• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Nov

Bjarnargreiði

Nú hefur ríkisstjórn Íslands tilkynnt nýjar leiðir til lausnar greiðsluvanda heimilanna. Leiðir sem nefnast greiðslujöfnun, þak á lengingu lána, greiðsluaðlögun og sértæk skuldaaðlögun.

Hagsmunasamtök heimilanna héldu fund í Iðnó sl. mánudagskvöld. Þar kynnti félagsmálaráðherra, Árni Páll Árnason, þessi nýju úrræði og það kom svo sem ekki á óvart að fundargestir létu óánægju sína berlega í ljós yfir þessum úrræðum sem félagsmálaráðherra kynnti.

Þegar þessi úrræði eru skoðuð þá liggur fyrir að ekki er verið að leiðrétta þann forsendubrest sem skuldarar hafa orðið fyrir vegna bankahrunsins heldur eru íslensk stjórnvöld einungis að tryggja að lánastofnanir fái örugglega allt sitt. Það á með öðrum orðum að tryggja það að alþýða landsins greiði allar sínar skuldir með góðu eða illu.

Ef við skoðum úrræðin fyrir bílalánin þá liggur fyrir að færa á gengisvísitöluna til 1. maí 2008, sem jú vissulega léttir á greiðslubyrði fólksins en lækkar ekki höfuðstól skuldarinnar vegna þess forsendubrests sem orðið hefur. Hægt er að lengja í láninu um 3 ár sem tryggir það að lánveitandinn fær örugglega allt sitt og ef svo ólíklega vill til að eitthvað stendur út af þá hefur lántakinn úrræði til að fá restina niðurfellda með því að skila lyklunum að bifreiðinni.

Ætla íslensk stjórnvöld að halda því að fram að það sé verið að hjálpa skuldsettum heimilum með þessum hætti? Ekkert er gert til að lagfæra þá gríðarlegu hækkun sem orðið hefur á skuldum heimilanna vegna bankahrunsins

Það gilda ekki sömu lögmál um fjármagnseigendur, þeir hafa verið tryggðir í bak og fyrir. Neyðarlögin tryggðu allar innistæður á bankabókum að fullu. Og rétt er að minna á að búið er að setja hundruð milljarða inn í peningamarkaðssjóðina og afskrifað tugi milljarða hjá eignarhaldsfélögum og nægir að nefna í því samhengi 800 milljónir hjá Bjarna Ármannssyni, 14 milljarða hjá Finni Ingólfssyni, 30 milljarða hjá Pálma Haraldssyni, 11 milljarða hjá Sigurði Bollasyni og áfram mætti lengi telja.

Svo halda menn því fram að það sé ekkert hægt að gera fyrir skuldsett heimili. Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að á engan hátt sé að sætta sig við þetta lengur og full ástæða fyrir skuldsett heimili að láta heyra í sér með kröftugum hætti.

Það ber að þakka Hagsmunasamtökum heimilanna fyrir sína ötulu baráttu í þessum málum og ljóst að það er full ástæða fyrir verkalýðshreyfinguna að fara að taka á þessum málum af fullum þunga.

04
Nov

Starfsmönnum íþróttamannvirkja Akranesskaupstaðar sýnd ótrúleg lítilsvirðing

Bæjaryfirvöld sína starfsmönnum íþróttamannvirkja fantaskapBæjaryfirvöld sína starfsmönnum íþróttamannvirkja fantaskapEins og fram kom hér á heimasíðunni í sumar tilkynntu bæjaryfirvöld Akranesskaupstaðar sparnaðarleiðir sem lutu að styttingu á vinnutíma starfsmanna íþróttamannvirkja. Þessi stytting varð þess valdandi að laun þessara starfsmanna skertust um frá 30 þúsund krónum upp í tæpar 70 þúsund krónur á mánuði. Þessu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness fyrir hönd sinna félagsmanna harðlega enda var verið að ráðast illilega á þá sem eru með hvað lægstu tekjurnar hjá Akraneskaupstað.

Nú hafa bæjaryfirvöld tilkynnt að þau hyggist ætla að leyfa starfsemi í íþróttahúsi bæjarins að Vesturgötu í tvær klukkustundir á viku og einnig í Bjarnalaug án þess að starfsmenn bæjarins séu til staðar. Þeir ætla sér með öðrum orðum að láta þjálfara viðkomandi íþróttahópa sem stunda æfingar á þessum tímum ganga í störf starfsmanna íþróttamannvirkja sem þeir hafa sinnt undanfarin ár og áratugi.  Þessu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness harðlega í bréfi til bæjaryfirvalda sjá hér.

