• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Jan

Gríðarleg samstaða og einhugur á meðal starfsmanna

Rétt í þessu lauk fyrri samstöðufundi starfsmanna Elkem Ísland og Klafa en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefnir í harða kjaradeilu vegna kjarasamnings áðurnefndra fyrirtækja.

Á fundinum gerði formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem jafnframt er formaður samninganefndarinnar, yfir 50 starfsmönnum grein fyrir þeirri grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu starfsmanna við Samtök atvinnulífsins. Á fundinum ríkti gríðarlegur einhugur og samstaða á meðal starfsmanna um að sýna fulla hörku í komandi kjaraviðræðum. Boðað hefur verið til fundar samninganefndarinnar með Samtökum atvinnulífsins hjá Ríkissáttasemjara á morgun og mun þá koma í ljós hvort hægt verður að leysa deiluna án átaka eða ekki.

Það var ánægjulegt að sjá þá miklu samstöðu sem ríkti á meðal starfsmanna og kom fram í máli fundarmanna að þeir eru klárir til að mæta því ábyrgðarleysi sem Samtök atvinnulífsins hafa sýnt íslenskum launþegum að undanförnu af fullri hörku. Það er æði margt sem bendir til þess að það stefni í vinnustöðvun hjá áðurnefndum fyrirtækjum ef ekki næst niðurstaða á fundinum á morgun.

Nýafstaðinn samstöðufundur starfsmanna Elkem og Klafa samþykkti ályktun en þeirri ályktun segir m.a.:

"Það er svívirða af verstu sort af hálfu Samtaka atvinnulífsins að ætla að taka kjarasamningsbundinn rétt launafólks í herkví í óákveðinn tíma vegna ágreinings útvegsmanna við stjórnvöld vegna fiskveiðistjórnunarkerfisins." Einnig segir: "Fundurinn hafnar alfarið samræmdri launastefnu sem virðist byggjast á þriggja ára samningi með afar hófstilltum launahækkunum, algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Það liggur fyrir að rekstrarskilyrði útflutningsfyrirtækja hafa verið afar góð um alllanga hríð vegna gengisfalls íslensku krónunnar. [...] Fundurinn lýsir yfir furðu sinni varðandi það miskunnarlausa ábyrgðarleysi Samtaka atvinnulífsins að ætla að stefna rótgrónum stöðugleika stóriðjufyrirtækja á Grundartanga í stórhættu vegna ágreinings um fiskveiðistjórnunarkerfið."

Ályktunina í heild sinni má lesa hér.

Seinni samstöðufundur starsfmanna Elkem og Klafa verður haldinn kl. 19 í kvöld og vonandi verður sami einhugurinn og samstaðan ríkjandi á þeim fundi.

25
Jan

Áríðandi fundur með starfsmönnum Elkem Ísland og Klafa

Í morgun fundaði formaður félagsins með trúnaðartengiliðum Elkem Ísland. Trúnaðartengiliðirnir eiga sæti í aðalsamninganefnd vegna kjarasamninga starfsmanna Elkem Ísland við Samtök atvinnulífsins.

Á fundinum var farið yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin, en eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá hefur samninganefndin nú vísað kjaradeilunni til Ríkisáttasemjara. Nú hefur Ríkissáttasemjari boðað til fundar vegna kjarasamnings starfsmanna Elkem Ísland við Samtök atvinnulífsins og verður fundurinn haldinn í húsakynnum Ríkissáttasemjara næstkomandi föstudag.

Ákvörðun hefur verið tekin um að boða til fundar nk. fimmtudag með starfsmönnum en vegna fjölda starfsmanna þarf að halda fundinn í tvennu lagi. Verður fyrri fundurinn haldinn kl. 13 og sá seinni kl. 19. Báðir fundirnir verða haldnir á Gamla Kaupfélaginu.

Það var afar ánægjulegt að finna þann einhug sem ríkir í samninganefndinni vegna þeirrar deilu sem nú er komin upp. Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá var samninganefndin tilbúin að ganga frá samkomulagi um framlengingu á kjarasamningnum til 1. maí gegn eingreiðslu. Þessu tóku forsvarsmenn fyrirtækisins nokkuð jákvætt, en margt bendir til þess að Samtök atvinnulífsins hafi stoppað þetta mál alfarið af. Á þeirri forsendu er mjög líklegt að starfsmenn fyrirtækisins muni sýna fulla samstöðu og hörku við að ná fram sínum áherslum í komandi viðræðum. Eins og staðan er núna er það mat formanns að æði margt bendi til þess að það stefni í veruleg átök vegna þessarar deilu.

