• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Nov

Varnaðarorðin farin að berast vegna komandi kjarasamninga

Af hverju eiga fiskvinnslufyrirtækin að komast hjá því að hækka laun sinna starfsmanna?Nú heyrast sömu varnaðarorðin og heyrðust fyrir kjarasamningana á hinum almenna vinnumarkaði árið 2008, það er að segja frá Samtökum atvinnulífsins og Seðlabankanum. Þessir aðilar kalla nú eftir að gengið verði frá hófstilltum kjarasamningum til að tryggja hér stöðugleika og flýta efnahagslegum bata.

Rétt er að geta þess að þetta eru sömu varnaðarorðin og heyrðust eins og áður sagði árið 2008. Verkalýðshreyfingin gekk frá hófstilltum kjarasamningum. Verðbólgan var einungis 5,6% þá og áttu samningarnir á hinum almenna vinnumarkaði að tryggja að verðbólgan yrði komin niður í 2,5% örfáum mánuðum síðar. Þrátt fyrir að gengið hafi verið frá hófstilltum kjarasamningum þá varð hér algjört efnahagshrun með skelfilegum afleiðingum fyrir íslenskt verkafólk sem gat ekki borið nokkra ábyrgð á þessu hruni.

Nú á að biðja þessa sömu aðila sem eru búnir að taka á sig stórfelldar hækkanir frá sveitarfélögum, ríki, tryggingarfélögum, verslunareigendum, orkufyrirtækjum og svo framvegis, að sýna skynsemi í sínum kjarasamningum og ganga frá afar hófstilltum launahækkunum. Óréttlætinu ætlar með öðrum orðum ekkert að ljúka og það á að halda áfram að varpa öllum vandanum viðstöðulaust yfir á íslenska launþega.

Vissulega eru atvinnugreinar í okkar samfélagi sem eiga í erfiðleikum eins og til dæmis byggingariðnaðurinn og síkum greinum þarf eðli málsins samkvæmt að sýna skilning í komandi kjarasamningum. En að Samtök atvinnulífsins skuli gera kröfu um það að greinar sem hafa verið að hangast gríðarlega vegna gengishruns krónunnar komist hjá því að skila þeim ávinningi til sinna starfsmanna er algjörlega ólíðandi og verður ekki látið viðgangast. Af hverju eiga til dæmis fiskvinnslufyrirtækin að komast hjá því að hækka laun sinna starfsmanna umtalsvert eða til dæmis stóriðjufyrirtækin sem selja allar sínar afurðir í erlendri mynt en borga laun sín í íslenskum krónum. Það er alveg klárt mál að mati Verkalýðsfélags Akraness að þessi fyrirtæki hafa fulla burði og getu til að hækka laun sinna starfsmanna umtalsvert meira heldur en aðrar atvinnugreinar í íslensku samfélagi.

Það er einnig siðferðisleg skylda atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar að lagfæra lágmarkslaun á Íslandi. Það gengur ekki upp lengur að bjóða hér upp á launataxta þar sem útilokað er að framfleyta sér á. Ef verkalýðshreyfingunni mistekst að lagfæra þessi lágmarkslaun þá hvílir sú skylda á Alþingi Íslendinga að lögbinda hér lágmarkslaun með þeim hætti að það gefi þeim sem fá greitt eftir þeim tækifæri til að framfleyta sér og sínum.

Það vakti athygli formanns félagsins að í frétt inni á vef Samtaka atvinnulífsins kemur fram að viðræður við verkalýðshreyfinguna séu hafnar vegna komandi kjarasamninga. Þessi frétt vakti undrun mína, sérstaklega í ljósi þess að stærsta landssambandið innan Alþýðusambands Íslands er ekki einu sinni búið að móta sína kröfugerð endanlega og þaðan af síður að ganga frá samninganefnd. Því veltir formaður því fyrir sér við hverja forsvarsmenn SA eru að ræða vegna komandi kjarasamninga, varla getur það verið við forystumenn Alþýðusambandsins vegna þess að ASÍ fer ekki með samningsumboð vegna komandi kjarasamninga heldur liggur það hjá stéttarfélögunum sjálfum.