Þegar skerðingin á vinnutíma starfsmanna íþróttamannvirkja var tilkynnt í sumar var það eitthvað sem starfsmenn voru nauðbeygðir til að sætta sig við. Það að bæjaryfirvöld skuli voga sér að ætla að láta sjálfboðaliða ganga í störf starfsmanna sem eru með kjarasamningsbundin réttindi um þau störf sem um ræðir er með öllu ólíðandi og verður ekki látið átölulaust.

Það er líka ámælisvert, og er það vægt til orða tekið, að ætla sér að heimila íþróttaiðkun án þess að starfsmaður sé til staðar, öryggisins vegna. Enda liggur fyrir viðbragðsáætlun sem starfsmenn hafa undirgengist og er hluti af þeirra starfi. Því er alveg óhætt að velta því fyrir sér hver ber ábyrgð á því ef eitthvert alvarlegt óhapp verður ef ekki er starfsmaður til staðar.

Starfsmenn íþróttamannvirkja Akranesskaupstaðar hafa falið Verkalýðsfélagi Akraness að gæta hagsmuna sinna í þessu máli. Það mun félagið svo sannarlega gera og hefur nú þegar hafið undirbúning að því að fara með málið fyrir dómstóla, enda getur það ekki staðist neina skoðun að gengið sé á rétt starfsmanna íþróttamannvirkja með jafn skelfilegum hætti og hér er að gerast. Ef þetta verður látið átölulaust er allt eins víst að þetta sé fyrsta skrefið í því að láta sjálfboðaliða ganga í störf starfsmanna og á þeirri forsendu verður þetta mál varið af fullri hörku enda getur málið verið fordæmisgefandi.

Sú lítilsvirðing sem starfsmönnum íþróttamannvirkja er sýnd með þessari ákvörðun bæjaryfirvalda er með hreinustu ólíkindum og er gríðarleg reiði á meðal starfsmanna og sem dæmi hvað það varðar var haldinn fundur um þetta mál í síðustu viku sem endaði með því að stór hluti fundarmanna gekk út.

02
Nov

Vistvæn stóriðja

Í lok september lauk hvalvertíðinni og eins og fram hefur komið í fréttum veiddust 125 langreyðar af 150 hvala kvóta sem Hvalur hf fékk úthlutað.

Það er óhætt að segja það að veiðar á stórhveli hafi haft gríðarlega jákvæð áhrif fyrir samfélagið hér á Akranesi og í nærsveitum enda voru upp undir 150 manns sem fengu störf veiðunum tengdum og voru upp undir 80 manns héðan frá Akranesi sem unnu á vertíðinni.

Meðallaun þeirra sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness og störfuðu hjá Hval hf voru 561 þúsund krónur á mánuði, að teknu tilliti til þeirra þriggja mánaða sem hávertíðin stóð yfir. Á þessu sést að tekjumöguleikar starfsmanna voru nokkuð góðir sérstaklega í því árferði sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði. Það ber hins vegar að geta þess að mikið vinnuframlag liggur að baki þessum tekjum starfsmanna Hvals.

Það má alveg halda því fram að veiðar og vinnsla á hval hafi verið hálfgerð stóriðja, enda skilaði starfsemin umtalsverðum útsvarstekjum fyrir Akraneskaupstað og einnig fyrir sveitafélögin hér í kring. 

Þetta sýnir hversu gríðarlega mikilvægt er að við nýtum okkar sjávarauðlindir að fengnu áliti Hafrannsóknarstofnunar og við eigum ekki undir nokkrum kringumstæðum að láta fámenna öfgahópa úti í heimi kúga okkur til þess að afsala okkur nýtingu á okkar auðlindum.

Nú hefur komið í ljós að ferðamannastraumur til landsins hefur aldrei verið jafn blómlegur og í ár og nægir að nefna í því samhengi að aldrei hafa fleiri farið í hvalaskoðunarferðir frá Húsavík eins og í ár. Þetta sýnir einnig svo ekki verður um villst að veiðar á hvölum og hvalaskoðun geta klárlega farið saman án þess að skaða hvort annað.

Það ber að þakka Kristjáni Loftsyni forstjóra Hvals hf og öllu hans frábæra starfsfólki fyrir þeirra framlag til að skapa hér atvinnu og auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar því það er þannig sem við vinnum okkur út úr þeim efnahagshremmingum sem við Íslendingar erum nú í. 

Nú er bara að vona að veiðar og vinnsla á hval hefjist fyrr á næsta ári og skili okkur Íslendingum jafn miklum ávinningi og vertíðin gerði sem nú er nýlokið.

30
Oct

Kjarasamningsviðræður við Norðurál hafnar

Kjarasamningur starfsmanna Norðuráls rennur út um áramótin og var fyrsti formlegi samningafundurinn haldinn í morgun í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Á þessum fyrsta fundi var afgreidd viðræðuáætlun og kemur meðal annars fram í þessari áætlun að samningsaðilar hafi það markmið að búið verði að ganga frá nýjum kjarasamningi fyrir 15. desember næstkomandi. Nú verður tíminn einn að leiða það í ljós hvort að sú áætlun muni takast eður ei.

