• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
May

Ríkisstjórn Íslands setur 150 störf í óvissu

Ríkisstjórn Íslands hefur nú lagt fram lagafrumvarp um hvalveiðar og er frumvarpið þess valdandi að verið er að setja veiðarnar í fullkomið uppnám ef marka má orð Kristjáns Loftsonar forstjóra Hvals í Morgunblaðinu í morgun.  

Kristján segir í viðtalinu að verði frumvarpið að lögum þá falli niður þau leyfi sem nú séu til staðar og í framhaldinu af samþykkt frumvarpsins færi af stað kerfisvinna sem gæti tekið uppundir 2 mánuði að ganga frá þar til veiðar mættu hefjast að nýju en þá er vertíðinni í raun lokið.  Á Þessari forsendu treystir forstjóri Hvals sér ekki til að ráða 150 manns í vinnu á meðan þetta óvissuástans ríkir.

Formaður veltir fyrir sér hvað sé í gangi hjá þessari Ríkisstjórn, það að stefna 150 störfum í stórhættu í því ástandi sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði er hreint ótrúlegt og er þar vægt til orða tekið.  Það eru um 16.000 þúsund manns án atvinnu í dag þar af eru um 300 manns á Akranesi og að leggja fram frumvarp sem getur leitt til þess að 150 störf glatist er ámælisvert.

Rétt er að geta þess að meðallaun þeirra sem störfuðu hjá Hval í fyrra og voru félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness voru um 570.000 kr.  Vissulega var gríðarleg vinna að baki þessum launum en þessi mikla vinna og tekjumöguleikar standa almennt ekki verkafólki til boða í dag.  Því er það grátlegt að verða vitni að því að ríkistjórnin sé að ógna 150 störfum með þessu frumvarpi sínu.

Verkalýðsfélag Akraness krefst þess að Ríkisstjórn Íslands gangi þannig frá þessu lagafrumvarpi að það ógni á engan hátt komandi hvalavertíð og stefni ekki 150 störfum í óþarfa hættu.  Við Íslendingar eigum að sjálfsögðu að nýta alla okkar nytjastofna, þar með talið hvali að fengnu áliti frá Hafrannsóknarstofnun.

07
May

Stendur ekki til að breyta stjórnarfyrirkomulagi í lífeyrissjóðunum af hálfu ASÍ

Það er greinilegt að það ríkir mikil reiði á meðal hins almenna sjóðsfélaga í lífeyrissjóðunum vítt og breitt um landið. Á ársfundi lífeyrissjóðsins Gildi var töluverð uppákoma þar sem reiðir sjóðsfélagar kröfðust afsagnar stjórnar vegna mikils taps sjóðsins og nú síðast í gær var töluverð reiði hjá sjóðsfélögum á ársfundi lífeyrissjóðsins Stapa en þar var krafist afsagnar framkvæmdastjórans vegna þess að gleymst hafði að lýsa 4 milljarða króna kröfu sem sjóðurinn átti.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skilur þessa gríðarlegu reiði á meðal hins almenna sjóðsfélaga fyllilega enda er það mat hans að stjórnir lífeyrissjóða og stjórnendur þeirra eigi að axla ábyrgð og segja af sér. Í gær birtist grein eftir Vilhjálm Egilsson þar sem hann fer yfir lífeyrissjóðina og þá gagnrýni sem á þeim hefur dunið og kom fram í hans máli að oft væri þetta ómálefnaleg gagnrýni. Hann segir til að mynda á einum stað að sér í lagi hafi sjóðir á vegum Samtaka Atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar orðið fyrir gagnrýni sem oft hafi verið ómálefnalegt gaspur eða beinlínis rógburður. Samkvæmt Viðskiptablaðinu þá kemur fram að Gildi lífeyrissjóður hefur tapað 23 milljörðum króna frá bankahruninu og því spyr formaður sig: Er óeðlilegt að sjóðsfélagar geri alvarlegar athugsemdir við slíkt tap? Rétt er að minna á að sjómenn í Verkalýðsfélagi Akraness eru að greiða í lífeyrissjóðinn Gildi.

Verkalýðsfélag Akraness hefur barist fyrir stórauknu lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum og lagði eins og frægt varð fram tillögu á ársfundi ASÍ, tillögu sem gekk út á það að allir stjórnarmenn yrðu kosnir beinni kosningu af sjóðsfélögum og hætt yrði með helmingaskipti verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka Atvinnulífsins. Þessi tillaga var eins og áður hefur komið fram kolfelld á ársfundinum en samþykkt var að efna til stefnumótunarfundar um lífeyrissjóðsmál. Nú liggja fyrir drög frá Alþýðusambandi Íslands um stjórnkerfi lífeyrissjóðanna og það er dapurlegt til þess að vita að í þeim drögum er gert ráð fyrir svokölluðum helmingaskiptum stjórnarmanna áfram. Með öðrum orðum, það á ekki að auka lýðræði við stjórnarval í lílfeyrissjóðunum.

