• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Aug

Ykkur grálúsugum almúganum kemur þetta ekki við

Geirmundur Kristinsson, fyrrv. sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í KeflavíkGeirmundur Kristinsson, fyrrv. sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í KeflavíkEins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá tapaði lífeyrissjóðurinn Festa sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að 1,6 milljörðum vegna falls Sparisjóðs Keflavíkur.  Á þeirri forsendu hefur m.a þurft að skerða lífeyrisgreiðslur til handa sjóðsfélögum Verkalýðsfélags Akraness og öðrum sjóðsfélögum sem tilheyra lífeyrissjóðnum vítt og breitt um landið.  Á árinu 2009 voru áunninn réttindi sjóðsfélaga Festu lækkuð um 2,5 % og aftur um 5% 2010 og einnig var framtíðarávinnsla lækkuð um 2,5% 2009.

Á sama tíma og þessar skerðingar dynja á þeim sem síst skyldi þ.e.a.s öryrkjum og lífeyrisþegum Festu og einnig lífeyrisþegum annarra lífeyrissjóða, þá upplýsist samkvæmt tekjublaði Mannlífs að Geirmundur Kristinsson fyrrverandi sparisjóðsstjóri Keflavíkur var með rúma 21 milljón á mánuði á síðasta ári eða sem nemur 255 miljónum á ársgrundvelli.  Rétt er að geta þess að hluti af þessum launum hjá Geirmundi var úttekt úr séreignarsjóði.

Það er nöturlegt, dapurlegt og í raun ógeðfellt að verða vitni að slíkum ofurlaunum hjá einstaklingi sem stjórnaði banka sem fór jafn rækilega í þrot og raun bar vitni. Það er ekki bara að Sparisjóður Keflavíkur hafi verið rekinn með 17 milljarða tapi 2008 og 19 milljarða tapi 2009 heldur töpuðu lífeyrissjóðirnir gríðarlegum upphæðum við fall Sparisjóðsins. Eins og fram kom í fréttum þá kom ríkið inn með 12 milljarða króna í sjóðinn á grundvelli neyðarlaganna. Reikna má með að ríkið leggi á annan tug milljarða í yfirtöku sína á sjóðnum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness spyr: Hvernig má það vera að fyrrverandi sparisjóðsstjóri Keflavíkur gangi út með 255 milljónir eftir að hafa lagt sparisjóðinn í rúst sem einnig hefur gert það að verkum að skerða þurfti lífeyrisgreiðslur til elli- og örorkuþega lífeyrissjóða þessa lands? Því til viðbótar þurftu íslenskir skattgreiðendur að leggja til um 20 milljarða vegna yfirtöku ríksins á sparisjóðnum eins og áður hefur komið fram.  Hver er ábyrgð þessara manna sem stjórnuðu bönkunum?  Er ábyrgðin fólgin í því að ganga út með 255 milljónir?

Þessir snillingar sem stjórnuðu bönkunum sögðu alltaf að ábyrgðin sem þeir bæru væri svo gríðarleg og okkur grálúsugum almúganum kæmi ekkert við hver laun þeir væru.  Nú hefur hins vegar komið í ljós að okkur kom þetta svo sannarlega við því reikingurinn vegna afglapa þessara manna í starfi er sendur á alþýðu þessa lands.

11
Aug

Nauðsynlegt að finna út lágmarksframfærslustuðul

Það er með hreinustu ólíkindum að ekki skuli vera til nein opinber viðmið um lágmarksframfærslu af hálfu hins opinbera. Það kom til dæmis fram í fyrirspurn á Alþingi í vetur til Árna Páls Árnasonar, félagsmálaráðherra, hvort ráðherrann telji að setja eigi opinber viðmið eða lög um lágmarksframfærslu. Í svari ráðherrans kom fram að miklar umræður hafi verið um hvort setja ætti slík viðmið en ekki hafi náðst samstaða um málið. Formaður spyr sig: Hverjir hafa verið að leggjast gegn því að svokölluð viðmið um lágmarksframfærslu verði fundin út hér á landi?

