• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Mar

Erfið kjaradeila

Ríkissáttasemjari ákvað að boða ekki til fundar í kjaradeilu Norðuráls fyrr en 6. apríl. Ástæðan er einföld: það ber alltof mikið í milli samningsaðila og á þeirri forsendu ákvað sáttasemjari að boða ekki til fundar fyrr en eftir hálfan mánuð.

Eins og margoft hefur komið hér fram á heimasíðu félagsins þá er krafa stéttarfélaganna jöfnuður í launum við verksmiðjur í sambærilegum iðnaði. Það er alveg ljóst að það er töluverður launamunur á milli verksmiðja í sambærilegum iðnaði en það er ágreiningur á milli samningsaðila hversu mikill sá munur er. Formanni finnst það dapurlegt að forsvarsmenn Norðuráls skuli ekki hafa sýnt meiri samningsvilja heldur en raunin hefur orðið til þessa því að það er að mati samninganefndarinnar engar forsendur fyrir því að Norðurál greiði ekki sambærileg laun og gerist í öðrum verksmiðjum.

Grunnlaun byrjanda hjá Norðuráli eru einungis rúmar 167 þúsund krónur á mánuði en hjá Elkem Ísland eru grunnlaunin rúmar 184 þúsund krónur. Og hjá Alcan eru grunnlaunin rúmar 173 þúsund krónur en í þeirri verksmiðju er bónuskerfi starfsmanna mun meira og skilvirkara heldur en hjá Norðuráli og sem dæmi þá gaf bónusinn hjá Alcan yfir 16% að meðaltali á síðasta ári en hjá Norðuráli var hann 5,8%.

Það á að vera krafa okkar Íslendinga að laun í stóriðjum séu góð en eins og staðan er núna er margt sem bendir til þess að þetta ætli að verða hálfgerð láglaunastörf. Það er skylda okkar í verkalýðshreyfingunni að tryggja það að laun í þessum verksmiðjum séu vel viðunandi enda er í öllum tilfellum um erlenda eignaraðila að ræða sem fá hér aðgang að okkar landi og afar ódýra raforku. Því er það lágmarksskylda að greidd séu mannsæmandi laun í þessum stóriðjum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image