03
Nov

Verkalýðshreyfingin og flokkspólitískir hagsmunir

Niðurstöður könnunar sem framkvæmd var í Reykjavík síðdegis þann 21. október síðastliðinnNiðurstöður könnunar sem framkvæmd var í Reykjavík síðdegis þann 21. október síðastliðinnÞað fer vart framhjá neinum að forysta Alþýðusambands Íslands nýtur afar lítils traust á meðal hins almenna félagsmanns um þessar mundir. Nægir í því samhengi að vitna í skoðanakannanir sem gerðar hafa verið að undanförnu. Í könnun sem umsjónarmenn útvarpsþáttarins Reykjavík síðdegis gerðu kemur fram að 91% þeirra sem tók þátt bera lítið sem ekkert traust til verkalýðshreyfingarinnar og í könnun sem útvarp Saga gerði er þetta enn verra en þar kemur fram að tæplega 95% bera lítið traust til forystunnar. 

Þetta vantraust á forystu ASÍ kemur formanni Verkalýðsfélags Akraness alls ekki á óvart enda er hinum almenna félagsmanni m.a. tíðrætt um þá linkind sem forystan sýnir í verkum sínum er lítur að hagsmunagæslu fyrir sína félagsmenn.

Ugglaust eru mjög margar skýringar á þessu vantrausti sem félagsmenn ASÍ bera til forystunnar, en þetta vantraust er grafalvarlegt fyrir verkalýðshreyfinguna í heild sinni, því það er grundvallaratriði að verkalýðshreyfingin njóti trausts og trúverðugleika á meðal sinna félagsmanna. 

Eitt af því sem formaður telur að hafi grafið undan trausti almennings á forystu ASÍ er að margir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar eru yfirlýstir stuðningsmenn ákveðinna stjórnmálaflokka. Nægir að nefna í því samhengi ummæli núverandi forseta ASÍ, Gylfa Arnbjörssonar, þegar formannskjör fór fram í Samfylkingunni árið 2005 á milli Össurar Skarphéðinssonar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þar sagði forsetinn orðrétt: 

"Verkalýðshreyfingin mun fylkja sér að baki nýjum formanni Samfylkingarinnar, hver sem hann verður, en stuðningur hennar við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur er ótvíræður."

Það er mat formanns að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki undir nokkrum kringumstæðum að vera eyrnamerktir einhverjum einum ákveðnum stjórnmálaflokki, enda eru forystumenn í stéttarfélögum að vinna fyrir félagsmenn sem koma úr öllum stjórnmálaflokkum. Einnig þurfa forystumenn að vera hafnir yfir allan vafa að þeir séu að vinna af fullum heilindum að hagsmunum sinna félagsmanna en ekki flokkspólitískum hagsmunum síns flokks.

Forystumenn í verkalýðshreyfingunni eiga að styðja öll mál sem þeir telja að séu til hagsbóta fyrir sína félagsmenn algjörlega óháð því frá hvaða stjórnamálaflokki slík mál kunna að koma. 

Trúverðugleiki einstakra forystumanna ASÍ er eðlilega dreginn í efa í hinum ýmsu málum er lúta að flokkspólitískum málum í ljósi þeirra staðreynda að einstaka forystumenn ASÍ hafa marglýst yfir opinberum stuðningi við annan stjórnarflokkinn. Formaður spyr sig: Af hverju lagði ASÍ svona mikla áherslu á að forseti Íslands myndi staðfesta samning um Icesave og málinu yrði ekki vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu, getur verið að flokkspóltískir hagsmunir hafi ráðið þar för? Hvað kom ekki fram á heimasíðu Starfsgreinasambands Íslands þegar ljóst var að forseti íslands var búinn að tilkynna að hann ætlaði að vísa málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, en þar komu meðal annars fram þessi ummæli:  "Forseti lýðveldisins kemur fram af miklu ábyrgðarleysi gagnvart efnahagsvanda þjóðarinnar". 

Rétt er að rifja það upp að 98% þjóðarinnar hafnaði Icesavesamningunum í þessari kosningu. Reyndar hefur formaður aldrei skilið það af hverju forysta ASÍ hefur lagt svona mikla áherslu á að samþykkja ábyrgð okkar Íslendinga á innistæðum í erlendum bönkum, sérstaklega í ljósi þess að allir lögspekingar landsins telja að engin lagaleg rök séu fyrir slíkri ábyrgð. Á sama tíma hefur forysta ASÍ ekki talað fyrir almennri leiðréttingu á þeim forsendubresti sem að hér varð á skuldum heimilanna og hefur ætíð talað fyrir sértækum aðgerðum hvað það varðar.

