• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Aug

Skipuð verði rannsóknarnefnd um málefni Orkuveitunnar

Verkalýðsfélag Akraness stendur agndofa yfir þeirri ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur að hækka gjaldskrá sína um 28,5% 1. október næstkomandi. Tillaga þessa efnis var samþykkt á stjórnarfundi félagsins fyrir helgi.

Þessi ákvörðun stjórnar OR mun verða þess valdandi að greiðslubyrði hjá félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness og öðrum viðskiptavinum Orkuveitunnar mun hækka um tugi þúsunda á ársgrundvelli en í dag kostar rafmagn og hiti í 130 fermetra íbúð 117 þúsund krónur á ári en eftir hækkun verður þessi kostnaður kominn upp í 150 þúsund krónur sem er 33 þúsund króna hækkun. Það er ekki bara að greiðslubyrðin hækki vegna gjaldskrárhækkunarinnar heldur hefur hún umtalsverð áhrif á neysluverðsvísitöluna og sem dæmi þá hækkar 10 milljóna króna verðtryggt húsnæðislán um 56 þúsund krónur vegna þessarar ákvörðunar Orkuveitunnar.

Þessi ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar kemur til vegna þess að fyrirtækið er að mæta stóraukinni skuldastöðu, meðal annars vegna stökkbreyttra erlendra lána. Á þeirri forsendu er rétt að minna á að almennir launþegar hafa einnig orðið fyrir gríðarlegum búsifjum vegna hækkunar á sínum lánum, á það bæði við erlend lán sem og verðtryggð. Því er það morgunljóst að þessi ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar mun hafa umtalsverð áhrif á komandi kjarasamninga því það gengur ekki upp að Orkuveitan, ríki, sveitarfélög og önnur fyrirtæki ætli sér að seilast í vasa íslenskra launþega enn og aftur og ætlast til þess að þeir horfi aðgerðarlausir á. Eðlilegast væri að stéttarfélögin gerðu skýlausa kröfu á þau sveitarfélög sem eiga Orkuveituna, sem eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð, að þau hækki laun sinna starfsmanna um 28,5%.

Það er full ástæða til þess að skipuð verði rannsóknarnefnd sem fari yfir stjórnunarhætti Orkuveitunnar aftur í tímann því að sú gríðarlega skuldaukning sem orðið hefur hjá fyrirtækinu á undanförnum árum á sér vart hliðstæðu. Á sama tíma og þessi mikla skuldasöfnun hefur átt sér stað þá hafa eigendurnir tekið tugi milljarða út í arðgreiðslum og rétt er að rifja upp í fyrra þegar Verkalýðsfélag Akraness og fleiri stéttarfélög mótmæltu harðlega 800 milljóna króna arðgreiðslu til áðurnefndra eigenda á sama tíma og starfsmönnum Orkuveitunnar var gert að skerða laun sín um 400 milljónir.

Það er óhætt að segja að eignarhlutur Akraneskaupstaðar í Orkuveitunni sem menn litu á sem hálfgerðan gullkálf sé að breytast í skrímsli. Það er afar fróðlegt að skoða ársreikning Akraneskaupstaðar frá síðasta ári en þar kemur fram að eignarhlutur Akraneskaupstaðar í Orkuveitunni sé 5,528% og var hann metinn á tæpa 3,7 milljarða. Það undarlega við það mat var að það miðaðist við eigið fé Orkuveitu Reykjavíkur í árslok 2006 en þá var eigið fé Orkuveitunnar rétt rúmlega 66,5 milljarðar. Eigið fé Orkuveitunnar í árslok 2009 var hins vegar rétt rúmir 40 milljarðar. Þannig að ef Akraneskaupstaður hefði miðað við eigið fé Orkuveitunnar 2009 þá hefði eignarhluturinn verið rétt rúmir 2,2 milljarðar sem er 1,5 milljarði minna heldur en kveðið er um í ársreikingi Akraneskaupstaðar. Menn verða að fyrirgefa formanni félagsins en hann skilur ekki hvers vegna notast var við eigið fé frá árinu 2006 en ekki 2009. Getur verið að menn séu að fegra ársreikninga sveitarfélagsins með slíkum vinnubrögðum, spyr sá sem ekki veit.

