• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Formaður félagsins ræddi um verkalýðshreyfinguna í Háskóla Íslands Háskóli Íslands
06
Oct

Formaður félagsins ræddi um verkalýðshreyfinguna í Háskóla Íslands

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Háskóla Íslands, sem kennir námskeið í mannauðsstjórnun sem heitir Samskipti á vinnumarkaði, bauð formanni Verkalýðsfélags Akraness að koma og hitta nemendur á meistarastigi í mannauðsstjórnun til að ræða um verkalýðshreyfinguna.

Að sjálfsögðu þáði formaður þetta góða boð og mætti í Háskóla Íslands í gær til að fara yfir málefni er lúta að verkalýðshreyfingunni og stöðu hennar í dag. Fram kom í máli formanns félagsins í háskólanum í gær að hann telur gríðarlega gjá hafa myndast á milli hins almenna félagsmanns og verkalýðshreyfingarinnar. Það kom einnig fram hjá honum að hann telur að verkalýðshreyfingin hafi misst traust og trúnað sinna félagsmanna enda er það mat formanns að forystan hafi ekki tekið stöðu með launafólki í því skelfingarástandi sem nú ríkir hjá íslenskum heimilum.

Sem dæmi þá hefur forysta ASÍ barist fyrir því að verðtryggingin fái að halda sér eins og margoft hefur komið fram í fjölmiðlum og nægir að nefna í því samhengi að forseti ASÍ var ekki sammála tillögum sem voru fólgnar í því að taka neysluvísitöluna úr sambandi í janúar 2009 og festa hana við verðbólgumarkmið Seðlabankans en slík aðgerð hefði klárlega hjálpað skuldsettum heimilum umtalsvert. Einnig kom fram í máli formanns að honum finnst vanta allan kraft í verkalýðshreyfinguna er lítur að kjarabaráttu almennt og nægir að nefna í því samhengi að lágmarkslaun á Íslandi eru einungis 165 þúsund krónur í dag sem er útilokað fyrir nokkurn mann að framfleyta sér á.

Formaður nefndi einnig á námskeiðinu í gær að verkalýðshreyfingin verði að taka stöðu með launþegum, berjast af alefli fyrir almennum leiðréttingum á stökkbreyttum skuldum heimilanna og beita sér af fullum þunga fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna í komandi kjarasamningum. Formaður nefndi það einnig að aðkoma verkalýðshreyfingarinnar að lífeyrissjóðunum hafi klárlega skaðað hreyfinguna enda hefur forysta ASÍ því miður tekið stöðu með lífeyrissjóðunum sem síðan hefur leitt til þess að skuldsett heimili hafa fengið það illilega í bakið. Nægir að nefna varðstöðu ASÍ við verðtrygginguna í því samhengi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image