• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Oct

Hægt að verja velferðarkerfið með því að skattleggja séreignarlífeyrisgreiðslur strax

Það er óhætt að segja að nýju fjárlögin sem kennd eru við hrunfjárlög hafi vakið upp ugg og ótta á meðal almennings. En í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir stórfelldum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu sem nemur 5,4 milljörðum. Þessi niðurskurður í heilbrigðiskerfinu mun koma afar misjafnlega niður á heilbrigðisstofnanir en verst kemur heilsugæslan í Þingeyjarsýslu út með 40% niðurskurð. Það er einnig verið að skerða almannatryggingar og velferðarmál um 4,5 milljarða og nægir að nefna í því samhengi að fyrirhugað er að skerða barnabætur um 900 milljónir, vaxtabætur um tæpar 300 milljónir og skerða á fæðingarorlofssjóð um 1 milljarð. Að auki er ekki gert ráð fyrir neinum launahækkunum í þessu frumvarpi, ekki einu sinni til þeirra allra tekjulægstu sem starfa hjá hinu opinbera. Það er ljóst að þetta frumvarp mun valda því að tugir ef ekki hundruðir opinberra starfsmanna munu missa vinnuna með skelfilegum afleiðingum fyrir samfélagið allt. Hver er hinn raunverulegi sparnaður af því að segja upp opinberum starfsmanni og færa vandann frá til dæmis heilbrigðiskerfinu yfir á félagsmálaráðuneytið í formi þess að viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður sem missir vinnuna fer á atvinnuleysisbætur.

Með öðrum orðum er verið að skera niður í velferðarmálum um 10 milljarða sem er skelfilegt því það er skylda okkar að verja velferðarkerfið okkar með kjafti og klóm.  Það er óskiljanlegt að ríkisstjórnin skuli ekki nýta sér þá heimild að skattleggja tafarlaust inneign í séreignarlífeyrissjóðum landsmanna en slíkt myndi skila ríkissjóði um eða yfir 100 milljörðum og þannig væri hægt að komast hjá þessum blóðuga niðurskurði í velferðarkerfinu okkar. Ugglaust er það hárrétt að ríkið verði að leita allra leiða til að hagræða í sínum rekstri og ekkert nema gott um það að segja en að það skuli bitna á velferðarkerfinu okkar með jafn skelfilegum hætti og raunin ætlar að verða er algjörlega óásættanlegt. Því skorar formaður Verkalýðsfélags Akraness á ríkisstjórn Íslands að nýta sér þá heimild að skattleggja séreignarlífeyrisgreiðslur landsmanna án tafar og slá skjaldborg utan um velferðarkerfið okkar um leið.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness spyr sig: Er þetta skjaldborgin og norræna velferðin sem okkur var lofað á sínum tíma, ef svo er þá segir formaðurinn, sveiattan.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image