• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Nov

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins fer mikinn

Það er óhætt að segja að Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins fari mikinn þessa dagana en að undanförnu hafa lágmarkslaun og atvinnuleysis- og örorkubætur verið umtalsvert til umfjöllunar í fjölmiðlum. Karen Kjartansdóttir, fréttamaður á Stöð 2, hefur fjallað um þetta málefni að undanförnu. Síðastliðinn laugardag var viðtal við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, þar sem hann sagði að hugsanlega væru atvinnuleysisbætur og aðrar bætur orðnar of háar sem gerði það að verkum að fólk kysi frekar að vera til dæmis á atvinnuleysisbótum heldur en að fara að vinna þessi láglaunastörf.  Það er alveg ótrúlegt að atvinnurekendur og Samtök atvinnulífsins séu hissa að erfiðlega gangi að manna þessi láglaunastörf einfaldlega í ljósi þeirra staðreynda að þau laun sem eru í boði eru það lág að þau duga ekki til að fólk geti framfleytt sér og sínum.  Vandamálið liggur ekki í að  atvinnuleysis- og örorkubætur séu of háar, svo mikið er víst.   Það eru margir menn eins og t.d Runólfur Ágústsson, stjórnarformaður Vinnumálastofnunnar  og Guðbjartur Hannnesson félagsmálaráðherra sem hafa bent á að lágmarkslaun verði að hækka.

 

Það kvað við nýjan tón hjá framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins á mánudaginn þegar var farið að ræða launakjör forstjóra lífeyrissjóðsins Gildi en forstjóri þess lífeyrissjóðs er með um 20 milljónir í árslaun eða sem gerir tæpa 1,7 milljón á mánuði. Þessi laun voru síst of há að mati Vilhjálms Egilssonar. En atvinnuleysisbætur sem eru rétt tæpar 150 þúsund krónur á mánuði voru hugsanlega of háar að mati framkvæmdastjórans. Þetta er náttúrulega ótrúlegur málflutningur af hálfu Vilhjálms í ljósi þess að forstjóri lífeyrissjóðsins Gildi tekur nánast árslaun atvinnuleitandans á einum mánuði.  Þessir menn reyna ítrekað að réttlæta þessi ofurlaun  vegna umfangs starfsins og þeirri dæmalausu klisju að ábyrgðin sé svo gríðarleg.

En hver er hin raunverulega ábyrgð til dæmis forstjóra lífeyrissjóðanna sem hafa tapað á bilinu 4-500 milljörðum og það bara er lítur að skulda- og hlutabréfakaupum samkvæmt gögnum frá Seðlabankanum.  Sagan hefur sýnt okkur að þessir menn bera ákkúrat enga ábyrgð enda sitja nánast allflestir stjórnendur lífeyrissjóðanna ennþá í sínum stólum.

 

Stjórnir lífeyrissjóðanna

Það er reyndar með ólíkindum að atvinnurekendur skuli yfir höfuð sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna og víla og díla með kjarasamningsbundin lífeyrisréttindi launþega.  Það er til að mynda afar óeðlilegt að atvinnurekendur séu að taka ákvarðanir um fjárfestingarleiðir þegar liggur fyrir að krosseignatengsl og hagsmunaárekstrar fulltrúa atvinnurekenda í sjóðunum geta klárlega skarast á við hagsmuni sjóðsfélaga. Það er því augljós hætta á að fulltrúar atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóðanna hafi hagsmuni atvinnurekenda en ekki sjóðsfélaga að leiðarljósi þegar kemur að ákvörðunum um fjárfestingarleiðir. Á þeirri forsendu segir formaður félagsins að það sé grundvallaratriði að það séu eigendur sjóðanna, sjóðsfélagarnir sjálfir, sem taki ákvörðun um hverjir fari með stjórnun sjóðanna. Mitt mat er einfaldlega það að það eigi að fækka lífeyrissjóðunum niður í einn, jafna lífeyrisréttindi allra landsmanna og hér verði ráðið sérfræðingateymi til að sjá um stjórnun á lífeyrissjóðunum en að sjálfsögðu geta atvinnurekendur átt áheyrnarfulltrúa í stjórn sjóðsins. En með því að fækka lífeyrissjóðunum niður í einn er ljóst að hægt yrði að spara umtalsverðar upphæðir til hagsbóta fyrir alla sjóðsfélaga.

 

Hvað þarf að gera

Það er morgunljóst í  huga formanns VLFA að lágmarkslaun á Íslandi verður að lagfæra í komandi kjarasamningum með afgerandi hætti.  Ríkissjórn Íslands þarf að setja flýtimeðferð á að reikna út lágmarksframfærslustuðul þar sem fram komi hvað einstaklingur þarf til að framfleyta sér og standa við nauðsynlegar skuldbindingar.  Það verður að tryggja að lágmarkslaun dugi til framfærslu en það gera þau alls ekki í dag. 

Kjarni málsins er eins og áður sagði að atvinnuleysis- og örorkubætur eru alls ekki vandamálið heldur þessi skammarlegu lágu lágmarkslaun sem eru atvinnurekendum, íslensku samfélagi og síðast en ekki síst okkur í verkalýðshreyfingunni til skammar og því verðum við að breyta í komandi kjarasamningum með hagsmuni lágtekjufólks að leiðarljósi.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og forstjórar lífeyrissjóðanna ættu að prófa að reyna að framfleyta sér og sínum á lágmarkslaunum og atvinnuleysisbótum, en þá er ég viss um að það myndi kveða við annan tón hjá þessum mönnum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image