• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Jan

Kosið verður um vinnustöðvun á morgun

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness, sem er jafnframt aðal samninganefnd félagsins, kom saman til fundar í gær. Formaður fór yfir með samninganefndinni þá alvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu við Samtök atvinnulífsins og rakti fyrir samninganefndinni hvað hefur verið að gerast. Einnig fór formaður yfir stöðu annarra kjarasamninga sem félagið er aðili að eins og við Elkem Ísland, Klafa, sveitarfélögin og Norðurál.

En aðalmál fundarins var fyrirhuguð vinnustöðvun í síldarbræðslunni og samþykkti samninganefnd félagsins að kosið verði um verkfall í verksmiðjunni, verkfall sem tekur gildi í byrjun febrúar og mun kosningin fara fram á morgun.  Formaður fór yfir tilboð sem félagið hafði gert forsvarsmönnum HB Granda til lausnar á þessari grafalvarlegu deilu og harmaði samninganefndin að ekki skuli hafa verið samningsvilji af hálfu Samtaka atvinnulífsins. Æði margt bendir til þess að þessi samræmda launastefna sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, vinna nú ötullega að, sé að stórskemma stöðu þeirra starfsmanna sem starfa í fyrirtækjum tengdum útflutningi. Rétt er að það komi fram að gríðarlegur einhugur og samstaða ríkti í samninganefnd Verkalýðsfélags Akraness um verkfallsboðun í síldarbræðslunni og síðast en ekki síst að hafna alfarið þessari samræmdu launastefnu.

Formaður félagsins hefur gagnrýnt harðlega þá afskiptasemi forseta ASÍ af þeim kjaraviðræðum sem nú eiga sér stað og telur hann vera kominn langt út fyrir sitt valdasvið, enda liggur samningsumboðið hjá stéttarfélögunum en ekki hjá Alþýðusambandi Íslands.  

18
Jan

Kjaradeilunni vísað til ríkissáttasemjara

Í gær kom samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands saman þar sem þrjú mál voru aðallega til umfjöllunar. Í fyrsta lagi var fjallað um hvort Starfsgreinasambandið ætti að taka þátt í samræmdri launastefnu. Þá var fjallað um hvort vísa ætti deilu Starfsgreinasambandsins til ríkissáttasemjara og í þriðja lagi voru sérkjarasamningar fiskimjölsverksmiðja ræddir. En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa Samtök atvinnulífsins sagt að fiskimjölssamningarnir séu hluti af aðalkjarasamningi og nú stefnir í verkföll í fiskimjölsverksmiðjunum.

Formaður félagsins, sem er fulltrúi í samninganefnd Starfsgreinasambandsins, ítrekaði þá skoðun Verkalýðsfélags Akraness að það muni ekki taka þátt í samræmdri launastefnu, launastefnu sem byggist á 3 ára samningi þar sem allir launþegar verða settir upp í einn og sama sporvagninn, algjörlega óháð getu einstakra greina. Það hefur komið fram hér á heimasíðunni að félagið vill sækja meira á útflutningsgreinarnar, einvörðungu vegna þess að þær hafa fulla burði til að skila sínum ávinningi vegna falls krónunnar til starfsmanna.

Á fundinum var samþykkt að vísa deilunni til ríkissáttasemjara enda liggur fyrir að nú eru liðnar rúmar 6 vikur frá því kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði rann út og hefur þessi vinna við að gera nýjan kjarasamning gengið afskaplega hægt. Því er full ástæða til að vísa deilunni til sáttasemjara. Nú þegar liggur fyrir að Starfsgreinasambandið er búið að vísa deilunni til ríksisáttasemjara og á þessari stundu er fátt sem getur komið í veg fyrir verkföll í síldarbræðslunum. En rétt er að ítreka það að Verkalýðsfélag Akraness gerði forsvarsmönnum HB Granda tilboð til að leysa þessa deilu, tilboð sem var hagstætt báðum deiluaðilum en eftir sólarhrings umhugsunarfrest var því hafnað af hálfu forsvarsmanna fyrirtækisins.

