• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Sep

Borgarafundur um fátækt

Formanni félagsins hefur verið boðið sitja borgarafund um fátækt á Íslandi. Fundurinn verður á miðvikudaginn og hefst kl. 20.00 og fer fram í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Í pallborði verða ásamt formanni Verkalýðsfélags Akraness ráðherrar, forseti ASÍ og formaður BSRB. 

Frummælendur verða talsmenn öryrkja, aldraðra og atvinnuleitenda auk fulltrúa hjálparsamtaka.

Nánari upplýsingar um fundinn má fá með því að smella hér.

03
Sep

Vel heppnuð ferð eldri félagsmanna

Í gær gerðu eldri félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness ásamt mökum víðreist í dagsferð á vegum félagsins. Þessi ferð er árlegur liður í starfsemi félagsins og að þessu sinni var ferðinni heitið til Vestamannaeyja undir dyggri leiðsögn Björns Inga Finsen.

Í ár lögðu um 110 félagsmenn auk fulltrúa félagsins og leiðsögumanni af stað í tveimur rútum frá Akranesi í ágætis veðri. Veðurspá hafði ekki verið ferðafólki í hag, en sem betur fer rættist úr því í tæka tíð.

Ekið var sem leið lá frá Akranesi í gegnum Mosfellsbæ, um veginn við Hafravatn, yfir Hellisheiði og í Hveragerði. Þar var stutt áning í Eden. Áfram var haldið til Selfoss og komið við í Laugardælum þar sem kirkjan var skoðuð og fólk gat augum litið leiði Bobbys Fisher.

Frá Laugardælum var ekið áfram til austurs í gegnum Hellu og til Hvolsvallar þar sem ferðafólk teygði aðeins úr sér við hið sögufræga hús Ömmubæ. Frá Ömmubæ var ekið rakleiðis að Markarfljóti og suður að hinni nýju Landeyjahöfn þar sem Herjólfur beið eftir ferðafólki.

Sjóferðin gekk mjög vel þótt dálítill veltingur hafi verið við hina þröngu innsiglingu Landeyjahafnar, en það lagaðist fljótlega eftir að út á rúmsjó var komið. Siglingin sjálf tekur ekki nema um 30 mínútur og fyrr en varði hafði ferðafólk fast land undir fótum á ný í Vestmannaeyjum.

Í Vestmannaeyjum beið ferðafólks léttur hádegisverður í boði félagsins. Að snæðingi loknum var haldið af stað í rútum í útsýnisferð um eyjuna með leiðsögn frá Unni og Simma hjá Viking Tours. Ýmsir staðir voru skoðaðir, t.d. Herjólfsdalur, Fjósaklettur, Stórhöfði, Ræningjatangi, Eldheimar (Pompei du Nord), Gaujulundur og Skansinn.

Að útsýnisferð lokinni var ferðafólki ekið aftur að Herjólfi þar sem við tók sigling upp á land. Boðið var upp á hressingu um borð. Í Landeyjum tók Björn aftur við leiðsögunni og var ekið til baka að Selfossi, upp með Ingólfsfjalli og í Þrastarlund þar sem áð var. Þar las Garðar Halldórsson upp ljóð fyrir hópinn í dásamlegu veðri undir berum himni. Ljóðið samdi hann árið 1974 í tilefni af 50 ára afmæli Verkalýðsfélags Akraness. Var gerður góður rómur að flutningi Garðars.

Frá Þrastarlundi var ekið vestanmegin við Þingvallavatn, framhjá Nesjavöllum um Grafninginn, yfir Mosfellsheiði og komið niður í Mosfellsdal þaðan sem ekið var sem leið lá til Akraness.

Þessi ferð var afskaplega vel heppnuð í alla staði og kann skrifstofa félagsins þeim sem komu að undirbúningi hennar hinar bestu þakkir fyrir.

01
Sep

Verkalýðsfélag Akraness í átaki til að ná fram afsláttarkjörum fyrir félagsmenn

Verkalýðsfélag Akraness leitar nú allra leiða til að létta greiðslubyrði sinna félagsmanna með öllum tiltækum ráðum. Að undanförnu hafa starfsmenn félagsins staðið í viðræðum við fyrirtæki hér á Akranesi og leitast eftir afsláttarkjörum fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness.