Það kemur einnig fram í ársreikningnum að ekki sé búið að gera áhættumat vegna eignarhluts Akraneskaupstaðar í Orkuveitunni en eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá skuldar Orkuveitan í dag um 240 milljarða króna. Áhætta Akraneskaupstaðar er fólgin í því að Orkuveitan geti ekki staðið við sínar skuldbindingar og að eigendur þurfi því að koma með fjármagn sökum þess. Formanni er ekki fullkunnugt um hver ábyrgð okkar Akurnesinga er í 240 milljarða skuld en ef það er 5,528% af heildarskuldinni þá er það hvorki meira né minna en rúmir 13 milljarðar sem við Akurnesingar erum þá í ábyrgð fyrir. Þess vegna vill formaður ítreka það sem áður hefur komið fram að það er full ástæða til þess að skipuð verði rannsóknarnefnd sem fari yfir málefni Orkuveitunnar í hvívetna því það gengur ekki upp að þeir sem hafa verið þarna við stjórnvölinn axli enga ábyrgð og varpi síðan vandanum alfarið til neytenda. Það er komið nóg af slíkum vinnubrögðum í íslensku samfélagi.

27
Aug

Fundur með forseta ASÍ stóð til miðnættis

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá fundaði stjórn Verkalýðsfélags Akraness með Gylfa Arnbjörnssyni, forseta Alþýðusambands Íslands í gærkvöldi, en Gylfi er um þessar mundir í fundaherferð þar sem hann mun hitta stjórnir allra 53 aðildarfélaga ASÍ. Með Gylfa í för var Magnús Norðdahl, yfirlögfræðingur ASÍ.

Tilefni fundaherferðarinnar er að kynna fyrir stjórnunum fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á ASÍ og einnig komandi kjarasamninga. Það er skemmst frá því að segja að fundurinn var afar fróðlegur og kraftmikill en fundurinn hófst kl. 20 og var ekki lokið fyrr en um miðnætti. Það voru fjölmörg mál sem voru rædd á þessum 4 tíma fundi fyrir utan skipulagsmálin, svo sem stöðugleikasáttmálinn, lífeyrissjóðirnir og stjórnarskipan þeirra, skuldastaða heimilanna, aðildarumsókn að ESB og síðast en ekki síst komandi kjarasamningar.

Forsetinn fór yfir stöðugleikasáttmálann og hvað hafði áunnist í honum og hvað hafði ekki gengið eftir. Fram kom í máli formanns Verkalýðsfélags Akraness að hann teldi það hafa verið stórkostleg mistök að ganga frá áðurnefndum sáttmála einfaldlega vegna þess að lítið sem ekkert gekk eftir í honum annað en að launafólk var þvingað til að afsala sér og fresta sínum launahækkunum.

Afstaða Verkalýðsfélags Akraness til stjórnarvals í lífeyrissjóðum hefur ætíð verið skýr og komu stjórnarmenn því vel á framfæri við forsetann að það er mat félagsins að það eigi að gjörbreyta stjórnarvali við kjör í lífeyrissjóðum með þeim hætti að stjórnarmenn verði kosnir allir af sjóðsfélögum sjálfum og hætt verði við þessi svokölluðu helmingaskipti á milli verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda. En eins og frægt varð þá lagði Verkalýðsfélag Akraness fram tillögu á ársfundi ASÍ árið 2009 um breytingu á stjórnarvali sem var kolfelld. Fram kom í máli Gylfa að hann teldi að það fyrirkomulag sem nú er ríkjandi sé heppilegt. Þessu er stjórn Verkalýðsfélags Akraness ósammála.

