• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Feb

Laust í Húsafelli um helgina

Vegna forfalla er orlofshús félagsins í Húsafelli laust nú um helgina. Hægt er að bóka húsið á skrifstofu félagsins í s. 430-9900.

10
Feb

Ábyrgðarleysi Samtaka atvinnulífsins

Í dag fundar Verkalýðsfélag Akraness vegna þriggja kjarasamninga hjá ríkissáttasemjara. Kl. 15 í dag mun samninganefnd Verkalýðsfélags Akraness vegna Elkem Ísland og Klafa funda með Samtökum atvinnulífsins.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur samninganefndin boðið forsvarsmönnum fyrirtækjanna og Samtökum atvinnulífsins að framlengja kjarasamning áðurnefndra fyrirtækja til 1. maí gegn eingreiðslu en því tilboði hafa Samtök atvinnulífsins alfarið hafnað. Það mun ekki standa á Verkalýðsfélags Akraness og samninganefnd félagsins að leita allra leiða til að ná sátt í þeirri alvarlegu deilu sem nú stefnir í á Grundartangasvæðinu. Það er hins vegar morgunljóst að hugmyndir Samtaka atvinnulífsins um að þvinga starfsmenn í útflutningsfyrirtækjum til að semja upp á 2,5% hækkun á ári eða sem nemur ca 8% í 3 ára samningi munu ekki koma til greina.

Ef Samtök atvinnulífsins munu standa fast á þessari kröfu þá er hvellskýrt að kosið verður um vinnustöðvun í áðurnefndum fyrirtækjum áður en langt um líður. Það er einnig hvellskýrt að lágmarkskrafa verði að áðurnefnd fyrirtæki skili þeirri kaupmáttarskerðingu sem starfsmenn þessara fyrirtækja hafa orðið fyrir frá ársbyrjun 2008 fram á daginn í dag, enda eru engar forsendur fyrir því að fyrirtæki í útflutningi komist hjá slíku.

Það er einlæg von samninganefndar Verkalýðsfélags Akraness að deiluaðiliar leysi þetta mál til að viðhalda þeim rótgróna stöðugleika sem ríkt hefur á Grundartangasvæðinu í áratugi. Á þeirri forsendu er ábyrgð Samtaka atvinnulífsins gríðarleg og krafa þeirra um að neita að ganga frá kjarasamningum við launþega, sem eru á engan hátt tengdir sjávarútvegsfyrirtækjum, fyrr en lausn finnst á ágreiningi LÍÚ við stjórnvöld er forkastanleg og verður ekki liðin. Formaður spyr sig: Hver var það sem boðaði til fundar með þingmönnum NV kjördæmis og ráðherra þegar til stóð að leggja orkuskatt á stóriðjufyrirtækin, orkuskatt sem hefði þýtt milljarða í aukinn kostnað fyrir stóriðjufyrirtækin á Grundartanga? Jú, það var formaður Verkalýðsfélags Akraness sem stóð fyrir þeim fundi. En hvar voru Samtök atvinnulífsins þá? Núna taka þau kjarasamninga launafólks í herkví vegna fiskveiðistjórnunarkerfisins og stefna eins og áður sagði stöðugleika á Grundartangasvæðinu í stórhættu.  

10
Feb

Fundur hjá ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu í fiskimjölsverksmiðjunni

Það var afar ánægjulegt að fá yfirlýsingu frá Landssambandi Slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna þar sem þeir lýsa yfir fullum stuðningi við boðaðar aðgerðir Verkalýðsélags Akraness. Einnig senda þeir starfsmönnum í loðnubræðslum baráttukveðjur vegna fyrirhugaðs verkfalls sem á að hefjast 15. febrúar.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar kl. 14 í dag í húsakynnum sínum þar sem farið verður yfir þá alvarlegu stöðu sem upp er komin. Formaður VLFA vill ítreka það að félagið hefur margoft rétt út sáttarhönd í þessu máli og meðal annars boðið forsvarsmönnum HB Granda, sem eiga og reka fiskimjölsverksmiðuna, að framlengja samninginn til 1. maí næstkomandi gegn eingreiðslu til hvers starfsmanns. Því miður þá hafa forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafnað þessar sáttatillögu algjörlega.