Formaður óttast það að verkalýðshreyfingin hafi því miður í gegnum árin og áratugina alltof oft verið misnotuð í flokkspólitískum tilgangi en slíkt grefur eðli málsins samkvæmt undan trausti og trúverðugleika hreyfingarinnar í heild sinni.

Eins og áður sagði er það mín bjargfasta skoðun að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi alls ekki að vera yfirlýstir stuðningsmenn einhverra ákveðinna stjónmálaflokka heldur eiga þeir að vinna að einni pólitík og það er að sjálfsögðu verkalýðspólitík.

01
Nov

Lögbinda þarf lágmarkslaun ef...

Nú eru aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands hvert á fætur öðru að móta sínar kröfugerðir vegna komandi kjarasamninga. Það er ljóst að mörg aðildarfélög innan SGS vilja leggja ríka áherslu á að lagfæra lágmarkslaun og lágmarkstaxta enda er það skoðun margra að þau lágmarkslaun sem í gildi eru í dag dugi engan veginn fyrir lágmarksframfærslu. 

En nú er farinn að berast grátur frá atvinnurekendum um að hækkun launa sé vart til umræðu og nefna þeir að þeir geti einungis hækkað laun sem nemur frá 1-2%. Þetta er sami grátur og hefur svosem heyrst áður þegar kemur að því að kjarasamningar hjá verkafólki eru lausir. Þó vissulega séu ákveðnar greinar í íslensku samfélagi sem eiga erfitt um þessar mundir þá eru einnig klárlega til greinar sem eru að gera mjög góða hluti og nægir að nefna útflutningsgreinarnar í því samhengi.

Það er rétt að geta þess að stór hluti félagsmanna innan Starfsgreinasambandsins er að fá greidd laun eftir þeim launatöxtum sem í gildi eru en lægsti taxtinn sem hægt er að greiða eftir þar er 157.752 kr. Hæst getur fólk komist í 193.936 kr. samkvæmt launaflokki 17 eftir 7 ára starf. En langflestir eru í launaflokkum frá 1 til 7 þar sem eru laun frá 157 þúsund til 174 þúsund fyrir fulla dagvinnu.

Það er morgunljóst í huga formanns Verkalýðsfélags Akraness að þessa launataxta verður að lagfæra með afgerandi hætti í komandi kjarasamningum og tryggja verður að lágmarkslaun á Íslandi verði alls ekki undir 200 þúsund krónum þegar gengið hefur verið frá nýjum kjarasamningi. Það eru flestir sammála því að lágmarkslaun á Íslandi eru samfélagslegt mein sem verður að lagfæra. Nægir að nefna orð Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra, en fram kom í máli hans í fréttum ekki alls fyrir löngu að það sé staðreynd að lágmarkslaun séu mjög lág fyrir tekjulægstu hópana.

Einnig sagði Runólfur Ágústsson, stjórnarformaður Vinnumálastofnunar, að lágmarkslaun á Íslandi séu það lág að það sé enginn hvati fyrir einstaklinga að fara af til dæmis atvinnuleysisbótum yfir á þau lágmarkslaun sem nú er verið að greiða. Með þessu er ekki verið að segja það að örorku- og atvinnuleysisbætur séu of háar því það vita allir að þesar bætur eru einnig skammarlega lágar og það þarf að lagfæra.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að nú verði fulltrúar Starfsgreinasambands Íslands að standa fast í lappirnar hvað varðar lagfæringu á launatöxtum SGS því þeir launataxtar sem nú eru í gildi eru atvinnurekendum og okkur í Starfsgreinasambandinu til skammar. Það er einnig morgunljóst að ef verkalýðshreyfingunni ber ekki gæfa til að lagfæra lágmarkslaunin þannig að þau dugi fyrir lágmarksframfærslu þá verður Alþingi Íslendinga að lögbinda lágmarkslaun hér þannig að launþegar verði tryggðir fyrir því að lágmarkslaun dugi fyrir lágmarksframfærslu. Rétt er að rifja upp að núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, ásamt fleiri Samfylkingarþingmönnum, lögðu fram frumvarp um lögbindingu lágmarkslauna síðast 2005 og það er afar fróðlegt að lesa greinargerðina sem fylgdi með frumvarpinu. Það sem fram kom í þeirri greinargerð á svo fyllilega við í dag. Hér koma nokkur atriði sem fram komu í umræddri greinargerð:

"Lág taxtalaun hér á landi eru efnahagslegt vandamál. Þau leiða til þess að ýmsir sem eru á þessum launum eiga vart fyrir mat, hvað þá að þeir geti nýtt sér þá þjónustu sem eðlilegt er að veitt sé í nútímaþjóðfélagi".

