• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Sep

Galið fyrir launþega að taka þátt í þjóðarsátt

Eins og fram hefur komið í fréttum að undanförnu þá hafa Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld óskað eftir því að stöðugleikasáttmálinn frægi verði endurnýjaður. Afstaða Verkalýðsfélags Akraness til stöðugleikasáttmálans hefur ætíð verið skýr, í honum gekk nánast ekkert eftir annað en að launafólk var þvingað til að afsala sér og fresta sínum launahækkunum. Það var einnig ótrúlegt að verða vitni að því að forysta Alþýðusambands Íslands hunsaði ábendingar Verkalýðsfélags Akraness þegar sáttmálinn var gerður um að til væru fyrirtæki í útflutningsgeiranum sem hefðu fulla burði til að standa við þær launahækkanir sem um var samið 17. febrúar 2008. Á formannafundi þegar þessi sáttmáli var til umræðu nefndi formaður VLFA sérstaklega fiskvinnsluna í þeim efnum. Síðar kom í ljós að fjölmörg fyrirtæki, aðallega í fiskvinnslu, hækkuðu laun síns fólk í samræmi við kjarasamningana 2008 þrátt fyrir hafa haft möguleika á að skýla sér á bak við þennan stöðugleikasáttmála sem ASÍ hafði gert við Samtök atvinnulífsins. Starfsfólk þeirra fyrirtækja sem ekki hækkuðu launin varð hins vegar af vel á annað hundrað þúsund króna vegna þessa gjörnings Alþýðusambandsins.

Núna koma svo áðurnefndir aðilar, ríkisstjórnin og SA og óska eftir að umræddur stöðugleikasáttmáli verði endurnýjaður. Launafólk hefur þurft að afsala sér sínum hækkunum að hluta til, matarverð hefur hækkað um 40% frá janúar 2008, bensínverð um 45%, Orkuveitan hefur hækkað gjaldskrár sínar um 30%, sveitarfélög hafa skert starfshlutfall og hækkað gjaldskrár sínar, ríkið hefur komið með skattahækkanir, tryggingafélög hafa hækkað iðgjöld sín og svona mætti í raun og veru lengi telja. Þessir aðilar hafa allir sagt að þeir verði að mæta sínum vanda vegna versnandi rekstrarafkomu og hækkunar á skuldastöðu.

Núna þegar kemur að því að kjarasamningar eru lausir á hinum almenna vinnumarkaði og almennt launafólk hefur loksins tækifæri til þess að bæta hag sinn í formi launahækkana þá ætlast þessir aðilar til að þessi hópur sitji hjá með hófstilltum launahækkunum. Launþegar sem hafa þegar tekið á sig áðurnefndar hækkanir eiga með öðrum orðum að auki að sætta sig við litlar sem engar launahækkanir ef marka má ósk Samtaka atvinnulífsins um langtímasamning til 3 ára með 1-3% hækkun á ári.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness trúir því ekki að forysta Alþýðusambands Íslands sé svo mikið sem að íhuga að fara í samstarf við áðurnefnda aðila einvörðungu vegna þeirrar bláköldu staðreyndar að báðir þessir aðilar hafa varpað sínum vanda viðstöðulaust yfir á íslenskt launafólk. Á formannafundi ASÍ á fimmtudaginn sagði formaður VLFA að verkalýðshreyfingunni bæri að standa þétt saman í því að snarhækka hér lágmarkslaun og sækja af fullum þunga á útflutningsgreinarnar, enda hefur framkvæmdastjóri SA sjálfur sagt að útflutningsgreinarnar hafi fulla burði til að standa undir auknum launakostnaði. Það er dapurlegt að heyra málflutning forseta Alþýðusambands Íslands sem varar við þeirri leið að sækja að útflutningsgreinunum og reyndar taka fleiri forystumenn í verkalýðshreyfingunni undir þessi orð forsetans eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Formaður spyr sig, ef ekki á að sækja á útflutningsgreinarnar, hvaða leið vill forysta ASÍ þá eiginlega fara? Í umfjöllun um formannafundinn á heimasíðu ASÍ kemur fram að einungis einn hafi átt að hafa nefnt að sækja fast á útflutningsgreinarnar. Þetta er algjört kjaftæði því það voru mun fleiri sem nefndu það að við ættum að sækja fast á útflutningsgreinarnar í komandi kjarasamningum. Nægir að nefna fulltrúa Framsýnar á Húsavík, Afl frá Austurlandi og formann Samiðnar.

Það virðist fara óskaplega í taugarnar á sumum forystumönnum í verkalýðshreyfingunni að formaður Verkalýðsfélags Akraness skuli ekki styðja þá linkind sem einkennir forystu ASÍ um þessar mundir. Nægir að nefna alla pistlana frá formanni Rafiðnaðarsambands Íslands í því samhengi en hann virðist vera afar upptekinn af því að fjölmiðlar skuli yfir höfuð ræða við formann Verkalýðsfélags Akraness og formann Framsýnar á Húsavík.

Formaður hefur áður sagt honum finnist verkalýðshreyfingin vera gjörsamlega bitlaus í afar mörgum aðgerðum sínum og er hann síður en svo einn um þá skoðun ef marka má þá fjölmörgu félagsmenn VLFA og aðra sem gagnrýnt hafa hreyfinguna fyrir máttleysi og aðgerðaleysi í skuldastöðu heimilanna. Eins og margir vita þá hefur forseti ASÍ marglýst því yfir að hann styði verðtrygginguna. Það er að mati formanns með hreinustu ólíkindum að verkalýðshreyfingin í heild sinni skuli ekki berjast af alefli fyrir því að afnema verðtrygginguna og kalla eftir almennri leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstól verðtryggðra og gengistryggðra lána íslenskra heimila.

Hvað sagði ekki Ögmundur Jónasson, fyrrverandi formaður BSRB og núverandi ráðherra í setningarræðu á þingi BSRB í fyrra; eru aðilar vinnumarkaðar í fleirtölu að verða aðili í eintölu? Formaður tekur undir það sem Ögmundur gefur í skyn um forystu ASÍ, og finnst merkilegt hvernig forseti ASÍ hangir sífellt í pilsfaldi Samtaka atvinnulífsins. Það eru fleiri sem gagnrýna forystu ASÍ. Hvað sagði ekki Eiríkur Jónsson, formaður kennarasambandsins, þegar hann var spurður hvort það kæmi til greina að vera í samfloti með öðrum í komandi kjarasamningum. Hann sagði félög innan KÍ örugglega ekki taka því að fá upp í hendurnar uppskrift af kjarasamningum sem samin er af SA og ASÍ eins og raunin var síðast.

Það sama mun gilda með Verkalýðsfélag Akraness. En það virðist reyndar gleymast að samningsumboðið er alls ekki hjá forystu ASÍ eins og oft mætti halda þegar maður hlustar á fréttir. Samningsumboðið er hjá hverju stéttarfélagi fyrir sig en þessu virðast sumir aðilar algjörlega hafa gleymt. Að þessu öllu sögðu telur formaður Verkalýðsfélags Akraness það galið fyrir íslenska launþega að taka þátt í þjóðarsátt miðað við það sem á undan er gengið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image