• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Oct

Enn bætast við fyrirtæki sem bjóða félagsmönnum VLFA sérkjör!

Skrifstofa félagsins hefur fundið fyrir gríðargóðum viðbrögðum við átaki sem unnið hefur verið að undanförnu til að ná fram afsláttarkjörum fyrir félagsmenn. Félagið kynnti átakið með auglýsingu í staðarblöðum í vikunni og hefur hún vakið hefur frábær viðbrögð. Hægt er að sjá auglýsinguna með því að smella hér.

Í dag bættust fyrirtækin Olís og Model í hóp þeirra sem munu bjóða félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness ýmis sérkjör gegn framvísun félagaskírteinis.

Olís mun bjóða 7 króna afslátt af dæluverði á þjónustustöðvum Olís og 5 króna afslátt af dæluverði hjá ÓB. Auk þess er boðinn 5-15% afsláttur af ýmsum vörum og þjónustu hjá fyrirtækinu. Gengið verður frá endanlegum samningi eftir helgina.

Hægt er að sjá nánari upplýsingar um afsláttarkjör Olís með því að smella hér. 

Skjal um virkni og leiðbeiningar varðandi afsláttarkjörin má sjá með því að smella hér. 

Model mun einnig bjóða félagsmönnum sérkjör, en verið er að vinna í því. Nánari upplýsingar munu koma þegar þær liggja fyrir.

Þau fyrirtæki sem nú þegar hafa ákveðið að veita félagsmönnum afslátt gegn framvísun félagsskírteinis eru þá:

  • Model Akranesi, nánari upplýsingar síðar
  • Olís umtalsverður afsláttur af vöru og þjónustu sjá nánar hér
  • Tryggingafélagið VÍS 5% óháð öðrum afsláttarkjörum sem félagsmenn kunna að hafa.
  • N1 umtalsverður afsláttur á vörum og þjónustu sjá nánar hér
  • Apótek Vesturlands 10% afsláttur af vörum í búð (ekki lyfjum)
  • Ozone 10% afsáttur
  • Omnis 15 % afsláttur af skólavörum, skrifstofuvörum og bleki, 5% afslátt af tölvum og öðrum vörum - 12 mánaða vaxtalaus lán á kreditkort (GSM símar undanskildir)
  • Bifreiðaverkstæðið Brautin 7% afsláttur af vinnu

    Þau fyrirtæki sem eru tilbúin til að veita afslætti fyrir Verkalýðsfélag Akraness eru eindregið hvött til að hafa samband við skrifstofu félagsins. Rétt er að geta þess að um 3.000 félagsmenn eru í VLFA og mun félagið sjá um að auglýsa þessi afsláttarkjör vel og rækilega fyrir sínum félagsmönnum.

 

29
Sep

Afar þungt hljóð í aðalsamninganefnd Verkalýðsfélags Akraness

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness sem jafnframt er aðalsamninganefnd félagsins fundaði í gær. Aðalmál fundarins var stefnumótun vegna komandi kjarasamninga og er óhætt að segja að þungt hljóð hafi verið í fundarmönnum. Aðalsamninganefndin samþykkti að leggja ofuráherslu á stórhækkun lágmarkslauna, enda var það mat nefndarinnar að lágmarkslaun á Íslandi dugi engan veginn til lágmarksframfærslu.

Samninganefndin var sammála því að við undirskrift kjarasamnings á hinum almenna vinnumarkaði verði tryggt að lágmarkslaun á íslandi verði alls ekki undir kr. 200.000. Samninganefndin var einnig sammála því að sótt verði af alefli á þær greinar sem vitað er að hafi borð fyrir báru til að hækka laun sinna starfsmanna. Nægir að nefna í því samhengi allar útflutningsgreinarnar eins og t.d. fiskvinnslufyrirtækin, stóriðjurnar, ferðaþjónustuna og önnur fyrirtæki sem selja sínar vörur á erlenda markaði.

