• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Feb

Samningsumboðið fært til þriðja aðila

Samninganefnd starfsmanna Norðuráls fundaði með fulltrúum fyrirtækisins og Samtaka atvinnulífsins hjá ríksisáttasemjara í gær. Skemmst er frá því að segja að árangurinn var afskaplega takmarkaður. Það kom skýrt fram í máli fulltrúa Samtaka atvinnulífsins að verið er að semja um launalið samningsins á öðrum stað heldur en á því samningsborði sem það ætti að vera gert eða með öðrum orðum, það er verið að semja við Alþýðusambandið um samræmda launastefnu og það er það sem að á að gilda fyrir starfsmenn Norðuráls.

Það er sorglegt að verða vitni að því að það er búið að taka kjarasamningsbundinn rétt af samninganefnd starfsmanna og færa hann til þriðja aðila sem í þessu tilfelli er forysta ASÍ. En eins og kom fram í fréttum í gær þá vinnur ASÍ að því af fullri hörku að hér verði samið við alla launþega innan ASÍ með sambærilegum launahækkunum þar sem ekkert tillit verður tekið til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja. Þessu mótmælti formaður Verkalýðsfélags Akraness harðlega á fundinum í gær og fordæmir þessi vinnubrögð enda er það með ólíkindum að það sé verið að taka samningsumboð af samninganefnd starfsmanna og færa það til áðurnefndra aðila.

Formaður lítur á þetta sem forysta ASÍ er að gera sem gríðarlegt skemmdarverk gagnvart þeim starfsmönnum sem starfa í útflutningsfyrirtækjum. Formaður hefur fært rök fyrir því af hverju á að sækja meira á útflutningsfyrirtækin og nægir í þessu samhengi að nefna að álverð heldur áfram að hækka stórkostlega og er það nú komið upp í 2.535 dollara og hækkar nú nánast dag hvern. Þessu til viðbótar hefur gengi dollarans styrkst gagnvart íslensku krónunni sem nemur yfir 90% frá hruni. Því spyr formaður sig að því hví í ósköpunum eigi að setja starfsmenn þessara fyrirtækja undir sömu láglaunastefnuna sem forysta ASÍ berst nú hatrammlega fyrir að farin verði.

Það er líka rétt að geta þess að starfsmenn stóriðjunnar á Grundartanga nutu ekki þess gríðarlega launaskriðs sem varð í kjölfar efnahagsbólunnar en launaskriðið á höfuðborgarsvæðinu á þessu tímabili var allt að 20 - 30%. Starfsmenn stóriðjunnar fá einungis þær launahækkanir sem um semst í kjarasamningum sökum þeirra fastlaunasamninga sem samningarnir byggjast á. Nú er komið að þeim tímapunkti að starfsmenn stóriðjufyrirtækja fari að mótmæla þessum skemmdarverkum sem aðildarfélögin sem eiga aðild að samningnum ástunda undir dyggri aðstoð forystu ASÍ.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image