• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Nov

Kynning fyrir atvinnuleitendur

Í morgun hélt Vilhjálmur Birgisson, formaður félagsins, kynningu fyrir atvinnuleitendur í boði Vinnumálastofnunar. Kynningin fjallaði m.a. um réttindi og skyldur á vinnumarkaði, vinnulöggjöfina og hlutverk stéttarfélaga. Góð mæting var á kynninguna og bárust formanni fjölmargar spurningar frá þátttakendum.

Kynningar sem þessar eru mikilvægur þáttur af starfsemi félagsins og er þeim sem óska eftir slíkum kynningum bent á að hafa samband við skrifstofu félagsins.

20
Nov

Frábær afkoma Norðuráls

Fundað var í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Norðuráls. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur sú vinna fram að þessu aðallega farið í textabreytingar í kjarasamningnum og miðar þeirri vinnu ágætlega áfram. Samt sem áður eru nokkrar greinar sem ágreiningur er um og vonandi leysist hann von bráðar. Ekkert er farið að ræða um launalið samningsins sem skiptir jú starfsmenn hvað mestu máli.

Formaður hefur verið að kynna sér hvernig fyrirtækinu gekk rekstrarlega á síðasta ári og það er skemmst frá því að segja að afkoma Norðuráls á síðasta ári var glæsileg. Hagnaður fyrirtækisins nam rétt rúmum 16 milljörðum króna. Heildarvelta fyrirtækisins voru rúmir 47 milljarðar þannig að hagnaður nemur 34% af heildarveltu sem verður að teljast frábær árangur.

Heildarlaunakostnaður var rétt tæpir 3 milljarðar sem að gera 6,23% af heildarveltu fyrirtækisins sem verður að teljast afar lág tala. Í ljósi þeirrar staðreyndar að rekstur Norðuráls hefur verið afburðagóður, ekki bara á síðasta ári heldur nánast frá upphafi, er ljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun standa fast á því að launakjör starfsmanna verði bætt allverulega í þeim viðræðum sem nú standa yfir.

Það er einnig rétt að minna á að í febrúar fór álverðið niður í 1266 dollara pr. tonn en í dag er álverðið komið upp í 2000 dollara pr. tonn. Allt þetta og einnig það sem áður hefur komið fram mun hjálpa samninganefndinni að standa fast á sínum kröfum þegar kemur að launaliðunum.

Eitt er víst að Verkalýðsfélag Akraness mun sýna tennurnar í þessum viðræðum enda er komið að því að starfsfólkinu verði umbunað fyrir þann frábæra árangur sem náðst hefur á liðnum árum og þessi árangur næst alls ekki nema með góðu og hæfu starfsfólki.

Það er gríðarlega ánægjulegt að afkoma fyrirtækisins skuli hafa verið þetta jákvæð á síðasta ári, enda er stóriðjan á Grundartanga það sem heldur lífinu í öllu samfélaginu hér á Akranesi og nærsveitum.

19
Nov

Verkafólk þvingað til að afsala sér sínum launum á sama tíma og stjórnendur taka sér tugmilljón króna bónusa

Í byrjun september sl. sendi Verkalýðsfélag Akraness áskorun á stjórn N1. Í áskoruninni krafðist VLFA, í ljósi þess að N1 skilaði tæpum hálfum milljarði í hagnað fyrstu 6 mánuði ársins, að fyrirtækið stæði við þær launahækkanir sem áttu að koma til framkvæmda 1. mars sl. Samninganefnd ASÍ og Samtök atvinnulífsins höfðu þá samið um að fresta þeim hækkunum vegna bágrar stöðu fyrirtækja í landinu.

Bensínafgreiðslumaður og aðrir starfsmenn olíufyrirtækja hafa nú þegar orðið fyrir launatjóni sem nemur á annað hundrað þúsunda króna vegna þess samkomulags sem ASÍ og SA gengu frá.

Nú kom fram í fréttum fyrir fáeinum dögum síðan að framkvæmdastjórar og aðrir yfirmenn N1 hafa síðustu daga innleyst afkomutengd laun sem þeir eiga hjá fyrirtækinu vegna góðrar afkomu þess á síðasta ári. Samkvæmt fréttum nema þessar upphæðir tugum milljóna króna.

Þetta gerist á sama tíma og áskorun Verkalýðsfélags Akraness var hafnað af stjórn fyrirtækisins og var vísað í samkomulag ASÍ og SA í því samhengi.

Í svari sem Verkalýðsfélagi Akranesi barst 8. september sl. frá forstjóra N1 segir m.a. þetta: "Það er rétt sem fram kemur í áskorunarbréfinu að afkoma N1 á fyrri hluta ársins var viðunandi. Það er hins vegar mikil óvissa um framhaldið. Á síðasta starfsári N1 varð tap af rekstrinum uppá 1.200 milljónir króna."

Einnig segir: "Skuldir fyrirtækisins hafa hækkað mikið á s.l. einu og hálfu ári eins og hjá öllum fyrirtækjum og heimilum landsins. Fyrirsjáanlegt er að á næstunni verður það hörð barátta að greiða þær niður þannig að þær komist aftur í fyrra horf."

