• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Mar

Næsti samningafundur á föstudaginn

Í gær var haldinn enn einn fundurinn hjá Ríkissáttasemjara til lausnar á kjaradeilu vegna starfsmanna Norðuráls. Það er mat formanns að lítið hafi þokast áfram hvað varðar aðalmálið sem er launaliðurinn. Vissulega er verið að skoða önnur ágreiningsatriði og reynt að finna lausn á þeim.

Krafa samninganefndar stéttarfélaganna er að kjör starfsmanna Norðuráls verði með sambærilegum hætti og gerist hjá Alcan í Straumsvík, en til þess að það takist þurfa laun starfsmanna að hækka um tugi þúsunda á mánuði. Rétt er að benda á að grunnlaun byrjanda eru einungis rúmar 167.000 krónur hjá verkamanni.

Önnur rök sem samninganefndin hefur haldið hátt á lofti er góð staða Norðuráls og eins og komið hefur fram hér á heimasíðunni þá hefur Norðurál skilað hagnaði nánast öll árin frá því fyrirtækið hóf starfssemi 1998 og heildarhagnaður fyrirtækisins til ársins 2008 nemur upp undir 36 milljörðum króna. Þar af var hagnaðurinn 16 milljarðar árið 2008, en þá var álverðið nokkuð hagstætt eða 2.665 dollarar tonnið.

Nú kveður hins vegar við að forsvarsmenn Norðuráls segja að fyrirtækið hafi verið rekið með tapi á síðasta ári. Formanni félagsins finnst það skjóta skökku við að slíkt hafi gerst, sérstaklega í ljósi þess að meðalverð á áli í fyrra var rétt tæpir 1.700 dollarar. Í byrjun ársins 2009 gerðist það hins vegar að álverðið fór niður í 1.275 dollara. Þá var í fréttum 19. nóvember 2009 haft eftir Mike Bless, fjármálastjóra Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls, að "félaginu hafi tekist að reka álver sitt á Grundartanga á sléttu þegar álverðið fór niður í 1.275 dollara á tonnið í mars 2009. Þetta hafi verið hægt vegna þess hve raforkuverðið á Íslandi er hagstætt félaginu."

Því spyr formaður sig, hvernig stendur á því að ef tekist hafi að reka álverið á sléttu í mars 2009 á 1.275 dollurum tonnið, að það dugi þá ekki 1.700 dollara meðalverð eins og raunin varð yfir allt árið. Einnig hefur gengið verið fyrirtækinu í hag, þeir selja álið í dollurum og borga laun í íslenskum krónum, en dollarinn hækkaði um 40% á milli áranna 2008 og 2009.

Það er skýlaus krafa okkar Íslendinga að reyna að ná sem mest út úr þeim erlendu stóriðjufyrirtækjum sem eru með starfsemi hér á landi, njóta hagstæðs raforkuverðs og fá afnot af landinu okkar og þeim mikla mannauði sem hér býr. En grundvallaratriðið er hins vegar það að áliðnaðurinn er að gera mjög góða hluti, álverðið í dag er yfir 2.200 dollarar og á þeirri forsendu er engin ástæða til að reka láglaunastefnu í stóriðjunni á Grundartanga.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til næsta samningafundar á föstudaginn nk.

12
Mar

Óþreyju farið að gæta í kjaraviðræðum við Norðurál

Næsti samningafundur hjá Ríkissáttasemjara í kjaradeilu Norðuráls verður á mánudaginn kemur. Eins og staðan er núna er formaður félagsins alls ekki bjartsýnn, miðað við þau viðbrögð sem hafa fengist á síðustu samningafundum.

Það er ljóst að það mun væntanlega draga til tíðinda í þessari deilu í næstu viku, en krafa samninganefndar stéttarfélaganna er skýr: það er að launamunurinn verði jafnaður. Frá þeirri kröfu verður ekki horfið.

Nú er mikilvægt fyrir forsvarsmenn fyrirtækisins að fara að sýna samningsvilja, enda eru engar forsendur fyrir því að þeirra starfsfólk njóti ekki sambærilegra kjara og starfsfólk í sömu störfum í Alcan í Straumsvík. Það er ljóst að á þeim fjölmörgu starfsmönnum sem hafa haft samband að undanförnu að verulegrar óþreyju gætir vegna þess hversu hægt gengur að ganga frá nýjum samningi.

11
Mar

Þokast lítið áfram

Í gær var haldinn þriðji fundurinn vegna kjaradeilu Norðuráls undir handleiðslu ríkissáttasemjara. Í heildina hafa nú verið haldnir 18 samningafundir vegna þessarar kjaradeilu. Fyrsti samningafundurinn var haldinn í lok október sl. þannig að samningaviðræður hafa nú staðið yfir í fjóra og hálfan mánuð. Það verður að segjast eins og er að niðurstaðan er frekar rýr fram til þessa.

Formanni félagsins hefur fundist vanta töluvert upp á samningsvilja af hálfu forsvarsmanna Norðuráls til þessa, en ber hins vegar þá von í brjósti sér að þeir fari að skynja að það séu engar forsendur fyrir því að starfsmenn Norðuráls njóti ekki sömu kjara og starfsbræður þeirra í Alcan í Straumsvík.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur afkoma fyrirtækisins allt frá stofnun þess verið með glæsibrag og hefur fyrirtækið skilað 37 milljörðum í hagnað frá árinu 1998 til 2008. Sem dæmi þá skilaði fyrirtækið mestum hagnaði allra fyrirtækja á Íslandi á árinu 2008 eða sem nemur 16 milljörðum. Árið 2008 var heildarvelta Norðuráls rúmir 47 milljarðar og af því var eins og áður hefur komið fram 16 milljarða hagnaður.

