• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Einhugur og samstaða Einhugur og samstaða
12
Feb

Einhugur og samstaða

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar í kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness við Samtök atvinnulífsins vegna Elkem Ísland og Klafa ehf. á miðvikudaginn nk.

Samninganefnd félagsins átti fund með SA á fimmtudaginn sl. en þar var nánast öllum kröfum samninganefndar Verkalýðsfélags Akraness hafnað og kom skýrt fram í máli samningamanna Samtaka atvinnulífsins að ekki verði samið um neitt umfram það sem samið verður um í anda samræmdar launastefnu við forystu ASÍ. Það kom einnig skýrt fram hjá SA að þeir ætla að semja til þriggja ára og þeir ætla að semja um eins launahækkanir til handa öllum félagsmönnum ASÍ, algjörlega óháð getu einstakra atvinnugreina.

Á grundvelli þessa viðhorfs hjá Samtökum atvinnulífsins er mjög líklegt að bókaður verði árangurslaus fundur hjá ríkissáttasemjara á miðvikudaginn kemur og ef svo verður er fátt sem getur komið í veg fyrir að kosið verði um vinnustöðvun í Elkem og Klafa.  Til að hægt verði að forða frá kosningu um vinnustöðvun þarf að verða alger viðhorfsbreyting hjá SA.

Rétt er að geta þess að afurðaverð hefur hækkað umtalsvert á kísiljárni á liðnum misserum og einnig hefur gengisfall íslensku krónunnar bætt rekstrarskilyrði útflutningsfyrirtækja gríðarlega. Það er einnig rétt að geta þess að hlutfall launa af heildarveltu Elkem er um eða rétt yfir 10% og því til viðbótar fá stóriðjufyrirtækin raforku á afar hagstæðu verði ef tekið er t.d mið af raforkuverði í Noregi.

Það eru því engar forsendur fyrir því að stóriðjufyrirtæki eða önnur útflutningsfyrirtæki fái einhvern verulegan afslátt í komandi kjarasamningum. Það er afar ánægjulegt að það ríkir gríðarlegur einhugur og samstaða á meðal starfsmanna í þessari baráttu sem framundan er. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image