• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Apr

Ótrúleg hótun

Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að þeim hótunum sem Samtök atvinnulífsins og einstaka forystumenn innan Alþýðusambands Íslands beita þessa dagana vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave.

Eins og fram hefur komið í fréttum síðustu sólarhringa hafa þessir aðilar hótað íslenskum launþegum því að ef lögin um Icesave verði ekki staðfest í atkvæðagreiðslunni sem fer fram á laugardaginn þá verði ekki gengið frá kjarasamningum og þar af leiðandi muni kjarabætur til íslenskra launþega dragast enn frekar. 

Þessu til viðbótar hafa Samtök atvinnulífsins einnig hótað því að ekki verði gengið frá kjarasamningum ef ríkisstjórn Íslands gangi ekki frá ágreiningi við útvegsmenn vegna fiskveiðistjórnunarkerfisins. Þessar hótanir, báðar tvær, eru með svo miklum ólíkindum að þær ná ekki nokkurri átt enda er verið að setja fram hluti sem hafa ekkert með kjarasamninga íslenskra launþega að gera. Það er með öllu ábyrgðarlaust að forystumenn innan verkalýðshreyfingarinnar og innan Samtaka atvinnulífsins skuli ætla að misnota aðstöðu sína jafn alvarlega og fréttir síðustu daga sýna.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á félagsmenn sína að kynna sér allar hliðar á Icesave málinu til hlítar og taka afstöðu útfrá sinni eigin skoðun. Einnig skorar formaður á félagsmenn að nýta lýðræðislegan rétt sinn í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image