• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Sep

Lágmarkslaun eru lægri en örorkulífeyrir

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni er staða lágtekjufólks og öryrkja afar slæm og nánast útilokað fyrir fólk sem fær greitt einungis lágmarkslaun að upphæð kr. 165 000 að geta framfleytt sér.

Öryrki sem hefur engar aðrar tekjur og býr einn fær greiddan lífeyri frá Tryggingastofnun Ríkisins að upphæð 180.000 kr. á mánuði. Frádreginn er skattur að upphæð kr. 22.791. Útborgaður lífeyrir er kr. 157.209.

Starfsmaður sem fær greitt einungis lágmarkslaun sem eru kr. 165.000 greiðir í skatt kr. 14.751, í lífeyrissjóð kr. 6.600 og í stéttarfélag kr. 1.650. Þessi starfsmaður fær útborgað kr. 141.999 sem er 15.210 krónum minna en sá sem fær greiddan örorkulífeyri.

Þannig að launþegi sem einungis fær greitt eftir lágmarkslaunum á Íslandi í dag er verr settur en öryrki sem fær 180.000 í heildarlífeyri á mánuði.

Vandi öryrkja er stórkostlegur og það má ekki misskilja þessa ábendingu þannig að tekjur þeirra teljist vera háar, enda er það mat formanns VLFA að þær dugi ekki fyrir lágmarksframfærslu og þær þurfi að hækka. Hins vegar tel ég brýnt að benda á að lágmarkslaun á Íslandi eru 15.000 krónum undir því sem Tryggingastofnun greiðir einstæðum öryrkjum sem ekki hafa aðrar tekjur.

Það er morgunljóst að vandi lágtekjufólks á Íslandi og þeirra sem starfa á berstrípuðum lágmarkslaunum verður að hafa forgang í komandi kjarasamningum enda verður að tryggja með öllum tiltækum ráðum að lágtekjufólk hafi möguleika á að framfleyta sér og sínum. Á þeirri forsendu þarf að hækka lágmarkslaun og lífeyrir upp í að lágmarki kr. 200.000 á mánuði þannig að möguleiki sé fyrir fólk að framfleyta sér.

09
Sep

Fátækt er þjóðarskömm

Fjölmennur fundur var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur í gærkvöldi undir yfirskriftinni Fátækt á Íslandi. Formanni VLFA var boðið að sitja í pallborði og svara fyrirspurnum. Auk formanns sátu í pallborði ráðherrarnir Guðbjartur Hannesson og Ögmundur Jónasson, Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ, Ásta Sigrún Helgadóttir umboðsmaður skuldara, Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB og Stella Kristín Víðisdóttir og Björk Vilhelmsdóttir frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Framsögu á fundinum höfðu atvinnuleitandi, ellilífeyrisþegi og öryrkjar sem sögðu sögu sína og það var átakanlegt að heyra um baráttu þeirra við að láta enda ná saman á þeirri framfærslu sem þeim býðst úr þeim bótasjóðum sem þeim standa til boða.

Fjölmargar fyrirspurnir bárust til formanns félagsins úr salnum. M.a. um hvort hann teldi að brýnt væri að hið opinbera léti reikna út nákvæman lágmarksframfærslustuðul. Í svari formanns kom skýrt fram að hann telur þetta afar brýnt eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins. Hann upplýsti fundarmenn um að hann hafi skorað á forseta ASÍ að láta hagdeild sambandsins reikna út nákvæman lágmarksframfærslustuðul sem klárlega myndi nýtast verkalýðshreyfingunni vel í baráttunni um að hækkun lágmarkslauna. Reyndar kom einnig fram hjá formanni að hann óttast að hið opinbera vilji alls ekki fá þennan lágmarksframfærslustuðul upp á yfirborðið og hugsanlega myndi það líka koma verkalýðshreyfingunni illa ef þessi stuðull yrði fundinn út því það er mat formanns að lágmarkslaun og bætur duga alls engan veginn fyrir þeirri lágmarksframfærslu sem þarf til að reka heimili hér á landi. Formaður sagði að öll Norðurlöndin að undanskildum Noregi væru með opinber lágmarksframfærsluviðmið. Á þeirri forsendu væri óskiljanlegt að slíkt væri ekki búið að gera hér á landi.