Það liggur fyrir að Ráðgjafastofa heimilanna hefur verið að reikna út hvað hinir ýmsu hópar þurfi til þess að framfleyta sér en inni í þeim viðmiðum er ekkert tekið tillit til kostnaðar vegna til dæmis síma, áskrifta, fasteignagjalda, húsaleigu eða lána vegna húsnæðiskaupa, trygginga, bifreiða, dagheimilisgjalda fleiri kostnaðarliða sem eru hjá hverri fjölskyldu. Það er einnig til svokallaður framfærslustuðull sveitarfélaganna og byggist hann á sama grunni, það er að segja einungis til þess að fólk geti dregið andann. Ekkert er tekið tillit til hinna ýmsu kostnaðarliða er lúta að því að reka heimili. Í framfærslustuðli sveitarfélaganna kemur fram að lágmarksframfærsla einstaklings sé 125.540 kr. á mánuði og tveggja manna fjölskylda þurfi 200.864 kr. á mánuði. Þessi framfærslustuðull byggist á því að viðkomandi aðilar búi nánast í tjaldi.

Það er gríðarlega mikilvægt að fundinn verði út nákvæmur framfærslustuðull með öllum hefðbundnum útgjaldaliðum venjulegs fólks en formaður tekur undir með Hörpu Njálsdóttur félagsfræðingi sem mikið hefur fjallað um fátækt á Íslandi. Hún hefur til dæmis sagt að stjórnvöld hafi alla tíð vitað að greiddur væri lífeyrir sem sé langt undir því að duga til framfærslu. Og hún segir einnig að á þeirri forsendu vilji stjórnvöld ekki fá upp á yfirborðið hver hin raunverulega lágmarks framfærsla er í þessu landi.

Hjá Ráðgjafastofu heimilanna kemur fram að hjón með tvö börn þurfi 155.600 kr. á mánuði til þess að framfleyta sér sem sundurliðast með eftirfarandi hætti. Matur 105.000, tómstundir 8.300, fatakaup 17.400, lækniskostnaður 6.600 og ýmislegt 8.300. Eins og sést á þessu er ekkert tekið á þessum hefðbundnu útgjaldaliðum sem vísitölufjölskyldan er með. Það er alls ekki óalgengt að heimilislína hjóna með tvö börn sé í kringum 150-200 þúsund krónur á mánuði þannig að ekkert er ólíklegt að lágmarksframfærsla hjóna með tvö börn sé í kringum 3-400 þúsund krónur á mánuði. Stjórnvöld verða að finna út þennan lágmarksframfærslustuðul því það er ekki hægt að bjóða upp á lágmarkslaun og lágmarksbætur sem duga ekki til að fólk geti séð sér farborða.

Viðtal var við formann Verkalýðsfélag Akraness um þetta mál í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni síðastliðinn föstudag og má hlusta á það hér.

09
Aug

Ertu að fara til Vestmannaeyja? - Félagsmenn njóta afsláttarkjara hjá VLFA

Skrifstofa Verkalýðsfélags Akraness vill minna félagsmenn á að nýta sér afsláttarkjör sem þeim bjóðast vegna ferða með Herjólfi til Vestmannaeyja. Afslátturinn nemur um 40% frá fullu verði. Hjón sem fara til Eyja með tvö börn á aldrinum 12-15 ára, bíl og tjaldvagn greiða fullt verð kr. 12.000 fyrir báðar leiðir. Með afsláttarkjörunum kostar þessi sama ferð kr. 7.200.

Til að njóta afsláttarins þarf að bóka og greiða fyrir ferðina á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness, Sunnubraut 13 eða í síma 4309900. Þegar bókun hefur verið frágengin fær félagsmaðurinn bókunarnúmer sem hann framvísar á afgreiðslustöðum Herjólfs í Vestmannaeyjum, Landeyjahöfn eða í Reykjavík til að fá miða.

