• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Oct

Verkalýðsfélag Akraness styrkir Hagsmunasamtök heimilanna um 200 þúsund krónur

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á fundi sínum í gær að styrkja Hagsmunasamtök heimilanna um 200 þúsund krónur vegna frábærrar baráttu þeirra vegna skuldavanda íslenskra heimila. Verkalýðsfélag Akraness hefur frá upphafi stutt Hagsmunasamtökin af fullum hug í þeirri baráttu að bæta stöðu skuldsettra heimila, meðal annars með almennum leiðréttingum á skuldum. HH hafa lagt fram ítarlegar tillögur til að mæta skuldavanda heimilanna og eru þetta tillögur í anda þess sem Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð talað fyrir.

Það er með ólíkindum að grasrótarsamtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna sem hafa frá upphafi tekið stöðu með heimilunum skuli vera búin að ná jafnlangt í sinni vinnu eins og raun ber vitni og nægir að nefna fund samtakanna með ríkisstjórninni í gær þar sem farið var yfir áðurnefndar tillögur. Það er dapurlegt að verða vitni að því að forysta ASÍ hafi ekki lýst yfir fullum opinberum stuðningi við Hagsmunasamtök heimilanna heldur þvert á móti hafa þeir verið á móti þeirri hugmyndafræði sem Hagsmunasamtökin hafa boðað. Nægir að nefna í því samhengi orð forseta Alþýðusambands Íslands á aukaársfundi ASÍ þar sem hann var að fjalla um skuldavanda heimilanna og tillögur ASÍ í þeim efnum en orðrétt sagði forsetinn "Það er hins vegar mikið áhyggjuefni hvernig bæði stjórnmálaflokkar og sjálfskipaðir bjargvættir hafa afvegaleitt umræðuna um raunhæfar lausnir á vanda heimilanna. Yfirboð um almenna lækkun skulda sem fjármagna á með galdraþulum skapa auðvitað væntingar meðal almennings um það sem vitað er að ekki verður hægt að mæta". Einnig sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, orðrétt þegar ríkisstjórnin kynnti aðgerðapakka vegna skuldavanda heimilanna: "Mér finnst þetta mjög jákvætt skref sem þarna er tekið, mér sýnist að þær kröfur sem við höfum sett fram við stjórnvöld séu að flestu leyti ef ekki öllu til skila haldið."

Formanni er það óskiljanlegt af hverju forysta Alþýðusambands Íslands tekur ekki stöðu með sínum félagsmönnum en það hefur margoft komið fram að þeir eru á móti almennum leiðréttingum á skuldum heimilanna og hafa t.d. varið tilvist verðtryggingarinnar með hagsmuni lífeyrissjóðanna að leiðarljósi af fullum þunga. Formaður hefur spurt sig í hvaða liði forseti Alþýðusambands Íslands er í þessum efnum og hefur nánast komist að þeirri niðurstöðu að hann sé í hálfgerðu yfirliði þegar kemur að hagsmunagæslu fyrir sína félagsmenn.

Ríkisstjórn Íslands og forystu ASÍ hefur verið tíðrætt um það að kostnaður við almennar leiðréttingar sé svo mikill að þær séu ekki framkvæmanlegar. En samkvæmt fjölmiðlum hafa átt sér gríðarlegar afskriftir frá hruninu til útrásarvíkinga og fyrirtækja og nægir að nefna samkvæmt fréttum afskriftir eins og:

  • Ólafur Ólafsson í Samskip, 88 milljarðar
  • Baugsfeðgar, 30 milljarðar
  • Magnús Kristjánsson, útgerðarmaður, 50 milljarðar
  • Bjarni Ármannsson, 800 milljónir

Í fréttum í september 2009 kom fram að eignarhaldsfélög hefðu fengið nærri 85 milljarða afskrifaða sem eru meðal annars í eigu eftirfarandi aðila:

  • Langflug, Finnur Ingólfsson, 14 milljarðar
  • Pálmi Haraldsson, Fons, 30 milljarðar

Og í fréttinni segir að svona mætti lengi telja en þarna hafi fréttastofan tínt til helstu afskriftir bankanna að undanförnu til eignarhaldsfélaga en samtals voru afskriftir til eignarhaldsfélaga eins og áður hefur komið fram 85 milljarðar. Núna fyrir örfáum dögum kom fram að 8 fyrirtæki hefðu fengið afskrifaðar skuldir sínar upp á tæpa 55 milljarða. Samtals eru þetta ef marka má fréttir 309 milljarðar sem hafa verið afskrifaðir til eignarhaldsfélaga tengdum útrásarvíkingum og fyrirtækjum. Og hafa verður í huga að hér er einungis verið að tala um afskriftir sem ratað hafa í fjölmiðla.

Svo talar ríkisstjórnin og forysta ASÍ um kostnað vegna almennra leiðréttinga á skuldum heimilanna. Slíkan málflutning í ljósi þessara staðreynda er ekki annað hægt en að fordæma. Séstaklega í ljósi þeirra ummæla að slá hafi átt skjaldborg um heimili landsmanna. Það er ljóst að forysta ASÍ og ríkisstjórnin hafa misskilið hlutverk sitt og ekki slegið skjaldborg utan um heimilin heldur fjármögnungarfyrirtækin. 

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að Alþingi Íslendinga verði að skipa óháða rannsóknarnefnd þar sem kallað verður eftir öllum afskriftum til fyrirtækja og einstaklinga og það upplýst fyrir alþjóð hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig í reykfylltum bakherbergjum fjármálastofnanna. 

Alþýða þessa lands getur ekki horft upp á þetta grímulausa óréttlæti sem birtist í afskriftum á skuldum til útrásarvíkinga og einstakra fyrirtækja eins og birst hefur í fjölmiðlum. Það er grundvallaratriði samt sem áður að skuldsett heimili eru ekki að fara fram á neina ölmusu heldur einungis sanngjarna leiðréttingu á stökkbreyttum skuldum sínum sem það gat ekki undir nokkrum kringumstæðum borið neina ábyrgð á.

Verkalýðsfélag Akraness skorar á verkalýðshreyfinguna í heild sinni að styðja tillögu Hagsmunasamtaka heimilanna af fullum þunga enda eru tillögur þeirra klárlega til hagsbóta fyrir heimili landsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image