• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Mar

Ólíðandi vinnubrögð

Það er alveg með ólíkindum að verða vitni að því að kjaraviðræður Alþýðusambands Íslands við Samtök atvinnulífsins hreyfast ekki nokkurn skapaðan hlut, en eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá vinna þessir aðilar að því að ganga frá kjarasamningum þar sem samræmd launastefna er höfð að leiðarljósi.

Nú eru liðnir 113 dagar, eða tæpir 4 mánuðir frá því kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út og hafa því launþegar ekki fengið launahækkun á því tímabili. Samkvæmt fréttum er ekkert að gerast og hefur m.a. formaður Samtaka atvinnulífsins sagt viku eftir viku að nú séu 2-3 vikur þar til hægt verði að ganga frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði.

Formann setur hljóðan við þessi vinnubrögð, en það er æði margt sem bendir til þess að Samtök atvinnulífsins haldi kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði í algerri herkví vegna ágreinings samtakanna við ríkisstjórnina í sjávarútvegsmálum. Það er einnig æði margt sem bendir til þess að engin hreyfing muni komast á kjaraviðræður fyrr en frumvarp á fiskveiðistjórnunarkerfinu verði lagt fram. Ef frumvarpið verður með þeim hætti að það þóknist ekki Samtökum atvinnulífsins þá mega íslenskir launþegar búast við því að ekki verði hægt að ganga frá neinum kjarasamningum.

Þetta eru náttúrulega vinnubrögð sem eru þessum aðilum til ævarandi skammar því launþegar geta ekki horft upp á það að vanda ríkis, sveitarfélaga og verslunareigenda sé varpað viðstöðulaust yfir á neytendur á meðan ekki er hægt að ganga frá kjarasamningum við launafólk.

Það er einnig alveg ljóst að Alþýðusamband Íslands hefur brugðist algerlega í þessum kjaraviðræðum á grundvelli þeirrar staðreyndar að þeir hafa samþykkt að vinna samræmdri launastefnu. Þetta gerir það að verkum að stéttarfélög eins og Verkalýðsfélag Akraness nær ekki að ganga frá kjarasamningum við vel stæð fyrirtæki sem eru starfandi í útflutningi.

Það er mat formanns VLFA að nú verði hinn almenni launþegi að fara að rísa upp og mótmæla þessum vinnubrögðum harðlega og krefja verkalýðshreyfinguna um að láta Samtök atvinnulífsins ekki komast upp með að draga kjaraviðræðurnar m.a. út af ágreiningi við ríkisvaldið.

18
Mar

Búið að senda út umsóknareyðublöð vegna orlofshúsa sumarið 2011

Nú hefur félagið sent til allra félagsmanna sinna umsóknareyðublað vegna orlofshúsa sumarið 2011. Allir félagsmenn ættu að fá umsóknareyðublöðin í byrjun næstu viku. Meðfylgjandi er bæklingur sem inniheldur upplýsingar um þá bústaði sem í boði eru í sumar. Bústaðir félagsins í Húsafelli, Svínadal, Ölfusborgum og Hraunborgum eru að sjálfsögðu þar á meðal auk íbúðanna þriggja á Akureyri. Einnig hefur félagið leigt íbúð á Flateyri eins og síðasta sumar en það mæltist vel fyrir hjá félagsmönnum og var íbúðin vel nýtt. Að auki verða í boði þrír bústaðir í Biskupstungum, einn þeirra er í Úthlíð en hinir tveir eru staðsettir rétt ofan við fossinn Faxa í Tungufljóti. Í næstu viku mun einnig opnast fyrir orlofshúsaumsóknir á félagavefnum.

Skilafrestur umsókna er til 11. apríl og verður úthlutað á fimmtudeginum 14. apríl.

17
Mar

Hví í ósköpunum styrkist íslenska krónan ekki?

