• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Mar

Rekstur Verkalýðsfélags Akraness gengur vel

Aðalstjórn, orlofs- og sjúkrasjóðsstjórn Verkalýðsfélags Akraness funduðu á fimmtudaginn var þar sem gengið var frá ársreikningum félagsins með endurskoðendum.

Afkoma Verkalýðsfélags Akraness á síðasta ári var mjög góð en rekstrarafgangur af allri samstæðunni nam 83 milljónum sem verður að teljast mjög gott miðað við það efnahagsástand sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði. Félagstekjur jukust um tæp 17% á milli ára sem að skýrist af fjölgun félagsmanna og einnig þeim styrku stoðum í atvinnulífi á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness. Nægir að nefna í því samhengi stóriðjusvæðið á Grundartanga og þau fjölmörgu fiskvinnslufyrirtæki sem starfa hér á Akranesi.

Stjórn sjúkrasjóðs ákvað í ljósi góðrar stöðu félagsins að hækka heilsueflingarstyrk sem félagið býður upp á úr 15 þúsund krónum upp í 20 þúsund krónur og einnig verður tekinn upp nýr styrkur sem ber nafnið styrkur vegna heilsufarsskoðunar en hann mun nema 15 þúsund krónum. Báðir þessir styrkir munu taka gildi frá og með næstu mánaðarmótum.

Að venju er margt í boði í tengslum við orlofssjóð félagsins og nú er tekið á móti umsóknum vegna sumarleigu orlofshúsa. Umsóknarfrestur er til 11. apríl næstkomandi en auk húsa félagsins í Húsafelli, Svínadal, Hraunborgum, Ölfusborgum og á Akureyri hefur félagið fengið leigð fjögur hús til viðbótar. Þar af eru tvö hús í Biskupstungum, eitt hús í Úthlíð og eitt á Flateyri. Þess utan býðst félagsmönnum að kaupa Veiðikortið og Útilegukortið á afslætti sem og gistimiða á Hótel Eddu og Fosshótel.  

Það verður að segjast alveg eins og er að viðsnúningur Verkalýðsfélags Akraness á þessum 7 árum síðan ný stjórn tók við er gríðarlegur. Félagið hefur verið byggt upp bæði félagslega sem og fjárhagslega og hefur félagið til að mynda bætt við 8 nýjum styrkjum úr sjúkrasjóði auk fjölmargra möguleika úr orlofssjóði eins og áður hefur komið fram. Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að láta félagsmenn sína ávallt njóta góðs fjárhagslegs ávinnings félagsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image