Á árinu 2009 var heildarveltan skv. fréttum 58 til 59 milljarðar. Þannig að það er æði margt sem bendir til þess að hagnaður Norðuráls á síðasta ári hafi verið upp undir 20 milljarða króna. Á þessari forsendu og þeirri bláköldu staðreynd að launakjör starfsmanna Norðuráls eru lakari um tugi þúsunda á mánuði í sumum tilfellum fyrir sama vinnutíma, mun samninganefnd stéttarfélaganna sýna fulla hörku í því að launakjör starfsmanna Norðuráls verði jöfnuð í eitt skipti fyrir öll við Alcan í Straumsvík.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til næsta fundar á mánudaginn kemur, og einnig óskaði sáttasemjari eftir að deiluaðilar myndu skoða nokkur atriði fram að þeim fundi.

10
Mar

Fundur um skipulagsmál ASÍ

Í gær var haldinn fundur um skipulagsmál Alþýðusambands Íslands á Hótel Hamri, en Alþýðusamband Íslands stendur nú fyrir fundarherferð þar sem fundað er með öllum aðildarfélögum ASÍ um skipulagsmál.

Fundinn í gær sátu fulltrúar frá Verkalýðsfélagi Akraness, Stéttarfélagi Vesturlands og Stéttarfélagi Snæfellinga. Grétar Þorsteinsson, fyrrverandi forseti ASÍ og Magnús Norðdahl, lögmaður fóru yfir núverandi skipulagsmál ASÍ og óskuðu eftir því við fundarmenn hvort þörf væri á að breyta skipulagi Alþýðusambands Íslands. 

Unnið var í hópavinnu á fundinum og komu fjölmargar hugmyndir fram, m.a. kom fram ein hugmynd sem lýtur að því að forseti ASÍ verði kosinn beinni kosningu af öllum félagsmönnum ASÍ í allsherjarkosningu. Núverandi fyrirkomulag er með þeim hætti að forseti ASÍ er kosinn á ársfundum sambandsins, en það var greinilegt á fundinum í gær að fólk telur fulla þörf á að breyta þessu fyrirkomulagi sem væri fólgið í mun lýðræðislegra kjöri en nú er.

Það er skoðun formanns Verkalýðsfélags Akraness að forseti ASÍ þurfi að hafa gott félagslegt umboð og með því að kjósa forsetann í allsherjarkosningu á meðal allra félagsmanna þá væri hann svo sannarlega með gott umboð frá sínum félagsmönnum.

Það þarf einnig að ríkja góð sátt um forsetann og á þeirri forsendu er þessi hugmynd mjög álitleg.

Einnig kom fram á fundinum að gerð kjarasamninga verði alfarið áfram í höndum stéttarfélaganna og hlutverk ASÍ snúi meira að samskiptum við ríkisvaldið.

10
Mar

Fundur hjá Ríkissáttasemjara í dag

Í dag kl. 14:00 verður haldinn fundur hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Norðuráls, en þetta er þriðji sáttafundurinn sem haldinn er undir handleiðslu sáttasemjara.

Á síðasta fundi setti ríkissáttasemjari deiluaðilum fyrir verkefni, sem var fólgið í því að skoða þrjú ágreiningsefni á milli aðilanna og reyna að finna lausn á þeim. Sá fundur var haldinn í gær í Norðuráli, en það voru formaður Verkalýðsfélags Akraness ásamt aðaltrúnaðarmanni og trúnaðarmanni FIT sem sátu fundinn fyrir hönd samninganefndarinnar. Fyrir hönd Norðuráls sátu starfsmannastjórinn og framkvæmdastjóri Norðuráls fundinn.

Þetta var svosem ágætis fundur, þótt málið sé einfaldlega með þeim hætti að öll þau ágreiningsefni sem uppi eru hanga á einni og sömu spýtunni sem er, eins og margoft hefur komið fram, algjör jöfnun launa við Alcan í Straumsvík.

08
Mar

Akur mun sjá um endurbætur á orlofshúsi félagsins í Ölfusborgum

Verkalýðsfélag Akraness hefur nú samið við Trésmiðjuna Akur um miklar endurbætur á orlofshúsi félagsins í Ölfusborgum. Frá því núverandi stjórn tók við félaginu hafa önnur orlofshús félagsins öll fengið andlitslyftingu, m.a. verið máluð, skipt um innréttingar og tæki og annað tilfallandi. Er sumarhús félagsins í Ölfusborgum síðasta húsið sem farið verður í þetta veigamiklar umbætur í bili.

Umbæturnar núna eru mjög umfangsmiklar, m.a. er verið að færa til veggi, skipta um eldhús- og baðinnréttingar, flísaleggja allan bústaðinn og setja hitalagnir í gólf. Þessu til viðbótar verður sólstofa byggð við húsið. Áætlað er að endurbæturnar taki allt að 2 mánuði, en húsið verður klárt fyrir sumarúthlutun.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness leggur mikla áherslu á að eiga í viðskiptum við fyrirtæki og verslanir í heimabyggð. Í þessu verki verður öll vinna við orlofshúsið í Ölfusborgum unnin af heimamönnum, þ.e.a.s. trésmiðir, rafvirkjar, píparar og flísalagningamenn koma allir frá fyrirtækjum á Akranesi. En að sjálfsögðu leggur stjórn félagsins einnig áherslu á að verslanir og fyrirtæki hér í bæ séu að sama skapi samkeppnishæfar um verð og þjónustu.

Rétt er að geta þess að hjá Akri starfa um 15 félagsmenn og er félagið ánægt með að hafa getað komið þessu verkefni til fyrirtækis sem er með þetta marga félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness að störfum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image