Formaður fékk einnig spurningu um stöðugleikasáttmálann sem gerður var á síðasta ári þar sem megininntak hans var fólgið í því að þvinga launþega til að fresta og afsala sér hluta af sínum umsömdu launahækkunum frá 17. febrúar 2008. Spurningin gekk út á það hvort eðlilegt hafi verið að þeir tekjulægstu hafi þurft að taka á sig frestun á sínum launahækkunum. Formaður rakti afstöðu VLFA til stöðugleikasáttmálans en félagið barðist af alefli fyrir því að þessi sáttmáli yrði ekki gerður og rök félagsins voru þau að klárlega væru til fyrirtæki og sérstaklega í útflutningnum sem gætu staðið við þær launahækkanir sem um hafði verið samið. Enda kom það á daginn að VLFA hafði rétt fyrir sér því fjölmörg fiskvinnslufyrirtæki komu með þær hækkanir sem samningurinn kvað á um þrátt fyrir að ASÍ hafði verið búið að gera samkomulag við SA um að þeim bæri ekki að gera slíkt.

Formaður fékk einnig fyrirspurn um lögbindingu lágmarkslauna og fram kom í svari formanns að árið 2005 hafi síðast verið lagt fram frumvarp um lögbindingu lágmarkslauna og einn af flutningsmönnum þeirrar tillögu hafi einmitt verið núverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir. Í áðurnefndu frumvarpi var gert ráð fyrir því að lágmarkslaun myndu hækka úr kr. 103.500 í kr. 138.500 sem var hækkun upp á 33,8%. Ef þetta frumvarp hefði orðið að lögum og laun hefðu auk þess tekið kjarasamningsbundnum hækkunum þá væru lágmarkslaun í dag í kringum kr. 200.000 á mánuði. Formaður sagði einnig í svari sínu að ef verkalýðshreyfingunni bæri ekki gæfa til að lagfæra lágmarkslaun hér á landi þannig að þau dygðu fyrir lágmarksframfærslu þá væri ekkert annað í stöðunni fyrir Alþingi Íslendinga en að taka fram fyrir hendur verkalýðshreyfingarinnar og lögbinda lágmarkslaun hér á landi yfir kr. 200.000 á mánuði.

Í dag er einstaklingur sem er á lágmarkstaxta með kr. 165.000 á mánuði. Hann fær útborgað einungis kr. 141.999 og er gert að greiða í skatt kr. 14.751. Meira að segja atvinnuleitandinn sem er á grunnatvinnuleysisbótum er með í tekjur kr. 149.523 og fær útborgað kr. 132.825. Meira að segja þessi einstaklingur er skattskyldur upp á tæpar 10.000 krónur. Formaður spyr sig, hversu langt er hægt að teygja sig í að skattpína lágtekjufólk.

Eitt atriði kom ekki fram á fundinum í gær, en er bráðnauðsynlegt að rifja upp sérstaklega í ljósi fundarefnisins um fátækt á Íslandi. Þann 1. janúar 1997 sagði núverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir að fátækt á Íslandi væri þjóðarskömm. Hún sagði einnig orðrétt: "Það er vissulega mjög alvarlegt ef sá maður sem öðrum fremur hefur fjöregg þjóðarinnar í hendi sér, sjálfur forsætisráðherrann neitar að horfast í augu við þá staðreynd að tugir þúsunda heimila í landinu búa við kjör nálægt sultarmörkum. Þetta er smánarblettur á þjóðinni.".

Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir núverandi forsætisráðherra árið 1997. Þá var ástandið afar slæmt en óhætt er að fullyrða að það er mun verra núna. Því spyr formaður, hvað ætlar forsætisráðherra að gera við þessari þjóðarskömm? Spyr sá sem ekki veit.

