• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Gríðarleg samstaða á fjölmennum fundi í Bíóhöllinni Gríðarleg samstaða ríkti á opnum fundi sem félagið hélt í gærkvöldi
18
Feb

Gríðarleg samstaða á fjölmennum fundi í Bíóhöllinni

Gríðarleg samstaða og einhugur ríktu á opnum fundi um stöðu kjaramála sem Verkalýðsfélag Akraness hélt í gær í Bíóhöllinni. Formaður félagsins rakti stöðu allra kjarasamninga sem félagið er aðili að og gerði grein fyrir þeirri grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins.

Það kom skýrt fram í máli formanns í gær að það er fullur skilningur hjá Verkalýðsfélagi Akraness á að sýna fyrirtækjum sem eiga í erfiðleikum um þessar mundir sökum efnahagshrunsins skilning í komandi kjarasamningum. Nefndi formaðurinn sérstaklega byggingariðnaðinn og Sementsverksmiðjuna í því samhengi. En það kom hins vegar skýrt fram hjá formanni að að sjálfsögðu þurfi þessir aðilar einnig að fá einhverjar launabætur á meðan að þessar greinar vinna sig úr þeim vanda sem þær eiga við að etja þessi misserin. Kjör starfsmanna í þessum atvinnugreinum verður svo að bæta til muna síðar þegar betur árar í viðkomandi greinum.

En það kom hvellskýrt fram hjá formanni VLFA sú skýlausa krafa að atvinnugreinar tengdar útflutningi skili þeim ávinningi sem þær hafa fengið, meðal annars vegna gengisfalls íslensku krónunnar og stórhækkaðs afurðaverðs, með afgerandi hætti í komandi samningnum. Það verður lágmarkskrafa að þeirri kaupmáttarrýrnun sem starfsmenn í útflutningsfyrirtækjum hafa orðið fyrir, verði skilað til þeirra starfsmanna.

Þessi fjölmenni fundur fordæmir vinnubrögð Samtaka atvinnulífsins og forystu ASÍ fyrir þá stefnu sem lýtur að samræmdri launastefnu. Stefnu sem byggist á því að lítið sem ekkert tillit á að taka til sterkrar stöðu útflutningsgreina. Nefndi formaður til dæmis að þau fyrirtæki sem eiga þær síldarbræðslur sem hér eru starfandi skiluðu flest milljörðum í hagnað á starfsárinu 2009. Formaðurinn rakti líka hvernig afurðaverð á mjöli og lýsi hefur stórhækkað og einnig á kísiljárni og áli. Það kom fram í máli formanns að upp undir 70% félagsmanna í VLFA eru starfandi hjá útflutningsfyrirtækjum. Á þeirri forsendu er nöturlegt og dapurlegt að verða vitni að því að Alþýðusamband Íslands skuli taka höndum saman með Samtökum atvinnulífsins til að koma í veg fyrir það að þessar útflutningsgreinar þurfi að hækka laun umfram það sem gerist hjá atvinnugreinum sem eiga í gríðarlegum erfiðleikum.

Að mati fundarmanna eru Þetta vinnubrögð sem eru óskiljanleg. Hví í ósköpunum berst ekki ASÍ af öllum kröftum fyrir því að fordæma þær skefjalausu hækkanir sem dunið hafa á launþegum á liðnum misserum í staðinn fyrir að berjast fyrir því að starfsmenn útflutningsfyrirtækja fái ekki notið þess ávinnings sem fyrirtækin eru að njóta í kjölfar gengisfalls íslensku krónunnar.

Það kom tillaga frá fundarmanni sem lýsti yfir fullum stuðningi við forystu Verkalýðsfélags Akraness í þeirri baráttu sem nú er framundan og var sú tillaga samþykkt með dynjandi lófaklappi fundarmanna. Það er þessi stuðningur sem skiptir forystumenn í stéttarfélögum gríðarlegu máli því án stuðnings launþega eru forystumenn í stéttarfélögum ekkert. Það er æði margt sem bendir til þess að hörð barátta sé framundan fyrir bættum kjörum íslenskra launþega og á þeirri forsendu er gríðarleg þörf á algjörri samstöðu íslenskra launþega. Það þarf að brjóta á bak aftur þessa samræmdu launastefnu þar sem hagsmunum starfsmanna í útflutningsgreinum á að fórna að mati þessara aðila sem um ræðir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image