Að endingu kemur fram í svarbréfinu: "Við munum bæta við laun okkar starfsfólks í samræmi við samkomulag sem gert var þ. 25. júní sl. á milli ASÍ og SA."

Það er grátlegt til þess að vita að almennt verkafólk sem starfar hjá þessu fyrirtæki skuli hafa verið þvingað til að afsala sér sínum launum á sama tíma og græðgisvæðing stjórnenda fyrirtækja heldur áfram þar sem menn taka tugi milljóna í bónusgreiðslur og ætlast til þess að almennt verkafólk horfi aðgerðalaust á.

Það er ennþá grætilegra að verkafólk skuli hafa verið þvingað til að fresta sínum launahækkunum ogt það með fullu samþykki samninganefndar ASÍ.

Krafa Verkalýðsfélags Akraness er enn til staðar, það er að launafólki verði greitt það fjárhagslega tjón sem það hefur orðið fyrir vegna þess gjörnings sem gerður var við frestun á þeim launahækkunum sem taka áttu gildi 1. mars sl. skv. kjarasamningum frá 17. febrúar 2008.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness spyr: ætlar siðblinda og græðgi í íslenskum fyrirtækjum engan enda að taka?  Eitt er ljóst að verkafólki vítt og breitt um landið er gjörsamlega misboðið yfir þessum gjörningi.

Sjá fréttir um málið hér og hér.

18
Nov

Forstjóri HB Granda í heimsókn á skrifstofu félagsins

Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB GrandaEggert B. Guðmundsson, forstjóri HB GrandaÁ mánudaginn var kom Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda á skrifstofu félagsins og fundaði með formanni félagsins. Eggert fór vítt og breitt yfir starfsemi fyrirtækisins og kom fram í máli hans að fyrirtækinu gengur nokkuðvel þessi misserin hjálpar það til að gengisfall krónunnar hefur verið sjávarútvegsfyrirtækjum í hag.

Vinna í frystihúsi HB Granda hér á Akranesi hefur á þessu ári aukist umtalsvert og ber að fagna því innilega. Sem dæmi þá var engin sumarlokun í sumar, sem nýttist skólakrökkum mjög vel. Hefur vinnutíminn einnig lengst umtalsvert, sem gefur starfsfólki möguleika á auknum tekjum á þessum erfiðu tímum.

Einnig kom fram hjá Eggerti að HB Grandi hafi fengið úthlutað 5.000 tonnum af síldarkvóta og reiknaði forstjórinn með að þeim afla yrði landað hér á Akranesi til bræðslu.

Þetta var ánægjulegur fundur, en eins og flestir muna þá gustaði vel á milli félagsins og fyrirtækisins fyrr á árinu vegna arðgreiðslna fyrirtækisins. Það mál leystist farsællega og var HB Grandi t.a.m. fyrsta fyrirtækið sem tók ákvörðun um að standa við allar þær launahækkanir sem taka áttu gildi 1. mars sl. Sú ákvörðun hefur skilað fiskvinnslufólki HB Granda yfir 100.000 krónum í auknum tekjum, en því miður varð stór hluti verkafólks af þessari hækkun sökum linkindar samninganefndar ASÍ.

16
Nov

Myndskeið frá ársfundi ASÍ aðgengileg á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness

Skrifstofu félagsins hafa nú borist upptökur af ræðum formanns á ársfundi ASÍ sem haldinn var dagana 22. og 23. október sl. Ákveðið hefur verið að birta ræðurnar hér á síðunni og verður myndskeiðum hlaðið inn í dag og á morgun.

Hægt er að skoða ræður formanns hér.

16
Nov

Verkalýðsfélag Akraness býður upp á fjármálanámskeið

Ingólfur H. IngólfssonIngólfur H. IngólfssonVerkalýðsfélag Akraness og Sparnaður ehf. bjóða nærsveitungum upp á námskeið með Ingólfi H. Ingólfssyni. Þar mun hann kynna ákveðna hugmyndafræði í fjármálum sem hann hefur verið að boða á undanförnum árum.

Námskeiðið verður haldið þriðjudaginn 17. nóvember 2009 frá kl. 20:00 til 21:00 í sal Gamla Kaupfélagsins að Kirkjubraut 11.

Á námskeiðinu er sýnt hvernig hægt er að nota þá peninga sem maður á til að greiða hratt niður skuldir, að byggja upp öruggan sparnað og að hafa gaman af því að nota peningana.

Eftir námskeiðið verður svo hægt að panta einkatíma hjá ráðgjöfum Sparnaðar. Í einkaráðgjöfinni er markmiðið að fólk fái yfirsýn yfir fjármálin, bæði skuldir og eignir. Fólki er síðan aðstoðað við að ná markmiðum sínum hvort sem það tengist skuldunum eða sparnaðinum. Bent er á leiðir til að forgangsraða skuldum og minnka þær eins hratt og mögulegt er án þess að auka greiðslubyrðina.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image