Þessi vinna hefur nú þegar borið umtalsverðan árangur, en í gær skrifaði félagið undir viðskiptasamning við N1 um afsláttarkjör til handa sínum félagsmönnum. Afsláttarkjörin eru mjög víðtæk og sem dæmi munu félagsmenn njóta 6 króna afsláttar af dæluverði eldsneytis ásamt hinum ýmsu afsláttum af öðrum vörum hjá N1.

Hægt er að sjá samninginn hér og þau afsláttarkjör sem í boði eru hér.

Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu félagsins til að fá nánari upplýsingar um hvernig þeir virkja afsláttinn á viðskiptakorti eða greiðslulykli sínum.

Að auki hefur félagið náð samkomulagi við fleiri fyrirtæki hér á Akranesi, en þeirri vinnu er ekki endanlega lokið. Þau fyrirtæki sem nú þegar hafa ákveðið að veita félagsmönnum afslátt gegn framvísun félagsskírteinis eru Apótek Vesturlands, Ozone, Omnis og Bifreiðaverkstæðið Brautin og verða afsláttarkjör þessara fyrirtækja kynnt von bráðar. En eins og áður hefur komið fram vonast félagið til þátttöku mun fleiri fyrirtækja og að þetta átak muni verða til þess að lækka greiðslubyrði félagsmanna.

Þau fyrirtæki sem eru tilbúin til að veita afslætti fyrir Verkalýðsfélag Akraness eru eindregið hvött til að hafa samband við skrifstofu félagsins. Rétt er að geta þess að um 3.000 félagsmenn eru í VLFA og mun félagið sjá um að auglýsa þessi afsláttarkjör vel og rækilega fyrir sínum félagsmönnum.

31
Aug

Hvalveiðar ganga mjög vel

Í morgun kom 109. hvalurinn á land í Hvalstöðinni í Hvalfirði á þessari vertíð. Það var Hvalur 8 sem þá kom til hafnar. Hvalur 9 kom með tvo í stöðina á sunnudaginn. Að sögn Gunnlaugs Fjólar Gunnlaugssonar skiptast skipin á um að koma inn sitt hvorn daginn. „Veiðarnar hafa gengið eins og í sögu, þrátt fyrir að þokan hafi legið svolítið við ströndina að undanförnu og skipin því þurft að sigla lengra eða allt upp í 200 mílur út,“ segir Gunnlaugur Fjólar í samtali við Skessuhorn.

Hann segir talsvert af skólafólki hafa unnið við hvalinn í sumar og af þeim sökum orðið mannaskipti núna að undanförnu. Hvalur hf. hefur leyfi til að veiða 150 landreyðar í sumar og reyndar 25 dýr til viðbótar frá síðustu vertíð. Gunnlaugur Fjólar segir að miðað við ganginn á vertíðinni séu góðar horfur á að það takist að veiða kvótann á þessari vertíð, en reyndar gerist þokan oft aðgangshörð á miðunum þegar haustar.

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá skipta veiðar og vinnsla á hval gríðarlegu máli fyrir samfélagið hér á Akranesi, enda hafa hátt í 150 manns atvinnu af þessari starfsemi þótt þeir komi ekki allir frá Akranesi.  Tekjumöguleikar þeirra sem starfa við vinnsluna bæði hér á Akranesi sem og í hvalstöðinni eru þó nokkrir og voru meðallaun starfsmanna við vinnsluna um 600 þúsund í fyrra, en rétt er að geta þess að mikil vinna lá að baki slíkum launum.

30
Aug

Skipuð verði rannsóknarnefnd um málefni Orkuveitunnar

Verkalýðsfélag Akraness stendur agndofa yfir þeirri ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur að hækka gjaldskrá sína um 28,5% 1. október næstkomandi. Tillaga þessa efnis var samþykkt á stjórnarfundi félagsins fyrir helgi.

Þessi ákvörðun stjórnar OR mun verða þess valdandi að greiðslubyrði hjá félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness og öðrum viðskiptavinum Orkuveitunnar mun hækka um tugi þúsunda á ársgrundvelli en í dag kostar rafmagn og hiti í 130 fermetra íbúð 117 þúsund krónur á ári en eftir hækkun verður þessi kostnaður kominn upp í 150 þúsund krónur sem er 33 þúsund króna hækkun. Það er ekki bara að greiðslubyrðin hækki vegna gjaldskrárhækkunarinnar heldur hefur hún umtalsverð áhrif á neysluverðsvísitöluna og sem dæmi þá hækkar 10 milljóna króna verðtryggt húsnæðislán um 56 þúsund krónur vegna þessarar ákvörðunar Orkuveitunnar.

