• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Mar

Eina í stöðunni er allsherjarverkfall

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsinsÞað er óhætt að segja að kjaraviðræður Samtaka atvinnulífins og Alþýðusambands Íslands séu að verða einn allsherjar skrípaleikur sem launþegar þurfa núna að sjá til þess að ljúki í eitt skipti fyrir öll. Í fréttum í morgun kom fram að Samtök atvinnulífsins hafi greint ríkisstjórninni frá því í gærkvöldi að þau myndu ekki hefja svokallaða lokaatlögu að gerð nýs kjarasamnings á morgun eins og til stóð. Það er öllum ljóst að SA mun ekki ganga frá kjarasamningum fyrr en ágreiningur þeirra við stjórnvöld um sjávarútvegsmál verður til lykta leiddur. Þetta ofbeldi bitnar fyrst og fremst á íslenskum launþegum sem nú hafa beðið eftir kjarabótum í fjóra mánuði og á þessari stundu bendir ekkert til að breyting verði þar á.

Það er óhætt að segja að íslenskt launafólk hafi verið dregið á asnaeyrunum um alllanga hríð, bæði af hálfu ASÍ og Samtaka atvinnulífsins því ítrekað hafa þessir aðilar komið í fjölmiðla og haldið því fram að stutt sé í gerð nýs kjarasamnings. Nægir að nefna í því samhengi frétt inn á vef ASÍ 11. febrúar síðastliðinn undir fyrirsögninni Kyrrstaðan rofin - kjaraviðræður á fullt skrið eftir helgi. Formaður spyr sig hvort þessi frétt hafi verið sett fram í þeim eina tilgangi að eyðileggja fyrirhugað verkfall síldarbræðslumanna sem átti að hefjast 15. febrúar síðastliðinn. Allavega hafði þessi frétt þau áhrif að síldarbræðslumenn töldu að stutt væri þar til niðurstaða myndi nást um gerð nýs kjarasamnings. En frá því þessi frétt var skrifuð er liðinn einn og hálfur mánuður og það hefur enginn kyrrstaða verið rofin eins og fram kom í fréttinni. 

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur margoft komið fram í fjölmiðlum og ýjað að því að nú sé stutt þar til gengið verði frá samningum. Nægir að nefna í því samhengi frétt sem birtist 25. febrúar þar sem hann segir að kjaraviðræðum muni ljúka um miðjan mars. Launafólk spyr sig: Hvaða marsmánuð var framkvæmdastjórinn að tala um?

Formaður Verkalýðsfélags Akraness lýsir yfir fullkomnu vantrausti á forystu ASÍ við gerð nýs kjarasamnings en eins og fram hefur komið hér í fréttum þá dró Verkalýðsfélag Akraness umboð sitt til baka því félagið sætti sig ekki við það ofbeldi sem var fólgið í svokallaðri samræmdri launastefnu þar sem ekkert tillit átti að taka til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja. Hins vegar er staðan þannig að Samtök atvinnulífsins neita alfarið að ganga frá neinum kjarasamningi við félagið fyrr en þeir verða búnir að ganga frá samningum við ASÍ fyrst. Því er staða 3000 manna stéttarfélags afar erfið til aðgerða en þolinmæði félagsins gagnvart Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands er gjörsamlega að þrotum komin.

Verðbólgan er komin á skrið aftur ef marka má fréttir frá því í morgun en vísitala neysluverðs miðað við verðlag í mars hækkaði um 0,95% frá fyrra mánuði. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,2% sem jafngildir 5,1% verðbólgu á ári. Núna berast einnig fréttir af því að Orkuveita Reykjavíkur hafi hug á því að hækka gjaldskrá sína um allt að 8% eða með öðrum orðum enn og aftur á að höggva í sama knérunn og ekki heyrist hósti né stuna frá forystu Alþýðusambands Íslands vegna þessara þátta.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að nú verði verkalýðshreyfingin í heild sinni að girða sig í brók og stöðva þetta ofbeldi sem SA sýnir íslenskum launþegum og leggur formaður til að Alþýðusamband Íslands skipuleggi allsherjarverkfall í einn dag til að byrja með til að mótmæla þessu ofbeldi Samtaka atvinnulífsins. Ef ekkert gerist af hálfu forystu Alþýðusambands Íslands þá er einsýnt að íslenskir launþegar þurfa að grípa sjálfir til róttækra aðgerða því þetta aðgerðaleysi forystu ASÍ og ofbeldi af hálfu SA er alls ekki hægt að líða lengur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image