13
Jan

Verkfall undirbúið

Verkalýðsfélag Akraness er nú byrjað af fullum krafti að undirbúa verkfall í fiskimjölsverksmiðjunni á Akranesi en félagið hefur átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna þessa sérkjarasamnings án árangurs. Í framhaldi af þeim áranguslausu viðræðum setti formaður sig í samband við forstjóra HB Granda, en HB Grandi á fiskimjölsverksmiðjuna.  Formaður félagsins lagði fram hugmynd að lausn á deilunni en því miður höfnuðu forsvarsmenn fyrirtækisins þessari tillögu eftir sólarhrings umhugsunarfrest. Á þeirri forsendu var haldinn fundur með starfsmönnum í morgun þar sem var ákveðið að láta kjósa um verkfall en sú kosning mun væntanlega fara fram í byrjun næstu viku.

Það er rétt að geta þess að gríðarlegur einhugur var á meðal starfsmanna að grípa til aðgerða vegna afstöðu Samtaka atvinnulífsins til gerð nýs sérkjarasamnings fyrir starfsmenn Síldarverksmiðjunnar.

Það er því fátt sem virðist geta komið í veg fyrir það á þessari stundu að verkfall skelli á í fiskimjölsverksmiðjunni á Akranesi í byrjun næsta mánaðar. Það er í raun og veru með hreinustu ólíkindum að Samtök atvinnulífsins og forsvarsmenn HB Granda skuli ekki hafa verið tilbúnir til að taka sáttartillögu félagsins sem hefði í huga formanns klárlega verið báðum deiluaðilum til mikilla hagsbóta. Formaður hefur gert ríkissáttasemjara grein fyrir þeirri grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í þessari deilu og mun hann fylgjast með framvindu mála eins og lög kveða á um.

Byrjunarlaun starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjunum eru í dag rúmar 224 þúsund krónur fyrir fullan dagvinnumánuð. Það er ljóst að starfsmenn síldarbræðslunnar hafa orðið fyrir umtalsverðri kjaraskerðingu frá janúar 2008 en eins og allir vita þá hafa ríki, sveitarfélög, orkufyrirtæki og nánast allir aðilar varpað sínum vanda viðstöðulaust yfir á íslenska launþega.  Einnig hafa skuldir heimilanna stökkbreyst í kjölfar bankahrunsins.  

Rétt er að geta þess að sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið að gera mjög góða hluti á grundvelli stöðu íslensku krónunnar og nægir að nefna í þessu samhengi að mjöl hefur hækkað frá árslokum 2007 til dagsins í dag um 141% og lýsið hefur hækkað frá sama tíma um 110%. Á grundvelli þessara staðreynda er ljóst að þessi fyrirtæki hafa fulla burði og getu til að hækka laun sinna starfsmanna umtalsvert enda eru störf í fiskimjölsverksmiðjunum afar sérhæfð.  Á þessum forsendum m.a. er morgunljóst að atvinnurekendum verður mætt af fullum þunga í komandi kjarasamningum þegar engan samningsvilja er að finna hjá þeim.

Það hefur margoft komið fram hér á heimsíðu félagsins og einnig kom það fram í máli formanns félagsins á ársfundi ASÍ að Verkalýðsfélag Akraness er ekki undir nokkrum kringumstæðum að fara að taka þátt í þessum sýndarleik er lítur að samræmdri launastefnu sem forseti Alþýðusambands Íslands vinnur nú að með félaga sínum Vilhjálmi Egilssyni. Staða atvinnufyrirtækja er afar mismunandi en það liggur fyrir að til dæmis á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness eru gríðarlega stór og mikil útflutningsfyrirtæki og á þeirri forsendu, með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi, mun félagið ekki taka þátt í slíkri samræmdri launastefnu.