Formaður VLFA sagði við forsetann að hann harmaði þá afstöðu ASÍ að berjast ekki fyrir almennri leiðréttingu á stökkbreyttum skuldum íslenskra heimila og hvatti formaðurinn ASÍ til að berjast fyrir því að gripið verði til almennra leiðréttinga á skuldum heimilanna. Einnig gagnrýndi formaðurinn forsetann og forystu ASÍ fyrir að beita sér ekki af fullum þunga fyrir afnámi verðtryggingarinnar sem hefur leikið íslenska launþega skelfilega á undanförnum árum og áratugum. Það kom fram í máli Gylfa að hann telur nauðsynlegt að viðhalda verðtryggingunni til varnar lífeyrissjóðum þessa lands. Þessu er stjórn Verkalýðsfélags Akraness algjörlega ósammála og benti formaður forsetanum á að húseign okkar er líka lífeyrir.

Formaður skoraði á forsetann að beita sér fyrir því af fullum þunga að fundinn verði út hver hinn rétti lágmarks framfærslustuðull íslenskra heimila sé í dag. Með öðrum orðum, hvað þarf einstaklingur eða hjón með börn mikla framfærslu til að geta rekið sitt heimili og þarf að vera inni í slíkum framfærslustuðli allt sem lítur að rekstri heimilis. Það er mat formanns að þessa tölu þurfi að fá upp á yfirborðið einfaldlega vegna þess að í dag duga lágmarkslaun og -bætur á Íslandi alls ekki til að fólk geti látið enda ná saman. Formaður sagði einnig að hans tilfinning væri einfaldlega sú að ráðamenn vildu ekki fá þennan framfærslustuðul upp á yfirborðið því að þá kæmi sannleikurinn í ljós: Að lágmarkslaun og -bætur dugi ekki fyrir framfærslu. Á þeirri forsendu er brýnt að hagdeild ASÍ finni þennan framfærslustuðul út sem myndi klárlega geta gagnast hreyfingunni í sinni baráttu fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna.

Að sjálfsögðu var mikið rætt um komandi kjarasamninga. Sýn Verkalýðsfélags Akraness á komandi kjarasamninga byggist á því að sótt verði að þeim atvinnugreinum sem hafa borð fyrir báru til að hækka laun sinna starfsmanna. Þetta eru greinar eins og stóriðjan, fiskvinnslan, útgerðir, ferðaþjónustan og í raun öll fyrirtæki sem starfa í útflutningi. Verkalýðsfélag Akraness vill að verkalýðshreyfingin geri skýlausa kröfu og standi þétt saman í því að lágmarkslaun á Íslandi verði alls ekki undir 200 þúsund krónum á mánuði. Það kom fram í máli Gylfa að vissulega væri hægt að fara þessa leið en hann varaði við henni vegna þess að hann telur að þetta muni leiða til kaupmáttarrýrnunar en ekki til kaupmáttaraukningar hjá heildinni. Þennan málflutning skilur formaður Verkalýðsfélags Akraness alls ekki og sagði að það væri með ólíkindum að heyra forsetann reka sama hræðsluáróðurinn og ætíð heyrist þegar á að fara að gera kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði um að slíkt muni fara beina leið út í verðlagið og kaupmátturinn muni ekki koma til fólksins. Þetta eru sömu varnaðarorðin og heyrðust við kjarasamningsgerðina 2008 frá Seðlabankanum, frá ríkisstjórninni og frá forstöðumönnum greiningardeilda bankanna. Formaður spyr sig, hvar á að sækja launahækkanir til handa okkar félagsmönnum ef ekki hjá þeim fyrirtækjum sem starfa í útflutningi? Allavega er eitt morgunljóst að íslenskir launþegar geta ekki lengur látið ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, tryggingafélög og nánast alla aðila varpa sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið og setið aðgerðalausir hjá.

Það kom einnig skýrt fram frá stjórn Verkalýðsfélags Akraness að félagið mun ekki taka þátt í svokallaðri þjóðarsátt í anda þess sem gert var í áðurnefndum stöðugleikasáttmála. En þar gekk ekkert nema eitt eftir eins og áður hefur komið fram, að launafólk þurfti að fresta sínum launahækkunum.

