• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Feb

Kjaraviðræður Norðuráls komnar á fullt skrið

Í gær var haldinn í húsakynnum ríkissáttasemjara samningafundur um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Norðuráls. Þetta var áttundi fundurinn sem haldinn hefur verið í þessari samningalotu. En eins og áður hefur komið fram þá hefur vinna við samningagerðina hingað til lotið að textabreytingu í kjarasamningi og er lítið byrjað að ræða það sem skiptir starfsmenn hvað mestu máli, það er launaliðina.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness kynnti fyrir samninganefnd Norðuráls, þ.e. stéttarfélögunum og trúnaðarmönnum, launasamanburð sem hann hefur gert og lýtur að samanburði á launum Norðuráls, Elkem Ísland og Alcan.

Á grundvelli þessa launasamanburðar mun Verkalýðsfélag Akraness berjast af alefli fyrir því að sá launamunur sem birtist í þessum samanburði verði leiðréttur að fullu við undirskrift nýs samnings. Formaður hefur tjáð forsvarsmönnum Norðuráls að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki skrifa undir nýjan kjarasamning fyrr en leiðrétting hefur farið fram á launakjörum starfsmanna Norðuráls til samræmis við launakjör áðurnefndra verksmiðja. Frá þessari kröfu mun félagið ekki hvika.

Næsti fundur hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara á föstudaginn næstkomandi.

03
Feb

Tveir aðalfundir deilda hafa verið haldnir

Í þessari viku hafa þegar verið haldnir tveir af aðalfundum deildanna, á mánudaginn var aðalfundur almennrar deildar og í gær var iðnsveinadeildin. Í kvöld mun Matvæladeildin halda sinn aðalfund.

Auk venjubundinna aðalfundarstarfa hafa á fundunum spunnist heilmiklar umræður um atvinnuástandið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar þar að lútandi. Ber öllum fundarmönnum saman um að atvinnuástandið sé mjög alvarlegt, enda eru yfir 300 manns á Akranesi án atvinnu. Á landinu öllu eru yfir 17.000 manns atvinnulausir.

Einnig eru fundarmenn sammála um að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að sporna við vanda skuldsettra heimila séu alls ekki nægilegar, enda virðast flestar aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðast að því að heimilin greiði sínar stökkbreyttu skuldir upp í rjáfur á sama tíma og slegin hefur verið skjaldborg utan um fjármagnseigendur.

01
Feb

Aðalfundur Almennrar deildar í kvöld

Eins og lög félagsins gera ráð fyrir verða aðalfundir allra deilda Verkalýðsfélags Akraness haldnir næstu daga. Nú í kvöld munu félagsmenn Almennrar deildar funda. Félagsmenn Iðnsveinadeildar munu funda annað kvöld og á miðvikudagskvöld 3. febrúar er aðalfundur Matvæladeildar. Stóriðjudeildin mun funda mánudaginn 8. febrúar og Opinbera deildin fundar síðust þann 9. febrúar. Allir fundirnir verða haldnir í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13 og hefjast kl. 18:00.

Dagskrá fundanna:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. Kynning á stöðu kjaramála
  3. Önnur mál

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta á fund sinnar deildar og taka þannig þátt í mótun starfsemi félagsins. Kaffiveitingar verða í boði.

29
Jan

Kjaraviðræður hafnar af fullum krafti

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá var fundur vegna nýs kjarasamnings Norðuráls haldinn í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag og var þetta fyrsti fundurinn frá því að viðræðum var frestað um miðjan desember á síðasta ári.

Það er afar ánægjulegt að viðræðurnar séu nú farnar af stað aftur og nú mun það liggja fyrir að lagður verður kraftur í þessar viðræður og boðað hefur verið til næsta fundar á þriðjudaginn næstkomandi.

Formaður talaði tæpitungulaust á þessum fundi og kom fram í máli hans að Verkalýðsfélag Akraness muni klárlega standa fast á þeirri kröfu að launakjör starfsmanna Norðuráls verði jöfnuð að fullu við stóriðjur í sambærilegum iðnaði og verður hvergi hvikað í þeim efnum.

28
Jan

Afkoma stóriðjufyrirtækja mjög góð síðastliðin 10 ár

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni munu samningsaðilar að nýjum kjarasamningi Norðuráls hittast á morgun og leggja grunninn að áframhaldandi vinnu við gerð nýs kjarasamnings.