Þessi ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar kemur til vegna þess að fyrirtækið er að mæta stóraukinni skuldastöðu, meðal annars vegna stökkbreyttra erlendra lána. Á þeirri forsendu er rétt að minna á að almennir launþegar hafa einnig orðið fyrir gríðarlegum búsifjum vegna hækkunar á sínum lánum, á það bæði við erlend lán sem og verðtryggð. Því er það morgunljóst að þessi ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar mun hafa umtalsverð áhrif á komandi kjarasamninga því það gengur ekki upp að Orkuveitan, ríki, sveitarfélög og önnur fyrirtæki ætli sér að seilast í vasa íslenskra launþega enn og aftur og ætlast til þess að þeir horfi aðgerðarlausir á. Eðlilegast væri að stéttarfélögin gerðu skýlausa kröfu á þau sveitarfélög sem eiga Orkuveituna, sem eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð, að þau hækki laun sinna starfsmanna um 28,5%.

Það er full ástæða til þess að skipuð verði rannsóknarnefnd sem fari yfir stjórnunarhætti Orkuveitunnar aftur í tímann því að sú gríðarlega skuldaukning sem orðið hefur hjá fyrirtækinu á undanförnum árum á sér vart hliðstæðu. Á sama tíma og þessi mikla skuldasöfnun hefur átt sér stað þá hafa eigendurnir tekið tugi milljarða út í arðgreiðslum og rétt er að rifja upp í fyrra þegar Verkalýðsfélag Akraness og fleiri stéttarfélög mótmæltu harðlega 800 milljóna króna arðgreiðslu til áðurnefndra eigenda á sama tíma og starfsmönnum Orkuveitunnar var gert að skerða laun sín um 400 milljónir.

Það er óhætt að segja að eignarhlutur Akraneskaupstaðar í Orkuveitunni sem menn litu á sem hálfgerðan gullkálf sé að breytast í skrímsli. Það er afar fróðlegt að skoða ársreikning Akraneskaupstaðar frá síðasta ári en þar kemur fram að eignarhlutur Akraneskaupstaðar í Orkuveitunni sé 5,528% og var hann metinn á tæpa 3,7 milljarða. Það undarlega við það mat var að það miðaðist við eigið fé Orkuveitu Reykjavíkur í árslok 2006 en þá var eigið fé Orkuveitunnar rétt rúmlega 66,5 milljarðar. Eigið fé Orkuveitunnar í árslok 2009 var hins vegar rétt rúmir 40 milljarðar. Þannig að ef Akraneskaupstaður hefði miðað við eigið fé Orkuveitunnar 2009 þá hefði eignarhluturinn verið rétt rúmir 2,2 milljarðar sem er 1,5 milljarði minna heldur en kveðið er um í ársreikingi Akraneskaupstaðar. Menn verða að fyrirgefa formanni félagsins en hann skilur ekki hvers vegna notast var við eigið fé frá árinu 2006 en ekki 2009. Getur verið að menn séu að fegra ársreikninga sveitarfélagsins með slíkum vinnubrögðum, spyr sá sem ekki veit.

Það kemur einnig fram í ársreikningnum að ekki sé búið að gera áhættumat vegna eignarhluts Akraneskaupstaðar í Orkuveitunni en eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá skuldar Orkuveitan í dag um 240 milljarða króna. Áhætta Akraneskaupstaðar er fólgin í því að Orkuveitan geti ekki staðið við sínar skuldbindingar og að eigendur þurfi því að koma með fjármagn sökum þess. Formanni er ekki fullkunnugt um hver ábyrgð okkar Akurnesinga er í 240 milljarða skuld en ef það er 5,528% af heildarskuldinni þá er það hvorki meira né minna en rúmir 13 milljarðar sem við Akurnesingar erum þá í ábyrgð fyrir. Þess vegna vill formaður ítreka það sem áður hefur komið fram að það er full ástæða til þess að skipuð verði rannsóknarnefnd sem fari yfir málefni Orkuveitunnar í hvívetna því það gengur ekki upp að þeir sem hafa verið þarna við stjórnvölinn axli enga ábyrgð og varpi síðan vandanum alfarið til neytenda. Það er komið nóg af slíkum vinnubrögðum í íslensku samfélagi.

