• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Feb

Sumar 2010 - Útilegukortið og Veiðikortið á meðal nýjunga

Undirbúningur fyrir komandi sumarútleigu stendur nú í hámarki á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness, en þegar kemur að því að undirbúa sumarúthlutun orlofshúsa er að mörgu að huga og nauðsynlegt að vera tímanlega á ferðinni.

Eins og venjulega hefur félagið tekið á leigu nokkur orlofshús til viðbótar við þau sem þegar eru í eigu félagsins. Félagið á fyrir sumarbústaði í Húsafelli, Svínadal, Hraunborgum og Ölfusborgum og þrjár íbúðir á Akureyri. Í sumar verður að auki í boði dvöl í sumarbústað að Eiðum, í tveimur húsum í Stóru Skógum og í íbúð á Flateyri við Önundarfjörð. Fjöldi vikna sem í boði verða hefur aldrei verið meiri enda hefur aðsókn í orlofshús aukist jafnt og þétt undanfarin ár og er síst búist við minni aðsókn þetta sumarið.

Í sumar eru fleiri spennandi nýjungar í boði fyrir félagsmenn. Hægt verður að kaupa Útilegukortið 2010, Veiðikortið 2010 og gistimiða á Hótel Eddu með 50% afslætti á skrifstofu félagsins. Sala Veiðikortsins er þegar hafin, Útilegukortið er væntanlegt um miðjan mars og gistimiðarnir seinna í vor. Nánari upplýsingar verða birtar hér á heimasíðunni innan skamms.

Athygli er vakin á því að ekki verður hægt að fá endurgreiðslu vegna korta sem keypt eru annars staðar, eingöngu er hægt að veita afsláttinn á kort sem seld eru á skrifstofu.

24
Feb

Launafólk tekur á sig skellinn

Formaður félagsins var í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.  Fram kom í máli formannsins að þolinmæði launfólks sé á þrotum.

Hann sagði það einnig ójafnan leik þegar launafólk taki á sig allar hækkanir sem sveitarfélög, ríki og verslunareigendur velti út í verðlagið. 

Formaðurinn sagði það ganga upp að stöðugleikasáttmálinn sem gerður var byggist fyrst og fremst á því að launþegar séu þvingaðir til að afsala sér sínum launahækkunum.  Frétt var um viðtalið á RUV í morgun hægt að lesa með því að smella hér.

23
Feb

Greiðsluþol almennings algjörlega sprungið

Það er óhætt að segja að greiðsluþol almennings sé löngu sprungið. Í gær hækkuðu olíufélögin bensín allverulega og er líterinn nú kominn yfir 200 krónur og hefur á einu ári hækkað um 60 krónur sem þýðir aukningu á meðalbíl um 120 þúsund krónur á ári.

Þessu til viðbótar hefur matvara hækkað gríðarlega á undanförnum tveimur árum eða sem nemur 38% frá ársbyrjun 2008. Það þýðir að 4 manna fjölskylda sem verslaði matvöru fyrir 100 þúsund krónur á mánuði í ársbyrjun 2008 þarf nú að greiða 138 þúsund krónur fyrir sömu matarkörfuna í dag. Þetta þýðir greiðsluaukningu fyrir 4 manna fjölskyldu á ársgrundvelli upp á 456 þúsund krónur og er þetta eingöngu það sem lýtur að matarinnkaupum.

Og það er ekki bara að bensín og matur hafi verið að hækka stórlega heldur hafa sveitarfélög verið að hækka sínar gjaldskrár töluvert að undanförnu og ríkið hefur aukið skattbyrði bæði í beinum og óbeinum sköttum umtalsvert. Og þessu til viðbótar hefur greiðslubyrði almennings vegna íbúða- og bílakaupa nánast stökkbreyst vegna gengishruns krónunnar og þess mikla verðbólguskots sem varð á síðasta ári. Í sumum tilfellum hafa gengistryggð íbúða- og bílalán hækkað yfir 100%.