Það er alveg klárt mál að Verkalýðsfélag Akraness mun halda áfram að berjast fyrir því að það verði sjóðsfélagarnir sjálfir sem kjósi stjórnarmennina og stýri sjóðunum sjálfir. Enda eru sjóðirnir eign sjóðsfélaganna og greiðslur í sjóðina eru kjarasamningsbundin réttindi sem áunnist hafa á liðnum árum og áratugum.

06
May

Veiðileyfi og tjaldstæði

Tjaldsvæðið á Þórisstöðum í SvínadalTjaldsvæðið á Þórisstöðum í SvínadalEins og undanfarin ár hefur orlofssjóður Verkalýðsfélags Akraness nú gengið frá samningi við staðarhaldara Þórisstaða í Svínadal um að félagsmenn í VLFA, makar þeirra og börn innan 16 ára geta fengið frítt veiðileyfi í Eyrarvatni, Þórisstaðavatni og Geitabergsvatni í Svínadal. Einnig eiga félagsmenn frían aðgang að tjaldsvæðinu á Þórisstöðum gegn framvísun félagagaskírteinis.

Þessi möguleiki hefur verið vel nýttur af félagsmönnum undanfarin ár, enda aðstaða til útivistar og veiði afskaplega góð í Svínadal. Er vonast til að félagsmenn njóti áfram góðs af þessum samningi eins og undanfarin ár.

Af öðrum verkefnum orlofssjóðs er það helst að frétta að framkvæmdum við hús félagsins í Ölfusborgum fer senn að ljúka. Framkvæmdirnar hafa verið gríðarlega umfangsmiklar þar sem milliveggir voru færðir til, hiti lagður í gólf, skipt um innréttingar og tæki í eldhúsi og baði og ný sólstofa reist við húsið, svo eitthvað sé nefnt.

Hús félagsins í Ölfusborgum verður tilbúið til útleigu 21. maí þegar sumarorlofstíminn hefst, og er stjórn orlofssjóðs fullviss um að betur muni nú fara um félagsmenn í nýuppgerðu húsinu. Þess má geta að húsið var upphaflega byggt árið 1962. Þrátt fyrir sæmilegt viðhald kallaði ástand hússins á endurbætur, ekki síst eftir skjálftann sem reið yfir svæðið í maí 2008 og olli talsverðum skemmdum á húsinu.

04
May

Ætlar vitfirringunni aldrei að ljúka?

Þær voru ótrúlegar fréttirnar í gær sem lutu að því að stjórn Seðlabankans undir forystu Láru V. Júlíusdóttur væri að íhuga að hækka laun seðlabankastjóra um allt að 400 þúsund krónur á mánuði. Það er alveg með ólíkindum ef þessari vitfirringu sem hefur átt sér stað í íslensku samfélagi ætlar ekki að fara að linna.

Er þetta fólk búið að gleyma því að almennt verkafólk var þvingað til að afsala sér hluta af sínum umsömdu hófstilltu launahækkunum sem um var samið árið 2008. Þetta gerðu samninganefnd Alþýðusambands Íslands og Samtök atvinnulífsins í þessum margfræga handónýta stöðugleikasáttmála. Verkafólk hefur orðið af á annað hundrað þúsund krónum vegna þessarar ákvörðunar og að stjórn seðlabankans skuli yfir höfuð íhuga slíka launahækkun er ógeðfellt.

Það hefur margoft komið fram hjá formanni Verkalýðsfélags Akraness að nú sé komið að öðrum í þessu samfélagi en íslensku verkafólki að axla ábyrgð á þessu hruni sem varð vegna græðgisvæðingar örfárra útrásarvíkinga og handónýtra eftirlitsstofnanna. Verkalýðsfélag Akraness mun aldrei samþykkja að ganga frá samningum á hinum almenna vinnumarkaði í anda þess stöðugleikasáttmála sem gerður var í júní á síðasta ári þar sem verkafólk varð af hluta af sínum launum en allir aðrir, þar á meðal ríki, sveitarfélög, tryggingarfélög og aðrir þjónustuaðilar vörpuðu sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið. Slíkan sáttmála mun VLFA ekki samþykkja.

01
May

1. maí hátíðarhöld heppnuðust mjög vel á Akranesi

Hátíðarhöldin vegna 1. maí heppnuðust einstaklega vel á Akranesi í dag.  Þó nokkur  fjöldi fólks kom í hina árlegu kröfugöngu í tilefni dagsins.