Það var einnig mat samninganefndarinnar að þjóðarsátt eða stöðugleikasáttmáli sem byggðist á því að launþegar tækju enn og aftur allar byrðar á sig væri ekki til umræðu og nægir að nefna í því samhengi það ofbeldi sem launþegar og íslenskir neytendur hafa orðið fyrir frá bankahruninu. Kaupmáttur launa hefur hríðfallið frá hruni og því til viðbótar hafa skuldir heimilanna á þessu tímabili u.þ.b. tvöfaldast. Matarverð hefur hækkað um 40% frá janúar 2008, bensín um 45%, Orkuveita Reykjavíkur hækkar gjaldskrá sína um tæp 30%, ríki hefur stórhækkað skatta og svikið loforð um verðtryggingu persónuafsláttar, tryggingafélög hafa hækkað iðgjöld sín, sveitarfélögin komu með gjaldskrárhækkanir,  og svona mætti í raun og veru lengi telja. Að tala um þjóðarsátt með þessar bláköldu staðreyndir fyrir framan sig er grátbroslegt. Þessu til viðbótar voru launþegar þvingaðir til að fresta og afsala sér hluta af sínum kjarasamningsbundnu hækkunum sem um var samið 2008. 

Launþegar hafa nú þegar fengið allar þessar kostnaðarhækkanir á sig og stökkbreytingu skulda að auki. Samt tala einstaka forystumenn í verkalýðshreyfingunni um þjóðarsátt! Þessi málflutningur er formanni VLFA algerlega óskiljanlegur. Sérstaklega í ljósi þess að núna er loksins tækifæri fyrir launþega að bæta hag sinn í gegnum þá kjarasamninga sem framundan eru. Ljóst er að íslenskir launþegar munu alls ekki sætta sig við að gerð verði þjóðarsátt í ljósi þess ofbeldis sem þeir hafa verið beittir frá hruni.

Það var einnig mat samninganefndar VLFA að mikilvægt sé að komið verði með almennar leiðréttingar til handa skuldsettum heimilum landsins. Það er ljóst að greiðsluþol og greiðsluvilji hjá íslenskum launþegum fer þverrandi frá degi til dags og á þeirri forsendu verði að koma til almennra leiðréttinga á skuldum íslenskra heimila.

Aðalsamninganefndin samþykkti að fara í samflot með SGS í komandi kjarasamningum, sérstaklega í ljósi þess að sífellt fleiri félög taka nú undir með málflutningi VLFA um að sækja skuli á útflutningsgreinarnar og nægir að nefna nýsamþykkta ályktun AFLs á Austurlandi. Því miður hefur komið fram hjá forseta ASÍ og formönnum einstakra félaga að þeir séu mótfallnir þeirri nálgun að sækja á útflutningsgreinarnar í komandi kjarasamningum. Það er formanni reyndar gjörsamlega óskiljanlegt. Ef árangur á að nást í að lagfæra kjör þeirra sem minnst mega sín í íslensku samfélagi er það grundvallaratriði að verkalýðshreyfingin standi þétt saman sem ein heild og er það skoðun samninganefndarinnar að vart eigi að hefja viðræður við Samtök atvinnulífsins fyrr en þau hafi samþykkt að lágmarkslaun á Íslandi verði alls ekki undir kr. 200.000 við undirritun kjarasamnings.

28
Sep

Álverðið hækkaði um 25,1% frá því í júní í fyrra

Norðurál á GrundartangaNorðurál á GrundartangaAð undanförnu hefur heimsmarkaðsverð á áli rokið upp og stendur nú í 2.315 dollurum fyrir tonnið miðað við þriggja mánaða framvirka samninga. Álverðið sveiflaðist dálítið til í fyrra og fór niður í 1.850 dollara um miðjan júnímánuð og hefur því núna hækkað um 25,1% síðan þá.