Afhverju styrkist krónan ekki?Afhverju styrkist krónan ekki?Hví í ósköpunum stendur á því að íslenska krónan styrkist ekki í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að vöruskiptajöfnuður hefur verið gríðarlega jákvæður á síðustu tveimur árum? Árið 2009 var vöruskiptajöfnuður 87 milljarðar og bráðabirgðatölur fyrir árið 2010 sýna að vöruskiptajöfnuður er allt að 119  milljarðar. Og einnig hafa borist af því fréttir að vöruskiptajöfnuður fyrstu mánuði þessa árs sé umtalsverður.

Samt sem áður hefur íslenska krónan veikst um tæp 5% frá því hún var hvað sterkust í nóvember síðastliðnum. Hver skyldi ástæðan vera fyrir þessu? Það hlýtur að vera krafa íslenskra launþega og neytenda að fá skýringar á því hví íslenska krónan styrkist ekki í ljósi áðurnefndra staðreynda.

Nú liggur fyrir að það eru gjaldeyrishöft hér á landi og því er skilaskylda útflutningsfyrirtækja á gjaldeyri. Getur það verið að ástæðan fyrir því að íslenska krónan styrkist ekki sé að útflutningsfyrirtæki, til dæmis sjávarútvegsfyrirtæki, skipti ekki þeim erlenda gjaldeyri sem þeir fá fyrir sínar afurðir í íslenskar krónur heldur liggi með þá inn á IG reikningum í Seðlabankanum sem verður þess valdandi að íslenska krónan styrkist ekkert þess í stað heldur hún áfram að falla. Getur einnig verið að eigendur útflutningsfyrirtækja sjái sér leik á borði með því að skipta ekki erlendum gjaldeyri í íslenskar krónur til að halda gengi krónunnar veiku til að fá meira fyrir sínar afurðir og vilji bíða eftir afnámi gjaldeyrishafta til að hagnast enn meira eftir að íslenska krónan hefur fallið í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta.

Ef þetta er raunin að útflutningsfyrirtæki eru ekki að skipta sínum erlenda gjaldmiðli yfir í íslenskar krónur, sem verður þess valdandi að íslenska krónan nær ekki að rétta úr kútnum, þá er það grafalvarlegt mál, sérstaklega í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins eru að krefja íslenska launþega um að ganga frá hófstilltum kjarasamningum til að tryggja hér stöðugleika sem eigi að leiða til þess að íslenska krónan styrkist.

 

Almenningur vill svör.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness krefst þess að Seðlabankinn, fjármálaráðuneytið og Samtök atvinnulífsins skýri það út fyrir almenningi á mannamáli á hvaða forsendu íslenska krónan styrkist ekki í ljósi þess gríðarlega vöruskiptajafnaðar sem hér hefur verið á undanförnum tveimur árum.

Formaður VLFA kaupir það alls ekki að Már Guðmundsson Seðlabankastjóri viti ekki ástæðuna fyrir því að íslenska krónan hefur fallið um 5% á síðastliðnum fimm mánuðum þrátt fyrir gríðarlega hagstæðan vöruskiptajöfnuð eins og fram kom í fréttum í gær..

Það er hins vegar morgunljóst að það hjálpar ekki íslensku krónunni þegar ráðamenn þjóðarinnar, eins og til dæmis efnahagsmálaráðherra, Seðlabankastjóri, forseti ASÍ og Samtök atvinnulífsins segja jafnt á innlendum sem erlendum vettvangi að íslenska krónan sé nánast ónýtur gjaldmiðil.   Hví tala ráðamenn með slíkum hætti þegar liggur fyrir að slíkur málflutningur getur haft skaðleg áhrif á gjaldmiðil okkar íslendinga?

Almenningur á rétt á að fá skýr svör við þessum spurningum enda liggja gríðarlegir hagsmunir fyrir íslenska neytendur að krónan styrkist.