Hins vegar var salurinn þar sem hátíðardagskráin fór fram fullur af fólki. Boðið var uppá tónlistaratriði sem voru flutt annars vegar af Kvennakórnum Ym og hins vegar af Grundartangakórnum.

Í lokin var boðið upp á glæsilegar kaffiveitingar sem Kvennakórinn Ymur sá um.

Hátíðarræðuna flutti formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði í ávarpi sínu í tilefni af baráttudegi verkalýðsins í dag að hann telja það vera forgangsverkefni verkalýðshreyfingarinnar að berjast af alefli fyrir því að lágmarkslaun hækki umtalsvert.

Formaður sagði einnig í ræðu sinni: "Það er gríðarlega mikilvægt að verkalýðshreyfingin sé hafin yfir allan vafa hvað varðar traust og trúverðugleika. En það gerir hún alls ekki með því að forystumenn í verkalýðshreyfingunni séu yfirlýstir stuðningsmenn einhverra ákveðinna stjórnmálaafla og noti verkalýðshreyfinguna til að koma sínum flokkspólítísku málum á framfæri eins og maður hefur margoft orðið vitni að".

Með öðrum orðum, verkalýðshreyfingin á að vinna að málefnum er lúta að hagsmunum launafólks algerlega óháð því frá hvaða stjórnmálaöflum slík málefni koma.

Formaður kom einnig inn á rannsóknarskýrslu Alþingis og sagði m.a.: "Skýrslan er miskunnarlaus afhjúpun á græðgi og grimmd fjármálakerfisins sem óx eins og innkynja mein inn í íslenskt hagkerfi".

Hægt er að lesa hátíðarræðuna í heild sinni með því að smella á meira.


Kæru hátíðargestir.

Ég vil byrja á því að óska ykkur til hamingju með daginn.

Ég hef sagt þetta áður en ég vil að það komi skýrt fram að sá sem hér stendur tilheyrir ekki neinum stjórnmálaflokki, enda er það mín skoðun að forystumenn í Verkalýðshreyfingunni eigi ekki undir nokkrum kringumstæðum að vera eyrnamerktir einhverjum einum ákveðnum flokki. Enda eru forystumenn í Verkalýðshreyfingunni að vinna fyrir félagsmenn sem tilheyra öllum stjórnmálaflokkum.

Það er einnig gríðarlega mikilvægt að verkalýðshreyfingin sé hafin yfir allan vafa hvað varðar traust og trúverðugleika. En það gerir hún alls ekki með því að forystumenn í verkalýðshreyfingunni séu yfirlýstir stuðningsmenn einhverra ákveðinna stjórnmálaafla og noti verkalýðshreyfinguna til að koma sínum flokkspólítísku málum á framfæri eins og maður hefur margoft orðið vitni að.

Með öðrum orðum, verkalýðshreyfingin á að vinna að málefnum er lúta að hagsmunum launafólks algerlega óháð því frá hvaða stjórnmálaöflum slík málefni koma.

Ágætu fundarmenn.

 

Nú er skýrsla Rannsóknanefndar Alþingis komin út. Skýrslan er miskunnarlaus afhjúpun á græðgi og grimmd fjármálakerfisins sem óx eins og illkynja mein inn í  íslenskt hagkerfi.  Að hugsa sér, kæru félagar, að örfáir einstaklingar skuli hafa náð að rústa íslensku efnahagslífi með jafn afgerandi hætti og nú blasir við okkur, er ótrúlegt.  Alþýða þessa lands hefur á síðasta eina og hálfa ári spurt sig hverjir beri ábyrgð á þessum hamförum.

Í skýrslunni kemur afdráttarlaust fram hverjir bera ábyrgðina. Það eru stjórnendur og eigendur fjármálastofnanna og þær eftirlitsstofnanir sem áttu að hafa eftirlit með fjármálakerfinu, þessir aðilar brugðust sínu hlutverki.

Í skýrslunni er staðfestur sá grunur að aðaleigendur bankanna rændu þá algjörlega innan frá með skelfilegum afleiðingum fyrir allan almenning í þessu landi.

Það er mér óskiljanlegt að útrásarvíkingar sem tæmdu bankana innan frá í eigin þágu, stórsköðuðu orðstír heillar þjóðar og hafa valdið íslensku þjóðinni, þessari kynslóð og komandi kynslóðum, ómældum þjáningum skuli enn ganga lausir. Það þarf að frysta eigur allra þessara manna tafarlaust. Enda hefur nú komið í ljós að þessir snillingar eru farnir með ferðatöskur fullar af peningum af landi brott. Það er ógeðfellt að sjá að sumir þessara manna lifa í vellystingum erlendis á meðan lífskjör almennings í þessu landi eru stórskert, enda hefur græðgisvæðing þessara manna ógnað heilbrigðiskerfi, menntakerfi og öllu velferðarkerfinu í heild sinni.