Formaður sagði einnig við forsetann að gríðarleg gjá hafi myndast á milli hins almenna félagsmanns innan ASÍ og forystu hreyfingarinnar. Þessi gjá að mati formanns hafi myndast vegna þeirrar linkindar sem ríkt hefur í verkalýðshreyfingunni um alllanga hríð. Hreyfingin þarf að berjast af alefli fyrir bættum kjörum okkar félgsmanna og þarf að sýna tennurnar í samskiptum sínum við atvinnurekendur og ríkisvaldið. Sagði formaðurinn að því miður upplifði hann hreyfinguna eins og aldraða manneskju sem tæki tennurnar sínar út á kvöldin og setti þær í glas, slík manneskja er gjörsamlega bitlaus. Þannig upplifir formaðurinn íslenska verkalýðshreyfingu í dag. Það kom einnig fram hjá stjórnarmönnum að verkalýðshreyfingin þarf að vinna traust og trúnað sinna félagsmanna á nýjan leik og það verður ekki gert nema með því að hreyfingin sýni mátt sinn og kraft og berjist af fullum heilindum fyrir lagfæringu á kjörum okkar félagsmanna.

Það ber að þakka Gylfa og þeim félögum fyrir að koma og hitta stjórnir félaganna því það er mjög mikilvægt fyrir forsetann að fá að heyra skoðanir stjórna vítt og breitt um landið. Það er alveg hægt að segja að þessi fundur hafi verið góður og gagnlegur þótt menn hafi skipst hressilega á skoðunum inn á milli. Þannig á það líka að vera, menn eiga að geta fengið að tjá sínar skoðanir og sagt þær umbúðalaust.

25
Aug

Þjóðarsátt um hvað?

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍGylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍÁ morgun mun Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ funda með stjórn Verkalýðsfélagi Akraness en þessi fundur er einn liður í fundaherferð forsetans um landið en hann mun hitta að máli stjórnir allra 53 aðildarfélaga Alþýðusambandsins.

Umræðuefni fundanna verða annars vegar afmarkaðar tillögur að breytingum á skipulagi ASÍ og hins vegar mun forsetinn gera grein fyrir samskiptum Alþýðusambandsins við ríkisstjórn og SA á samningstímanum sem nú er að líða. Einnig má búast við að kröfugerð vegna komandi kjarasamninga komi til tals auk Evrópumála.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá mun Verkalýðsfélag Akraness alls ekki taka þátt neinu í anda þess stöðuleikasáttmála sem gerður var í júní 2009.  Í þeim sáttmála gekk nánast ekkert eftir nema eitt, það var að launafólk var þvingað til að fresta og afsala sér sínum umsömdu launahækkunum.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ekki mótað sínar kröfur fyrir komandi kjarasamninga en formaður félagsins hefur nefnt opinberlega að verkalýðshreyfingin eigi að gera skýlausa kröfu um að lágmarkslaun verði alls ekki undir 200.000 kr á mánuði, en þau eru 165.000 kr í dag.

Í grein í fréttablaðinu í dag eftir Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra kemur fram að hann vonast til þess að samstarfsáætlun eða þjóðarsátt ríkis, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka verði í gildi næstu misseri. 

Hvaða þjóðarsátt er Steingrímur J. að ætlast til að íslenskt verkafólk taki þátt í? Getur verið að hann sé að ætlast til þess að verkafólk fái litlar sem engar launahækkanir og haldi áfram að horfa upp á að ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, tryggingafélög og aðrir þjónustuaðilar varpi sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið til að mæta sínum erfiðleikum á meðan að launafólk horfir upp á stórfellda kjaraskerðingu. Það nýjasta sem nú liggur fyrir er fyrirhuguð hækkun á gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur upp á 10-20% og er sú hækkun fyrirhuguð vegna stökkbreyttra höfuðstóla erlendra lána hjá fyrirtækinu.