Þetta er afar jákvætt fyrir álverin hér á landi og styrkir til að mynda rekstrargrundvöll Norðuráls á Grundartanga verulega en framleiðslugeta Norðuráls á Grundartanga er í kringum 280 þúsund tonn á ári. Því þýðir þetta verð á ársgrundvelli um 75 milljarða í útflutningstekjur fyrir Norðurál á Grundartanga. Fyrir hvert áltonn í dag eru álverin því að fá 265 þúsund íslenskar krónur.

Það er engin launung að stóriðjan á Grundartanga skiptir okkur Akurnesinga sem og samfélagið allt gríðarlega miklu máli enda eru upp undir 3 þúsund manns sem vinna á svæðinu, þar með talin afleidd störf.

Kjarasamningar í stóriðjunum eru lausir um áramótin og eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er það skoðun Verkalýðsfélags Akraness að sækja eigi á útflutningsfyrirtækin sem hafa verið að gera góða hluti sökum gengisbreytinga á krónunni. Hækkun álverðs mun einnig hjálpa til við kjarasamningsgerðina núna um áramótin en launaliður samnings starfsmanna Norðuráls verður laus þá.

27
Sep

Verkalýðsfélag Akraness gerir samning við tryggingafélagið VÍS um afsláttarkjör handa félagsmönnum

Verkalýðsfélag Akraness leitar nú allra leiða til að létta greiðslubyrði sinna félagsmanna með öllum tiltækum ráðum. Að undanförnu hafa starfsmenn félagsins staðið í viðræðum við fyrirtæki hér á Akranesi og leitast eftir afsláttarkjörum fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness.

Þessi vinna hefur nú þegar borið umtalsverðan árangur, en á föstudaginn skrifaði félagið undir viðskiptasamning við tryggingafélagið VÍS um afsláttarkjör til handa sínum félagsmönnum.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá var undirritaður samningur við N1 um afslátt.  Afsláttarkjörin hjá N1 eru mjög víðtæk og sem dæmi munu félagsmenn njóta 6 króna afsláttar af dæluverði eldsneytis ásamt hinum ýmsu afsláttum af öðrum vörum hjá N1.

Hægt er að sjá samninginn hér og þau afsláttarkjör sem í boði eru hér.

Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu félagsins til að fá nánari upplýsingar um hvernig þeir virkja afsláttinn á viðskiptakorti eða greiðslulykli sínum.

Að auki hefur félagið náð samkomulagi við fleiri fyrirtæki hér á Akranesi, en þeirri vinnu er ekki endanlega lokið. Þau fyrirtæki sem nú þegar hafa ákveðið að veita félagsmönnum afslátt gegn framvísun félagsskírteinis eru:

  • Tryggingafélagið VÍS 5% óháð öðrum afsláttarkjörum sem félagsmenn kunna að hafa.
  • N1 umtalsverður afsláttur á vörum og þjónustu sjá nánar hér að ofan.
  • Apótek Vesturlands 10% afsláttur af vörum í búð (ekki lyfjum)
  • Ozone 10% afsáttur.
  • Omnis 15 % afsláttur af skólavörum, skrifstofuvörum og bleki, 5% afslátt af tölvum og öðrum vörum - 12 mánaða vaxtalaus lán á kreditkort (GSM símar undanskildir)
  • Bifreiðaverkstæðið Brautin  7% afsláttur af vinnu.

Eins og áður hefur komið fram vonast félagið til þátttöku mun fleiri fyrirtækja og að þetta átak muni verða til þess að lækka greiðslubyrði félagsmanna.

Þau fyrirtæki sem eru tilbúin til að veita afslætti fyrir Verkalýðsfélag Akraness eru eindregið hvött til að hafa samband við skrifstofu félagsins. Rétt er að geta þess að um 3.000 félagsmenn eru í VLFA og mun félagið sjá um að auglýsa þessi afsláttarkjör vel og rækilega fyrir sínum félagsmönnum.