Lægstu taxtalaunin eru svo lág að það er gjörsamlega óverjandi fyrir þjóðfélagið. Ekki má gleyma því að fjölmargir fá greitt samkvæmt þessum töxtum og má þar nefna ófaglært starfsfólk, ekki hvað síst á vegum hins opinbera".

Frumvarp þetta er liður í þeirri stefnumörkun jafnaðarmanna að skapa hér mannsæmandi umhverfi fyrir launafólk og stuðla jafnframt að heilbrigðu og þróttmiklu efnahagslífi. Ef þessi leið verður ekki farin og taxtalaunin látin eiga sig eina ferðina enn í næstu kjarasamningum mun sífellt stærri hópur launamanna sitja eftir með lágmarkstaxta og ekki eiga sér viðreisnar von. Við megum ekki láta mál þróast á þann veg".

Það sem kom fram í þessari greinargerð á svo sannarlega við enn þann dag í dag og vill formaður ítreka það að ef verkalýðshreyfingunni tekst ekki að lagfæra þessi skammarlegu lágmarkslaun þá er kjörið tækifæri fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, núverandi forsætisráðherra og flutningsmann þessa frumvarps, að leggja fram nýtt frumvarp um lögbindingu lágmarkslauna til hjálpar þeim sem minnst mega sín í íslensku samfélagi.

Eins og áður kom fram þá er stór hluti félagsmanna innan SGS að starfa eftir áðurnefndum launatöxtun en að sjálfsögðu þarf að tryggja það að þeir sem að taka ekki laun eftir þessum töxtum fái einnig launahækkanir í komandi kjarasamningum. Enda gengur það alls ekki upp að allir, ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, tryggingafélög, orkufyrirtæki og svo framvegis varpi sínum vanda stöðugt yfir á íslenska launþega. Nú er fyrsta tækifæri hjá íslenskum launþegum að bæta sinn hag en það er í gegnum sína kjarasamninga.

28
Oct

Fundað með atvinnuleitendum

Í gær fundaði formaður með atvinnuleitendum í Þorpinu þar sem haldin eru hin ýmsu námskeið fyrir atvinnuleitendur á Akranesi. Fundurinn var afar gagnlegur, en fjölmargar spurningar bárust til formanns um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði.

Fram kom í máli atvinnuleitenda að þeim finnist ósanngjarnt að þegar þeir eða börn þeirra lendi í veikindum þá missi þeir bætur sökum þess. Formaður tók undir þessa ábendingu, en benti á að þeir sem taka ákvörðun um að greiða félagsgjald til síns stéttarfélags eiga þar með rétt á sjúkradagpeningum fyrir þá daga sem þeir missa bætur. Hjá VLFA á viðkomandi atvinnuleitandi rétt á sjúkradagpeningum strax og er ekkert sem kveður á um að atvinnuleitandi þurfi að hafa vera frá í 10 daga eða lengur eins og tíðkast hjá sumum stéttarfélögum.

Formaður greindi einnig frá öllum þeim réttindum sem fólk hefur taki það ákvörðun um að greiða til félagsins og eru umtalsverðir hagsmunir þar í húfi fyrir atvinnuleitendur. Fram kom í máli nokkurra að þeir töldu afar brýnt að fundin yrði út svokölluð lágmarksframfærsla því þær grunnbætur sem fólki standa til boða duga engan veginn til þess að standa undir nauðsynlegri framfærslu. Formaður gerði þeim grein fyrir afstöðu VLFA til þessa máls og þeirri áskorun sem hann hefur lagt til forseta ASÍ um að hagdeild ASÍ finni þessa lágmarksframfærslu út enda er það skoðun formanns að lágmarkslaun og lágmarksbætur dugi engan veginn til að fólk geti látið enda ná saman og framfleytt sér og sínum.