Það er eins og ráðamenn átti sig ekki á því að skuldir íslenskra heimila hafa líka margfaldast með sama hætti og gerst hefur hjá ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum. Þessir aðilar vilja leggja þyngri byrðar á almenning og ætlast til þess að íslenskir launþegar horfi aðgerðarlausir á. Það er líka rétt að rifja það upp að núverandi ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, jöfnuð og réttlæti hefur svikið verkalýðshreyfinguna um verðtryggingu persónuafsláttar sem um var samið samhliða kjarasamningum 2006 og 2008.  Verðtrygging persónuafsláttar hefur verið eitt af aðalbaráttumálum hreyfingarinnar um alllangt skeið og hefði komið lágtekjufólki afar vel.

Formaður félagsins trúir því ekki fyrr en á reynir að Alþýðusamband Íslands ætli að fara að taka þátt í þjóðarsátt með sambærilegum hætti og gert var í áðurnefndum stöðugleikasáttmála þar sem einungis einn aðili samkomulagsins þurfti að láta eitthvað af hendi rakna en það voru íslenskir launþegar sem þurftu að fresta og afsala sér sínum umsömdu launahækkunum. Slíkri þjóðarsátt mun Verkalýðsfélag Akraness ekki taka þátt í.  Rétt er að geta þess að samningsumboðið liggur hjá stéttarfélögunum sjálfum en ekki ASÍ.

Formaður félagsins á von á gagnlegum fundi með forsetanum þar sem félagið mun koma sínum skoðunum vel á framfæri.

23
Aug

Það eru fleiri með stökkbreytta höfuðstóla en Orkuveitan

Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir í viðtali á mbl.is að gjaldskráin muni hækka töluvert og reiknar með því að hlutfall fyrirhugaðrar gjaldskrárhækkunar fyrirtækisins verði „tveggja stafa tala“.

Það kemur einnig fram í fréttinni að ákvörðun borgarstjórnar, í kjölfar bankahrunsins 2008, um að gjaldskrár borgarinnar skyldu ekki hækkaðar á árinu 2009, gerði það að verkum að Orkuveitan gat ekki brugðist við stökkbreytingu erlendra lána sinna með stækkun tekjustofna, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

Hækkun á gjaldskrám Orkuveitunnar upp á 10% eða meira mun bitna illilega á okkur Skagamönnum enda eru flestir Akurnesingar í viðskiptum við Orkuveitu Reykjavíkur.  Það má lesa úr þessari frétt um fyrirhugaðar gjaldskrárhækkun fyrirtækisins að hún sé vegna mjög slæmrar skuldastöðu fyrirtæksins og vegna stökkbreytingu á erlendum lánum sem Orkuveitan er með. 

Það er ekki bara Orkuveita Reykjavíkur sem er með stökkbreytta höfðustóla erlendra lána og er rétt að rifja upp ef einhver skyldi ekki vita það að íslenskir launþegar eru með stökkbreytingu á öllum sínum lánum bæði hvað varðar erlend lán sem og á verðtryggðu íslensku lánunum. 

Það hlýtur þá að vera eðlilegt að gerð verði launakrafa uppá 10% eða meira á Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað og Borgarbyggð í komandi kjarasamningum til að starfsmenn þessara sveitarfélaga geti mætt stökkbreyttum höfuðstól sinna lána eins og Orkuveitan hefur í hyggju að gera.  En rétt er að geta þess að þessi áðurnefndu sveitarfélög eiga og reka Orkuveitu Reykjavíkur.

Þetta er algjörlega orðið óþolandi að ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar varpi sífellt sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið og ætlist til um leið að íslenskir launþegar sitji og horfi á aðgerðalausir. Það vill til að allir kjarasamningar verða lausir á þessu ári og á þeirri forsendu er gríðarlega mikilvægt að verkalýðshreyfingin standi fast í lappirnar og bæti hag sinna félagsmanna eins og kostur er.

18
Aug

Vistvæn stóriðja

Hvalveiðarnar hafa gengið mjög vel í sumar og eru nú komnir heldur fleiri hvalir á land en á sama tíma í fyrra, þrátt fyrir að veiðarnar hafi byrjað tíu dögum seinna en þá.

