• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Mar

Vel á annan tug milljarða bjargað

Formaður kíkti á starfsmenn Síldarbræðslunnar í fyrradag en það er óhætt að segja að það sé gríðarleg törn búin að vera hjá þeim um alllanga hríð. Nú er búið að bræða um eða uppundir 20 þúsund tonn af loðnu og loðnuhrapi.  í gær lönduðu Faxi RE og Ingunn AK og nú er verið að landa úr Lundey, öll skipin voru nánst með fullfermi.  Eftir að sjávarútvegsráðherra jók loðnukvótann um 65 þúsund tonn var ákveðið að gamla aflaskipið Víkingur AK skildi halda til veiða og eftir þeim upplýsingum sem formaður hefur fengið þá hefur Víkingur landað fjórum fullfermistúrum það sem af er þessari vertíð.

Einnig eru staðnar núna sólarhringsvaktir við hrognatöku og eru tugir manna sem vinna á þessum sólarhringsvöktum og er gríðarleg vertíðarstemmning sem myndast við hrognatökuna.

Eins og flestir muna var verkfalli starfsmanna í 9 síldarbræðslum frestað 15. febrúar og er morgunljóst að sú ákvörðun starfsmanna hefur bjargað vel á annan tug milljarða króna fyrir þau fyrirtæki sem hlut eiga að máli sem og allt þjóðarbúið.  Eins og áður hefur komið fram þá telur formaður það hafa verið mistök að draga verkfallsboðuna til baka því staða starfsmanna í síldarbræðlum var gríðarlega sterk í ljósi hagsmuna útgerðarinnar. Enda skynjaði formaður VLFA umtalsverðan vilja hjá forsvarsmönnum síldarbræðlunnar til að leysa deiluna á átaka. Nú er bara að vona að fyrirtæki umræddra síldarbræðslna sýni starfsmönnum sem tóku þá ákvörðun um að nýta ekki sinn verkfallsrétt, þrátt fyrir að Samtök atvinnulífsins hafi hafnað nánast öllum þeirra kröfum, umbun þegar kemur að því að ganga frá kjarasamningum á næstu dögum. Þeir eiga það svo sannarlega skilið í ljósi áðurnefndra staðreynda. 

28
Feb

Ótrúleg skoðanakönnun

Hún var alveg ótrúleg könnunin sem forysta Alþýðusambands Íslands lét gera er laut að samræmdri launastefnu. Formaður félagsins veltir því fyrir sér hver tilgangur forystu ASÍ var með þessari könnun en það er mat formanns að hér hafi ekkert annað legið að baki en að skemma sterka stöðu starfsmanna sem starfa hjá útflutningsfyrirtækjum vegna gríðarsterkrar stöðu þessara fyrirtækja. Spurningin var afar villandi og er þar vægt til orða tekið.

Spurningin hljóðaði með eftirfarandi hætti:

Nú standa yfir viðræður um nýja kjarasamninga. Hvort ertu hlynntari því að verkalýðshreyfingin leggi áherslu á sambærilegar launahækkanir fyrir alla, eða meiri launahækkanir til þeirra sem starfa í útflutningsgreinunum, sem njóta nú góðs af gengi krónunnar?

Könnunin var með þeim hætti að 94% svörðuðu þessari spuringu játandi en einungis 6% neitandi. Eins og áður hefur komið fram var þessi spurning afar villandi og nægir að nefna í því samhengi að ekki kemur skýrt fram hvað átt er við með sambærilegum launahækkunum. Eins og samræmd launastefna hefur verið kynnt þá byggist hún á tvennu, annars vegar á prósentuhækkunum og hins vegar á krónutöluhækkunum. Eins og margoft hefur komið hér fram á heimasíðunni þá myndi þessi samræmda launastefna þýða það, miðað við þau drög sem kynnt hafa verið, að lágtekjufólk væri að fá í kringum 9 þúsund króna hækkun á sínum launatöxtum á meðan að þeir sem starfa ekki eftir taxtakerfi væru að fá upp undir 3,5% launahækkun.

Myndu þeir sem tóku þátt í könnuninni sætta sig við að forseti ASÍ fengi 35 þúsund króna hækkun, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins 60 þúsund króna hækkun og margir aðrir miðstjórnarmenn innan ASÍ væru að fá frá 35 þúsund og upp í 50 þúsund króna hækkun á meðan almennir verkamenn, til dæmis fiskvinnslufólk og verkamenn í stóriðjum, væru að fá 9 þúsund króna hækkun. Hefðu þeir sem tóku þátt í könnuninni greitt atkvæði eins og áður hefur komið fram ef þessar staðreyndir hefðu legið fyrir? Svar formanns við því er nei. Er þetta samræmda launastefnan sem ASÍ vill fara, að slegin verði skjaldborg utan um þá tekjuhæstu?

Á fundi með Samtökum atvinnulífsins vegna launaliðar Norðuráls var það fyrsta sem fulltrúar fyrirtækisins höfðu orð á að 94% sem tóku þátt í könnuninni væru hlynntir samræmdri launastefnu og af þeirri ástæðu vildi fyrirtækið að sjálfsögðu semja á slíkum forsendum.