Það er krafa okkar Íslendinga að náð verði í skottið á þessum mönnum, eigur þeirra frystar og þeim komið öllum á bak við lás og slá. Það mun aldrei ríkja sátt hjá íslenskum almenningi ef þeir sem bera ábyrgð á þessu hruni munu sleppa við að axla hana.

Það var fleira sem var afhjúpað í rannsóknarskýrslunni og lýtur að stjórnmálaflokkunum og stjórnmálamönnum almennt. Nú hefur komið í ljós að stjórnmálaflokkarnir og stjórnmálamenn hafa þegið umtalsverðar upphæðir frá bönkum og fyrirtækjum í formi styrkja og er í mörgum tilfellum um að ræða upphæðir sem standast enga skoðun. Ég get tekið undir með Stefáni Einari Stefánssyni, viðskiptasiðfræðingi hjá Háskólanum í Reykjavík. Hann segir greiðslur upp á tugi milljóna til stjórnmálaflokka og til stjórnmálamanna ekki vera styrkveitingar heldur mútugreiðslur svo að menn orði hlutina hreint út.

Á almenningur að trúa því að stjórnendur banka og fyrirtækja sem styrktu stjórnmálaflokkana og stjórnmálamenn um tugi milljóna hafi gert það af góðmennskunni einni saman? Nei, mitt mat er einfalt. Stjórnendur bankanna og fyrirtækjanna vildu svo sannarlega fá eitthvað fyrir sinn snúð og skýrsla Rannsóknarnefndar sýnir það svo ekki verður um villst að þeim tókst það og það birtist í handónýtu regluverki og eftirliti í kringum bankana. Þeim leiddist ekki sumum stjórnmálamönnum, forsetanum, einstaka fjölmiðlamönnum og öðrum áhrifamönnum í íslensku samfélagi að þiggja boðsferðir og sitja í flottum kokteilboðum með þessum mönnum, mönnum sem voru að féfletta íslenskan almenning á sama tíma og menn dreyptu á rándýru kampavíni í boði þessara snillinga.

 

Kæru félagar

Nú ætla ég að vitna í verkalýðsforkólfinn Herdísi Ólafsdóttur sem lést fyrir nokkrum árum , en hún samdi þessa vísu þegar Alþýðubankinn var seldur Íslandsbankanum á sínum tíma.

 

Ekkert er lengur sem lokkar
lífsgleðin horfin um sinn,
herinn tók eyjuna okkar
og auðvaldið bankann minn.

 

Það er óhætt að segja að Herdís Ólafsdóttir, þessi mikla baráttukona, hafi séð hlutina í réttu ljósi en þetta með Alþýðubankann og Íslandsbankann var einungis byrjun á því sem koma skyldi.

Einkavæðing bankanna og helmingaskiptin því tengdu á milli Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar hefur haft skelfilegar afleiðingar í för með eins og sagan hefur nú svo sannarlega sýnt okkur.

Þessum mönnum sem voru réttir bankarnir á silfurfati og þurftu vart að greiða fyrir þá hafa nú framið stórfellt bankarán eins og áður hefur komið fram.  Bankarán sem hefur leitt til þess efnahagshruns sem við horfum nú uppá og hefur haft skelfilegar afleiðingar fyrir skuldsett heimili þessa lands. 

Verðbólgan fór hátt í 20% á tímabili  með miklum hörmungum fyrir fólk með verðtryggð lán og ekki þarf að nefna gengistryggðu húsnæðis- og bílalánin sem mörg hver hafa tvöfaldast.   

Það er morgunljóst að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til varðandi vanda heimilanna byggjast flestar á því að létta einungis á greiðslubyrði skuldarans.  Það er æði margt sem bendir til þess að tryggja eigi með öllum tiltækum ráðum að skuldir heimilanna fáist að fullu greiddar. Það er með öðrum orðum lítið sem ekkert verið að leiðrétta þann stökkbreytta höfuðstól sem heimili landsins sitja uppi með vegna græðgisvæðingar fárra útrásarvíkinga og handónýtra eftirlitskerfa.

Það er með öllu óþolandi að enn eina ferðina skuli ekki gilda jafnræði og sanngirni á milli fjármagnseigenda og skuldsettra heimila. Á meðan slegin var skjaldborg utan um fjármagnseigendur þar sem þeir voru tryggðir í bak og fyrir verður skuldsettum heimilum gert að greiða stökkbreyttar skuldir sínar allar upp í topp. En eins og allir muna þá tryggðu neyðarlögin allar innistæður á bankabókum að fullu. Þessu til viðbótar setti ríkið hundruð milljarða króna inn í peningamarkaðssjóði bankanna áður en greitt var út úr þeim.

