• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Jun

Fundað með lögmanni Samtaka atvinnulífsins

Formaður félagsins fundaði í dag með lögmanni Samtaka atvinnulífsins, Ragnari Árnasyni, vegna málefna starfsmanna ISS á Grundartanga vegna fyrirtækjasamnings áðurnefndra starfsmanna. Örlítill ágreiningur hefur verið um túlkun á fyrirtækjasamningnum og hvernig launahækkunum skuli háttað til handa starfsmönnum.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá yfirtók ISS rekstur mötuneytis og ræstingar hjá Elkem Ísland en reksturinn hafði áður verið hjá fyrirtæki að nafni Fang sem var í 100% eigu Elkem Ísland. Ágreiningurinn hefur staðið um að öll þau réttindi sem starfsmenn höfðu hjá Fangi færðust yfir til hins nýja rekstraraðila.

Fundurinn var nokkuð góður og eru hugmyndir að lausn á málinu nú til skoðunar hjá félaginu og mun formaður funda með starfsmönnum um eða eftir helgi um þær tillögur sem liggja nú fyrir af hálfu Samtaka atvinnulífsins.

10
Jun

Einstaklingsstyrkir hækka til félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness

Stjórnir Landsmenntar og Sveitamenntar hafa ákveðið að taka upp eftirfarandi viðbót við reglur sjóðanna um afgreiðslu einstaklingsstyrkja: Starfstengt réttindanám: Félagsmenn sem ekki hafa nýtt sér rétt sinn síðustu þrjú ár eiga rétt á styrk allt að kr. 132.000.- fyrir eitt samfellt námskeið/nám samkvæmt nánari reglum sjóðsins.

Reglan taki gildi f.o.m. 1. júlí 2010 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem hefjast eftir þann tíma. Þar sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að þessum tveimur fræðslusjóðum gildir hún fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá sveitarfélögum og á almenna vinnumarkaðinum eftir kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og SGS.  

09
Jun

Fundur með sérkjaramönnum

Á mánudaginn síðastliðinn hélt formaður Verkalýðsfélags Akraness fund með svokölluðum sérkjaramönnum í Norðuráli. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa forsvarsmenn fyrirtækisins tilkynnt þessum aðilum að þeir muni ekki fá svokallaða eingreiðslu upp á 150 þúsund krónur sem um samdist í síðustu samningum.

Eins og einnig hefur komið fram hér á síðunni þá hefur Verkalýðsfélag Akraness ákveðið að sækja þessa eingreiðslu fyrir sérkjaramennina í gegnum dóm og voru þeir aðilar sem sátu fundinn á mánudaginn því sammála að leita réttar síns fyrir dómsstólum með þetta mál. Það ríkti góð samstaða á fundinum um að stéttarfélögin myndu gæta að hagsmunum sérkjaramanna í þessu máli sem og öðrum málum er lúta að réttindum þeirra.

07
Jun

Tveir merkir sjómenn heiðraðir í gær

Í hátíðarguðsþjónustu í Akraneskirkju í gær voru heiðraðir merkismenn í tilefni sjómannadagsins. Þeir sem heiðraðir voru eru þeir Sigurður Jóhannsson fyrrv. bátsmaður og Böðvar Þorvaldsson fyrrv. stýrimaður.

Að heiðruninni lokinni var gengið fylktu liði að minnismerki sjómanna á Akratorgi þar sem Jóhann Matthíasson formaður Sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness lagði blómsveig að því eftir stutta athöfn.

Það er Verkalýðsfélag Akraness sem stendur að þessari athöfn er lýtur að heiðrun sjómanna, minningarathöfninni um týnda sjómenn og athöfninni sem fram fer á Akratorgi þar sem blómsveigur er lagður að minnisvarða um látna sjómenn.

Akraneskaupstaður bauð síðan þeim sem heiðraðir voru og mökum þeirra til kvöldverðar á Galito og ber að þakka fyrir það.

Hins vegar er ekki annað hægt en að harma það að hér á Akranesi hafi ekki verið haldin nein dagskrá eins og undanfarin ár í tilefni sjómannadagsins en undanfarin ár hefur sveitarfélagið staðið fyrir dagskrá undir heitinu Hátíð hafsins en að þessu sinni var ákveðið að standa ekki fyrir dagskrá vegna sparnaðar. 

