboð fyrir íslenskt launafólk. Það er dapurlegt að verða vitni að því að draumar forsetans um að ná samningsumboðinu af stéttarfélögunum skuli hafa náð að rætast eins og raunin hefur orðið.

Í dag eru liðnir 4 mánuðir frá því kjarasamningar runnu út og hafa launþegar þar af leiðandi ekki fengið kjarabætur fyrir sama tíma en hafa samt sem áður þurft að taka við hverri hækkuninni á fætur annarri og nægir að nefna í þessu samhengi hækkun Orkuveitu Reykjavíkur á fráveitugjaldi upp á 45% og á heitu vatni upp á 8% og er þetta til viðbótar þeirri 30% hækkun sem varð ekki alls fyrir löngu frá OR. Og í gær hækkaði bensínverðið um 4 krónur og það heyrist hvorki hósti né stuna frá forystu ASÍ vegna þessara skefjalausu hækkana sem nú dynja á íslenskum launþegum. Þetta eru vinnubrögð sem formanni Verkalýðsfélags Akraness finnast vera til skammar.

Sjálftökuliðinu innan Samtaka atvinnulífsins sem skammtar sér sín laun nánast af eigin geðþótta og nægir að nefna í því samhengi Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka og Höskuld H. Ólafsson, bankastjóra Arion banka en þessir einstaklingar hafa fengið hækkun á sínum launum upp á milljónir króna á ársgrundvelli á sama tíma og launahækkanir til íslenskra launþega eru settar í algjört frost.  En þessir tveir einstaklingar sitja einnig í stjórnum og ráðum innan Samtaka atvinnulífsins og taka þannig þátt í að móta þá samræmdu láglaunastefnu sem unnið er eftir af hálfu SA.

 Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er það mat formanns VLFA að nú sé komið að algjörri ögurstundu og skorar enn og aftur á ASÍ að skipuleggja allsherjaverkfall og væri hægt að byrja á einum degi í slíku verkfalli.  Alla vega þarf forysta ASÍ að fara að sýna Samtökum atvinnulífsins tennurnar í þessum kjaraviðræðum, svo mikið er víst.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image