Það var afar ánægjulegt að heyra í fundarmönnum að loknum fundinum hversu ánægðir þeir eru með baráttu Verkalýðsfélags Akraness fyrir bættum kjörum lágtekjufólks. Mörg falleg orð féllu um félagið sem gerir ekkert annað en að efla okkur enn frekar í því að berjast fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna.

06
Sep

Borgarafundur um fátækt

Formanni félagsins hefur verið boðið sitja borgarafund um fátækt á Íslandi. Fundurinn verður á miðvikudaginn og hefst kl. 20.00 og fer fram í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Í pallborði verða ásamt formanni Verkalýðsfélags Akraness ráðherrar, forseti ASÍ og formaður BSRB. 

Frummælendur verða talsmenn öryrkja, aldraðra og atvinnuleitenda auk fulltrúa hjálparsamtaka.

Nánari upplýsingar um fundinn má fá með því að smella hér.

03
Sep

Vel heppnuð ferð eldri félagsmanna

Í gær gerðu eldri félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness ásamt mökum víðreist í dagsferð á vegum félagsins. Þessi ferð er árlegur liður í starfsemi félagsins og að þessu sinni var ferðinni heitið til Vestamannaeyja undir dyggri leiðsögn Björns Inga Finsen.

Í ár lögðu um 110 félagsmenn auk fulltrúa félagsins og leiðsögumanni af stað í tveimur rútum frá Akranesi í ágætis veðri. Veðurspá hafði ekki verið ferðafólki í hag, en sem betur fer rættist úr því í tæka tíð.

Ekið var sem leið lá frá Akranesi í gegnum Mosfellsbæ, um veginn við Hafravatn, yfir Hellisheiði og í Hveragerði. Þar var stutt áning í Eden. Áfram var haldið til Selfoss og komið við í Laugardælum þar sem kirkjan var skoðuð og fólk gat augum litið leiði Bobbys Fisher.

Frá Laugardælum var ekið áfram til austurs í gegnum Hellu og til Hvolsvallar þar sem ferðafólk teygði aðeins úr sér við hið sögufræga hús Ömmubæ. Frá Ömmubæ var ekið rakleiðis að Markarfljóti og suður að hinni nýju Landeyjahöfn þar sem Herjólfur beið eftir ferðafólki.

Sjóferðin gekk mjög vel þótt dálítill veltingur hafi verið við hina þröngu innsiglingu Landeyjahafnar, en það lagaðist fljótlega eftir að út á rúmsjó var komið. Siglingin sjálf tekur ekki nema um 30 mínútur og fyrr en varði hafði ferðafólk fast land undir fótum á ný í Vestmannaeyjum.

Í Vestmannaeyjum beið ferðafólks léttur hádegisverður í boði félagsins. Að snæðingi loknum var haldið af stað í rútum í útsýnisferð um eyjuna með leiðsögn frá Unni og Simma hjá Viking Tours. Ýmsir staðir voru skoðaðir, t.d. Herjólfsdalur, Fjósaklettur, Stórhöfði, Ræningjatangi, Eldheimar (Pompei du Nord), Gaujulundur og Skansinn.

Að útsýnisferð lokinni var ferðafólki ekið aftur að Herjólfi þar sem við tók sigling upp á land. Boðið var upp á hressingu um borð. Í Landeyjum tók Björn aftur við leiðsögunni og var ekið til baka að Selfossi, upp með Ingólfsfjalli og í Þrastarlund þar sem áð var. Þar las Garðar Halldórsson upp ljóð fyrir hópinn í dásamlegu veðri undir berum himni. Ljóðið samdi hann árið 1974 í tilefni af 50 ára afmæli Verkalýðsfélags Akraness. Var gerður góður rómur að flutningi Garðars.

Frá Þrastarlundi var ekið vestanmegin við Þingvallavatn, framhjá Nesjavöllum um Grafninginn, yfir Mosfellsheiði og komið niður í Mosfellsdal þaðan sem ekið var sem leið lá til Akraness.

Þessi ferð var afskaplega vel heppnuð í alla staði og kann skrifstofa félagsins þeim sem komu að undirbúningi hennar hinar bestu þakkir fyrir.