Sjá heimasíðu Herjólfs fyrir nánari upplýsingar um siglingaáætlun og almenna skilmála.

05
Aug

Skertar atvinnuleysisbætur vegna séreignargreiðslna

Verkalýðsfélag Akraness hvetur þá félagsmenn sem eru 60 ára eða eldri og hafa verið að fá atvinnuleysisbætur ásamt því að fá greiddan séreignarlífeyrissparnað til að kanna hvort bætur þeirra hafi verið skertar vegna þessa.

En breytingar voru gerðar á lögum um atvinnuleysistryggingar með lögum nr. 70/2010, sem tóku gildi í júní sl. Breytingar þessar fela meðal annars í sér að þeir sem eru 60 ára eða eldri og hafa fengið skertar greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði á tímabilinu 1. mars 2009 til dagsins í dag, vegna greiðslna úr séreignarlífeyrissjóði, geta átt rétt á endurgreiðslu úr Atvinnuleysis-tryggingasjóði sem nemur fjárhæð skerðingarinnar. Þetta á hins vegar ekki við um þá sem eru yngri en 60 ára þar sem greiðslur úr séreignarlífeyrissjóðum skerða ekki greiðslur til þeirra úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Félagsmönnum er bent á að til að fá þetta leiðrétt þá verða þeir sem telja að um skerðingu hafi verið að ræða að sækja um endurútreikning á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Hægt er að nálgast umsóknareyðublað hér.  
Nauðsynlegt er að láta kvittun eða greiðsluyfirlit vegna greiðslna úr séreignarlífeyrissjóði fylgja með umsókn um endurútreikning.

Starfsmenn félagsins hafa einnig verið að aðstoða nokkara einstaklinga að sækja um umrædda leiðréttingu og þeim félagsmönnum sem telja sig eiga rétt á leiðréttingu er velkomið að fá aðstoð við að fylla út umsóknarblað.

Framangreind breyting var m.a. gerð eftir að Verkalýðsfélag Akraness gerði athugasemdir við þessa skerðingu af hálfu hins opinbera.  Halldór Grönvold hjá ASÍ fylgdi síðan málinu eftir með þessum jákvæða árangri. Þrátt fyrir óskir  ASÍ um að Greiðslustofa Vinnumálastofnunar myndi sjá um framkvæmdina, þannig að endurgreiðsla færi fram sjálfkrafa Þá var ekki fallist á það. Því þurfa einstaklingar að sækja sérstaklega um þessa endurgreiðslu.


Þarna getur verið um umtalsverða hagsmuni að ræða fyrir viðkomandi einstaklinga og er bent á að umsóknarfrestur er til 1. september nk.

Allar frekari upplýsingar um málið og framkvæmdina má fá á vef Vinnumálastofnunar: http://www.vinnumalastofnun.is/frettir/nr/2163/  

04
Aug

Ingólfur Hjartarson, fyrrverandi lögmaður félagsins, er látinn

Ingólfur Hjartarson hrl. sem var lögmaður Verkalýðsfélags Akraness frá árinu 2003 til seinni hluta árs 2009 lést síðastliðinn fimmtudaginn.

Eins og flestir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness muna þá voru gríðarleg átök í félaginu frá árinu 2000 allt þar til ný stjórn tók við 19. nóvember 2003 og má segja að Ingólfur hafi komið mikið við sögu í þessum átökum. Núverandi formanni var á þessum tíma meinaður aðgangur að bókhaldsgögnum félagsins þegar hann var stjórnarmaður í félaginu af meirihluta fráfarandi stjórnar. En sterkar grunsemdir voru um mikla óráðsíu og vanrækslu fyrrverandi formanns félagsins og voru þær grunsemdir m.a. staðfestar í skýrslu sem Price Waterhouse Coopers gerði á sínum tíma.