27
Aug

Fundur með forseta ASÍ stóð til miðnættis

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá fundaði stjórn Verkalýðsfélags Akraness með Gylfa Arnbjörnssyni, forseta Alþýðusambands Íslands í gærkvöldi, en Gylfi er um þessar mundir í fundaherferð þar sem hann mun hitta stjórnir allra 53 aðildarfélaga ASÍ. Með Gylfa í för var Magnús Norðdahl, yfirlögfræðingur ASÍ.

Tilefni fundaherferðarinnar er að kynna fyrir stjórnunum fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á ASÍ og einnig komandi kjarasamninga. Það er skemmst frá því að segja að fundurinn var afar fróðlegur og kraftmikill en fundurinn hófst kl. 20 og var ekki lokið fyrr en um miðnætti. Það voru fjölmörg mál sem voru rædd á þessum 4 tíma fundi fyrir utan skipulagsmálin, svo sem stöðugleikasáttmálinn, lífeyrissjóðirnir og stjórnarskipan þeirra, skuldastaða heimilanna, aðildarumsókn að ESB og síðast en ekki síst komandi kjarasamningar.

Forsetinn fór yfir stöðugleikasáttmálann og hvað hafði áunnist í honum og hvað hafði ekki gengið eftir. Fram kom í máli formanns Verkalýðsfélags Akraness að hann teldi það hafa verið stórkostleg mistök að ganga frá áðurnefndum sáttmála einfaldlega vegna þess að lítið sem ekkert gekk eftir í honum annað en að launafólk var þvingað til að afsala sér og fresta sínum launahækkunum.

Afstaða Verkalýðsfélags Akraness til stjórnarvals í lífeyrissjóðum hefur ætíð verið skýr og komu stjórnarmenn því vel á framfæri við forsetann að það er mat félagsins að það eigi að gjörbreyta stjórnarvali við kjör í lífeyrissjóðum með þeim hætti að stjórnarmenn verði kosnir allir af sjóðsfélögum sjálfum og hætt verði við þessi svokölluðu helmingaskipti á milli verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda. En eins og frægt varð þá lagði Verkalýðsfélag Akraness fram tillögu á ársfundi ASÍ árið 2009 um breytingu á stjórnarvali sem var kolfelld. Fram kom í máli Gylfa að hann teldi að það fyrirkomulag sem nú er ríkjandi sé heppilegt. Þessu er stjórn Verkalýðsfélags Akraness ósammála.

Formaður VLFA sagði við forsetann að hann harmaði þá afstöðu ASÍ að berjast ekki fyrir almennri leiðréttingu á stökkbreyttum skuldum íslenskra heimila og hvatti formaðurinn ASÍ til að berjast fyrir því að gripið verði til almennra leiðréttinga á skuldum heimilanna. Einnig gagnrýndi formaðurinn forsetann og forystu ASÍ fyrir að beita sér ekki af fullum þunga fyrir afnámi verðtryggingarinnar sem hefur leikið íslenska launþega skelfilega á undanförnum árum og áratugum. Það kom fram í máli Gylfa að hann telur nauðsynlegt að viðhalda verðtryggingunni til varnar lífeyrissjóðum þessa lands. Þessu er stjórn Verkalýðsfélags Akraness algjörlega ósammála og benti formaður forsetanum á að húseign okkar er líka lífeyrir.

Formaður skoraði á forsetann að beita sér fyrir því af fullum þunga að fundinn verði út hver hinn rétti lágmarks framfærslustuðull íslenskra heimila sé í dag. Með öðrum orðum, hvað þarf einstaklingur eða hjón með börn mikla framfærslu til að geta rekið sitt heimili og þarf að vera inni í slíkum framfærslustuðli allt sem lítur að rekstri heimilis. Það er mat formanns að þessa tölu þurfi að fá upp á yfirborðið einfaldlega vegna þess að í dag duga lágmarkslaun og -bætur á Íslandi alls ekki til að fólk geti látið enda ná saman. Formaður sagði einnig að hans tilfinning væri einfaldlega sú að ráðamenn vildu ekki fá þennan framfærslustuðul upp á yfirborðið því að þá kæmi sannleikurinn í ljós: Að lágmarkslaun og -bætur dugi ekki fyrir framfærslu. Á þeirri forsendu er brýnt að hagdeild ASÍ finni þennan framfærslustuðul út sem myndi klárlega geta gagnast hreyfingunni í sinni baráttu fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna.