Á þessu sést að það gilda allt önnur lögmál um fjármagnseigendur en almennt launafólk sem gert er að greiða allar sínar skuldir upp í rjáfur.

Íslensk stjórnvöld verða að finna leið til að leiðrétta þann forsendubrest sem varð í kjölfar hruns bankanna, en það er grundvallaratriði að það komi skýrt fram að heimili landsins eru ekki að fara fram á neina ölmusu heldur einungis sanngjarna leiðréttingu á skuldum sínum sem það gat ekki borið nokkra ábyrgð á.

Það er ekki bara að alþýða þessa lands þurfi að horfa upp á skuldir sínar í sumum tilfellum tvöfaldast, heldur hafa verslunareigendur, tryggingafélög, ríki, sveitarfélög og aðrir þjónustuaðilar varpað sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið.  Og nægir að nefna í því samhengi að matarverð hefur hækkað um 40% frá 2008

 

Ágætu félagar.

 

Ég tel afar brýnt að íslensk stjórnvöld vinni að því af fullum krafti að afnema verðtrygginguna, en verðtryggingin hefur leikið skuldsett heimili skelfilega að undanförnu.

Rétt er að benda á að verðtryggingin er í raun ekkert annað en vextir sem eru til þess fallnir að gæta hagsmuna fjármagnseigenda í hvívetna.

Verðtrygginguna hafa stjórnvöld ekki verið tilbúin til að afnema til þessa, en það vafðist ekki fyrir þeim að afnema verðtryggingu persónuafsláttar sem búið var að semja við verkalýðshreyfinguna samhliða kjarasamningunum 2006 og 2008. Verðtrygging persónuafsláttar hefur verið baráttumál verkalýðshreyfingarinnar í áraraðir ef ekki áratugi, enda er verðtrygging persónuafsláttar gríðarlega mikilvæg fyrir þá tekjulægstu. Að ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, jöfnuð og velferð skuli taka slíka ákvörðun, er mér algjörlega óskiljanlegt.

Nú hefur ríkisstjórn Íslands upplýst að frestun á nauðungaruppboðum muni ekki verða fram haldið og mun flóðbylgja í anda þess sem gerðist í Eyjafjallajökli dynja á íslenskum heimilum í formi nauðungaruppboða sem hefjast með fullum þunga í október. Það er ljóst að þúsundir Íslendinga munu eiga í verulegum vandræðum þegar að frestur á nauðungaruppboðum rennur út. Ríkisstjórn Íslands ber að finna lausn á vanda þessa fólks tafarlaust.

 

Kæru félagar.

 

Það er mitt mat að það vantar miklu meiri slagkraft í íslenska verkslýðshreyfingu.  Mér finnst hreyfingin sýna alltof mikla linkind í baráttunni fyrir bættum kjörum verkfólks. Það virðist vera sem það sé aldrei hægt að hækka laun þeirra tekjulægstu svo neinu nemi. Það heyrist oft og tíðum frá hagfræðingum, jafnvel frá hagfræðingum ASÍ, að skynsamlegra sé að ganga frá hófstilltum kjarasamingum þannig að hér viðhaldist stöðugleiki. Því spyr sá sem hér er, hvenær er hægt að hækka laun verkafólks? Það er ekki hægt í góðæri og það er ekki hægt í niðursveiflu!

 Eins og þið munið öll þá var undirritaður stöðugleikasáttmáli á síðsta ári, stöðugleikasáttmáli sem átti öllu að redda fyrir íslenskt launafólk. Mitt mat er það að það hefur ekki nema eitt gengið eftir í þessum svokalla stöðugleikasáttmála og hvað skyldi það nú vera? Jú, launafólk varð af hluta af sínum launahækkunum. 

Ég hef fyrir hönd Verkalýðsfélags Akraness mótmælt þessu samkomulagi um frestun launahækkana, allt frá upphafi. Bæði á formannafundum Alþýðusambands Íslands sem og á ársfundi sambandsins. Það er mitt mat að hér hafi verið gerð stórkostleg mistök, enda eru klárlega til fyrirtæki sem hafa fulla burði til að standa við þann hófstillta samning sem gerður var á árinu 2008. Nægir að nefna í því samhengi öll útflutningsfyrirtækin, þar með talin fiskvinnslufyrirtækin sem hafa verið að gera góða hluti í kjölfar gengishruns krónunnar.