27
Oct

Fundurinn um fátækt í gær heppnaðist vel

Fundur um fátækt sem Bót, félag aðgerðasinna um bætt samfélag, stóð fyrir í gærkvöldi heppnaðist mjög vel. Þónokkur fjöldi fólks var mætt á fundinn en fundurinn var haldinn í Salnum í Kópavogi og það var afar ánægjulegt að sjá að forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, þáði boð um að koma á fundinn. Það er alveg ljóst að það er gríðarlega mikilvægt að forseti Íslands skuli leggja þessu brýna málefni lið er lítur að fátækt á Íslandi.

Allri ríkisstjórn Íslands var boðið á fundinn en því miður var einungis einn ráðherra sem mætti en það var Ögmundur Jónasson. Einnig var hinum ýmsu hagsmunaaðilum úr meðal annars atvinnulífinu boðið að sitja fundinn. Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, flutti erindi er lítur að skyldu yfirvalda til að reikna út lágmarksframfærslu og einnig voru frummælendur talsmenn öryrkja, aldraðra, atvinnuleitenda og félagsbótaþega. 

Fjölmargar fyrirspurnir bárust úr sal og var alveg ljóst að mörgum var heitt í hamsi yfir því ástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi og krafa fólksins er alveg hvellskýr: Það er að reiknaður verði út lágmarksframfærslustuðull sem sýnir með afgerandi hætti hvað einstaklingar og hinar ýmsu fjölskyldustærðir þurfi mikla fjármuni til að geta staðið undir venjubundnum rekstri heimilis. Einnig er krafan skýr um að lágmarkslaun og aðrar opinberar bætur hækki umtalsvert enda er ekki nokkur vegur fyrir einstaklinga að lifa á þeim lágmarkslaunum og -bótum sem nú er boðið upp á í íslensku samfélagi.

Það var afar ánægjulegt að finna þann mikla stuðning sem hinn almenni fundarmaður bar til Verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar á Húsavík en fram kom til dæmis í máli eins fundarmanna að þetta væru einu stéttarfélögin á landinu í dag sem væru að taka stöðu með sínum félagsmönnum. Formaður félagsins var fundarstjóri á þessum fundi og nýtti hann tækifæri sitt til að koma áherslum Verkalýðsfélags Akraness á framfæri. Fram kom hjá formanninum að það sé frumskylda í komandi kjarasamningum að hækka þau skammarlegu lágmarkslaun, sem nú eru einungis 165 þúsund krónur, umtalsvert í komandi kjarasamningum. Formaður sagði einnig að hann nánast fullyrti það að allir sem á fundinum væru gætu ekki framfleytt sér á þeim lágmarkslaunum sem boðið væri upp á í dag og það væri íslensku samfélagi, atvinnurekendum og okkur í verkalýðshreyfingunni til ævarandi skammar að lágmarkslaun skuli enn ekki duga fyrir lágmarksframfærslu.

26
Oct

Formaður Verkalýðsfélags Akraness verður fundarstjóri á borgarafundi í Salnum í Kópavogi í kvöld

Bót, aðgerðahópur um bætt samfélag, stendur fyrir borgarafundi í Salnum í Kópavogi í kvöld, þriðjudaginn 26. október. Fundurinn hefst klukkan 20:00 og ber yfirskriftina Fátækt á Íslandi - lágmarksframfærsla? Í tilkynningu frá félaginu segir að meginkröfur fundarins séu eftirfarandi:

  • Að útrýma fátækt á Íslandi, enginn svelti  og allir hafi heimili samkvæmt lögum.
  • Að raunveruleg lágmarksframfærsla verði reiknuð út opinberlega.
  • Að fjármunum okkar og eignum verði skilað til baka.
  • Að Ísland hætti að vera eina landið á Norðurlöndum sem fylgir láglaunastefnu og gerir ráð fyrir hjálparstofnunum og ölmusu.
  • Að velferðarkerfið standi undir nafni.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness verður fundarstjóri. Frummælendur verða talsmenn öryrkja, aldraðra, atvinnuleitenda og félagsbótaþega.

Forseti Íslands, ríkisstjórn og allir þingmenn hafa verið boðaðir á fundinn. Ýmsir fulltrúar stjórnvalda, sveitarfélaga, hagsmunasamtaka og félagasamtaka munu svara fyrirspurnum úr sal og taka þátt í umræðum sem skapast.

Verkalýðsfélag Akraness hvetur allt til að mæta á fundinn og sýna samstöðu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image