• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Apr

Búið að fresta samningafundi Norðuráls

Forsvarsmenn Norðuráls hafa óskað eftir því að samningafundinum sem ríkissáttasemjari var búinn að boða til nk. mánudag verði frestað fram til miðvikudags.

Ástæðan er sú að þeir segjast þurfa meiri tíma til að svara efnislega þeim kröfum sem stéttarfélögin hafa sett fram.  Það er ríkissáttasemjari einn sem getur heimilað slíka frestun þar sem hann sem stjórnar alfarið viðræðum og fundartímum. Sáttasemjari hefur samþykkt að fresta fundi fram á miðvikudag.

Það er því ljóst að algjör úrslitastund mun renna upp í þessum kjaraviðræðum á miðvikudaginn kemur og vonandi fara forsvarsmenn Norðuráls að sýna meiri samningsvilja en þeir hafa gert hingað til.

09
Apr

Úrslitastund á mánudaginn næstkomandi

Eins og fram hefur komið hér á síðunni var samningafundur í húsakynnum ríkissáttasemjara vegna kjaradeilunnar við Norðurál haldinn í dag. Á fundi, sem haldinn var sl. miðvikudag, lagði samninganefnd stéttarfélaganna fram nýtt tilboð sem forsvarsmenn Norðuráls hafa haft til skoðunar síðan þá. Á fundinum í dag kom svar við tilboði stéttarfélaganna frá forsvarsmönnum Norðuráls. 

Því miður þá ber enn töluvert mikið á milli í launaliðnum á því tilboði sem forsvarsmenn Norðuráls lögðu fram í dag og er morgunljóst að þar er ekki um að ræða jöfnun launakjara við Alcan og Elkem. 

Það eru mikil vonbrigði að forsvarsmenn Norðuráls skuli ekki hafa sýnt meiri samningsvilja á þessum fundi en raunin varð.  Ríkissáttasemjari ákvað að boða til næsta fundar á mánudaginn kemur.

Það er hvellskýrt af hálfu formanns Verkalýðsfélags Akraness að um úrslitatilraun verður að ræða á mánudaginn kemur, hvort deiluaðilar muni ná saman eða ekki. Það kom einnig fram hjá formanni félagsins á fundinum í dag að ekki verður kvikað frá þeirri sanngjörnu kröfu að starfsmenn Norðuráls njóti sambærilegra kjara og starfsbræður þeirra í Alcan og Elkem.  Það er einlæg von formanns félagsins að forsvarsmenn Norðuráls fari að átta sig á því að það eru engar forsendur fyrir því að starfsmenn þeirra njóti ekki sömu kjara og starfsbræður þeirra í Alcan í Straumsvík.

Verkalýðsfélag Akraness mun alls ekki sætta sig við það ef stefna Norðuráls verður sú að gera störf í stóriðjum að láglaunastörfum.  Launakostnaður í Norðuráli var einungis 7% af heildarveltu á árinu 2008 og ljóst að mörg fyrirtæki myndu vilja sjá slíkar tölur í sínum efnahagsreikningum.

09
Apr

Fundur að hefjast hjá Ríkissáttasemjara

Núna klukkan 10 er að hefjast samningafundur í húsakynnum Ríkissáttasemjara vegna kjaradeilunnar við Norðurál. Á síðasta fundi, sem haldinn var sl. miðvikudag, lagði samninganefnd stéttarfélaganna fram nýtt tilboð sem forsvarsmenn Norðuráls hafa haft til skoðunar síðan þá. Á fundinum í dag munu forsvarsmenn Norðuráls svara tilboði stéttarfélaganna efnislega.

Að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness er gríðarlega mikilvægt að á næstu dögum náist niðurstaða hjá samningsaðilum þar sem mikillar óþreyju gætir nú hjá starfsmönnum Norðuráls sem hafa verið með lausan kjarasamning síðan um áramót.

09
Apr

Góður rekstur Verkalýðsfélags Akraness

Á fundum allra stjórna Verkalýðsfélags Akraness í gærkvöldi kynntu endurskoðendur félagsins ársreikninga 2009. Það verður að segjast alveg eins og er að afkoma félagsins var afar góð á síðasta ári þrátt fyrir þær hremmingar sem gengið hafa yfir atvinnu- og efnahagslíf þjóðarinnar.

