• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Sep

Fiskvinnslukona með 20 ára starfsreynslu fær útborgaðar kr. 168.175

Eins og fram kom í fréttum á vef Skessuhorns þá er skortur á starfsfólki í fiskvinnslu í Grundarfirði þrátt fyrir að yfir 20 manns á svæðinu séu á atvinnuleysisskrá. Ástæðu þess að erfiðlega gengur að ráða í þessar stöður er að mati Guðmundar Smára Guðmundssonar frkv.stj. útgerðarfyrirtækisins Guðmundar Runólfssonar hf. sú staðreynd að atvinnuleysisbætur eru nú svipaðar og lágmarkslaun sem boðin eru í fiskvinnslunni.

Þetta hefur formaður margoft bent á og er í raun og veru engin nýlunda að erfiðlega hafi gengið að ráða í störf í fiskvinnslu. En það er afar athyglivert að þegar atvinnurekendur eru að kvarta yfir því að laun sem greidd eru í fiskvinnslunni séu það lág að erfiðlega gangi að fá fólk til starfa.

Það er hins vegar rétt að benda fiskvinnslufyrirtækjum á að þau hafa fulla heimild til að hækka laun sinna starfsmanna umfram þá taxta sem lágmarkskjarasamningar kveða á um.

Það verður að vera forgangsverkefni í komandi kjarasamningum að launakjör fiskvinnslufólks verði lagfærð með afgerandi hætti, enda eru allar forsendur í dag fyrir slíkri hækkun. Fiskvinnslan er að fá mun meira fyrir sínar afurðir sökum gengisfalls krónunnar í kjölfar bankahrunsins og í komandi kjarasamningum vill VLFA sjá að kjör fiskvinnslufólks verði löguð jafnvel um tugi prósenta.

Byrjandi í fiskvinnslu sem orðinn er tvítugur hefur í grunnlaun kr. 167.500. Meðtalsbónus í fiskvinnslu í dag er í kringum 200 kr. þannig að heildarlaun hans eru kr. 202.166. Að frádregnum sköttum og opinberum gjöldum eru þetta útborguð laun kr. 164.026.

Fiskvinnslukona sem starfaði hefur í 20 ár hefur í grunnlaun í dag kr. 174.500. Að viðbættum meðaltalsbónusi eru heildarlaun hennar kr. 209.166. Að frádregnum sköttum og opinberum gjöldum nema útborguð laun kr. 168.175.

Það að kona sem er búin að vinna í 20 ár í fiskvinnslu sé einungis með um 7.000 kr. meira í grunnlaun en byrjandi er algerlega óásættanlegt. Auk þess er grundvallaratriði að launakjör fiskvinnslufólks í þessari undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga verði lagfærð.  Þessi kjör fiskvinnslufólks er atvinnurekendum og okkur í verkalýðshreyfingunni til skammar.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá vill VLFA sækja hart að útflutningsfyrirtækjunum, þar með talið fiskvinnslufyrirtækjunum, sökum þeirra skilyrða sem skapast hafa hjá þessum atvinnugreinum vegna stöðu íslensku krónunnar.

Hins vegar eru ekki allir sammála því innan hreyfingarinnar eins og forseti ASÍ og einstaka formenn stærstu félaganna á höfuðborgarsvæðinu að sækja að útflutningsfyrirtækjunum. Og það er formanni óskiljanlegt einvörðungu vegna þeirrar bláköldu staðreyndar að albesta sóknarfærið í komandi kjarasamningum fyrir verkalýðshreyfinguna er á útflutningsfyrirtækin.

Ef kjör lágtekjufólks verða ekki leiðrétt í komandi kjarasamningum þá verður Alþingi Íslendinga að taka fram fyrir hendurnar á verkalýðshreyfingunni og lögbinda lágmarkslaun hér á landi og sú lögbinding lágmarkslauna mætti ekki vera undir kr. 200.000 á mánuði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image