Verkalýðsfélag Akraness hafði samband við öll útflutningsfyrirtæki á sínu svæði og óskaði eftir því að þau myndu standa við gerða samninga frá árinu 2008. Það er skemmst frá því að segja að fjölmörg fyrirtæki urðu við ósk Verkalýðsfélags Akraness. Ég get nefnt sem dæmi HB Granda, Hrognavinnslu Vignis G. Jónssonar, Laugafisk og fjöldan allan af öðrum fyrirtækjum. Þessu til viðbótar gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningum við Elkem Ísland í janúar 2009 þar sem laun starfsmanna hækkuðu um 40 þúsund krónur og upp í 60 þúsund krónur á mánuði. Og núna var félagið að standa upp úr einni erfiðustu kjaradeilu sem það hefur staðið í við Norðurál á Grundartanga en þar eru launin að hækka með sambærilegum hætti og gerðist með Elkem Ísland um tugi þúsunda á mánuði. Árangur af þessu tagi næst ekki nema með hörkunni einni saman .

Það er mitt mat að verkalýðshreyfingin þurfi að vera mun grimmari í hagsmunagæslu fyrir sitt fólk heldur en verið hefur á undanförnum árum. Nægir að nefna í því samhengi að lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningum í dag eru rúmar 152 þúsund krónur og eins og ég sagði í ræðu minni á ársfundi ASÍ þá er það samfélaginu öllu, atvinnurekendum og síðast en ekki síst verkalýðshreyfingunni til skammar að bjóða upp á launataxta sem ekki nokkur einasti maður getur framfleytt sér á.

Það á að vera forgangsverkefni verkalýðshreyfingarinnar að lagfæra launataxta verkafólks svo fólk geti framfleytt sér og sinni fjölskyldu á þeim. Til að þetta sé hægt þarf að nást víðtæk samstaða um að sýna atvinnurekendum með afgerandi hætti að verkalýðshreyfingin er tilbúin í róttækar aðgerðir til að lagfæra lágmarkslaun á Íslandi.

 

Ágætu samherjar.

 

Það grátbroslega við stöðugleikasáttmálan er að Samtök atvinnulífsins sögðu sig frá þessum blessaða sáttmála fyrir nokkrum vikum síðan. Stöðugleikasáttmála sem hefur, eins og ég sagði áðan, ekkert gert nema hafa af fólki umsamdar launahækkanir. Þeir máttu mín vegna segja sig frá þessum sáttmála, enda hefur hann ekki skilað verkafólki nokkrum sköpuðum hlut.

En ætla Samtök atvinnulífsins þá að skila verkafólki því sem það var þvingað til að afsala sér samhliða þessum stöðugleikasáttmála? En verkafólk var látið afsala sér um 200 þúsund krónum á samningstímanum. Ég spyr aftur: ætlar Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að skila verkafólki þessum peningum til baka fyrst þeir hafa nú sagt sig frá þessum sáttmála?

En af hverju skyldi SA hafa sagt sig frá þessum sáttmála? Jú, það er vegna þess að ríkisstjórn Íslands ákvað að auka við skötuselskvóta upp á 2.000 tonn og reiðin beindist að því að þessi viðbótar skötuselskvóti átti ekki að renna beint í vasa sægreifanna.

Samtök atvinnulífsins og LÍÚ eru einnig æf yfir því að til standi að skapa sátt um sjávarútvegsstefnu okkar Íslendinga með því að fara svokallaða fyrningarleið.  Þeir eru svo óforskammaðir að þeir nota  stöðugleikasáttmálann til að reyna að knýja fram sínar áherslur í sjávarútvegsmálum.

Fjársterkir útgerðamenn gerðu sér lítið fyrir og keyptu eitt stykki dagblað til þess eins að geta haldið úti skefjalausum hræðsluáróðri um hvernig allt færi til helvítis ef stjórnvöld voguðu sér að tryggja að íslenska þjóðin eigi veiðiheimildirnar við Íslandsstrendur.  Þessir útgerðaraðilar hafa einnig verið duglegir að benda á að þetta sé besta fiskveiðifyrirkomlag sem völ er á.  Því spyr ég: hvernig stendur á því að sjávarútvegsfyrirtæki skuli skulda á milli 600 og 700 milljarða ef þetta er besta fiskveiðistjórnunarkerfi sem til er?  Í mínum huga er það rannsóknarefni hvernig stendur á því að útgerðin er svona skuldsett. Er þetta það næsta sem mun springa í andlitið á íslenskri þjóð? Yfirskuldsett útgerðarfyrirtæki.