Rétt er að geta þess að starfsmenn Klafa munu einnig sitja þessa fundi á fimmtudaginn kemur. Klafi er þjónustufyrirtæki sem sér um upp- og útskipanir á Grundartanga og er í eigu fyrirtækjanna Elkem Ísland og Norðuráls. Þeir eru því í nákvæmlega sömu sporum og starsfmenn Elkem Ísland.

24
Jan

Kjaradeilu Elkem Ísland og Klafa vísað til ríkissáttasemjara

Samninganefnd Elkem Ísland fól formanni Verkalýðsfélags Akraness að vísa kjaradeilu starfsmanna til ríkissáttasemjara í morgun. Einnig fól samninganefnd Klafa ehf, sem er þjónustufyrirtæki sem sér um upp- og útskipanir á Grundartangahöfn, formanni að vísa sinni kjaradeilu til ríksisáttasemjara. En rétt er að geta þess að Klafi ehf er í 50% eigu Elkem Ísland og 50% eigu Norðuráls.

Samninganefndin hefur haldið tvo formlega fundi með Samtökum atvinnulífsins vegna áðurnefndra kjarasamninga en algjörlega án árangurs. Því til viðbótar gerði samninganefndin forsvarsmönnum Elkem Ísland og Klafa ehf tilboð sem var fólgið í því að framlengja samningana til 1. maí næstkomandi gegn eingreiðslu til handa starfsmönnum. Það er skemmst frá því að segja að forsvarsmenn Elkem Ísland tóku þessari hugmynd nokkuð vel en nú virðist sem Samtök atvinnulífsins hafi alfarið meinað fyrirtækinu að ganga frá slíku samkomulagi.

Samninganefndin harmar það að Samtök atvinnulífsins skuli hafa lagt stein í götu þessa samkomulags og það er ábyrgðarlaust af hálfu Samtaka atvinnulífsins að verða valdir að því að stefna áðurnefndri kjaradeilu í átök. Það er fátt sem virðist geta komið í veg fyrir að gripið verði til róttækra aðgerða í áðurnefndum fyrirtækjum. Það ríkir einhugur á meðal samninganefndar og þeirra fjölmörgu starfsmanna sem formaður hefur rætt við síðustu daga um að sýna fulla hörku í þeirri kjaradeilu sem starfsmenn eiga nú í.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá leggur félagið ofuráherslu á að útflutningsfyrirtæki sem hafa hagnast gríðarlega á gengisfalli íslensku krónunnar, skili því með einum eða öðrum hætti til starfsmanna sinna. Á þeirri forsendu hafnar samninganefnd áðurnefndra fyrirtækja alfarið samræmdri launastefnu þar sem ekkert tillit er tekið til góðrar stöðu útflutningsgreina.

Verkalýðsfélag Akraness mun standa fyrir fundi með starfsmönnum, væntanlega næstkomandi fimmtudag, þar sem farið verður yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin og einnig til að kalla fram til hvaða aðgerða starfsmenn vilja grípa. Fundurinn verður haldinn bæði með starfsmönnum Elkem Ísland sem og Klafa og verður auglýstur nánar síðar.

21
Jan

Stefnir í alvarleg átök

Í morgun var haldinn fundur í samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands og var á þeim fundi samþykkt að skoða hugmyndir forseta Alþýðusambands Íslands um samræmda launastefnu. Fyrir liggja hugmyndir að þessari launastefnu og það er morgunljóst að þær falla alls ekki að þeirri kröfugerð sem Verkalýðsfélag Akraness stendur fyrir.

Á þeirri forsendu hefur formaður Verkalýðsfélags Akraness tilkynnt samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands að félagið segir sig frá þessu samstarfi og hefur félagið nú þegar tilkynnt Starfsgreinasambandinu formlega um að það hafi dregið samningsumboð sitt til baka. Einnig hefur félagið sent Ríkissáttasemjara bréf og vísað kjaradeilu félagsins á hinum almenna vinnumarkaði til hans á formlegan hátt.

