• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Apr

85% sögðu já við nýjum kjarasamningi Norðuráls

Talningu atkvæða um nýjan kjarasamning Norðuráls lauk rétt í þessu. Það er óhætt að segja að samningurinn hafi fallið í góðan jarðveg hjá starfsmönnum en 85,4% greiddra atkvæða sögðu já við samningnum.

Það voru um 90% starfsmanna sem höfðu kosningarétt sem greiddu atkvæði og skiptingin var með eftirfarandi hætti:

426 greiddu atkvæði

Já sögðu 364 eða 85,4%

Nei sögðu 62 eða 14,5%

1 skilaði auðu sem er 0,1%

Það er afar ánægjulegt að sjá að starfsmenn virðast vera ánægðir með þann árangur sem náðist í þessum kjarasamningi enda telur formaður Verkalýðsfélags Akraness að þessi samningur sé heilt yfir mjög góður fyrir starfsmenn. Helstu markmið samningsins náðust fram en starfsmenn eru að hækka umtalsvert í launum og sem dæmi þá er vaktavinnufólk að hækka frá 30 þúsundum og upp í tæpar 35 þúsund krónur á mánuði. Einnig var samið um eingreiðslu upp á 150 þúsund krónur og að samningurinn gildir frá 1. janúar 2010. Þetta gerir það að verkum að starfsmaður í vaktavinnu sem hefur starfað í 5 ár hjá Norðuráli á von á endurgreiðslu um miðjan maí að upphæð sem er nálægt 300 þúsund krónur. Formaður veit vel að það mun koma starfsmönnum vel að fá slíka endurgreiðslu um miðjan maí enda er mjög erfitt fyrir almennt verkafólk að láta enda ná saman eftir þá hrinu kostnaðarhækkana sem dunið hafa á íslensku þjóðinni frá hruni bankanna. Ekki má heldur gleyma því að það náðist í gegn að endurheimta verkfallsrétt fyrir starfsmenn.  

Launaliður samningsins verður aftur laus nú um áramótin en samningurinn í heild sinni gildir til 31. desember 2014. Með öðrum orðum, viðræður um hækkun launa til handa starfsmönnum Norðuráls munu hefjast aftur í nóvember á þessu ári.

Formaður vill þakka trúnaðarmönnum Norðuráls kærlega fyrir samstarfið við gerð þessa samnings en það er alveg ljóst að þetta er ein erfiðasta kjaradeila sem formaður VLFA hefur tekið þátt í en viðræðurnar stóðu yfir nær sleitulaust í 6 mánuði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image