Það er mat formanns að hér sé um gríðarleg skemmdarverk að ræða af hálfu forystu ASÍ enda eru engar forsendur fyrir því að fyrirtæki starfandi í útflutningi komist hjá því að skila kaupmáttarskerðingunni sem starfsmenn hafa orðið fyrir vegna efnahagshrunsins enda eru útflutningsfyrirtæki að hagnast gríðarlega vegna gengisfalls íslensku krónunnar og vegna stórhækkaðs afurðaverðs. Það er nöturlegt að verða vitni að því að slík könnun sé gerð einvörðungu til að veikja stöðu þeirra sem eru að berjast fyrir því að útflutningsfyrirtæki skili ávinningnum til sinna starfsmanna. Að kosta til könnunar sem kostar jafnvel hundruðir þúsunda með þetta að meginmarkmiði er sorglegt.

Það liggur algjörlega fyrir að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki láta þetta ofbeldi yfir sig ganga enda verður þessum vinnubrögðum mætt af fullri hörku. En vissulega er við ramman reip að draga þegar bæði þarf að berjast við atvinnurekendur og ekki síður þá láglaunastefnu sem forysta ASÍ vinnur nú ötullega að með Samtökum atvinnulífsins. Nú er mikilvægt að launþegar allir sem einn standi þétt saman og berjist gegn þessari láglaunastefnu.  

25
Feb

Unnið að lausn málsins

Í gær var haldinn samningafundur hjá Ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna Elkem Ísland. Það er skemmst frá því að segja að fundurinn var algjörlega árangurslaus, nokkurs hroka gætti og alls engan samningsvilja var að finna af hálfu Samtaka atvinnulífsins.

Félagið vinnur áfram ötullega að því að finna lausn á þessu grafalvarlega máli, en það er alveg morgunljóst að ástandið nú er afar eldfimt. Samninganefndin í heild sinni leggur sig í líma við að forða þessari deilu frá alvarlegum átökum.

Verkalýðsfélag Akraness fundaði með öllum starfsmönnum Elkem Ísland á mánudaginn var og á þeim fundi var formanni félagsins veitt fullt umboð til að finna farsæla lausn þar sem hagsmunir starfsmanna yrði hafðir að leiðarljósi. Einnig var honum veitt heimild til að gefa sér þann tíma sem hann þyrfti til að finna farsæla lausn á deilunni. Nú er staðan þannig að hugsanlega þarf félagið ögn lengri tíma til að ná niðurstöðu í þessari alvarlegu kjaradeilu enda eru gríðarlegir hagsmunir í húfi ekki bara fyrir starfsmenn heldur í raun og veru fyrir allt þjóðarbúið. 

Það er einnig ljóst að það ofbeldi sem Samtök atvinnulífsins hafa sýnt í þessu máli þar sem rótgrónum stöðugleika á Grundartangasvæðinu er stefnt í algjöra tvísýnu er með hreinustu ólíkindum. Þetta ofbeldi mun Verkalýðsfélag Akraness ekki láta yfir sig ganga enda mun félagið ávalt hafa hagsmuni sinna félagsmanna að leiðarljósi.

24
Feb

Ríkissáttasemjari boðaði aftur til fundar í dag

Húsakynni ríkissáttasemjaraHúsakynni ríkissáttasemjaraÍ gær fundaði formaður félagsins ásamt trúnaðarmönnum Elkem Ísland með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins og fyrirtækisins hjá ríkissáttasemjara vegna þeirrar alvarlegu deilu sem nú er uppi vegna kjarasamnings starfsmanna við Samtök atvinnulífsins.

Samninganefndin lagði fram hugmyndir að lausn á deilunni í gær sem er núna til skoðunar hjá okkar viðsemjendum en þetta er lokaatlagan sem Verkalýðsfélag Akraness mun gera til að leysa þessa deilu og ef það ekki tekst þá er nánast óhjákvæmilegt að það muni koma til alvarlegra átaka á Grundartangasvæðinu í kjölfarið.

Ríkissáttasemjari boðaði aftur til fundar í dag vegna þessarar deilu og hefst sá fundur kl. 15 og þá mun samninganefnd félagsins væntanlega fá svör við þeim hugmyndum sem lagðar voru fram í gær. Eins og staðan er núna er formaður hóflega bjartsýnn á að deilan leysist þannig að hægt verði að komast hjá alvarlegum átökum. En samninganefndin hefur svo sannarlega sýnt það í verki að hún er tilbúin til að leggja sitt af mörkum til að forða þessari deilu frá vinnustöðvun.

22
Feb

Samstaða og einhugur á fundi starfsmanna Elkem og Klafa

Járnblendiverksmiðjan á GrundartangaJárnblendiverksmiðjan á GrundartangaFormaður Verkalýðsfélags Akraness hélt tvo fundi með starfsmönnum Elkem Ísland og Klafa í gær og voru fundirnir haldnir á Gamla kaupfélaginu. Fyrri fundurinn var haldinn kl. 13 og mættu á þann fund um 60 manns en síðari fundurinn var haldinn kl. 19 og voru nálægt 70 manns sem mættu á þann fund.