Það er mat samninganefndar Verkalýðsfélags Akraness að þessi samræmda launastefna eins og hún er hugsuð af forseta Alþýðusambands Íslands og kynnt fyrir félögunum er ekkert annað en skemmdarverk gagnvart öllum þeim starfsmönnum sem starfa í útflutningi. Það er skoðun formanns að með þessari samþykkt samninganefndar SGS sé í raun og veru verið að fela forseta ASÍ og samninganefnd ASÍ að hefja viðræður við Samtök atvinnulífsins um samræmda launastefnu. Í því sambandi er félaginu minnistæður síðasti gjörningur samninganefndar ASÍ þegar stöðugleikasáttmálinn var undirritaður 25. júní 2009.

Formaður greindi einnig frá því á fundinum í dag að nýjar upplýsingar væru að koma fram sem lúta að viðmiði lágmarksframfærslu, en Harpa Njálsdóttir félagsfræðingur hefur reiknað út að einstaklingur þurfi að lágmarki 250.000 kr. til að geta framfleytt sér. Inni í þessu neysluviðmiði Hörpu er tekið tillit til þess að viðkomandi leigi einstaklingsíbúð og reki gamlan bíl. Núna er félagsmálaráðuneytið að vinna að sams konar lágmarksframfærsluviðmiði og á þeirri forsendu er gríðarlega mikilvægt að upplýst verði um þetta neysluviðmið því ef það byggist á sambærilegri niðurstöðu og hjá Hörpu Njálsdóttur þá er ljóst að sú krafa sem er verið að leggja fram núna varðandi lágmarkslaun er langt fyrir neðan viðmið um lágmarksframfærslu.

Þess vegna er útilokað að ganga frá kjarasamningum fyrr en þessir hlutir eru komnir á hreint því verkalýðshreyfingin getur ekki samið um lágmarkslaun sem duga engan veginn til þess að fólk nái lágmarksframfærslu. Hugmyndir forseta ASÍ varðandi lágmarkslaun eru að lágmarkslaun verði orðin 200.000 kr. í lok samningstímans sem er árið 2014. Þetta er að mati formanns algjör skandall því krafa okkar hefur verið sú að lágmarkslaun verði frá 1. desember 2010 kr. 200.000. Þessi hugmynd um samræmda launastefnu er galin og nægir að nefna í því samhengi að þær hugmyndir sem maður hefur séð varðandi samræmda launastefnu myndi þýða að verkafólk á töxtum gæti verið að fá á bilinu 10-13 þúsund króna hækkun á mánuði, á meðan menn eins og Gylfi Arnbjörnsson sem er með milljón á mánuði fengi 35.000 kr. hækkun. Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands sem var með skv. tekjublaði mannlífs á síðasta ári um 1,4 milljón væri að fá tæpar 50.000 kr. og Vilhjálmur Egilsson frkv.stj. Samtaka atvinnulífsins sem var með skv. sömu heimild rúma 1,8 milljón á mánuði fengi 63.000 króna hækkun. Er þetta samræmda launastefnan sem menn vilja stefna að? Að þeir tekjuhærri fá ennþá meira en fólk sem er á launum sem ekki duga til lágmarksframfærslu? Svar Verkalýðsfélags Akraness við því er nei, og sveiattan!

Það verður að gera þá skýlausu kröfu á Guðbjart Hannesson velferðarráðherra að hann skili þessari vinnu er lýtur að neysluviðmiðinu tafarlaust, þannig að verkalýðshreyfingin geti notað þessa viðmiðun varðandi lágmarkslaunin í sinni kjarasamningsgerð.

Grundarvallaratriðið er lýtur að samræmdri launastefnu er eins og áður hefur komið fram að það er verið að eyðileggja möguleika þeirra starfsmanna sem starfa í útflutningsfyrirtækjum ef það á að setja alla upp í einn og sama sporvagninn algerlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Slíku samráði mun Verkalýðsfélag Akraness ekki taka þátt í.

Strax eftir helgi mun félagið boða til áríðandi fundar með starfsmönnum Elkem Ísland, Klafa, Síldarbræðslunnar og starfsmönnum Norðuráls þar sem þeim verður gerð grein fyrir þessari nýju stöðu sem upp er komin. Starfsmenn þessara fyrirtækja starfa eftir sérkjarasamningum og öll þessi fyrirtæki tengjast útflutningi. Þessir starfsmenn munu núna taka ákvörðun um það á næstu dögum hvort þeir eru tilbúnir til að fara í verkföll til að knýja fram að þessi fyrirtæki skili þeim gríðarlega ávinningi sem þau hafa haft vegna gengisfellingar íslensku krónunnar að einhverru leyti til starfsmanna. Rétt er að geta þess að starfsmenn Norðuráls eru einungis með launaliðinn lausann þannig að það er ljóst að ekki mun koma til verkfalla í þeirri verksmiðju.