Sem dæmi þá lækka iðgjaldatekjur ekki á milli ára, þrátt fyrir mikinn samdrátt á vinnumarkaðnum heilt yfir og sýnir það þann styrk sem félagið býr yfir og nokkuð stabílt atvinnuástand. Það er alveg ljóst að veiðar á hval höfðu töluverð áhrif, enda höfðu upp undir 100 manns atvinnu af hvalnum og voru meðaltekjur þeirra sem þar störfuðu yfir 500.000 krónur á mánuði.

Rekstrarafgangur var af öllum sjóðum félagsins, en heildarrekstrarafgangur samstæðunnar nam rúmum 95 milljónum króna. Það er gríðarlegur styrkur í því fyrir Verkalýðsfélag Akraness að afkoman skuli vera jafn góð og raun ber vitni enda hefur stjórn félagsins undanfarin ár aukið við hina ýmsu þjónustu til handa félagsmönnum í ljósi góðrar afkomu. Á það jafnt við um sjúkrasjóð félagsins sem og hina ýmsu möguleika í orlofsmálum, nægir þar að nefna Veiðikort, Útilegukort og gistingu á Edduhótelum. Þetta er ekki hægt að gera nema þegar rekstur félagsins er jafn góður og raun ber vitni um.

Það er allt í lagi að rifja það upp að þegar núverandi stjórn tók við í lok árs 2003, þá var félagið rekið á yfirdrætti. Á þessum rúmum 6 árum hefur núverandi stjórn tekist að snúa rekstri félagsins algerlega við, bæði félagslega og fjárhagslega. Á þessum tíma hefur félagsmönnum líka fjölgað umtalsvert eða um 87%. Þetta sýnir að fólk telur hag sínum vel borgið í sterku og öflugu stéttarfélagi.

Aðalfundur félagsins verður haldinn miðvikudaginn 21. apríl kl. 18:00  í Gamla kaupfélaginu, Kirkjubraut 11, Akranesi. Skorar stjórn félagsins á félagsmenn að mæta, en boðið verður upp á kvöldverð að loknum fundi.

07
Apr

Samningafundi var að ljúka

Rétt í þessu var að ljúka samningafundi vegna kjarasamnings Norðuráls og var fundurinn undir handleiðslu ríkissáttasemjara. Samninganefnd stéttarfélaganna lagði fram nýtt tilboð til handa forsvarsmönnum Norðuráls og byggist það tilboð algjörlega á þeim launasamanburði sem samninganefndin hefur unnið að að undanförnu. Í þeim samanburði kemur fram að launamunurinn getur numið nokkrum tugum þúsunda á mánuði í sumum tilfellum.

Forsvarsmenn Norðuráls tóku við tilboðinu og hafa það nú til skoðunar og lagði ríkissáttasemjari fram tillögu um að fresta fundi þar til á föstudaginn en þá munu forsvarsmenn Norðuráls svara tilboði stéttarfélaganna efnislega. Það er gríðarlega mikilvægt að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness að samningsaðilar fari að komast að niðurstöðu, einfaldlega vegna þeirrar óþreyju sem eðlilega er farið að gæta meðal starfsmanna fyrirtækisins. Það er einnig mat hans að deiluaðilar þurfi að komast samkomulagi eigi síðar en í byrjun næstu viku en eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá eru nokkur atriði sem samninganefndin mun ekki hvika frá og eitt þeirra er jöfnun launa við sambærilegar verksmiðjur.

Formaður félagsins ætlar að leyfa sér að vera hóflega bjartsýnn á að lausn á þessari erfiðu deilu finnist í næstu viku, alla vega er það von hans að svo verði.

06
Apr

Fundað á morgun hjá ríkissáttasemjara

Á morgun verður samningafundur hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Norðuráls en hálfur mánuður er nú liðinn frá því að fundað var síðast. Það er ljóst að það er farið að gæta verulegrara órþeyju hjá starfsmönnum þannig að það mæðir mikið á samninganefndum deiluaðila að vinna af fullum krafti að lausn þessarar deilu. l

Krafa samningarnefndar stéttarfélaganna er hvellskýr það er að laun verði jöfnuð á við Elkem og Alcan í Straumsvík.  Frá þeirri sanngjörnu kröfu mun formaður Verkalýðsfélags Akraness alls ekki víkja.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image