Þessi samræmda launastefna sem þeir félagar og kunningjar Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, vinna nú ötullega að, virðist byggjast á 3 ára kjarasamningi þar sem allir íslenskir launþegar eiga að fá sömu launahækkunina algjörlega óháð getu einstakra atvinnugreina.

Hvað þýðir þessi samræmda launastefna? Gefum okkur það sem að Samtök atvinnulífsins hafa ýjað að, það er hófstilltri prósentuhækkun með sambærilegum hætti og gerst hefur á Norðurlöndunum og eru þá menn væntanlega að tala um hækkun í kringum 3%. Það myndi þýða það að fiskvinnslukona eftir 15 ára starf fengi 6.700 kr. hækkun á mánuði eða að starfsmaður í fiskimjölsverksmiðju fengi um 7000 kr. hækkun miðað við þessar hugmyndir sem heyrst hafa. 

En hvað skyldu nú þeir félagar, Gylfi forseti ASÍ og Vilhjálmur Egilsson, fá ef þetta yrði hin samræmda launastefna upp á 3% launahækkun? Jú, Gylfi sem er með 1 milljón á mánuði fengi 30 þúsund króna hækkun á mánuði og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, fengi uppundir 60 þúsund króna hækkun en hann var með tæpa 1.9 milljón í mánaðarlaun samkvæmt Tekjublaði Mannlífs. Eða forstjórar þessara stóru fyrirtækja, eins og Norðuráls, Elkem, HB Granda og annarra stórfyrirtækja. Flestir þessara manna eru með vel á þriðju milljón á mánuði og þeir fengju á bilinu 70 - 90 þúsund króna hækkun á mánuði. Er þetta samræmda launastefnan sem að forystumenn ASÍ vilja sjá? Auka ójöfnuð hér á landi. Eru það þeir tekjuhæstu sem þurfa að fá mest? Svar Verkalýðsfélags Akraness við því er klárlega nei.

12
Jan

Bæjarstjóri Akraness í heimsókn á skrifstofu félagsins

Árni Múli Jónasson, bæjarstjóri á AkranesiÁrni Múli Jónasson, bæjarstjóri á AkranesiÍ dag heimsótti Árni Múli Jónasson, bæjarstjóri á Akranesi, skrifstofu félagsins. Með heimsókn sinni vildi bæjarstjórinn kynna sér starfsemi félagsins og fara almennt yfir stöðuna á okkar atvinnusvæði.

Formaður átti samtal við bæjarstjórann í tæpan klukkutíma og gerði honum grein fyrir stöðu kjarasamninga og stöðunni almennt varðandi atvinnuástand hér á Akranesi. Voru formaður og bæjarstjóri sammála um að hinar styrku stoðir í okkar atvinnulífi sem eru stóriðjusvæðið á Grundartanga, HB Grandi og vinnsla á hvalaafurðum skiptu sköpum fyrir okkar atvinnusvæði. Enda hefur komið í ljós að Akraneskaupstaður þurfti ekki að grípa til gjaldskrárhækkana eins og mörg önnur sveitarfélög.

Formaður fór yfir komandi kjarasamninga og kom á framfæri verulegum áhyggjum sínum af þeim kjaraviðræðum sem nú eiga sér stað, en hann upplýsti bæjarstjóranum um stefnu félagsins í komandi kjarasamningum. Krafa félagsins er sú að þau fyrirtæki sem eru starfandi í útflutningi eins og stóriðjan á Grundartanga og fiskvinnslustöðvar komi með umtalsverða hækkun til sinna starfsmanna í ljósi hagstæðra aðstæðna vegna gengisþróunar.

Einnig kom fram í máli formanns að hann telur umtalsverðar líkur á átökum á vinnumarkaði ef ekki verður fallist á þá kröfu að lagfæra laun þeirra tekjulægstu og að ávinningi útflutningsfyrirtækja verði skilað til starfsmanna þeirra fyrirtækja.