Að sjálfsögðu var mikið rætt um komandi kjarasamninga. Sýn Verkalýðsfélags Akraness á komandi kjarasamninga byggist á því að sótt verði að þeim atvinnugreinum sem hafa borð fyrir báru til að hækka laun sinna starfsmanna. Þetta eru greinar eins og stóriðjan, fiskvinnslan, útgerðir, ferðaþjónustan og í raun öll fyrirtæki sem starfa í útflutningi. Verkalýðsfélag Akraness vill að verkalýðshreyfingin geri skýlausa kröfu og standi þétt saman í því að lágmarkslaun á Íslandi verði alls ekki undir 200 þúsund krónum á mánuði. Það kom fram í máli Gylfa að vissulega væri hægt að fara þessa leið en hann varaði við henni vegna þess að hann telur að þetta muni leiða til kaupmáttarrýrnunar en ekki til kaupmáttaraukningar hjá heildinni. Þennan málflutning skilur formaður Verkalýðsfélags Akraness alls ekki og sagði að það væri með ólíkindum að heyra forsetann reka sama hræðsluáróðurinn og ætíð heyrist þegar á að fara að gera kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði um að slíkt muni fara beina leið út í verðlagið og kaupmátturinn muni ekki koma til fólksins. Þetta eru sömu varnaðarorðin og heyrðust við kjarasamningsgerðina 2008 frá Seðlabankanum, frá ríkisstjórninni og frá forstöðumönnum greiningardeilda bankanna. Formaður spyr sig, hvar á að sækja launahækkanir til handa okkar félagsmönnum ef ekki hjá þeim fyrirtækjum sem starfa í útflutningi? Allavega er eitt morgunljóst að íslenskir launþegar geta ekki lengur látið ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, tryggingafélög og nánast alla aðila varpa sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið og setið aðgerðalausir hjá.

Það kom einnig skýrt fram frá stjórn Verkalýðsfélags Akraness að félagið mun ekki taka þátt í svokallaðri þjóðarsátt í anda þess sem gert var í áðurnefndum stöðugleikasáttmála. En þar gekk ekkert nema eitt eftir eins og áður hefur komið fram, að launafólk þurfti að fresta sínum launahækkunum.

Formaður sagði einnig við forsetann að gríðarleg gjá hafi myndast á milli hins almenna félagsmanns innan ASÍ og forystu hreyfingarinnar. Þessi gjá að mati formanns hafi myndast vegna þeirrar linkindar sem ríkt hefur í verkalýðshreyfingunni um alllanga hríð. Hreyfingin þarf að berjast af alefli fyrir bættum kjörum okkar félgsmanna og þarf að sýna tennurnar í samskiptum sínum við atvinnurekendur og ríkisvaldið. Sagði formaðurinn að því miður upplifði hann hreyfinguna eins og aldraða manneskju sem tæki tennurnar sínar út á kvöldin og setti þær í glas, slík manneskja er gjörsamlega bitlaus. Þannig upplifir formaðurinn íslenska verkalýðshreyfingu í dag. Það kom einnig fram hjá stjórnarmönnum að verkalýðshreyfingin þarf að vinna traust og trúnað sinna félagsmanna á nýjan leik og það verður ekki gert nema með því að hreyfingin sýni mátt sinn og kraft og berjist af fullum heilindum fyrir lagfæringu á kjörum okkar félagsmanna.

Það ber að þakka Gylfa og þeim félögum fyrir að koma og hitta stjórnir félaganna því það er mjög mikilvægt fyrir forsetann að fá að heyra skoðanir stjórna vítt og breitt um landið. Það er alveg hægt að segja að þessi fundur hafi verið góður og gagnlegur þótt menn hafi skipst hressilega á skoðunum inn á milli. Þannig á það líka að vera, menn eiga að geta fengið að tjá sínar skoðanir og sagt þær umbúðalaust.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image