23
Sep

1,4 milljónir innheimtar í síðustu viku fyrir 4 félagsmenn

Töluvert hefur verið að gera hjá skrifstofu félagsins við varðveislu á réttindum félagsmanna að undanförnu og sem dæmi þá gekk félagið nýlega frá sátt vegna brota á hvíldarákvæði kjarasamninga, en sáttin var unnin í samvinnu við lögmenn Samtaka atvinnulífsins og fékk félagsmaðurinn sem brotið sneri að greiðslu sem nam kr. 400.000.

Félagið var einnig að innheimta launakröfu í gegnum Ábyrgðasjóð launa og nam heildarkrafan tæpri milljón sem skiptist á milli þriggja starfsmanna. Voru umræddir félagsmenn að vonum ánægðir þegar félagið hafði samband við þá og lét vita að þeir fjármunir sem loksins hafði tekist að innheimta væru komnir. Munu þessar innheimtugreiðslur klárlega koma félagsmönnunum í góða í þeim efnahagsþrengingum sem nú herja á okkur Íslendinga.

Félagið er líka með fleiri mál inni hjá Ábyrgðasjóði launa sem vonandi kemst niðurstaða í innan nokkurra vikna eða mánaða. Stærsta málið varðar BM Vallá og er þar um að ræða umtalsverðar fjárhæðir vegna vangoldinna launa.

Síðan er félagið ásamt lögmanni sínum að vinna að stefnu fyrir hönd félagsmanns vegna brota á hvíldarákvæðistímum, en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir skrifstofu félagsins til að ná sátt við fyrirtækið þá hefur það ekki borið árangur. Á þeirri forsendu mun félagið að sjálfsögðu innheimta umrætt brot í gegnum dómsstóla. Hér er um tæplega 300.000 kr. kröfu að ræða.

Þessi mál sýna svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er að hafa sterkt og öflugt stéttarfélag sér að baki. Því leikurinn milli launþega og atvinnurekanda getur verið afar ójafn í deilumálum sem þessum og er þar vægt til orða tekið. Því er gott að geta leitað til félagsins til að fá aðstoð við lausn á slíkum deilumálum.

23
Sep

Fundað með atvinnuleitendum

Í gær fundaði formaður með atvinnuleitendum í Þorpinu þar sem haldin eru hin ýmsu námskeið fyrir atvinnuleitendur á Akranesi. Fundurinn var afar gagnlegur, en fjölmargar spurningar bárust til formanns um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði.

Fram kom í máli atvinnuleitenda að þeim finnist ósanngjarnt að þegar þeir eða börn þeirra lendi í veikindum þá missi þeir bætur sökum þess. Formaður tók undir þessa ábendingu, en benti á að þeir sem taka ákvörðun um að greiða félagsgjald til síns stéttarfélags eiga þar með rétt á sjúkradagpeningum fyrir þá daga sem þeir missa bætur. Hjá VLFA á viðkomandi atvinnuleitandi rétt á sjúkradagpeningum strax og er ekkert sem kveður á um að atvinnuleitandi þurfi að hafa vera frá í 10 daga eða lengur eins og tíðkast hjá sumum stéttarfélögum.

Formaður greindi einnig frá öllum þeim réttindum sem fólk hefur taki það ákvörðun um að greiða til félagsins og eru umtalsverðir hagsmunir þar í húfi fyrir atvinnuleitendur. Fram kom í máli nokkurra að þeir töldu afar brýnt að fundin yrði út svokölluð lágmarksframfærsla því þær grunnbætur sem fólki standa til boða duga engan veginn til þess að standa undir nauðsynlegri framfærslu. Formaður gerði þeim grein fyrir afstöðu VLFA til þessa máls og þeirri áskorun sem hann hefur lagt til forseta ASÍ um að hagdeild ASÍ finni þessa lágmarksframfærslu út enda er það skoðun formanns að lágmarkslaun og lágmarksbætur dugi engan veginn til að fólk geti látið enda ná saman og framfleytt sér og sínum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image