Heimsókn bæjarstjóra var mjög ánægjuleg og voru formaður og bæjarstjóri sammála um að halda góðu sambandi vegna þeirra mála er lúta að hagsmunum beggja aðila.

11
Jan

Samræmd launastefna kemur ekki til greina

Húsakynni ríkissáttasemjara við BorgartúnHúsakynni ríkissáttasemjara við BorgartúnÍ gær hittist samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands í húsakynnum ríkissáttasemjara. Á þessum fundi var samninganefndin að vega og meta þá stöðu sem upp er komin í viðræðum við Samtök atvinnulífsins en nú eru að verða liðnar 6 vikur frá því að kjarasamningurinn rann út. Það er alveg ljóst að óþreyju er farið að gæta hjá félagsmönnum sem eðlilegt er því launafólk þarfnast launahækkana til að mæta þeim skefjalausu skatta- og gjaldskrárhækkunum sem dunið hafa á launþegum á undanförnum misserum.

Samræmd launastefna var til umræðu í gær en það er mat formanns félagsins að slíkt komi ekki til greina enda sé Starfsgreinasambandið búið að móta sína kröfugerð, kröfugerð sem byggist á því að hækka lágmarkslaun upp í 200 þúsund krónur frá undirritun kjarasamnings. Einnig er sú krafa skýr að útflutningsgreinar eins og til dæmis fiskvinnslan komi myndarlega til móts við sína starfsmenn á grundvelli þess að slík fyrirtæki hafa verið að hagnast umtalsvert vegna gengisfalls krónunnar.

Það er mat formanns að það sé í raun og veru að verða tímabært fyrir samninganefnd SGS að vísa þessari deilu til ríkissáttasemjara því það gengur ekki upp öllu lengur að lítið sem ekkert þokist í þessum viðræðum. Það er ekki ólíklegt að ef ekki dregur til tíðinda í þessari viku eða byrjun næstu viku að deilunni verði vísað til ríkissáttasemjara.  

06
Jan

Eru kaldar kjaraviðræður framundan í vetur?

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands mun funda með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins í húsakynnum Ríkissáttasemjara á morgun. Er þetta fyrsti fundurinn á þessu ári, en ljóst er að nú munu kjaraviðræðurnar hefjast að fullu.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur samninganefndin þegar lagt fram kröfugerð og byggist hún á hækkun lágmarkslauna úr 165.000 kr. í 200.000 kr. frá 1. desember sl. auk töluverðra tilfærslna starfa á milli launaflokka.

Félagið er einnig að hefja viðræður á fullu vegna kjarasamninga Elkem Ísland, Klafa og Síldarbræðslunnar á Akranesi auk þess sem launaliður kjarasamnings Norðuráls er laus frá síðustu áramótum. Félagið hefur skilað inn kröfugerð vegna þessara samninga, en þess er krafist að laun hækki um rúm 27%.

Þessa stundina ríkir vetrarveður hér á landi og er það tilfinning formanns félagsins að þær kjaraviðræður sem nú fara í hönd geti orðið jafn stormasamar og kaldar og það veður sem nú geisar. Það er á forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins að skilja að samningsvilji þeirra er lítill, ef marka má áherslur þeirra. En þeir leggja áherslu á langtímasamning til þriggja ára án þess að umframhækkun komi á umsamda kauptaxta kjarasamninga.

Það er algjörlega morgunljóst að félagið mun sækja fram af fullum þunga gagnvart þeim útflutningsfyrirtækjum sem félagið er með samninga við eins og t.d. Elkem Ísland og Norðurál auk þeirra fiskvinnslufyrirtækja sem selja sínar afurðir í erlendri mynt. Þessi fyrirtæki hafa fulla burði og getu til að hækka laun sinna starfsmanna umtalsvert.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image