Bæjaryfirvöld flögguðu ekki einu sinni íslenska fánanum í tilefni dagsins, sem er móðgun við alla íslenska sjómenn.

Einnig má spyrja af hverju Faxaflóahafnir halda afar veglega dagskrá í Reykjavík en ekki á Akranesi?  Erum við Akurnesingar ekki hluti af Faxaflóahöfnum? 

Verkalýðsfélag Akraness óskar áðurnefndum aðilum innilega til hamingju með heiðrunina.

04
Jun

Í morgun fengu leikskólabörn á Akranesi glaðning frá Verkalýðsfélagi Akranesi

Í morgun fengu leikskólabörn á Akranesi glaðning frá Verkalýðsfélagi Akranesi í tilefni sjómannadagsins sem er á sunnudaginn. Jóhann Örn Matthíasson formaður sjómannadeildar og Tómas Rúnar Andrésson  færðu yfir 400 börnum á öllum leikskólum bæjarins harðfisk.

Börnin á Teigaseli gerðu sér glaðan dag í tilefni dagsins og hittu þeir félagar börnin á hafnarsvæðinu þar sem þau skemmtu sér við pokahlaup og ýmsa aðra leiki tengda sjómannadeginum. Einnig komu þeir færandi hendi á Vallarsel, Garðasel og Akrasel.

03
Jun

Launahækkanir frá 1. júní 2010

Þann 1. júní hækkuðu laun hjá félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness sem vinna á hinum almenna vinnumarkaði. Um er að ræða hækkanir sem upphaflega áttu að koma til framkvæmda 1. janúar síðastliðinn en var frestað í tengslum við gerð stöðugleikasáttmálans á síðasta ári. Þessari hækkanir munu gilda út samningstímann sem er í flestum tilfellum til 30. nóvember 2010.

Rétt er að geta þess að fjölmörg fyrirtæki á félagssvæði VLFA komu með allar sínar launahækkanir eins og samningurinn frá 17. febrúar 2008 kvað á um.  Þau fyrirtæki sem frestuðu ekki launahækkunum þurfa eðlimálsins samkvæmt ekki að koma með taxtahækkanir núna enda voru þau búin að hækka laun sinna starfsmanna.


Hækkanir lágmarkstaxta nema almennt kr. 6.500,- en laun allra sem eru við störf á almenna vinnumarkaðnum hækka um a.m.k. 2,5%. Launataxtar hjá ríki og sveitarfélögum hækka einnig þann 1. júní en þær hækkanir koma fyrst og fremst á lægri taxtana. Hæstu launataxtar ríkis og sveitarfélaga taka ekki hækkunum að þessu sinni.


Þann 1. júní hækka einnig lágmarkstekjur sem greiða má fyrir fullt starf en þær verða kr. 165.000,- á mánuði. Það á við um alla launþegar sem orðnir eru 18 ára og hafa starfað a.m.k. fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki. 
 

Yfirlit um launahækkanir:
Almennt verkafólk, verslunarfólk, starfsfólk veitinga- og gistihúsa, bifreiðastjórar, aðstoðarmenn í iðnaðarstörfum, iðnverkafólk og aðrir á almennum vinnumarkaði, launataxtar hækka um kr. 6.500,-

Iðnaðarmenn án sveinsprófs, launataxtar hækka um kr. 9.450,-

Skrifstofufólk og iðnaðarmenn, launataxtar hækka um kr. 10.500,-

Laun þeirra sem fá greitt umfram kauptaxta hækka um 2,5%.

Kauptaxtar frá 1. júní
Laun skv. kjarasamningi VLFA og Samtaka atvinnulífsins sem starfa á almennum markaði frá 1. júní 2010.

Laun skv. kjarasamningi VLFA og Samtaka atvinnulífsins sem starfa á veitinga- og gistihúsum frá 1. júní 2010.



Laun skv. kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og ríkisins frá 1. júní 2010.

Laun skv. kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins frá 1. júní 2010. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image