• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Mar

Ólíðandi vinnubrögð

Það er alveg með ólíkindum að verða vitni að því að kjaraviðræður Alþýðusambands Íslands við Samtök atvinnulífsins hreyfast ekki nokkurn skapaðan hlut, en eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá vinna þessir aðilar að því að ganga frá kjarasamningum þar sem samræmd launastefna er höfð að leiðarljósi.

Nú eru liðnir 113 dagar, eða tæpir 4 mánuðir frá því kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út og hafa því launþegar ekki fengið launahækkun á því tímabili. Samkvæmt fréttum er ekkert að gerast og hefur m.a. formaður Samtaka atvinnulífsins sagt viku eftir viku að nú séu 2-3 vikur þar til hægt verði að ganga frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði.

Formann setur hljóðan við þessi vinnubrögð, en það er æði margt sem bendir til þess að Samtök atvinnulífsins haldi kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði í algerri herkví vegna ágreinings samtakanna við ríkisstjórnina í sjávarútvegsmálum. Það er einnig æði margt sem bendir til þess að engin hreyfing muni komast á kjaraviðræður fyrr en frumvarp á fiskveiðistjórnunarkerfinu verði lagt fram. Ef frumvarpið verður með þeim hætti að það þóknist ekki Samtökum atvinnulífsins þá mega íslenskir launþegar búast við því að ekki verði hægt að ganga frá neinum kjarasamningum.

Þetta eru náttúrulega vinnubrögð sem eru þessum aðilum til ævarandi skammar því launþegar geta ekki horft upp á það að vanda ríkis, sveitarfélaga og verslunareigenda sé varpað viðstöðulaust yfir á neytendur á meðan ekki er hægt að ganga frá kjarasamningum við launafólk.

Það er einnig alveg ljóst að Alþýðusamband Íslands hefur brugðist algerlega í þessum kjaraviðræðum á grundvelli þeirrar staðreyndar að þeir hafa samþykkt að vinna samræmdri launastefnu. Þetta gerir það að verkum að stéttarfélög eins og Verkalýðsfélag Akraness nær ekki að ganga frá kjarasamningum við vel stæð fyrirtæki sem eru starfandi í útflutningi.

Það er mat formanns VLFA að nú verði hinn almenni launþegi að fara að rísa upp og mótmæla þessum vinnubrögðum harðlega og krefja verkalýðshreyfinguna um að láta Samtök atvinnulífsins ekki komast upp með að draga kjaraviðræðurnar m.a. út af ágreiningi við ríkisvaldið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image