• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Óskiljanleg hagfræði Ingunn AK
14
Feb

Óskiljanleg hagfræði

Nú þegar rétt rúmur sólarhingur er í verkfall í Síldarbræðslunum þá hefur ríkissáttasemjari boðað til fundar í húsakynnum sínum klukkan 13 í dag. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur Verkalýðsfélag Akraness lagt fram tillögur að lausn á deilunni, meðal annars með því að bjóða framlengingu á núverandi sérkjarasamningi til 1. maí næstkomandi gegn eingreiðslu til handa hverjum starfsmanni en heildarkostnaður af þessu tilboði er á milli 2-3 milljónir króna. Á þessari forsendu er alveg með ólíkindum að hlusta á málflutning útgerðarmanna sem tala um að allt að 10 milljarðar séu í húfi ef til verkfalls kemur en hafna tilboði stéttarfélagsins upp á 2-3 milljónir þar sem loðnuvertíðinni yrði alfarið bjargað ef að því yrði gengið. Þetta er hagfræði sem formaður Verkalýðsfélags Akraness skilur á engan hátt.

Það er ekki bara að þetta tilboð hafi verið lagt fram á síðasta fundi sem haldinn var fyrir helgi. Félagið sló verulega af fyrri kröfu sinni eða yfir 50% og gerir nú kröfu um að launataxtar hækki um 13,5%. Sú krafa miðast við að þeirri kaupmáttarskerðingu sem starfsmenn hafa orðið fyrir verði skilað að fullu til baka. Það er rétt að geta þess líka að afkoma bræðslufyrirtækja er mjög góð um þessar mundir, ekki bara vegna gengisfalls íslensku krónunnar heldur hefur afurðaverð líka hækkað yfir 100% á síðustu tveimur árum.

Nú eru loðnuskipin byrjuð að streyma inn til hafnar og er nú þegar búið að binda Faxa RE og Ingunni AK hér við Akraneshöfn. Ábyrgð Samtaka atvinnulífsins er gríðarleg, að ætla að stefna þessari kjaradeilu í hörð átök þar sem 10 milljarðar eru í húfi, einvörðungu vegna þeirrar stefnu að neita að taka tillit til góðrar stöðu útflutningsfyrirtækja og gera kröfu um að allir íslenskir launþegar skuli fá sömu launahækkun. Það er morgunljóst að slíkt ofbeldi munu starfsmenn í útflutningsfyrirtækjum ekki sætta sig við enda engar forsendur fyrir því að þeim mikla ávinningi sem útflutningsfyrirtæki hafa fengið frá efnahagshruninu sé ekki skilað að einhverju leyti til starfsmanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image