• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Mar

Hví í ósköpunum styrkist íslenska krónan ekki?

Afhverju styrkist krónan ekki?Afhverju styrkist krónan ekki?Hví í ósköpunum stendur á því að íslenska krónan styrkist ekki í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að vöruskiptajöfnuður hefur verið gríðarlega jákvæður á síðustu tveimur árum? Árið 2009 var vöruskiptajöfnuður 87 milljarðar og bráðabirgðatölur fyrir árið 2010 sýna að vöruskiptajöfnuður er allt að 119  milljarðar. Og einnig hafa borist af því fréttir að vöruskiptajöfnuður fyrstu mánuði þessa árs sé umtalsverður.

Samt sem áður hefur íslenska krónan veikst um tæp 5% frá því hún var hvað sterkust í nóvember síðastliðnum. Hver skyldi ástæðan vera fyrir þessu? Það hlýtur að vera krafa íslenskra launþega og neytenda að fá skýringar á því hví íslenska krónan styrkist ekki í ljósi áðurnefndra staðreynda.

Nú liggur fyrir að það eru gjaldeyrishöft hér á landi og því er skilaskylda útflutningsfyrirtækja á gjaldeyri. Getur það verið að ástæðan fyrir því að íslenska krónan styrkist ekki sé að útflutningsfyrirtæki, til dæmis sjávarútvegsfyrirtæki, skipti ekki þeim erlenda gjaldeyri sem þeir fá fyrir sínar afurðir í íslenskar krónur heldur liggi með þá inn á IG reikningum í Seðlabankanum sem verður þess valdandi að íslenska krónan styrkist ekkert þess í stað heldur hún áfram að falla. Getur einnig verið að eigendur útflutningsfyrirtækja sjái sér leik á borði með því að skipta ekki erlendum gjaldeyri í íslenskar krónur til að halda gengi krónunnar veiku til að fá meira fyrir sínar afurðir og vilji bíða eftir afnámi gjaldeyrishafta til að hagnast enn meira eftir að íslenska krónan hefur fallið í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta.

Ef þetta er raunin að útflutningsfyrirtæki eru ekki að skipta sínum erlenda gjaldmiðli yfir í íslenskar krónur, sem verður þess valdandi að íslenska krónan nær ekki að rétta úr kútnum, þá er það grafalvarlegt mál, sérstaklega í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins eru að krefja íslenska launþega um að ganga frá hófstilltum kjarasamningum til að tryggja hér stöðugleika sem eigi að leiða til þess að íslenska krónan styrkist.

 

Almenningur vill svör.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness krefst þess að Seðlabankinn, fjármálaráðuneytið og Samtök atvinnulífsins skýri það út fyrir almenningi á mannamáli á hvaða forsendu íslenska krónan styrkist ekki í ljósi þess gríðarlega vöruskiptajafnaðar sem hér hefur verið á undanförnum tveimur árum.

Formaður VLFA kaupir það alls ekki að Már Guðmundsson Seðlabankastjóri viti ekki ástæðuna fyrir því að íslenska krónan hefur fallið um 5% á síðastliðnum fimm mánuðum þrátt fyrir gríðarlega hagstæðan vöruskiptajöfnuð eins og fram kom í fréttum í gær..

Það er hins vegar morgunljóst að það hjálpar ekki íslensku krónunni þegar ráðamenn þjóðarinnar, eins og til dæmis efnahagsmálaráðherra, Seðlabankastjóri, forseti ASÍ og Samtök atvinnulífsins segja jafnt á innlendum sem erlendum vettvangi að íslenska krónan sé nánast ónýtur gjaldmiðil.   Hví tala ráðamenn með slíkum hætti þegar liggur fyrir að slíkur málflutningur getur haft skaðleg áhrif á gjaldmiðil okkar íslendinga?

Almenningur á rétt á að fá skýr svör við þessum spurningum enda liggja gríðarlegir hagsmunir fyrir íslenska neytendur að krónan styrkist.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image