Formaður félagsins hefur verið að skoða afkomu stóriðjufyrirtækja allt aftur til ársins 1998 og það er skemmst frá því að segja að afkoma álfyrirtækjanna síðustu 10 ár er mjög góð. Varðandi járnblendiverksmiðjuna Elkem Ísland þá er afkoma hennar á síðustu 10 árum því miður ekki eins glæisleg og hjá álfyrirtækjunum. Frá árinu 1999 hefur Norðurál skilað samtals rúmum 35 milljörðum í hagnað, Alcan í Straumsvík hefur skilað 41 milljarði á sama tímabili en Elkem Ísland rúmum 2,5 milljörðum. Formaður hefur einnig verið að bera saman launakjör í þessum verksmiðjum og því miður hafa starfsmenn Norðuráls ekki notið jafn góðra kjara og starfsmenn Elkem og Alcan. En það er morgunljóst að í komandi viðræðum mun sá launamunur sem þar ríkir á milli verða leiðréttur að fullu, við annað mun Verkalýðsfélag Akraness ekki una.

Það á að vera skýlaus krafa okkar Íslendinga gagnvart stóriðjufyrirtækjunum að þeim góða ávinningi sem þessi fyrirtæki eru að skila verði skilað með einum eða öðrum hætti til starfsmanna. Þessi fyrirtæki eru að fá hjá okkur ódýrari raforku heldur en gengur og gerist, eru að fá afnot af landinu okkar og síðast en ekki síst fá þeir afskaplega góða starfsmenn til að skila þessum góða árangri sem áður hefur verið nefndur.

Formaður hefur reyndar velt einu fyrir sér, af hverju við Íslendingar reisum ekki okkar eigið álver því það er engin ástæða til þess að láta þann mikla hagnað sem álfyrirtækin eru að skila renna til erlendra eignaraðila. Þetta er möguleiki sem við Íslendingar eigum svo sannarlega að skoða með opnum hug.

26
Jan

Stefnumótunarfundur í lífeyrissjóðsmálum haldinn í febrúar

Á síðasta ársfundi Alþýðusambands Íslands var lögð fram tillaga frá Verkalýðsfélagi Akraness um stóraukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðum en eins og fram hefur komið hér á síðunni var sú tillaga kolfelld. Hins vegar var á fundinum samþykkt ályktun um heildarendurskoðun á stefnu ASÍ í málefnum lífeyrissjóða.

Nú hefur verið boðað til fundar 18. og 19. febrúar næstkomandi á Hótel Selfossi þar sem stefnumótun í lífeyrismálum Alþýðusambands Íslands verður til umfjöllunar. Það eru 85 fulltrúar frá verkalýðshreyfingunni sem munu eiga seturétt á þessum fundi og mun Verkalýðsfélag Akraness eiga einn fulltrúa á fundinum.

Að sjálfsögðu mun Verkalýðsfélag Akraness halda áfram baráttu sinni fyrir því að auka lýðræðið við stjórnarval í sjóðunum. Krafa félagsins verður sú sama, það er að hætt verði með helmingaskipti atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar við skipan í stjórnir lífeyrissjóðanna og nýtt fyrirkomulag tekið upp þar sem allir sjóðsfélagar eigi rétt á að bjóða sig fram til stjórnarsetu. Þessari skoðun mun Verkalýðsfélag Akraness halda á lofti á þessum fundi.

Því miður var tillaga Verkalýðsfélags Akraness á ársfundinum um aukið lýðræði kolfelld eins og áður sagði en 80% ársfundarfulltrúa greiddu atkvæði gegn tillögunni. Það er skoðun formanns að þarna hafi sérhagsmunir forystumanna verkalýðshreyfingarinnar náð fram að ganga en af 24 miðstjórnarmönnum innan ASÍ eru 13 sem sitja í stjórnum lífeyrissjóða, annað hvort sem varamenn eða aðalmenn. Setu í stjórnum lífeyrissjóðanna fylgja umtalsverð völd og einnig getur verið um töluverðan fjárhagslegan ávinning að ræða. Á þeirri forsendu er eins og áður hefur komið fram skoðun formanns að hér hafi verið um sérhagsmunagæslu forystu verkalýðshreyfingarinnar að ræða þegar tillagan fékk ekki brautargengi.  

Það er skýlaus krafa almennings í þessu landi að tekin verði upp ný gildi, gildi er lúta að réttlæti, jöfnuði og virðingu og að gömlu gildin verði látin víkja, gildi sem lúta til dæmis að sérhagsmunagæslu og það er kjörið tækifæri fyrir verkalýðshreyfinguna að sýna það í verki með því að taka upp stóraukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image