• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Krafa frá Austurvelli var skýr: almennar leiðréttingar á skuldavanda heimilanna tafarlaust Eldar loguðu á Austurvelli í gær mbl.is/Júlíus
05
Oct

Krafa frá Austurvelli var skýr: almennar leiðréttingar á skuldavanda heimilanna tafarlaust

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tók þátt í mótmælum á Austurvelli í gær þegar um 8.000 manns voru þar samankomin m.a. til að mótmæla algjöru aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í skuldavanda heimilanna. Það var dapurlegt að verða vitni að því hversu mikil reiði og vonleysi skein úr andlitum mótmælenda. Þarna var samankominn þverskurður íslensks samfélags og langstærsti hlutinn var venjulegt fjölskyldufólk sem hagað i sér í fullu samræmi við friðsöm mótmæli.

Þessi mótmæli sýndu svo ekki verður um villst að alþýða þessa lands er búin að fá nóg. Hún er búin að fá nóg af því aðgerðaleysi sem ríkt hefur í málefnum íslenskra fjölskyldna frá því að ríkisstjórnin tók við. Henni var lofað að slegin yrði skjaldborg utan um heimilin og þá sem minnst mega sín í íslensku samfélagi en því miður hefur raunin orðið allt allt önnur.

Það er alveg ljóst að ríkisstjórn Íslands og Alþingi verða að koma tafarlaust með alvöru úrræði til lausnar skuldavanda heimilanna og það er einnig ljóst að það verður að grípa til almennra leiðréttinga á skuldum heimilanna. Hagsmunasamtök heimilanna hafa einmitt lagt fram ítarlegar tillögur í þeim efnum sem eru afar athyglisverðar og hafa hagsmuni heimilanna að leiðarljósi.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð stutt baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna, en samtökin hafa m.a. bent á að grípa þurfi til almennra leiðréttinga vegna skuldavanda heimilanna og það er í raun og veru dapurlegt og grátbroslegt að afar hagstæðar tillögur til handa alþýðu þessa lands skuli koma frá Hagsmunasamtökum heimilanna, þegar lítið sem ekkert hefur komið frá forystu Alþýðusambands íslands í þessum efnum. Jú, það hefur komið fram frá forystu ASÍ að verðtryggingin verði að vera áfram við lýði. Forseti ASÍ sagði m.a. í desember 2008 þegar tillögur komu t.d. frá formanni VLFA um að taka þyrfti neysluvísitöluna úr sambandi og festa hana við verðbólgumarkmið Seðlabankans að slík tillaga væri eins og að taka hitamælinn úr sambandi þegar farsóttir geisuðu.

Einnig hefur forysta ASÍ lýst sig andsnúna almennri leiðréttingu á skuldum heimilanna en hefur talað fyrir sértækum aðgerðum. Reynslan sýnir okkur þó svo ekki verður um villst að slík leið er nánast ófær og afar ósanngjörn eins og fjölmörg dæmi hafa sýnt okkur. Dæmin hafa sýnt að einstök fyrirtæki hafa verið að fá niðurfellingu á sínum skuldum svo nemur hundruðum milljóna og í sumum tilfellum milljarða króna. Á meðan er venjulegu íslensku fjölskyldufólki gert skylt að greiða sínar stökkbreyttu skuldir með góðu eða illu.

Það er þetta óréttlæti sem alþýða þessa lands mun ekki og ætlar sér ekki að láta viðgangast.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image