• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Dec

Jólakveðja frá stjórn Verkalýðsfélags Akraness

Stjórn Verkalýðsfélag Akraness og starfsmenn félagsins  senda félagsmönnum sínum og landsmönnum öllum bestu jólakveðjur með óskum um farsæld og frið á jólum, um áramót og á komandi ári. 

22
Dec

Að gefnu tilefni

Í sjónvarpsfréttum á Ruv í gær kom fram að gagnagrunnur sem Jón Jósef Bjarnason, framkvæmdastjóri IT Ráðgjafar vinnur að muni sýna á myndrænan hátt krosstengsl einstaklinga í viðskiptalífinu. Höfundur grunnsins segir að forystumenn verkalýðshreyfingarinnar leggi stein í götu þeirrar viðleitni að bæta við upplýsingum um þá sem fara með fé í nafni samtaka launamanna.

Verkalýðsfélag Akraness vill að gefnu tilefni að það komi skýrt fram að VLFA varð að sjálfsögðu strax við beiðni frá Jóni Jósep um hverjir skipi stjórn félagsins enda á að ríkja algjört gagnsæi í starfsemi stéttarfélaga og lífeyrissjóða.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness harmar það ef satt sé að aðilar innan verkalýðshreyfingarinnar hafi lagt stein í götu þeirrar viðleitni að bæta við upplýsingum um þá sem fara með fé í nafni samtaka launamanna. 

Formaður VLFA fagnar þeirri vinnu sem Jón Jósef vinnur nú að, einfaldlega vegna þess að fulltrúar stéttarfélaga bæði í stjórnum stéttarfélaga og lífeyrissjóða verða að vera hafnir yfir alla gagnrýni og þar verður að ríkja algjört gagnsæi. 

22
Dec

73 milljónir úr vasa skattgreiðenda

Óskiljanleg vinnubrögðÓskiljanleg vinnubrögðHvað er eiginleg í gangi? Í rúm 10 ár hefur núverandi sagnaritari þegið greiðslur frá skattgreiðendum Akraneskaupstaðar, fjárhæð sem nemur 73.337.692.- m.v. uppreiknaða vísitölu, fyrir það eitt að rita sögu Akraneskaupstaðar.

Þessu til viðbótar var samþykkt nýverið í bæjarstjórn að greiða umtalsverða fjárhæð til að klára verkið þrátt fyrir að þegar sé búið að greiða 73 milljónir fyrir það. Þetta gerist á sama tíma og verið er að skerða laun skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja um tugi þúsunda á mánuði, hvernig getur þetta átt sér stað?

Vinnubrögð af þessu tagi eru að mati formanns félagsins algjörlega óskiljanleg og á þeirri forsendu þarf bæjarstjórn Akraneskaupstaðar að útskýra fyrir skattgreiðendum hér á Akranesi í hverju þessi ritun er eiginlega fólgin. 

21
Dec

Dagbækur og félagsskírteini væntanleg

Um þessar mundir er verið að vinna að því að senda út dagbækur til félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness en dagbækurnar eru jafnframt félagsskírteini þeirra. Í bókunum má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um starf félagsins. Félagsmenn ættu að vera búnir að fá dagbókina senda heim í byrjun nýs árs.

18
Dec

Ásmundur Uni verður heiðraður fyrir störf í þágu félagsins

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness ákvað á fundi sínum á þriðjudaginn var að heiðra Ásmund Una Guðmundsson fyrir hans störf í þágu félagsins.

Ásmundur Uni var fyrst kjörinn ritari verkamannadeildar félagsins árið 1965 og einnig var hann vararitari aðalstjórnar í fjölmörg ár. Heiðrunin mun eiga sér stað á hinum árlega jólatrúnaðarráðsfundi félagsins sem haldinn verður þann 29. desember næstkomandi.

17
Dec

Lágmarkslaun til skammar fyrir íslenskt samfélag og verkalýðshreyfinguna

Það var afar athyglisverð frétt á Stöð 2 í gær þar sem sagt var frá því að Útlendingastofnun hefði synjað tælenskri konu um búsetuleyfi á þeirri forsendu að 175 þúsund króna laun dygðu ekki til framfærslu. Umrædd kona starfar í einu af þvottahúsum ríkisspítalanna og er afar fróðlegt að sjá að Útlendingastofnun skuli vera búin að kveða upp úrskurð um að laun upp á 175 þúsund krónur dugi ekki fyrir framfærslu. Formaður Verkalýðsfélags Akraness er í raun og veru algjörlega sammála því að lágmarkslaun á hinum almenna vinnumarkaði dugi engan veginn fyrir lágmarksframfærslu.

Það er ágætt að vera búin að fá þessa staðfestingu frá Útlendingastofnun um að lágmarkslaun á Íslandi í dag dugi ekki til að fólk geti framfleytt sér. Þetta mun klárlega verða notað í komandi kjaraviðræðum, bæði við ríki, sveitarfélög og á hinum almenna vinnumarkaði sem rök fyrir því að hækka beri lágmarkslaun umtalsvert þegar kjarasamningar verða lausir á næsta ári.

Formaður félagsins hefur margoft fjallað um þessi skammarlega lágu lágmarkslaun og gerði það meðal annars á ársfundi Alþýðusambands Íslands sem haldinn var dagana 22.-23. október síðastliðinn en í ræðu sem hann hélt sagði hann að það væri íslensku samfélagi og einnig verkalýðshreyfingunni til skammar að vera með lágmarkstaxta sem dygðu ekki fyrir framfærslu fólks. Skorar formaður á fólk að hlusta á umrædda ræðu en hlutinn sem snýr að lágmarkslaununum er í öðrum hluta þegar 8 mínútur eru búnar af ræðunni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image