• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Sep

Afar þungt hljóð í aðalsamninganefnd Verkalýðsfélags Akraness

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness sem jafnframt er aðalsamninganefnd félagsins fundaði í gær. Aðalmál fundarins var stefnumótun vegna komandi kjarasamninga og er óhætt að segja að þungt hljóð hafi verið í fundarmönnum. Aðalsamninganefndin samþykkti að leggja ofuráherslu á stórhækkun lágmarkslauna, enda var það mat nefndarinnar að lágmarkslaun á Íslandi dugi engan veginn til lágmarksframfærslu.

Samninganefndin var sammála því að við undirskrift kjarasamnings á hinum almenna vinnumarkaði verði tryggt að lágmarkslaun á íslandi verði alls ekki undir kr. 200.000. Samninganefndin var einnig sammála því að sótt verði af alefli á þær greinar sem vitað er að hafi borð fyrir báru til að hækka laun sinna starfsmanna. Nægir að nefna í því samhengi allar útflutningsgreinarnar eins og t.d. fiskvinnslufyrirtækin, stóriðjurnar, ferðaþjónustuna og önnur fyrirtæki sem selja sínar vörur á erlenda markaði.

Það var einnig mat samninganefndarinnar að þjóðarsátt eða stöðugleikasáttmáli sem byggðist á því að launþegar tækju enn og aftur allar byrðar á sig væri ekki til umræðu og nægir að nefna í því samhengi það ofbeldi sem launþegar og íslenskir neytendur hafa orðið fyrir frá bankahruninu. Kaupmáttur launa hefur hríðfallið frá hruni og því til viðbótar hafa skuldir heimilanna á þessu tímabili u.þ.b. tvöfaldast. Matarverð hefur hækkað um 40% frá janúar 2008, bensín um 45%, Orkuveita Reykjavíkur hækkar gjaldskrá sína um tæp 30%, ríki hefur stórhækkað skatta og svikið loforð um verðtryggingu persónuafsláttar, tryggingafélög hafa hækkað iðgjöld sín, sveitarfélögin komu með gjaldskrárhækkanir,  og svona mætti í raun og veru lengi telja. Að tala um þjóðarsátt með þessar bláköldu staðreyndir fyrir framan sig er grátbroslegt. Þessu til viðbótar voru launþegar þvingaðir til að fresta og afsala sér hluta af sínum kjarasamningsbundnu hækkunum sem um var samið 2008. 

Launþegar hafa nú þegar fengið allar þessar kostnaðarhækkanir á sig og stökkbreytingu skulda að auki. Samt tala einstaka forystumenn í verkalýðshreyfingunni um þjóðarsátt! Þessi málflutningur er formanni VLFA algerlega óskiljanlegur. Sérstaklega í ljósi þess að núna er loksins tækifæri fyrir launþega að bæta hag sinn í gegnum þá kjarasamninga sem framundan eru. Ljóst er að íslenskir launþegar munu alls ekki sætta sig við að gerð verði þjóðarsátt í ljósi þess ofbeldis sem þeir hafa verið beittir frá hruni.

Það var einnig mat samninganefndar VLFA að mikilvægt sé að komið verði með almennar leiðréttingar til handa skuldsettum heimilum landsins. Það er ljóst að greiðsluþol og greiðsluvilji hjá íslenskum launþegum fer þverrandi frá degi til dags og á þeirri forsendu verði að koma til almennra leiðréttinga á skuldum íslenskra heimila.

Aðalsamninganefndin samþykkti að fara í samflot með SGS í komandi kjarasamningum, sérstaklega í ljósi þess að sífellt fleiri félög taka nú undir með málflutningi VLFA um að sækja skuli á útflutningsgreinarnar og nægir að nefna nýsamþykkta ályktun AFLs á Austurlandi. Því miður hefur komið fram hjá forseta ASÍ og formönnum einstakra félaga að þeir séu mótfallnir þeirri nálgun að sækja á útflutningsgreinarnar í komandi kjarasamningum. Það er formanni reyndar gjörsamlega óskiljanlegt. Ef árangur á að nást í að lagfæra kjör þeirra sem minnst mega sín í íslensku samfélagi er það grundvallaratriði að verkalýðshreyfingin standi þétt saman sem ein heild og er það skoðun samninganefndarinnar að vart eigi að hefja viðræður við Samtök atvinnulífsins fyrr en þau hafi samþykkt að lágmarkslaun á Íslandi verði alls ekki undir kr. 200.000 við undirritun kjarasamnings.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image