01
Sep

Verkalýðsfélag Akraness í átaki til að ná fram afsláttarkjörum fyrir félagsmenn

Verkalýðsfélag Akraness leitar nú allra leiða til að létta greiðslubyrði sinna félagsmanna með öllum tiltækum ráðum. Að undanförnu hafa starfsmenn félagsins staðið í viðræðum við fyrirtæki hér á Akranesi og leitast eftir afsláttarkjörum fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness.

Þessi vinna hefur nú þegar borið umtalsverðan árangur, en í gær skrifaði félagið undir viðskiptasamning við N1 um afsláttarkjör til handa sínum félagsmönnum. Afsláttarkjörin eru mjög víðtæk og sem dæmi munu félagsmenn njóta 6 króna afsláttar af dæluverði eldsneytis ásamt hinum ýmsu afsláttum af öðrum vörum hjá N1.

Hægt er að sjá samninginn hér og þau afsláttarkjör sem í boði eru hér.

Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu félagsins til að fá nánari upplýsingar um hvernig þeir virkja afsláttinn á viðskiptakorti eða greiðslulykli sínum.

Að auki hefur félagið náð samkomulagi við fleiri fyrirtæki hér á Akranesi, en þeirri vinnu er ekki endanlega lokið. Þau fyrirtæki sem nú þegar hafa ákveðið að veita félagsmönnum afslátt gegn framvísun félagsskírteinis eru Apótek Vesturlands, Ozone, Omnis og Bifreiðaverkstæðið Brautin og verða afsláttarkjör þessara fyrirtækja kynnt von bráðar. En eins og áður hefur komið fram vonast félagið til þátttöku mun fleiri fyrirtækja og að þetta átak muni verða til þess að lækka greiðslubyrði félagsmanna.

Þau fyrirtæki sem eru tilbúin til að veita afslætti fyrir Verkalýðsfélag Akraness eru eindregið hvött til að hafa samband við skrifstofu félagsins. Rétt er að geta þess að um 3.000 félagsmenn eru í VLFA og mun félagið sjá um að auglýsa þessi afsláttarkjör vel og rækilega fyrir sínum félagsmönnum.

31
Aug

Hvalveiðar ganga mjög vel

Í morgun kom 109. hvalurinn á land í Hvalstöðinni í Hvalfirði á þessari vertíð. Það var Hvalur 8 sem þá kom til hafnar. Hvalur 9 kom með tvo í stöðina á sunnudaginn. Að sögn Gunnlaugs Fjólar Gunnlaugssonar skiptast skipin á um að koma inn sitt hvorn daginn. „Veiðarnar hafa gengið eins og í sögu, þrátt fyrir að þokan hafi legið svolítið við ströndina að undanförnu og skipin því þurft að sigla lengra eða allt upp í 200 mílur út,“ segir Gunnlaugur Fjólar í samtali við Skessuhorn.

Hann segir talsvert af skólafólki hafa unnið við hvalinn í sumar og af þeim sökum orðið mannaskipti núna að undanförnu. Hvalur hf. hefur leyfi til að veiða 150 landreyðar í sumar og reyndar 25 dýr til viðbótar frá síðustu vertíð. Gunnlaugur Fjólar segir að miðað við ganginn á vertíðinni séu góðar horfur á að það takist að veiða kvótann á þessari vertíð, en reyndar gerist þokan oft aðgangshörð á miðunum þegar haustar.

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá skipta veiðar og vinnsla á hval gríðarlegu máli fyrir samfélagið hér á Akranesi, enda hafa hátt í 150 manns atvinnu af þessari starfsemi þótt þeir komi ekki allir frá Akranesi.  Tekjumöguleikar þeirra sem starfa við vinnsluna bæði hér á Akranesi sem og í hvalstöðinni eru þó nokkrir og voru meðallaun starfsmanna við vinnsluna um 600 þúsund í fyrra, en rétt er að geta þess að mikil vinna lá að baki slíkum launum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image