Eins og flestir vita þá er kjaradeila vegna stóriðjusamninganna á Grundartanga komin í algjöran hnút og vinnur félagið nú að því að reyna að koma í veg fyrir hörð átök á þessu svæði. Eins og staðan er núna er því miður fátt sem getur komið í veg fyrir slíkt. Það ríkti gríðarleg samstaða og einhugur á fundinum í gær og kom fram í máli fundarmanna að afstaða forystu ASÍ til þess að sækja meira á fyrirtæki sem hafa hagnast gríðarlega vegna gengisfalls krónunnar og hækkandi afurðaverðs sé óskiljanleg á grundvelli þess að menn berjast hatrammlega fyrir því að þessi fyrirtæki skili ekki þeim ávinningi til sinna starfsmanna.

Það ríkir gremja og reiði á meðal starfsmanna yfir því hvernig forysta ASÍ hefur tekið stöðu gegn starfsmönnum útflutningsfyrirtækja og komu fram hugmyndir á fundinum í gær hvort ekki væri orðið tímabært að Verkalýðsfélag Akraness segði skilið við slík samtök sem vinna gegn hagsmunum starfsmanna útflutningsfyrirtækja. Formaður sagði að vissulega væri sú staða komin upp að menn þyrftu að fara að skoða það alvarlega hvort við ættum samleið með slíkum hagsmunasamtökum launafólks ef hagsmunasamtök skyldi yfir höfuð kalla.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar kl. 14 á morgun og er alls ekki ólíklegt að á þeim fundi muni koma í ljós hvort hér stefni til átaka eða ekki. Rétt er að það komi fram að samninganefndin hefur lagt fram ýmsar hugmyndir að lausn á þessu máli á undanförnum fundum án þess að finna fyrir miklum samningsvilja af hálfu Samtaka atvinnulífsins.

Að sjálfsögðu er gríðarlega erfitt að ná saman samningum þegar Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafa tekið höndum saman um það að ekki skuli vera tekið tillit til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja. En það kom skýrt fram á fundinum í gær að starfsmenn munu ekki sætta sig við slíkt ofbeldi af hálfu ofangreindra aðila.

22
Feb

Samningsumboðið fært til þriðja aðila

Samninganefnd starfsmanna Norðuráls fundaði með fulltrúum fyrirtækisins og Samtaka atvinnulífsins hjá ríksisáttasemjara í gær. Skemmst er frá því að segja að árangurinn var afskaplega takmarkaður. Það kom skýrt fram í máli fulltrúa Samtaka atvinnulífsins að verið er að semja um launalið samningsins á öðrum stað heldur en á því samningsborði sem það ætti að vera gert eða með öðrum orðum, það er verið að semja við Alþýðusambandið um samræmda launastefnu og það er það sem að á að gilda fyrir starfsmenn Norðuráls.

Það er sorglegt að verða vitni að því að það er búið að taka kjarasamningsbundinn rétt af samninganefnd starfsmanna og færa hann til þriðja aðila sem í þessu tilfelli er forysta ASÍ. En eins og kom fram í fréttum í gær þá vinnur ASÍ að því af fullri hörku að hér verði samið við alla launþega innan ASÍ með sambærilegum launahækkunum þar sem ekkert tillit verður tekið til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja. Þessu mótmælti formaður Verkalýðsfélags Akraness harðlega á fundinum í gær og fordæmir þessi vinnubrögð enda er það með ólíkindum að það sé verið að taka samningsumboð af samninganefnd starfsmanna og færa það til áðurnefndra aðila.

Formaður lítur á þetta sem forysta ASÍ er að gera sem gríðarlegt skemmdarverk gagnvart þeim starfsmönnum sem starfa í útflutningsfyrirtækjum. Formaður hefur fært rök fyrir því af hverju á að sækja meira á útflutningsfyrirtækin og nægir í þessu samhengi að nefna að álverð heldur áfram að hækka stórkostlega og er það nú komið upp í 2.535 dollara og hækkar nú nánast dag hvern. Þessu til viðbótar hefur gengi dollarans styrkst gagnvart íslensku krónunni sem nemur yfir 90% frá hruni. Því spyr formaður sig að því hví í ósköpunum eigi að setja starfsmenn þessara fyrirtækja undir sömu láglaunastefnuna sem forysta ASÍ berst nú hatrammlega fyrir að farin verði.

Það er líka rétt að geta þess að starfsmenn stóriðjunnar á Grundartanga nutu ekki þess gríðarlega launaskriðs sem varð í kjölfar efnahagsbólunnar en launaskriðið á höfuðborgarsvæðinu á þessu tímabili var allt að 20 - 30%. Starfsmenn stóriðjunnar fá einungis þær launahækkanir sem um semst í kjarasamningum sökum þeirra fastlaunasamninga sem samningarnir byggjast á. Nú er komið að þeim tímapunkti að starfsmenn stóriðjufyrirtækja fari að mótmæla þessum skemmdarverkum sem aðildarfélögin sem eiga aðild að samningnum ástunda undir dyggri aðstoð forystu ASÍ.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image