20
Jan

Ávinningi útflutningsfyrirtækja verði skilað til starfsmanna

Um síðustu áramót rann launaliður kjarasamnings Norðuráls út. Á þeirri forsendu hefur Verkalýðsfélag Akraness fyrir hönd trúnaðarmanna verkamanna í verksmiðjunni, lagt fram kröfugerð fyrir verkamenn. Kröfugerðin var lögð fram rétt fyrir áramót og er heildarkostnaðarmat hennar um 27,5%. Hún er með sambærilegum hætti og kröfugerð vegna Elkem Ísland og starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjunni.

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni og í máli og riti formanns félagsins þá er það stefna félagsins að þau fyrirtæki sem starfa í útflutningi skili þeim gríðarlega ávinningi sem þau hafa notið vegna falls krónunnar með einum eða öðrum hætti til sinna starfsmanna. Á þessari forsendu hefur Verkalýðsfélag Akraness algjörlega hafnað samræmdri launastefnu sem nú er unnið að af hálfu Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Meðal annars gerði formaður grein fyrir þessari afstöðu sinni á ársfundi ASÍ í október síðastliðnum. Það er alveg morgunljóst að ef af þessari samræmdu launastefnu verður þá er búið að stórskemma og skaða möguleika starfsmanna sem starfa í útflutningsfyrirækjum til að sækja þann ávinning sem útflutningsfyrirtækin hafa fengið sökum falls íslensku krónunnar.

Það er ekki bara að álfyrirtækin séu að selja sínar afurðir í dollurum og borga laun í íslenskum krónum heldur hefur álverð hækkað umtalsvert á liðnum mánuðum og stendur álverð nú í 2500 dollurum pr. tonn. En ef formaður man rétt þá var meðalverð á álverði árið 2009 um 1700 dollarar. Þannig að þarna er nægt svigrúm til launahækkana og eigendur þessara fyrirtækja eiga að sjá sóma sinn í því að skila ávinningi sínum til starfsmanna.

Formaður á von á því að farið verði fram á að viðræður vegna launaliðar kjarasamningsins hefjist sem allra fyrst en félagið vill ítreka það að það mun sýna fulla hörku gagnvart þeim fyrirtækjum sem eru starfandi í útflutningi í þeim kjaraviðræðum sem nú eru framundan.

18
Jan

Kosið verður um vinnustöðvun á morgun

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness, sem er jafnframt aðal samninganefnd félagsins, kom saman til fundar í gær. Formaður fór yfir með samninganefndinni þá alvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu við Samtök atvinnulífsins og rakti fyrir samninganefndinni hvað hefur verið að gerast. Einnig fór formaður yfir stöðu annarra kjarasamninga sem félagið er aðili að eins og við Elkem Ísland, Klafa, sveitarfélögin og Norðurál.

En aðalmál fundarins var fyrirhuguð vinnustöðvun í síldarbræðslunni og samþykkti samninganefnd félagsins að kosið verði um verkfall í verksmiðjunni, verkfall sem tekur gildi í byrjun febrúar og mun kosningin fara fram á morgun.  Formaður fór yfir tilboð sem félagið hafði gert forsvarsmönnum HB Granda til lausnar á þessari grafalvarlegu deilu og harmaði samninganefndin að ekki skuli hafa verið samningsvilji af hálfu Samtaka atvinnulífsins. Æði margt bendir til þess að þessi samræmda launastefna sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, vinna nú ötullega að, sé að stórskemma stöðu þeirra starfsmanna sem starfa í fyrirtækjum tengdum útflutningi. Rétt er að það komi fram að gríðarlegur einhugur og samstaða ríkti í samninganefnd Verkalýðsfélags Akraness um verkfallsboðun í síldarbræðslunni og síðast en ekki síst að hafna alfarið þessari samræmdu launastefnu.

Formaður félagsins hefur gagnrýnt harðlega þá afskiptasemi forseta ASÍ af þeim kjaraviðræðum sem nú eiga sér stað og telur hann vera kominn langt út fyrir sitt valdasvið, enda liggur samningsumboðið hjá stéttarfélögunum en ekki hjá Alþýðusambandi Íslands.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image