Á sama tíma og þessar gríðarlegu hækkanir dynja á landsmönnum hafa laun lækkað töluvert og nægir að nefna í því samhengi þegar samninganefnd ASÍ gekk frá frestun á umsömdum launahækkunum á hinum almenna vinnumarkaði en með þeirri frestun voru hafðar af launafólki vel á annað hundrað þúsund krónur. Þessu hefur Verkalýðsfélag Akraness mótmælt frá upphafi enda gengur ekki upp að gera stöðugleikasáttmála sem einungis er fólginn í því að þvinga launafólk til að fresta og afsala sér sínum launum á meðan ríki, sveitarfélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar varpa sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið. Þetta getur vart talist stöðugleiki þegar öllum vandanum er varpað yfir á almenning.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að greiðsluþol almennings í þessu landi sé algjörlega búið og nú verði íslensk stjórnvöld, bankakerfið, verslunareigendur, sveitarfélög og aðrir þjónustuaðilar að axla sína ábyrgð.

22
Feb

Samningafundi nýlokið

Rétt í þessu var að ljúka samningafundi í húsakynnum ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Norðuráls. Á síðasta fundi lögðu forsvarsmenn Norðuráls fram tilboð til stéttarfélaganna sem að var ansi rýrt og er þar vægt til orða tekið. Á fundinum í dag lagði samninganefnd stéttarfélaganna fram samningstilboð og var farið yfir tilboðið og munu forsvarsmenn Norðuráls svara því á næsta fundi sem verður haldinn á föstudaginn kemur.

19
Feb

Stefnumótunarfundur á Selfossi um lífeyrismál

Formaður félagsins situr nú tveggja daga stefnumótunarfund á vegum ASÍ á Selfossi um málefni lífeyrissjóðanna. Fundurinn hófst í gærmorgun með þátttöku fulltrúa frá öllum 53 aðildarfélögum ASÍ.

Á fundinum heldur formaður hátt á lofti kröfum um aukið lýðræði í stjórnum lífeyrissjóða. Þetta eru sjónarmið bæði stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness og 71% þeirra sem tóku þátt í könnun Capacent Gallup á viðhorfi fólks til breytinga á fyrirkomulagi við stjórnarval í lífeyrissjóðunum.

Í máli formanns á fundinum í gær kom m.a. fram að hann telur mikilvægt að lífeyrissjóðirnir dragi úr þeim áhættufjárfestingum sem þeir hafa tekið þátt í á liðnum árum. Skv. upplýsingum frá Bjarna Þórðarsyni, tryggingastærðfræðingi þá var meðalraunávöxtun sjóðanna síðustu 10 ár um 2%. Að mati formanns er það ekki viðunandi ávöxtun sé litið til þeirrar staðreyndar að áhættulaus ríkisskuldabréf bera raunávöxtun upp á 3,7-4% að meðaltali.

Niðurstöður úr hópavinnu fyrri fundardagsins voru á þá leið að eindregið ætti að auka lýðræði í stjórnum lífeyrissjóðanna.

17
Feb

Forseti Alþýðusambands Íslands og formaður Verkalýðsfélags Akraness í viðtali um lífeyrismál á Bylgjunni

Formaður Verkalýðsfélags Akraness og Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, voru í viðtali í útvarpsþættinum Ísland í bítið í morgun þar sem stjórnarseta í lífeyrissjóðunum var til umfjöllunar.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá lagði VLFA fram tillögu á ársfundi Alþýðusambands Íslands um stóraukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum og það hefur einnig komið fram að sú tillaga hafi verið kolfelld með 79,3% atkvæða. Verkalýðsfélag Akraness lét Capacent Gallup gera könnun og í henni kom fram að 71,5% svarenda voru hlynntir því að tekið yrði upp nýtt fyrirkomulag við stjórnarval í lífeyrissjóðum en spurningin var í samræmi við tillögu félagsins á ársfundi ASÍ í október á síðasta ári.  Einungis 7,8% voru andvígir að breyta um það fyrirkomulag sem nú er í gildi. Hægt er að hlusta á viðtalið með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image