• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Feb

Viðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna Elkem og Klafa slitið hjá ríkissáttasemjara

Járnblendiverksmiðjan á GrundartangaJárnblendiverksmiðjan á GrundartangaÁ miðvikudaginn var haldinn fundur hjá ríksisáttasemjara vegna kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness við Samtök atvinnulífsins vegna kjarasamnings Elkem Íslands og Klafa.

Það er óhætt að segja að þetta hafi verið algjörlega árangurslaus fundur og lítinn sem engan samningsvilja að finna af hálfu Samtaka atvinnulífsins. Samtökin buðu reyndar endurskoðun á bónuskerfinu en grundvallaratriðið var sá málflutningur sem kom fram hjá forsvarsmönnum SA sem byggðist á því að ekki yrði samið við samninganefnd Elkem um launalið samningsins. 

Það kom skýrt fram í máli þeirra að það væri verið að semja um samræmda launastefnu og það væri það sem yrði í boði fyrir starfsmenn Elkem eins og alla aðra launþega. Það er í raun og veru með hreinustu ólíkindum að heyra þennan málflutning í ljósi þeirra staðreynda að með þessum orðum er verið að taka kjarasamningsbundinn rétt starfsmanna Elkem Ísland og færa hann yfir til þriðja aðila sem er í þessu tilfelli Alþýðusamband Íslands.

Verkalýðsfélag Akraness hefur aldrei falið Alþýðusambandi Íslands eða samninganefnd ASÍ að ganga frá kjarasamningum fyrir félagið. Á þeirri forsendu er undarlegt að heyra forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins tilkynna það að það verði einhverjir aðrir sem muni semja um launahækkanir heldur en þeir sem fara með samningsumboðið.

Þetta er náttúrulega ekkert annað en ofbeldi af verstu gerð og reyndar hefur formaður sagt að hann dragi það stórlega í efa að þetta standist lög um stéttarfélög og vinnudeilur, það er að segja, að það eigi að taka kjarasamningsbundinn rétt starfsmanna Elkem og Klafa og semja um hann við aðra heldur en þá sem umboðið hafa.

Kjarni málsins er hins vegar sá að samninganefnd Elkem og Klafa hefur sýnt fullkominn samningsvilja og hafa lagt fram tillögur þar að lútandi en svar Samtaka atvinnulífsins er skýrt: Við ætlum að semja til þriggja ára og við ætlum að semja í anda samræmdrar launastefnu. Þið skuluð hlýða okkur í einu og öllu er það sem má lesa út úr þessum orðum.

Þegar þetta lá orðið fyrir að það væri nánast búið að taka kjarasamningsbundinn rétt af samninganefndinni og færa hann til ASÍ þá var ekkert annað í stöðunni en að slíta viðræðum við Samtök atvinnulífsins og mun verða boðað til fundar með starfsmönnum strax í byrjun næstu viku þar sem ákvörðun verður tekið um hvernig skuli bregðast við þessu. Því miður er æði margt sem bendir til þess að það stefni í hörð átök á þessu svæði. En að sjálfsögðu eru það starfsmennirnir sjálfir sem taka ákvörðun um slíkt en það er mat formanns að þetta ofbeldi sem þessir aðilar sýna sé ekki hægt að líða og er íslensk verkalýðsbarátta nánast í húfi.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image