Ekki er ólíklegt að lögð verði mikil áhersla á launaliðinn í komandi viðræðum og mun Verkalýðsfélag Akraness leggja ofuráherslu á að launakjör Norðuráls verði með sambærilegum hætti og annarra fyrirtækja í samskonar iðnaði. Við annað er alls ekki hægt að una. 

Fram hefur komið í máli forsvarsmanna Norðuráls að erfitt verði að fara í launalið samningsins á meðan óvissa ríkir varðandi nýjan Orku-, auðlinda- og umhverfisskatt. Verkalýðsfélag Akraness getur ekki tekið þátt í því að þessi óvissa varðandi nýjan orkuskatt hafi áhrif á komandi kjaraviðræður, enda er ekki hægt að sætta sig við að aðgerðir Ríkisstjórnar Íslands í skattamálum hafi áhrif á kjarasamningsviðræður.

Rekstrarskilyrði álfyrirtækja hafa skánað töluvert á liðnum mánuðum og nægir að nefna í því samhengi að í febrúar 2009 var álverð pr. tonn 1260 dollarar en í dag er álverðið komið upp í 1900 dollara og hefur hækkað um rúm 50% á áðurnefndu tímabili. Það er alveg ljóst að jákvæð þróun á álverði að undanförnu mun gefa stéttarfélögunum byr undir báða vængi með að ná ásættanlegum kjarasamningi fyrir starfsmenn Norðuráls.

Næsti fundur er fyrirhugaður á næsta föstudag hjá ríkissáttasemjara.

29
Oct

Launahækkanir koma til framkvæmda 1. nóvember

Þann 1. nóvember nk. munu kauptaxtar verkafólks almennt hækka um 6.750 kr. og taxtar iðnaðarmanna um 8.750 kr. Þá er einnig gert ráð fyrir grunnhækkun launa um 3,5% en frá henni dragast launahækkanir frá og með 1. janúar 2009 til og með 1. nóvember, þ.m.t. vegna hækkunar kauptaxta. Hinn 1. júní 2010 skulu laun hækka um 2,5% en hækki laun meira vegna sérstakrar hækkunar kauptaxta, gildir sú hækkun.

28
Oct

Kemur hækkun persónuafsláttar til framkvæmda eða ekki?

Nú hefur komið í ljós að launafólk mun fá launahækkun 1. nóvember nk. þannig að launatjón launþega vegna afsals og frestunar á launahækkunum verður ekki meira en orðið er.

Það hefur áður komið fram hér á heimasíðunni að verkafólk sem starfar á berstrípuðum lágmarkstöxtum hefur verið þvingað til að afsala sér launahækkunum sem nema allt að 100.000 kr. á umræddu tímabili.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness veltir því fyrir sér á hvaða forsendum atvinnurekendur sjá sér fært núna að standa við þær launahækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars sl. Sérstaklega í ljósi þess að fátt virðist hafa orðið að veruleika í margumtöluðum stöðugleikasáttmála og VLFA veltir því líka fyrir sér hvort ekki sé öruggt að gengið hafi verið frá því við ríkisstjórn Íslands að persónuafsláttur hækki í samræmi við það sem yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 2008 segir til um.

Það væri með ólíkindum ef stjórn sem gefur sig út fyrir að vera félagshyggju- jafnaðar og velferðarstjórn ætli sér ekki að standa við hækkun persónuafsláttar eins og um var samið. Á þeirri forsendu þurfa aðilar vinnumarkaðarins að upplýsa almenning um hvort búið sé að ganga frá því hvort persónuafsláttur komi til framkvæmda um áramótin eða ekki.

Formaður félagsins er þeirrar skoðunar að afsal og frestun kjarasamninga hafi verið stórkostleg mistök í ljósi þess að verkafólk var þvingað til að afsala sér þessum hækkunum og það hjá fyrirtækjum sem klárlega hafa fulla burði til að standa við gerða samninga. Nægir að nefna í því samhengi öll fyrirtæki sem starfa í útflutningi.

Samkvæmt Hagstofu Íslands eru rúmlega 1.600 fyrirtæki sem hafa á síðustu 12 mánuðum starfað í útflutningi. Þetta er ekki nákvæm tala, en þetta er nálgun eins og Hagstofan tjáði formanni Verkalýðsfélags Akraness. Það væri því fróðlegt að vita hversu margir einstaklingar starfa hjá þessum fyrirtækjum, en ljóst er að um tugi þúsunda einstaklinga er að ræða. Fyrirtæki sem notið hafa góðs af þeirri gengislækkun sem orðið hefur á undanförnum misserum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image