Við ríkisstjórn Íslands vil ég segja, standið fast í lappirnar gagnvart Samtökum atvinnulífsins og LÍÚ. Það er gríðarlega mikilvægt að það skapist víðtæk sátt um sjávarútvegsmál á meðal þjóðarinnar. Það þarf að tryggja með afgerandi hætti að íslenska þjóðin eigi auðlindir hafsins alfarið og að sjávarauðlindirnar skili þjóðinni þeim ávinningi sem eðlilegt getur talist.   En eitt verða stjórnvöld hafa að leiðarljósi það er að hagsmunir fiskvinnslufólks og sjómanna verði tryggðir við endurskoðun á sjávarútvegsstefnu okkar Íslendinga.

 

Ágætu félagar.

Lífeyrissjóðir landsmanna hafa ekki farið varhluta af þeirri gagnrýni sem fram hefur farið í þjóðfélaginu á undanförnum mánuðum um skort á siðferði, gegnsæi og trúverðugleika. Mér er algerlega ljóst að trúverðugleiki lífeyrissjóðanna hefur beðið algjört skipbrot enda hafa þeir tapað gríðarlegum fjárhæðum í kjölfar efnahagshrunsins. Sumir sjóðir hafa tapað tugum milljarða. 

Lífeyrisþegar hafa þurft að taka á sig stórfelldar skerðingar að undanförnu vegna þess að lífeyrissjóðir vítt og breitt um landið tóku umhugsunarlaust þátt í þeirri vitfirringu sem hér var í gangi.

 

Í Rannsóknarskýrslu Alþingis, sem lýtur að siðferðishlutanum, er fjallað um lífeyrissjóðina og þar segir m.a. í niðurstöðunum:

„Margt er óljóst um stöðu lífeyrissjóðanna og starfshætti þeirra en málefni þeirra kalla á sérstaka rannsókn og greiningu sem ekki var unnt að gera af rannsóknarnefnd Alþingis.“

Verkalýðshreyfingunni  ber að hafa forgöngu um að opinber rannsókn fari fram á starfsemi lífeyrissjóðanna. Við verðum að taka mark á því sem fram kemur í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Það þarf að bæta og skýra reglur um gegnsæi og siðferði í starfsemi lífeyrissjóðanna. Það er mjög alvarlegt þegar græðgin hefur teygt anga sína inn í starfsemi lífeyrissjóðanna og nægir að nefna laun forstjóra sumra lífeyrissjóða sem nema allt að 30 milljónum á ári. Slík launakjör eru ekki í neinum takti við það sem er að gerast í samfélaginu, enda er ekki hægt að bjóða sjóðsfélögum upp á að forstöðumenn lífeyrissjóðanna þiggi slík laun á sama tíma og sjóðsfélagar þurfa að þola skerðingar á sínum lífeyrisgreiðslum.

Ég spyr líka, hvar liggur ábyrgð þessara einstaklinga sem þiggja slík ofurlaun þegar að nú liggur fyrir að lífeyrissjóðakerfið er að tapa tugum milljarða króna? Málið er einfalt, ofurlaun og ábyrgð fylgjast greinilega ekki alltaf að.

Það var sorglegt að verða vitni að því á ársfundi lífeyrissjóðs Festu fyrir rúmum hálfum mánuði þegar stjórn sjóðsins lagði til 5% skerðingu á réttindum sjóðsfélaga vegna slæmrar stöðu sjóðsins. Á sama fundi var lögð fram önnur tillaga sem laut að launum stjórnarmanna. Sú tillaga gekk út á að stjórnarlaun skyldu verða óbreytt. Þetta var að mati okkar í Verkalýðsfélagi Akraness siðlaust með öllu enda gerðum við alvarlegar athugsemdir við þetta á fundinum.

Stjórnin sem ber ábyrgð á því að skerða þarf lífeyrisréttindi taldi ekki ástæðu til að skerða eigin laun. Þetta er ekki það nýja Ísland sem við viljum sjá. Og þetta er heldur ekki að axla ábyrgð.

Ég tel eðlilegt að þeir stjórnendur og stjórnarmenn sem tilheyra lífeyrissjóðum sem hafa tapað tugum milljarða axli sína ábyrgð og segi af sér.

Ég tel líka mikilvægt að unnið verði að því að fækka lífeyrissjóðunum á hinum almenna vinnumarkaði niður í einn sjóð, en það kostar í dag um 4 milljarða á ársgrundvelli að reka alla lífeyrissjóðina í landinu.

Ég vil líka sjá atvinnurekendur úr stjórnum sjóðanna og það verði sjóðsfélagarnir sjálfir sem kjósi alla stjórnmenn beini kosningu.  Það stenst enga skoðan að atvinnurekndur sem eru jafnvel ekkert aðilar að þeim sjóði sem þeir eru stjónarmenn í sem að víla og díla með fjármuni sjósfélaga.

