• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Jun

Hefur gríðarlega jákvæð áhrif á atvinnulífið

Hvalveiðiskipin Hvalur 8 og 9 héldu til veiða í gærkveldi og má því búast við að fyrstu hvalirnir berist til vinnslu á þriðjudaginn.  Undirbúningur fyrir vertíðina hefur staðið yfir í allan vetur og bíða starfsmenn spenntir eftir fyrsta hvalnum.

Það er morgunljóst að hvalveiðar hafa gríðarlega jákvæð áhrif á atvinnulífið hér á Akranesi og í nærsveitum. En um 150 manns höfðu atvinnu af hvalveiðum á síðustu vertíð og eru umtalsverðir tekjumöguleikar í boði fyrir starfsmenn. Það er unnið á vöktum allan sólarhringinn og voru meðallaun verkafólks á vertíðinni í fyrra rétt tæpar 600 þúsund á mánuði en rétt er að geta þess að mjög mikil vinna lá að baki slíkum launum.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar því innilega að hvalveiðar séu nú að hefjast á nýjan leik enda hafa þær mjög jákvæð áhrif á allt samfélagið hér á Akranesi eins og áður hefur komið fram.

25
Jun

Ætlar ríkisstjórnin virkilega að virða dóm hæstaréttar að vettugi?

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, kallar eftir víðtækri samstöðu ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu um það að eyða óvissu um hvernig skuli fara með gengistryggðu lánin. Formaður Verkalýðsfélags Akraness spyr: Hvað er forsætisráðherrann að fara með slíkum málflutningi? Er ekki búið að kveða upp dóm í hæstarétti sem kveður skýrt á um hvernig taka eigi á gengistryggðu lánunum? Ætlar þessi ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, velferð og jöfnuð að virða dóm hæstaréttar að vettugi?

Það liggur fyrir að hæstiréttur dæmdi gengisbundin lán í íslenskum krónum ólögmæt. Hæstiréttur var ekki að dæma að þeir vextir sem tilgreindir voru í samningunum væru ólöglegir og á þeirri forsendu eiga umræddir vextir að standa. Það er ótrúlegt að verða vitni að því að þegar dómur fellur sem er hagstæður fyrir skuldsett heimili þá ætlar allt um koll að keyra hjá íslenskum stjórnvöldum. Að menn eins og Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra byrji að reka skefjalausan hræðsluáróður um að allt fari fjandans til ef fjármálastofnanir sem brutu lög þurfi að fara eftir dómi hæstaréttar. Íslensk alþýða er ekki búin að gleyma hvernig ríkisstjórn Íslands hjálpaði fjármagnseigendum þegar bankakerfið hrundi en eins og allir vita þá settu íslensk stjórnvöld 200 milljarða inn í peningamarkaðssjóðina og tryggðu einnig allar innistæður í bönkum. Á þessu sést að íslensk stjórnvöld eru tilbúin til að verja fjármagnseigendur með kjafti og klóm á meðan skuldsettum heimilum er gert að greiða allar sínar skuldir og jafnvel þó umrædd lán standist ekki íslensk lög. En þegar kemur að því að fjármálastofnanir þurfi að fara eftir dómi hæstaréttar þá er það mat stjórnvalda að það gangi ekki upp.

Eru menn búnir að gleyma því sem fram kom í rannsóknarskýrslu alþingis en þar kemur fram að bankarnir hafi tekið stöðu gegn íslensku krónunni með skelfilegum afleiðingum fyrir samfélagið allt. Þetta samfélag okkar er orðið endanlega sjúkt ef stjórnvöld ætla að hunsa dóma frá hæstarétti. Það er í raun grátbroslegt að verða vitni að viðbrögðum ríkisstjórnarinnar í hinum ýmsu málum er lúta að verkafólki og skuldsettum heimilum í ljósi þess að stjórnin segist hafi félagshyggju, velferð og jöfnuð að leiðarljósi í sínum störfum. Eitt er víst að formaður VLFA hefur ekki orðið var við slík vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnar Íslands, svo mikið er víst.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á alþýðu þess lands að standa nú saman og láta stjórnvöld ekki komast upp með að níðast áfram á skuldsettum heimilum.  

22
Jun

Laus vika í orlofshúsi á Eiðum um verslunarmannahelgina

Að venju hefur verið mikil aðsókn í orlofshús Verkalýðsfélags Akraness og eru nú allar vikur í þeim 11 orlofshúsum og íbúðum sem félagið býður upp á í sumar að verða bókaðar. Aðeins tvær vikur eru nú lausar og er önnur vikan yfir verslunarmannahelgina (30. júlí-6. ágúst) í orlofshúsi á Eiðum í nágrenni Egilsstaða. Hin vikan er á Akureyri í lok ágúst (20.-27. ágúst). Til að bóka þessar vikur er hægt að hafa samband við skrifstofu í s. 430-9900 eða bóka í gegnum félagavefinn. Fyrstur kemur, fyrstur fær!

21
Jun

Fundað með starfsmönnum ISS

Eins og fram kom hér á heimasíðunni ekki alls fyrir löngu þá fundaði formaður með lögmanni Samtaka atvinnulífsins vegna ágreinings og útfærslu á þeim launahækkunum sem eiga að taka gildi frá og með 1. júní síðastliðnum vegna starfsmanna ISS á Grundartanga.

Í dag fundaði síðan formaður með starfsmönnum ISS á Grundartanga og fór yfir þá möguleika sem eru í stöðunni og upplýsti þá um leiðir til lausnar á þeim ágreiningi sem verið hefur til staðar. Fundurinn var mjög góður og nú liggur fyrir niðurstaða varðandi þær launahækkanir sem eiga að taka gildi frá 1. júní og mun byrjandi verða með grunnlaun upp á 182.107 kr. og starfsmaður sem hefur starfað í 10 ár mun verða með 215.191 kr. í grunnlaun. Eru því grunnlaun starfsmanns á 10 ára taxta að hækka um 10.247 kr. á mánuði eða sem nemur 5%.

