• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Mar

Áríðandi fundur með starfsmönnum Norðuráls

Samninganefnd stéttarfélaganna boðar til áríðandi fundar vegna grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu við forsvarsmenn Norðuráls.

Fundurinn verður haldinn mánudaginn 29. mars kl. 20:30 í Gamla Kaupfélaginu, Kirkjubraut 11, Akranesi.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem jafnframt er formaður samninganefndar, mun gera starfsmönnum ítarlega grein fyrir stöðunni og munu starfsmenn geta spurt samninganefndina um hin ýmsu atriði sem lúta að kjarasamningsgerðinni.

Eins og áður hefur komið fram er staðan grafalvarleg og er það mat samninganefndar að það hafi gætt afskaplega lítils samningsvilja af hálfu forsvarsmanna Norðuráls og við slíka framkomu ætlar samninganefndin ekki að sætta sig við.

Krafan er, eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðu félagsins, það er að launakjör starfsmanna Norðuráls verði með sambærilegum hætti og gerist hjá starfsmönnum Alcan í Straumsvík.

Þessi krafa byggist á mjög sanngjörnum hætti enda hefur Verkalýðsfélag Akraness bent á að rekstur Norðuráls hefur gengið frábærlega þau 12 ár sem fyrirtækið hefur verið með starfsemi á Grundartanga en heildarhagnaður fyrirtækisins á umræddu tímabili eru um 36 milljarðar króna. Og það er ekki bara að reksturinn hafi gengið þetta vel heldur hafa gengisbreytingar á gjaldmiðlinum okkar verið útflutningsfyrirtækjum afar hagstæð frá árinu 2008.

Til að sýna fram á hvernig gengisbreytingarnar hafa unnið Norðuráli í hag, þá selur Norðurál sínar afurðir í dollurum en greiðir laun í íslenskum krónum.

Árið 2006 greiddi Norðurál 1,8 milljarð íslenskra króna í laun. Á gengi þess tíma gerir þessi upphæð í dollurum talið 26 milljónir USD í launakostnað. Árið 2009 eru greiddir í íslenskum krónum rúmir 3 milljarðar í laun enda fjölgaði starfsmönnum um tæpa 170 og einnig komu kjarasamningsbundnar launahækkanir fram á tímabilinu. Hins vegar var launakostnaðurinn árið 2009 í dollurum talið samt sem áður 26 milljónir Bandaríkjadala. Eða sem sagt nánast sama upphæð í dollurum talið og greidd var árið 2006 þrátt fyrir að starfsmönnum hafi fjölgað um 170 og kjarasamningsbundnar launahækkanir hafi komið til framkvæmda.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst hvernig gengið hefur verið að hjálpa Norðuráli, sem og öðrum útflutningsfyrirtækjum gríðarlega. Á þeirri forsendu er grátlegt og dapurlegt að verða vitni að því að þetta fyrirtæki skuli ekki sýna þann sóma að ganga að þeirri sanngjörnu kröfu að greidd séu sömu laun og í annarri sambærilegri álverksmiðju.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image