 

Ágætu fundarmenn.

Slagorð dagsins er við viljum vinna.  Í dag eru rúm 16.500 manns án atvinnu á landinu en á fjórða hundrað manns eru án atvinnu hér á Akranesi.

Atvinnuleysið er farið að birtast okkur í sinni skelfilegustu mynd  en beiðnum um aðstoð til Hjálparstarfs kirkjunnar hefur fjölgað gríðarlega. Fyrstu þrjá mánuði ársins 2008 sóttu 570 fjölskyldur um aðstoð. Á sama tíma í ár eru þær orðnar 2.578.  Það eru  11.283 börn sem eiga atvinnulausa foreldra og í þeim hópi eru 474 börn þar sem báðir foreldrar eru atvinnulausir. 

Umsóknum Íbúðarlánasjóðs vegna greiðsluerfiðleika fjölgaði um 900% á milli áranna 2008-9.

Eitt af brýnustu verkefnum ríkisstjórnar er klárlega að koma tannhjólum atvinnulífsins aftur af stað. Það er ekki hægt að horfa upp á að 16.500 einstaklingar séu án atvinnu hér á landi. Við verðum að bregðast við því með öllum tiltækum ráðum.

Það þarf að lækka vexti hér á landi enn frekar, enda þola hvorki heimilin né fyrirtækin það vaxtastig sem hér hefur verið við lýði allt of lengi og er allt lifandi að drepa.

Það þarf að auka aflaheimildir í þorski umtalsvert og er að mínu mati engin áhætta tekin með því að auka aflaheimildir næstu þrjú fiskveiðiárin í 200.000 tonn enda staðfestir mikil fiskgegnd á undanförnum árum það. Með þessu skapast umtalsverðar útflutningstekjur og fjöldi starfa.

Það þarf að stöðva útflutning á óunnum gámafiski en í dag eru um 60 þúsund tonn send út óunnin.  Það er alveg ljóst að slík ákvörðun myndi skapa fjölmörg störf í fiskvinnslunni og við eigum að reyna að fullvinna eins mikið af okkar sjávarafurðum og kostur er og hámarka verðmæti okkar sjávarafurða.

Það þarf að búa hér til störf sem skapa þjóðinni útflutningstekjur. Það er þannig sem við vinnum okkur úr þeim hremmingum sem við erum nú í.

 

Kæru félagar

 Við Íslendingar höfum fulla burði til að vinna okkur út úr þeim óskapnaði sem þessir menn komu okkur í. En til þess að það geti gerst þurfa íslensk stjórnvöld að tryggja að lífsskilyrði verði viðunandi hér á komandi árum og áratugum. En ég verð að nefna að það verður ekki gert með því að við tökum á okkur allar drápsklyfjar Icesave reikninganna sem okkur ber engin lagalega skylda til að greiða. Íslensk stjórnvöld verða að lágmarka skaðann af þeirri vitleysu.

Að endingu vil ég segja: Við erum rík. Og nægir að nefna í því samhengi allar þær auðlindir sem við Íslendingar eigum, sama hvort um er að ræða náttúruauðlindir, sjávarauðlindir, orkuauðlindirnar, og ég tala nú ekki um þann mannauð sem hér í þessu landi býr. Á þessum stoðum munum við vinna Ísland upp úr þeim öldudal sem við erum nú í.

Takk fyrir.

30
Apr

Starfsemi Sementsverksmiðjunnar tryggð

Starfsemi Sementsverksmiðjunnar á Akranesi hefur verið tryggð með nýju hlutafé frá Björgun ehf. og norska sementsframleiðandanum Norcem AS og fjárhagslegri endurskipulagningu með aðkomu Arion banka og Lýsingar. Björgun og Norcem leggja strax fram 120 milljónir króna sem nýtt hlutafé og verða fyrirtækin aðaleigendur verksmiðjunnar. Björgun og Norcem skuldbinda sig einnig til þess að leggja allt að 50 milljónum króna viðbótahlutafé til verksmiðjunnar síðar á árinu.

Mikill samdráttur hefur orðið í byggingariðnaði frá hruni bankanna. Rekstur Sementsverksmiðjunnar hefur því verið afar erfiður. Nýtt hlutafé tryggir áframhaldandi sementsframleiðslu á Íslandi og ver þau 130 störf sem verksmiðjan skapar. Áætlanir stjórnenda verksmiðjunnar gera ráð fyrir því að sementsframleiðsla

aukist á ný árið 2012.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar því innilega að tekist hafi að tryggja nýtt hlutafé og þar með að varðveita fjölda starfa tengdum verksmiðjunni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image