• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Dec

Vinnumálastofnun vantar aukinn mannskap

Í gær var formaður félagsins í viðtali í þættinum Reykjavík síðdegis þar sem fjallað var um hversu langan tíma það getur tekið að afgreiða umsóknir þeirra sem atvinnulausir eru orðnir. Þess eru dæmi að það geti tekið allt að 4-6 vikur fyrir einstaklinga sem misst hafa atvinnu að fá greiðslu úr atvinnuleysistryggingasjóði.

Það er með öllu óásættanlegt að þetta skuli taka svona langan tíma en ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst vegna undirmönnunar hjá Vinnumálastofnun vítt og breitt um landið. Sem dæmi eru í dag á Vinnumálastofnun hér á Akranesi starfandi jafnmargir starfsmenn og fyrir 3 árum síðan þegar það voru rúmlega 80 manns á atvinnuleysisskrá en í dag eru tæplega 600 manns skráðir atvinnulausir. Á þessu sést að álagið sem er á starfsfólki Vinnumálastofnunnar er gríðarlegt og það er skylda ríkisstjórnar Íslands að skapa Vinnumálastofnun það rekstrarumhverfi sem til þarf.

Það er einnig óþolandi og ólíðandi að fólk sem að missir atvinnu sína skuli þurfa að bíða jafnlengi eftir sínum rétti hjá atvinnuleysistryggingasjóði eins og raun ber vitni. Því er krafan sú að starfsfólki Vinnumálastofnunnar verði fjölgað án tafar þannig að atvinnuleitendur þurfi ekki að lenda í því að bíða eftir sínum greiðslum lengur en þörf er á.

Formanni er fullkunnugt um að starfsfólkið hér á Vinnumálastofnun á Akranesi er að sinna sínu starfi af eins mikilli kostgæfni og mögulegt er en sökum undirmönnunar komast þau ekki yfir þau verkefni sem fyrir þeim liggja sökum mikils álags.

08
Dec

Fundað hjá ríkissáttasemjara á morgun

Á morgun verður haldinn sjöundi fundur vegna endurnýjunar kjarasamnings starfsmanna Norðuráls og verður fundurinn haldinn eins og áður í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni gerir viðræðuáætlun samningsaðila ráð fyrir því að búið verði að ganga frá nýjum kjarasamningi 15. desember og er morgunljóst að það mun ekki takast. Formaður ber verulegan kvíðboga fyrir því að þessar viðræður geti dregist framyfir áramót en ef að það gerist þarf að sjálfsögðu að tryggja það að þær launahækkanir sem taka eiga gildi 1. mars gildi frá þeim tíma þó svo að samningurinn dragist eitthvað framyfir áramót.

Verkalýðsfélag Akraness vill undirstrika enn og aftur hvert markmið félagsins er í þessum viðræðum en það er að jafna launakjörin við stóriðjur í sambærilegum iðnaði.

07
Dec

Verkalýðsfélag Akraness styrkir góðgerðasamtök

Í lok árs 2005 gerði stjórn Verkalýðsfélags Akraness mjög góðan samning við Landsbankann á Akranesi um öll bankaviðskipti félagsins. Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði í sérstakan styrktarsjóð Verkalýðsfélags Akraness sem nota á til að styrkja góðgerðarmál á félagssvæði VLFA.

Á grundvelli þessa samnings við Landsbankann ákvað stjórn félagsins á fundi að styrkja Mæðrastyrksnefnd Akraness um 150.000 kr.  Einnig ákvað stjórn félagsins að styrkja styrktarsjóð Akraneskirkju um 150.000 kr. og mun séra Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur okkar skagamanna sjá um að útdeila þeim fjármunum til fjölskyldna sem eiga í fjárhagsvandræðum

Stjórn félagsins er afar ánægð með að geta komið þessum góðgerðarsamtökum til hjálpar með þessu framlagi. 

Það er alveg ljóst að gríðarlegur fjöldi fólks eiga um sárt að binda fjárhagslega um þessar  mundir sökum þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi.  Á þeirri forsendu er jákvætt að geta aðstoðað einhverja sem eiga í tímabundnum erfiðleikum fjárhagslega við að halda gleðilega jólahátíð.

