• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Feb

Forseti Alþýðusambands Íslands og formaður Verkalýðsfélags Akraness í viðtali um lífeyrismál á Bylgjunni

Formaður Verkalýðsfélags Akraness og Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, voru í viðtali í útvarpsþættinum Ísland í bítið í morgun þar sem stjórnarseta í lífeyrissjóðunum var til umfjöllunar.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá lagði VLFA fram tillögu á ársfundi Alþýðusambands Íslands um stóraukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum og það hefur einnig komið fram að sú tillaga hafi verið kolfelld með 79,3% atkvæða. Verkalýðsfélag Akraness lét Capacent Gallup gera könnun og í henni kom fram að 71,5% svarenda voru hlynntir því að tekið yrði upp nýtt fyrirkomulag við stjórnarval í lífeyrissjóðum en spurningin var í samræmi við tillögu félagsins á ársfundi ASÍ í október á síðasta ári.  Einungis 7,8% voru andvígir að breyta um það fyrirkomulag sem nú er í gildi. Hægt er að hlusta á viðtalið með því að smella hér.

15
Feb

Yfirgnæfandi meirihluti vill aukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum

Á ársfundi ASÍ í október sl. lagði stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness fram tillögu um breytingu á fyrirkomulagi við stjórnarval í lífeyrissjóðum. Tillagan gekk út á að stórauka lýðræðið við stjórnarval þar sem allir stjórnarmenn yrðu kosnir beinni kosningu af sjóðsfélögum. Núverandi fyrirkomulag er með þeim hætti að atvinnurekendur skipa helming stjórnarmanna og verkalýðshreyfingin kýs hinn helminginn.

Það er skemmst frá því að segja að tillaga Verkalýðsfélags Akraness á ársfundi ASÍ í október var kolfelld með atkvæðum 79,3% fundargesta. Hins vegar var samþykkt að efna til stefnumótunarfundar ASÍ um lífeyrismál þar sem stefna ASÍ yrði yfirfarin og endurskoðuð og skilgreind hver skuli vera samningsmarkmið ASÍ við Sa um lífeyrismál. Nú hefur verið ákveðið að þessi fundur verði haldinn 18. og 19. febrúar nk. á Hótel Selfossi.

Af því tilefni ákvað Verkalýðsfélag Akraness að láta Capacent Gallup gera könnun á því hvort vilji væri til að breyta fyrirkomulagi við stjórnarval í lífeyrissjóðunum. Þessi könnun var framkvæmd dagana 3. til 10. febrúar og var úrtakið 1175 manns. Spurt var: “Ert þú hlynnt(ur) því eða andvíg(ur) að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag við val á stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum þannig að stjórnarmenn verði að vera sjóðsfélagar og sjóðsfélagar sjálfir kjósi alla stjórnarmenn beinni kosningu?”

Fjöldi svarenda var 836 sem er svarhlutfall upp á 71,1%. Það er skemmst frá því að segja að yfirgnæfandi meirihluti er hlynntur því að tekið verði upp nýtt fyrirkomulagi við stjórnarval í lífeyrissjóðum eða sem nemur 71,5% en einungis 7,8% voru því andvígir. 20,6% sögðust hvorki vera hlynntir né andvígir.

Það er augljóst að afgreiðsla ársfundar Alþýðusambands Íslands á tillögu Verkalýðsfélags Akraness er í algjörri andstöðu við niðurstöðu könnunar Capacent Gallup.  79% ársfundarmanna voru andvígir tillögunni sem Verkalýðsfélag Akraness lagði fram á ársfundinum. 71,5% svarenda könnunar Capacent Gallup eru fylgjandi breytingum á stjórnarvali í lífeyrissjóðum.

Það hlýtur því að vera augljóst að þessi niðurstaða mun vekja forystu Alþýðusambands Íslands til umhugsunar um að vilji hins almenns sjóðsfélaga er að stóraukið verði lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðum og hætt verði með svokölluð helmingaskipti sæta í stjórnum lífeyrissjóða á milli launaþega og atvinnurekenda.

Hægt er að lesa könnunina í heild sinni með því að smella hér.

12
Feb

Gríðarleg vinna framundan

Tíundi samningafundur við forsvarsmenn Norðuráls var haldinn í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara. Eins og áður hefur komið hér fram er verið að leggja lokahönd á textabreytingar í kjarasamningnum og einnig var rætt um launasamanburð á milli verksmiðja.

Það er alveg ljóst eftir þennan dag að það er gríðarleg vinna framundan við að ganga frá nýjum kjarasamningi fyrir starfsmenn Norðuráls. Eins og formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur sagt hér á heimasíðu félagsins sem og á samningafundum þá mun hann ekki undirrita kjarasamning ef launakjör starfsmanna Norðuráls verða ekki jöfnuð við aðrar sambærilegar stóriðjur. Það er algjörlega morgunljóst að undirritun formanns mun ekki eiga sér stað ef jöfnun mun ekki verða að veruleika. Þessum skilaboðum hefur formaðurinn komið með afgerandi hætti á framfæri við forsvarsmenn fyrirtækisins.

Það er einnig mat formanns að það muni geta tekið þónokkurn tíma að leysa þann ágreining sem uppi er en leggur formaður mikla áherslu á að reynt verði til þrautar á næstu samningafundum að ná saman með nýjan kjarasamning.