Búið er að veiða um 90 hvali. Ástæður betri veiða nú eru að hvalurinn er nær landinu en í fyrra og veður hefur verið mjög hagstætt, en á síðustu vertíð var þoka ítrekað að hamla veiðunum.

Hvalur hf hefur leyfi til veiða á 175 langreyðum á þessari vertíð. Þar með er talin 25 dýra veiðiheimild sem fluttist frá síðustu vertíð en þá tókst ekki að veiða allan kvótann.  

Það er morgunljóst að hvalveiðar hafa gríðarlega jákvæð áhrif á atvinnulífið hér á Akranesi og í nærsveitum en um 150 manns hafa atvinnu af hvalveiðum og eru umtalsverðir tekjumöguleikar í boði fyrir starfsmenn. Það er unnið á vöktum allan sólarhringinn og voru meðallaun verkafólks á vertíðinni í fyrra rétt tæpar 600 þúsund á mánuði en rétt er að geta þess að mjög mikil vinna lá að baki slíkum launum.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar því innilega að hvalveiðar séu nú stundaðar við Íslandsstrendur að nýju, enda hafa þær mjög jákvæð áhrif á allt samfélagið hér á Akranesi eins og áður hefur komið fram.

Það er alveg hægt að líkja veiðum og vinnslu á hval við vistvæna stóriðju enda skila þessa veiðar okkar samfélagi gríðarlegum ávinningi.  Þökk sé Kristjáni Loftssyni og hans mönnum.

16
Aug

Ný lög um vinnustaðaskírteini

Atvinnurekendur og starfsmenn þeirra sem vinna við byggingastarfsemi, mannvirkjagerð, rekstur gististaða og veitingarekstur skulu bera vinnustaðaskírteini við störf sín frá 15. ágúst 2010, sbr. samkomulag ASÍ og SA frá 15. júní 2010. Atvinnurekandi skal sjá til þess að starfsmenn fái vinnustaðaskírteini þegar þeir hefja störf. Atvinnurekandi og starfsmenn hans skulu bera skírteini á sér og vera reiðubúnir að framvísa því, sé þess óskað af eftirlitsfulltrúa. Með atvinnurekanda er einnig átt við sjálfstætt starfandi einstaklinga. Á vinnustaðaskírteini skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:

Nafn og kennitala viðkomandi starfsmanns ásamt mynd. Starfsheiti er valkvætt. Ef starfsmaður erlends þjónustufyrirtækis er ekki með íslenska kennitölu skal skrá fæðingardag og ár.

Nafn/heiti atvinnurekanda eins og það er skráð í fyrirtækjaskrá (eða heiti starfsmannaleigu eins og það er skráð hjá Vinnumálastofnun).

Atvinnurekandi er ábyrgur fyrir gerð vinnustaðaskírteinisins og þeim upplýsingum sem þar koma fram. Hann er ekki bundinn við tiltekið form eða útlit svo lengi sem skírteinið uppfyllir skilyrðin hér að framan. Þau fyrirtæki sem þegar hafa gefið út vinnustaðaskírteini fyrir sig og starfsmenn sína, sem uppfylla skilyrðin hér að framan þurfa ekki að gera sérstakar ráðstafanir.

Beri atvinnurekandi eða starfsmenn hans ekki vinnustaðaskírteini á sér við störf sín á vegum atvinnurekanda á viðkomandi vinnustað atvinnurekanda skv. 2. mgr. 3. gr. geta eftirlitsfulltrúarnir tilkynnt um það til Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun getur krafist þess að atvinnurekandi bæti úr annmörkunum innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum. Sé um ítrekað brot atvinnurekanda að ræða getur Vinnumálastofnun krafist þess að atvinnurekandi bæti úr annmörkum innan sólarhrings. Ákvörðun um dagsektir skv. 1. mgr. skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.

Dagsektir geta numið allt að 100.000 krónum hvern dag. Við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skal meðal annars líta til fjölda starfsmanna atvinnurekanda og hversu umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er. Dagsektir skulu renna í ríkissjóð. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á Skrifstofu félagsins eða á heimasíðunni www.skirteini.is.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image