• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
May

Formannafundur ASÍ á þriðjudaginn

Alþýðusamband Íslands hefur boðað til formannafundar nk. þriðjudag. Dagskrá fundarins er aðallega um skipulagsmál ASÍ og stefnumál þess í lífeyrismálum gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Það var haldinn fundur um stefnumótun ASÍ í málefnum lífeyrissjóðanna í febrúar og var sá fundur einmitt hugsaður til þess að móta stefnu ASÍ í samningnum við Samtök atvinnulífsins um lífeyrissjóðsmál.

Það kom fram hjá fjölmörgum fundarmanna á þessum stefnumótunarfundi í febrúar að vilji væri til að auka lýðræðið við stjórnarkjör í lífeyrissjóðum en eins og flestir muna þá hefur Verkalýðsfélag Akraness barist fyrir því að tekið verði upp sjóðsfélagalýðræði þar sem stjórnarmenn verði allir kosnir beinni kosningu af sjóðsfélögunum sjálfum. En núverandi fyrirkomulag er með þeim hætti að Samtök atvinnulífsnis fara með helming stjórnarsæta á móti verkalýðshreyfingunni. Nú hefur ASÍ lagt fram stefnumótunardrög og í þeim drögum kemur fram að ekki eigi að breyta neinu hvað varðar helmingaskipti Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar.

Það er að mati formanns VLFA með ólíkindum að ekki skuli vera hlustað á hinn almenna félagsmann og sjóðsfélaga þar sem krafan hefur verið að sjóðsfélagarnir sjálfir fari með stjórn sjóðanna og hætt verði með helmingaskiptin eins og þau eru í dag. Verkalýðsfélag Akraness lét Capacent Gallup gera könnun varðandi þetta mál og í niðurstöðum hennar kom fram að yfir 72% vildu að sjóðsfélagarnir kysu alla stjórnarmennina beinni kosningu.

Verkalýðsfélag Akraness mun halda áfram að berjast fyrir þessu máli enda er það vilji sjóðsfélaga að lýðræðið í lífeyrissjóðunum verði stóraukið og það er dapurlegt til þess að vita að ASÍ skuli ætla að hunsa vilja sjóðsfélaga hvað það varðar. Verkalýðsfélag Akraness vill líka beita sér af fullum þunga fyrir því að lífeyrisréttindi á hinum almenna vinnumarkaði verði jöfnuð við lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Það er algjörlega óásættanlegt að starfsmenn sem starfa hlið við hlið hafi mismunandi lífeyrisréttindi eftir því hvort þeir eru í opinberu félagi eða ASÍ og getur sá munur numið yfir 30%. Á þessu verður að taka. Verkalýðsfélag Akraness vill einnig beita sér fyrir því að lífeyrissjóðum verði fækkað umtalsvert og sér félagið fyrir sér að það verði einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. En fyrsta skrefið gæti hinsvegar verið það að lífeyrissjóðum innan Starfsgreinasambands Íslands, sem eru um sjö talsins í dag, verði fækkað niður í einn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image