Á þeirri forsendu er ábyrgð Samtaka atvinnulífsins mikil í þessu máli því heildarkostnaður þessarar lausnar hefði einungis verið um 3 milljónir króna fyrir fyrirtækið. Ef menn vilja fórna milljörðum fyrir 3 milljónir þá er það einhver hagfræði sem formaður Verkalýðsfélags Akraness skilur ekki. Á  fundinum á eftir mun félagið halda áfram að reyna að finna lausn á þessu máli en það mun verða lágmarkskrafa frá félaginu að þeirri kaupmáttarskerðingu sem starfsmenn hafa orðið fyrir verði skilað að fullu til baka við undirritun kjarasamnings. Enda eru engar forsendur fyrir því að útflutningsfyrirtæki sem hafa verið að hagnast á gengisfalli íslensku krónunnar skili ekki þeirri kaupmáttarskerðingu að fullu til baka til sinna starfsmanna.  

08
Feb

Slegið á útrétta sáttarhönd

Í gærkvöldi var kosið um vinnustöðvun í Fiskimjölsverksmiðju HB Granda hf á Akranesi. Það er skemmst frá því að segja að verkfallsboðunin var samþykkt af 80% atkvæðisbærra manna. Samtökum atvinnulífsins hefur verið sent formlegt erindi þar sem fram kemur að verkfall muni skella á kl. 19:30 þann 15. febrúar næstkomandi og standa ótímabundið.

Rétt er að geta þess rækilega að formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur reynt allt til að leysa þessa deilu, meðal annars boðið forsvarsmönnum HB Granda beint í tvígang að framlengja samninginn til 1. maí næstkomandi gegn eingreiðslu til starfsmanna og væri kostnaður vegna þessarar eingreiðslu einungis rúmar 3 milljónir sem myndi koma í veg fyrir að komandi loðnuvertíð væri ógnað.

Það er mat formanns að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi alls ekki tekið illa í þessa hugmynd en það liggur fyrir að Samtök atvinnulífsins hafa komið í veg fyrir þessa lausn á málinu. Ef þetta hefði verið gert væri hægt að koma í veg fyrir yfirvofandi vinnustöðvun með hagsmuni fyrirtækisins, starfsmanna og alls þjóðarbúsins að leiðarljósi. Á þeirri forsendu vísar formaður VLFA ábyrgðinni alfarið yfir á Samtök atvinnulífsins.

Rétt er að geta þess að bræðslumenn hafa fengið tilboð upp á 2,5% hækkun á ári til þriggja ára eða samtals 7,5%. Þetta væri hækkun sem næmi 5.900 kr. á mánuði sem er ekki einu sinni fyrir þeirri bensínhækkun sem dunið hefur á landsmönnum á liðnum misserum. Grunnlaun starfsmanna í síldarbræðslunum eru 236 þúsund krónur og það er lágmarkskrafa að þeirri kaupmáttarskerðingu sem þessir aðilar hafa orðið fyrir frá janúar 2008 verði skilað að fullu til baka. En það er rétt að geta þess einnig að verð á lýsi hefur hækkað um 115% og verð á mjöli upp undir 140% á síðustu 2-3 árum.

Á þeirri forsendu er útilokað að sætta sig við einhverja samræmda launastefnu þar sem litlar sem engar kjarabætur eiga að koma til fólks. Það er hægt að sýna atvinnugreinum sem eiga í vandræðum skilning en að ætla sér að setja útflutningsfyrirtækin sem hafa hagnast gríðarlega vegna gengisfalls íslensku krónunnar undir sama hatt og atvinnugreinar sem berjast í bökkum eins og til dæmis byggingariðnaðurinn, er óskiljanlegt og verður ekki liðið. Nú er það hlutverk samningsaðila að setjast niður af alvöru og leysa þessa deilu með hagsmuni áðurnefndra aðila að leiðarljósi. Ábyrgð Samtaka atvinnulífsins í þessu máli er mikil. Þeirri ábyrgð verður ekki vísað á þá aðila sem rétt hafa út sáttarhönd.

