• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
May

Forseti ASÍ hafnaði tillögu um skoðanakönnun varðandi vilja sjóðsfélaga um aukið lýðræði við stjórnarval

Í gær var haldinn formannafundur hjá Alþýðusambandi Íslands en dagskrá fundarins byggðist á eftirfarandi málefnum: Efnahagsmál og komandi kjarasamningar, skipulagsmál ASÍ og stefnumótun ASÍ í lífeyrismálum. Formaður tók til máls undir liðnum efnahags- og kjaramál og einnig varðandi stefnumörkun í lífeyrissjóðsmálum.

Formaður félagsins gagnrýndi harðlega þann stöðugleikasáttmála sem undirritaður var í júní á síðasta ári sem varð þess valdandi að verkafólk þurfti að afsala sér vel á annað hundruð þúsund króna vegna þessa gjörnings og kom fram í máli formanns VLFA að hann vonaðist til að svona stórfelld mistök yrðu aldrei gerð aftur af hálfu verkalýðshreyfingarinnar. Eins og margoft hefur komið fram var Verklýðsfélag Akraness alfarið á móti því að fresta þeim umsömdu launahækkunum samkvæmt kjarasamningi sem gerður var 17. febrúar 2008. Það kom einnig fram í máli hans að hann myndi ekki taka þátt í því að gera slíkan sáttmála aftur því það hefði ekki nema eitt gengið eftir í þessum sáttmála en það voru áðurnefndar frestanir á launahækkunum verkafólks.

Formaður gagnrýndi einnig ríkisstjórnina harðlega fyrir aðgerðaleysi og einnig fyrir það að hafa tekið ákvörðun um að standa ekki við samkomulag er lýtur að hækkun persónuafsláttar sem gert var árið 2006 og 2008 við ríkisstjórn Íslands. Það er með ólíkindum að það skuli vera ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, jöfnuð og velferð sem ógildir það samkomulag sem gert var um verðtryggingu persónuafsláttar. En verðtrygging persónuafsláttar hefur verið helsta baráttumál verklýðshreyfingarinnar í áratugi. Það kom einnig fram í máli formanns að það beri að sækja kröftuglega fram í komandi kjarasamningum á þau fyrirtæki sem vel eru stæð og á það sérstaklega við fyrirtæki sem eru í útflutningi. En þetta eru fyrirtæki sem klárlega geta komið með veglegar launahækkanir til handa sínu starfsfólki.

Einnig tók formaður til máls undir liðnum stefnumörkun ASÍ í lífeyrismálum gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Það kom fram í máli formanns að það sé með ólíkindum að okkar félagsmenn, sem eru að vinna hjá hinu opinbera, skuli ekki njóta sömu lífeyrisréttinda og starfsmenn sem eru í opinberum stéttarfélögum. Ef þetta verður ekki lagfært í komandi kjarasamningum eiga aðildarfélög ASÍ að mati formanns að taka sig saman og neita að gera samning við ríki og sveitarfélög en við slíkt myndi það gerast að þessir félagsmenn myndu ganga í opinberu félögin og fá þá sjálfkrafa mun betri lífeyrisréttindi en þeir hafa hjá stéttarfélögum innan ASÍ. Allavega mun Verkalýðsfélag Akraness beita sér af fullum þunga fyrir jöfnun þessara lífeyrisréttinda í komandi kjarasamningum því þessi mismunun á milli félagsaðildar á lífeyrisréttindum stenst enga skoðun.

Formaður undraðist á þessum fundi að allir sem tóku til máls voru sammála því að halda óbreyttu kerfi við stjórnarval í lífeyrissjóði. Með öðrum orðum, verkalýðshreyfingin vill að atvinnurekendur eigi 50% á móti verkalýðshreyfingunni en eins og margir muna þá hefur Verkalýðsfélag Akraness eitt stéttarfélaga hér á landi barist fyrir því að tekið verði upp sjóðsfélagalýðræði við val á stjórnarmönnum. Félagið hefur barist fyrir því að það verði sjóðsfélagarnir sem kjósi alla stjórnarmenn beinni kosningu en ekki sé fyrirfram gefið að verkalýðshreyfingin eigi helming stjórnarmanna og atvinnurekendur hinn helminginn. Verkalýðsfélag Akraness lét gera könnun hjá Capacent Gallup þar sem fram kom í 1200 manna úrtaki að 72% vildu þetta svokallaða sjóðsfélagalýðræði. En á fundinum í gær kom fram að menn könnuðust ekki við að það væri einhver óánægja með það fyrirkomulag sem núna ríkir.

Á þeirri forsendu lagði formaður Verkalýðsfélags Akraness fram tillögu á fundinum í gær fyrir forseta ASÍ um að gerð yrði allsherjar skoðanakönnun á meðal sjóðsfélaga innan ASÍ um hvort þeir vildu taka upp svokallað sjóðsfélagalýðræði. Sjóðsfélagalýðræði sem fólgið væri í því að sjóðsfélagar kysu alla stjórnarmenn beinni kosningu. Það var nöturlegt að verða vitni að því að þessari tillögu hafnaði forseti ASÍ á þeirri forsendu að þá væri verið að taka valdið af stjórnum og trúnaðarráðum stéttarfélaganna.

Nei, mat formanns VLFA er einfalt: Einstaka forystumenn í verkalýðshreyfingunni eru ugglaust að verja sinn eigin hag með því að vilja ekki breyta því fyrirkomulagi sem nú er við lýði enda eru umtalsverðir hagsmunir fyrir þá sem sitja í stjórnum lífeyrissjóða. Það blasir við ef marka má skoðanakönnun Capacent Gallup sem félagið lét gera og það sem heyrist víða í samfélaginu að hinn almenni félagsmaður og sjóðsfélagi í verkalýðshreyfingunni vill breytingu á þessu kerfi. En verkalýðshreyfingin undir forystu ASÍ vill halda í þetta óbreytta kerfi og virða kröfu sjóðsfélaga um aukið lýðræði að vettugi og er ekki einu sinni tilbúið til að láta kanna það í allsherjar skoðanakönnun hver vilji sjóðsfélaga og félagsmanna er í þessu viðkvæma máli.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image