11
Feb

Fundað með starfsmannastjóra Elkem Ísland

Formaður félagsins átti fund með starfsmannastjóra Elkem Ísland á þriðjudaginn var. Fundarefnið var það að verktakar hafa að undanförnu verið að störfum inni á svæðinu við svokallaða kjarnastarfsemi fyrirtækisins, en samkvæmt bókun sem fylgir kjarasamningi starfsmanna er kveðið á um eftirfarandi:

"Ein verðmætasta auðlind fyrirtækisins er sérþekking starfsmanna á framleiðsluþáttum og búnaði. Það er grundvallaratriði að slík þekking á kjarnastarfsemi fyrirtækisins haldist innan þess. Í því ljósi verður ekki um úthýsingu á kjarnastarfsemi fyrirtækisins að ræða."

Starfsmannastjóri Elkem var sammála formanni að þau verkefni sem hér væri um að ræða væru hluti af kjarnastarfseminni og hefðu einungis verið hugsuð í mjög skamman tíma. Var samþykkt að fyrirtækið myndi kippa þessu í liðinn innan skamms aðlögunartíma sem fyrirtækið óskaði eftir. Formaður er ánægður með þessa lausn málsins enda var fundurinn mjög góður og ánægjulegt hver viðbrögð fyrirtækisins voru við þessari athugasemd félagsins.

09
Feb

Margar hraðahindranir framundan

Í gær var haldinn níundi samningafundur vegna kjarasamnings Norðuráls í húsakynnum ríkissáttasemjara. Meginefni fundarins í gær var að fara yfir þau ágreiningsefni er lúta að texta í nýjum kjarasamningi og er sú vinna langt komin þó vissulega séu nokkur atriði sem verulegur ágreiningur er um.

Formaður Verklýðsfélags Akraness kynnti á þarsíðasta fundi fyrir samninganefnd stéttafélaganna launasamanburð sem hann hafði gert á eftirtöldum verksmiðjum: Norðuráli, Elkem Ísland og Alcan í Straumsvík. Nú hefur hagfræðingur ASÍ einnig gert sambærilegan launasamanburð og er skemmst frá því að segja að samanburðinum ber algjörlega saman. Það er ljóst að það er mikil vinna framundan við að jafna launakjör þessara verksmiðja en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni mun Verkalýðsfélag Akraness ekki kvika frá þeirri kröfu að þessum launamuni verði endanlega eytt.

Það hefur einnig komið fram hér á heimasíðunni að rekstur stóriðjanna almennt hefur verið mjög góður á undanförnum árum og ef skoðaðar eru hagnaðartölur áðurnefndra fyrirtækja 12 ár aftur í tímann þá kemur í ljós að Alcan hefur skilað 41 milljarði í hagnað, Norðurál rúmum 36 milljörðum og Elkem Ísland 2,6 milljörðum. Sem dæmi til viðbótar þá skilaði Norðurál 16 milljörðum í hagnað árið 2008. Á þessu sést að þessi útflutningsfyrirtæki hafa fulla burði til að koma vel til móts við það góða starfsfólk sem hjá stóiðjunni starfar og greiða góð laun.

Næsti fundur verður á föstudaginn kemur og eins og áður hefur komið fram þá eru margar hraðahindranir sem samninganefnd stéttafélaganna þarf að fara yfir áður en gengið verður frá nýjum samningi. En til að ítreka það enn og aftur þá eru engar forsendur fyrir því að gefinn verði afsláttur á launakjörum starfsmanna Norðuráls sökum þess góða reksturs sem fyrirtækið hefur skilað á liðnum árum. Og þessu til viðbótar er rétt að minna á að fyrirtækið selur sínar afurðir í dollurum og hefur dollarinn frá árinu 2008 hækkað um 108%. Á sama tíma eru laun greidd í íslenskum krónum.

05
Feb

Ekki á leið í framboð

Að gefnu tilefni vill formaður Verkalýðsfélags Akraness taka það skýrt fram að hann er ekki á leið í framboð vegna komandi sveitarstjórnakosninga, en vill samt sem áður þakka þeim fjölmörgu sem hafa að undanförnu skorað á hann m.a. á Facebook og víðar fyrir það traust.

Formaður vill upplýsa að hann tilheyrir ekki neinum stjórnmálaflokki, enda er það hans skoðun að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki undir nokkrum kringumstæðum að vera eyrnamerktir einhverjum einum ákveðnum stjórnmálaflokki. Enda eru forystumenn í verkalýðshreyfingunni að vinna fyrir félagsmenn sem tilheyra öllum stjórnmálaflokkum.

Það er einnig gríðarlega mikilvægt að verkalýðshreyfingin sé hafin yfir allan vafa hvað varðar traust og trúverðugleika. En það gerir hún alls ekki með því að forystumenn í verkalýðshreyfingunni séu yfirlýstir stuðningsmenn einhverra ákveðinna stjórnmálaafla og noti verkalýðshreyfinguna til að koma sínum flokkspólítísku málum á framfæri. Þetta hefur því miður verið allt of algengt.

Með öðrum orðum, verkalýðshreyfingin á að vinna að málefnum er lúta að hagsmunum launafólks algerlega óháð því frá hvaða stjórnmálaöflum slík málefni koma.

Formaður vill líka upplýsa um það að það eru ærin verkefni framundan hjá Verkalýðsfélagi Akraness við að bæta kjör félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness, t.a.m. stendur nú yfir samningagerð við forsvarsmenn Norðuráls og að auki eru allir aðrir kjarasamningar lausir á árinu. Mun formaður ekki hvika frá þeirri baráttu sem framundan er, en vill ítreka þakklæti til þeirra sem hafa verið að skora á hann að undanförnu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image