08
Feb

Fyrsti samningafundur vegna launaliðar Norðuráls

Verksmiðja Norðuráls á GrundartangaVerksmiðja Norðuráls á GrundartangaFyrsti samningafundur með Samtökum atvinnulífsins og forsvarsmönnum Norðuráls var haldinn á föstudaginn. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá lagði Verkalýðsfélag Akraness fram kröfugerð fyrir verkamenn og nam sú hækkun 27,5%. Hins vegar voru iðnaðarmannafélögin og Stéttarfélag Vesturlands ekki búin að leggja fram sína kröfugerð. Það var hins vegar gert á fundinum á föstudaginn og það var dálítið athyglisvert að í þeirri kröfugerð er ekki nefnd nein prósentutala né krónutala heldur var einungis kveðið á um verulega hækkun grunnlauna.

Það kom fram hjá fulltrúa VR þegar formaður óskaði eftir því að fá vitneskju um það hvort að iðnaðarmannafélögin styddu ekki kröfugerð Verkalýðsfélags Akraness upp á 27,5% að hún væri ekki í anda þeirrar samræmdu launastefnu sem að unnið væri að en hins vegar myndu félögin ekki slá hendinni á móti þeirri hækkun ef Verkalýðsfélag Akraness næði fram sinni kröfu. Það verður að segjast alveg eins og er að þessi ummæli slógu formann VLFA all verulega sem og trúnaðarmenn verkamanna. Það kom reyndar einnig fram hjá hinum félögunum að þau ætluðu ekki að "undirbjóða" kröfugerð VLFA.

Eins og margoft hefur komið fram hjá formanni félagsins þá mun félagið ekki taka þátt í því að láta troða ofan í kokið á sér samræmdri launastefnu þar sem sama láglaunakrafan verður sett fyrir alla launþega. Það eru engar forsendur fyrir því að fyrirtæki í útflutningi, þar með talin stóriðjan, fái afslátt af þeim kjarasamningi sem framundan er enda hafa starfsmenn þessara fyrirtækja orðið fyrir umtalsverðri kjaraskerðingu frá janúar 2008. Næsti fundur er fyrirhugaður í næstu viku.  

08
Feb

Undið ofan af skemmdarverkunum

Verksmiðja Elkem á GrundartangaFormaður félagsins hefur verið að reyna að vinda ofan af þeim skemmdarverkum sem stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi Elkem Ísland og Klafa ollu. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá neituðu þau að viðurkenna fulltrúa sína í samninganefndinni sem voru meðal annars þeirra eigin trúnaðarmenn og einnig töldu þau sig ekki hafa verið aðila að þeirri viðræðuáætlun sem skilað var inn eins og lög um stéttarfélög og vinnudeilur kveða á um.

Rétt er að geta þess að fyrirkomulagið við undirbúning kjarasamnings og viðræðuáæltun var með nákvæmlega sama hætti og í síðustu tveimur kjaraviðræðum hjá Elkem og Klafa og sáu stéttarfélögin ekki ástæðu til að gera athugasemdir þá. Hins vegar höfðu þau nú samband við Samtök atvinnulífsins, atvinnurekendur og ríkissáttasemjara og gerðu athugasemdir við þá aðila en gerðu hins vegar engar athugasemdir við Verkalýðsfélags Akraness eða við aðaltrúnaðarmann fyrr en málið var komið til ríkissáttasemjara. Vinnubrögð af þessu tagi er ekki hægt að flokka sem neitt annað en skemmdarverk þar sem hagsmunum starfsmanna er fórnað á altari óvildar í garð formanns Verkalýðsfélags Akraness.

Formaður fundaði með ríkissáttasemjara og Hannesi Sigurðssyni, aðal samningamanni Samtaka atvinnulífsins á föstudaginn og einnig í gær og nú hefur Verkalýðsfélag Akraness gengið frá nýrri viðræðuáætlun og mun félagið fara eitt og sér í komandi viðræður enda er ekki starfandi með stéttarfélögum sem haga sér með þessum hætti. Fyrsti fundur verður fimmtudaginn 10. febrúar kl. 15. Strax í kjölfarið verður fundur vegna kjarasamnings Klafa.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image