• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Feb

Samræmd launastefna meitluð í legstein

Það var svartur dagur í gær þegar félagið þurfti að taka ákvörðun um að draga verkfallsboðun sína í Síldarbræðslunni á Akranesi til baka. Ástæðan fyrir því var sú að Afl - stéttarfélag á Austurlandi og Drífandi í Vestmannaeyjum höfðu tekið ákvörðun um að afturkalla verkfallsheimild sína. Þegar það lá orðið ljóst fyrir þá var staða Verkalýðsfélags Akraness fyrir boðuðu verkfalli orðin að engu.

Þetta er hálf grátbroslegt í ljósi þess að félaginu hafði borist bréf frá Afli þar sem þess var óskað, og reyndar krafist, að félagið myndi boða til samúðarverkfalls vegna þess að 8 verksmiðjur á Austurlandi og í Vestmannaeyjum væru búnar að boða til verkfalls. Reyndar var formanni félagsins einnig greint frá því að hér myndi koma verkfallsvarsla að austan ef landað yrði í verksmiðjunni á Akranesi. Það hins vegar stóð aldrei til, það hefur alltaf verið stefna Verkalýðsfélags Akraness að standa með sínu fólki enda boðaði félagið til vinnustöðvunar með nákvæmlega sama hætti og áðurnefnd félög. Á þessari forsendu var það grátbroslegt að sjá hvernig Afl - stéttarfélag, undir forystu Sverris Mars Albertssonar, sem hafði krafist þess að Verkalýðsfélag Akraness myndi styðja þá í komandi verkfallsaðgerðum, lympaðist niður 5 mínútum fyrir verkfall.

Formaður gefur frekar lítið fyrir þær skýringar sem gefnar voru fyrir ástæðu þess að verkfallið var dregið til baka en það byggðist að langstærstum hluta á því að síldarbræðslan á Þórshöfn og í Helguvík væru starfræktar áfram. Vissulega harmar formaður það innilega að þessar verksmiðjur skuli ekki hafa ætlað að taka slaginn með félögum sínum en það lá alltaf fyrir, til dæmis með Þórshöfn, að þeir myndu einungis landa úr skipum í eigu fyrirtækisins en ekki öðrum skipum. Öðru máli gegnir um Helguvík sem er undir yfirráðasvæði Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur. Þar ræstu menn verksmiðjuna til að taka á móti afla og það er dapurlegt að einn af æðstu mönnum í verkalýðshreyfingunni skuli ekki hafa stoppað það af í hvelli.

Meginástæðan fyrir því hvernig fór er þessi samræmda launastefna sem hefur verið meitluð í stein, og formaður vill kalla þetta hálfgerðan legstein. Það á að setja alla íslenska launþega upp í einn og sama láglaunavagninn og allir launþegar skulu fá sömu launahækkanir algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Það er gríðarlega erfitt að vera í viðræðum og átökum við Samtök atvinnulífsins og vera síðan með forystu Alþýðusambands Íslands fyrir aftan sig í þeim átökum þar sem heykvíslirnar eru látnar vaða í bakið á samstarfsfélögum þeirra. Ástæðan fyrir þessari gríðarlegu stífni hjá Samtökum atvinnulífsins varðandi það að semja alls ekki við útflutningsfyrirtæki um neitt annað en það sem um mun semjast í samræmdri launastefnu, byggist á þeim gríðarlega stuðningi sem þeir fá frá forseta Alþýðusambands Íslands í þeim efnum.

Nú er komið að ögurstundu hjá starfsmönnum í útflutningsfyrirtækjum að sýna með afgerandi hætti að þetta ofbeldi af hálfu SA og ASÍ verði ekki liðið öllu lengur. Það eru engir nema starfsmenn útflutningsfyrirtækja sem geta brotið á bak aftur þessa samræmdu launastefnu. Hví í ósköpunum eiga starfsmenn til dæmis í Norðuráli, Elkem Ísland, Síldarbræðslunni og öðrum útflutningsfyrirtækjum að þurfa að sætta sig við það að geta ekki fengið leiðréttingu á þeirri kaupmáttarskerðingu sem þeir hafa orðið fyrir frá janúar 2008 vegna þess að fyrirtæki í byggingariðnaði og honum tengdum eigi undir högg að sækja? Þetta eru fyrirtæki sem hafa hagnast gríðarlega vegna gengisfalls íslensku krónunnar og því til viðbótar hefur afurðaverð þessara fyrirtækja  hækkað umtalsvert á liðnum misserum. Nægir að nefna í því samhengi að mjöl hefur hækkað um 141%, lýsi um 114%, álverð er í sögulegu hámarki eða 2.500 dollurum og kísiljárn sem Elkem Ísland selur hefur hækkað um 58% á liðnum misserum. Samtök atvinnulífsins segja nei, þessi fyrirtæki skulu verða sett upp í sömu samræmdu launastefnuna þar sem allir fá lítið sem ekki neitt og þar nýtur SA fulls stuðnings Alþýðusambands Íslands. Hafi þessi hagsmunasamtök launafólks, ef hagsmunasamtök skyldi kalla, skömm fyrir hvernig þau hafa hagað sér á undanförnum vikum og mánuðum þar sem hagsmunir starfsmanna í útflutningsfyrirtækjum hafa verið fótum troðnir.

Formaður VLFA hefur ætíð sagt að það sé sjálfsagt mál að sýna fyrirtækjum sem eru í vandræðum skilning en að sjálfsögðu þurfa þeir aðilar samt sem áður að fá einhverjar kjarabætur. En að neita starfsmönnum í útflutningsfyrirtækjum að sækja meira vegna erfiðleika í öðrum greinum er til skammar og verður ekki liðið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image