Tvö minniháttar ágreiningsefni eru nú til úrlausnar hjá Samtökum atvinnulífsins og á formaður von á að farsæl lausn finnist á þeim ágreiningi. Það lítur að uppfærslu á fyrirtækjasamningi og hækkun á orlofs- og desemberuppbótum. Í dag eru orlofs- og desemberuppbætur samtals 203.994 kr. Þessar uppbætur að mati formanns félagsins þurfa að fara upp í 228.526 kr. til að taka þeim hækkunum sem þeim ber frá því þær hækkuðu síðast.

18
Jun

Brandaranum um stöðugleikasáttmálann lokið

Nú liggur fyrir að svokallaður stöðugleikasáttmáli sé endanlega úr sögunni eftir að miðstjórn Alþýðusambands Íslands sagði sig frá honum á fundi á miðvikudaginn var. Þar á undan höfðu Samtök atvinnulífsins sagt sig frá sáttmálanum vegna þess að sjávarútvegsráðherra hafði heimilað veiðar á 2000 tonnum af skötusel sem ekki var úthlutað beint til þeirra útgerðarfyrirtækja sem hafa aflaheimildir hér á landi.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð verið á móti þessum stöðugleikasáttmála og kom það fram strax í upphafi þegar verið var að gera þennan sáttmála enda hefur komið í ljós að það eina sem hefur gengið eftir í þessum sáttmála er að verkafólk og launþegar þessa lands voru þvingaðir til að fresta og afsala sér sínum launahækkunum sem um var samið 17. febrúar 2008. Verkafólk varð af vegna þessa sáttmála vel á annað hundrað þúsund króna og þess vegna er það afar ánægjulegt að sjá að Verkalýðsfélag Akraness hafði rétt fyrir sér þegar það gagnrýndi þennan sáttmála.

Það er mat formanns að þessi stöðugleikasáttmáli hafi verið einn brandari frá upphafi til enda því eins og áður hefur komið fram þá gekk ekkert eftir í samningnum annað heldur en að launafólk varð af hluta af sínum umsömdu launahækkunum. Á sama tíma vörpuðu ríki, sveitarfélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar allir sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið. Vandi áðurnefndra aðila var látinn falla af fullum þunga á íslenska neytendur.

Það er einnig grátbroslegt að verða vitni að því að Samtök atvinnulífsins segi sig frá sáttmálanum vegna þess að sægreifarnir fengu ekki úthlutað þeim skötuselskvóta sem úthlutað var og núna hefur miðstjórn ASÍ einnig sagt sig frá þessum sáttmála vegna þess að ríkið ætlar ekki að standa við sinn hluta er lýtur að greiðslum í starfsendurhæfingarsjóð. Hefði ekki verið nær að segja sig frá þessum sáttmála á grundvelli þess að atvinnurekendur ætluðu ekki að standa við þann hófstillta kjarasamning sem gerður var 17. febrúar 2008?

Formaður vill hins vegar að það komi skýrt fram að það er mjög mikilvægt að þessi nýi starfsendurhæfingarsjóður hafi burði til að starfa á þeim forsendum sem hann á að gera enda er hann liður í að efla og treysta stöðu launafólks á vinnumarkaði sem lendir á áföllum vegna veikinda og slysa. En hins vegar eins og áður sagði er það undarlegt að miðstjórn ASÍ skuli segja sig frá sáttmálanum á grundvelli þess að ríkið standi ekki við sinn hluta varðandi starfsendurhæfingarsjóðinn en fannst ekki ástæða til að segja sig frá honum þó svo að atvinnurekendur ætluðu ekki að standa við þann hófstillta samning sem gerður var 17. febrúar 2008.

Rætt var við formann Verkalýðsfélags Akraness um þetta mál í hádegisfréttum Rásar 1 og má hlusta á það hér.

16
Jun

Réttast væri að afturkalla aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Eins og fram kom í fréttum í gær þá hefur þýska þingið sett fram það skilyrði fyrir fullri aðild Íslands að Evrópusambandinu að Íslendingar hætti hvalveiðum.

Svona hótanir er alls ekki hægt að láta átölulaust. Ef að þetta er það sem koma skal í viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu þá er það skoðun formanns Verkalýðsfélags Akraness að afturkalla eigi aðildarumsókn tafarlaust. Ef við Íslendingar höfum ekki heimild til að nýta okkar fiskistofna að höfðu samráði og tillögu frá Hafrannsóknarstofnun Íslands þá höfum við ekkert inn í Evrópusambandið að gera.

Það voru 150 manns sem höfðu atvinnu af hvalveiðum í fyrra í það minnsta og meðallaun starfsmanna í hvalstöðinni í Hvalfirði og á Akranesi voru nálægt 600 þúsund krónum þó vissulega hafi mikil vinna legið að baki þeim tekjum. Við getum ekki undir nokkrum kringumstæðum látið aðrar þjóðir segja okkur hvort við megum nýta okkar auðlindir þegar í ljós hefur komið að stofnarnir þola þær veiðar sem stundaðar eru. Og einnig er rétt að benda á það gríðarlega atvinnuleysi sem herjar á okkur Íslendinga um þessar mundir.

Ef þetta er það sem koma skal í þessum aðildarviðræðum þá virðist ekki vera von á góðu fyrir okkur Íslendinga og því ítrekar formaðurinn þá skoðun sína að betra sé að afturkalla aðildarumsóknina heldur en að liggja undir svona hótunum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image