Ingólfur stefndi Verkalýðsfélagi Akraness fyrir hönd núverandi formanns og fór málið fyrir Héraðsdóm og Hæstarétt. Málið vannst á báðum dómsstigum.

Á þessum árum stefndi hann einnig Alþýðusambandi Íslands vegna brota sambandsins á reglugerð ASÍ um allsherjarkosningar, en fram hafði farið kosning til nýrrar stjórnar félagsins. Ingólfur gerði alvarlegar athugasemdir við framkvæmd kosninganna og kærði kosningar m.a. til miðstjórnar ASÍ sem hafnaði rökum hans. Í kjölfarið stefndi hann ASÍ fyrir áðurnefnd brot og þegar búið var að birta stefnuna óskaði ASÍ eftir því að sátt næðist í málinu og kosið yrði á milli tveggja lista. Með öðrum orðum, ASÍ vissi algerlega upp á sig skömmina í þessum efnum.

Ingólfi var verulega misboðið yfir öllu þessu máli, bæði með að núverandi formanni skyldi meinaður aðgangur að bókhaldsgögnum en ekki síður framferði og aðgerðaleysi Alþýðusambands Íslands í þessum málum.

Ingólfur hafði afar sterka réttlætis- og siðferðiskennd sem gerði það að verkum að hann var á þessum árum tilbúinn að gefa okkur sem stóðum í þessari baráttu allt sitt vinnuframlag.

Fyrsta verk nýrrar stjórnar sem tók við 19. nóvember 2003 var að hafa samband við Ingólf og óska eftir því að hann yrði lögmaður félagsins. Varð hann við þeirri ósk og starfaði samfleytt fyrir félagið í tæp 7 ár. Óhætt að fullyrða að það hafi verið til mikilla hagsbóta fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness en mörg mál vann hann fyrir félagið sem skiluðu félagsmönnum umtalsverðum ávinningi. Nægir að nefna fyrsta málið sem hann tók að sér eftir að hann var ráðinn sem lögmaður félagsins, en það laut að hlutdeild starfsmanna Elkem Íslands í hagnaði. Samkvæmt samkomulagi við fyrrverandi eigendur Elkem Ísland var kveðið á um að starfsmenn ættu hlutdeild í hagnaði fyrirtækisins. Þessu höfnuðu nýir eigendur Elkem Ísland og fór Ingólfur af fullum þunga í málið. Sú barátta skilaði hverjum einasta starfsmanni fyrirtækisins tugum þúsunda króna.

Stjórn félagsins mun seint geta þakkað Ingólfi fyrir alla þá vinnu sem hann lagði á sig fyrir félagið, svo ekki sé talað um hans þátt í þeirri baráttu sem sá hópur sem tók við félaginu 2003 stóð í. Án Ingólfs hefði sú barátta aldrei unnist. Stjórn félagsins vill votta aðstandendum Ingólfs innilegrar samúðar.

03
Aug

Mikið annríki á skrifstofu félagsins í sumar

Svo mikið annríki hefur verið á skrifstofu félagsins í sumar að starfsfólk skrifstofu man ekki eftir öðru eins. Venjulega fækkar þeim málum sem þarf að sinna yfir sumartímann miðað við aðra árstíma en síðastliðin tvö sumur hefur málafjöldi hins vegar haldist nokkurn veginn óbreyttur þegar kemur fram á sumar.

Erindi félagsmanna eru fjölmörg og margvísleg, fyrirspurnir vegna orlofshúsa eru áberandi margar eins og eðlilegt er á þessum árstíma en einnig er mikið um að fólk leiti til skrifstofu til að fá skýringar á ýmsum kjara- og réttindamálum, aðstoð vegna vangoldinna launa og aðstoð í veikindum svo eitthvað sé nefnt.

Það er greinilega full þörf á því að veita fulla þjónustu allan ársins hring og á skrifstofu VLFA er þjónustan ekki skert á sumrin. Eins og venjulega er skrifstofan opin alla virka daga frá kl. 09:00 til 16:00.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image