04
Dec

Fundað hjá ríkissáttasemjara

Samninganefndir stéttarfélaganna áttu í morgun fund með forsvarsmönnum Norðuráls í húsakynnum ríkissáttasemjara. Fundurinn stóð stutt yfir þar sem samningsaðilar voru sammála um að lausn þyrfti að finnast á ágreiningi sem uppi er í einu máli og var því fundi frestað fram á miðvikudag í næstu viku.

Það er ljóst eins og staðan er í dag að ekki eru miklar líkur á að náist að vinna eftir þeirri viðræðuáætlun sem gerð var en í henni var kveðið á um að aðilar stefndu að því að nýr samningur yrði klár til undirritunar 15. desember. Formaður félagsins er því miður svartsýnn á að komin verði nýr samningur fyrir áramót en að sjálfsögðu munu samningsaðilar leita allra leiða til að svo geti orðið.  

03
Dec

Fundað á morgun um kjarasamning Norðuráls

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni er kjarasamningur starfsmanna Norðuráls laus nú um áramótin og hefur samninganefnd trúnaðarmanna og stéttarfélaganna átt nokkra fundi með forsvarsmönnum Norðuráls. Eins og einnig hefur komið fram á síðunni hefur sú vinna aðallega snúist um breytingar á textavinnu í kjarasamningnum.

Næsti fundur verður á morgun í húsakynnum ríkissáttasemjara og verður haldið áfram að vinna í textavinnunni en henni miðar sæmilega áfram þó svo að nokkur ágreiningsatriði séu að tefja fyrir. Samkvæmt viðræðuáætlun á milli samningsaðila var stefnt að því að kjarasamningsgerðinni yrði lokið 15. desember en eins og staðan er í dag verður að teljast afar ólíklegt að búið verði að undirbúa nýjan kjarasamning fyrir þann tíma.

Reyndar telur formaður félagsins að framundan séu nokkuð erfiðar viðræður en ber þá von í brjósti sér að samningsaðilar nái saman fyrir áramót þótt eins og áður hefur komið fram séu ekki miklar líkur á því eins og staðan er í dag. Markmið Verkalýðsfélags Akraness í þessum viðræðum er alveg hvellskýrt, það er að kjör starfsmanna Norðuráls verði með sambærilegum hætti og gerist í öðrum sambærilegum iðnfyrirtækjum.

01
Dec

Nýtt hvalaskoðunarskip

Andrea, farþegaskip í eigu Gunnars Leifs Stefánssonar og Hilmars bróður hans, kom til heimahafnar á Akranesi í fyrsta sinn á sunnudaginn. Andrea var keypt frá Svíþjóð og sigldi fjögurra manna áhöfn henni til Akraness. Skipið mælist tæp tvö hundruð brúttótonn, er 34 metra langt og 9 metra breitt. Það er skráð fyrir 240 farþega. Gunnar Leifur segir að það verði aðallega gert út til hvalaskoðunarferða frá Reykjavík en auk þess í skemmti- og útsýnisferðir fyrir hópa og á sjóstangveiði. “Það eru tveir veitingasalir um borð í skipinu og sætapláss fyrir leyfilegan farþegafjölda. Við höfum pláss fyrir 25 sjóstangir um borð og aðstaðan er öll hin glæsilegasta,” segir Gunnar.

Nú er verið að gera hina nýju Andreu klára til útgerðar við bryggju á Akranesi. Meðal annars þurfti að rífa frá stálhlera sem settir voru til að loka opnum plássum á skipinu fyrir siglinguna yfir hafið. Gunnar Leifur segist reikna með að útgerð nýja skipsins hefjist í janúar eða febrúar. “Við eigum tvo minni báta fyrir og það er mjög gott útlit framundan og búið að bóka fjölda ferða,” segir Gunnar Leifur. Fjögurra manna áhöfn sigldi Andreu heim frá Svíþjóð. Skipstjórar voru þeir Jónas Hrólfsson og Guðmundur Hafsteinsson en vélstjórar þeir Gunnar Leifur Stefánsson og Karl Hreggviðsson.

Heimild Skessuhorn

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image