15
Mar

Skattframtalsaðstoð í fullum gangi

Stjórn félagsins byrjaði á því að bjóða félagsmönnum upp á skattframtalsaðstoð árið 2004 og hefur svo verið alla tíð síðan. Núna stendur þessi aðstoð yfir en hún hófst 8. mars og hefur nánast verið fullt í alla tíma til þessa og greinilegt að þessi þjónusta félagsins er að falla í góðan jarðveg hjá félagsmönnum. Björg Bjarnadóttir hefur séð um þessa vinnu fyrir félagið með glæsibrag.

Nú eru örfáir tímar eftir en þessi þjónusta mun verða í boði fram til 22. mars en það er næstsíðasti dagur sem hægt er að skila inn skattframtölum. Þeir sem eiga eftir að panta sér tíma þurfa að hafa hraðar hendur en hægt er að panta tíma á skrifstofu félagsins í síma 430-9900.  

14
Mar

104 dagar án launahækkana

Verksmiðja Norðuráls á GrundartangaVerksmiðja Norðuráls á GrundartangaNú eru liðnir 104 dagar frá því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út en eins og flestir vita þá runnu samningarnir út 1 desember 2010. Á þessu sést að launafólk hefur orðið af launahækkunum í þrjá og hálfan mánuð og á sama tímabili hefur launafólk þurft að horfa upp á skefjalausar hækkanir á öllum sviðum - af hálfu ríkis og sveitarfélaga og á öðrum útgjaldarliðum er snúa að rekstri heimilis.

Það er nöturlegt að verða vitni að því að lítið sem ekkert virðist vera að gerast í kjaraviðræðunum, búið að rífa samningsumboðið af stéttarfélögunum og færa það yfir til Alþýðusambands Íslands en eins og margoft hefur komið hér fram á heimasíðunni neita Samtök atvinnulífsins að ganga frá kjarasamningum við félagið varðandi kjarasamninga eins og við Elkem Ísland, Klafa og launalið Norðuráls. Samtök atvinnulífsins hafa sagt skýrt á fundum að ekki verði gengið frá samningum fyrir áðurnefnd fyrirtæki fyrr en samið hefur verið við ASÍ en eins og allir vita þá er unnið að samræmdri launastefnu af hálfu þessara aðila.

Það er skelfilegt til þess að vita að ekki sé hægt að ganga frá kjarasamningum við þau útflutningsfyrirtæki sem eru til að mynda á Grundartangasvæðinu vegna þess ofbeldis sem lítur að margumtöluðu samræmdu launastefnunni en útflutningsfyrirtækin eru að skila gríðarlega góðri afkomu um þessar mundir vegna gengisfalls íslensku krónunnar og stórhækkaðs afurðaverðs. Sem dæmi hefur álverðið rokið upp og eins og fram kom í fréttum ekkert alls fyrir löngu má áætla að álfyrirtækin þrjú hér a landi skili allt að 38 milljörðum meira í hagnað heldur en þau gerðu á síðasta ári bara vegna þeirrar hækkunar sem orðið hefur á heimsmarkaðsverði á áli. Hvaða forsendur eru fyrir því að ekki sé hægt að ganga frá kjarasamningum fyrir þessa starfsmenn?

Samtök atvinnulífsins krefjast þess að samið verði á grundvelli samræmdrar launastefnu sem ASÍ hefur fallist á en það gilda ekki sömu lögmál um alla hvað varðar samræmda launastefnu og nægir að nefna í því samhengi stjórnarmennina í Samtökum atvinnulífsins, þau Birnu Einarsdóttur og Höskuld H. Ólafsson bankastjóra sem hækkuðu um milljónir króna á ársgrundvelli á síðasta ári. Eða hækkunina til héraðs- og hæstaréttardómara upp á 101.000 kr. á mánuði. Skilaboðin frá Samtökum atvinnulífsins til almenns launafólks eru: Þið sauðsvartur almúginn, þið skuluð bíða þar til okkur þóknast að ganga frá samningum við ykkur.

Það eru litlar fréttir sem berast af gangi þessara viðræðna og virðast fáir vita í raun og veru hvað sé verið að ræða um er lítur að launalið kjarasamningsins á hinum almenna vinnumarkaði. Því er það grátbroslegt sem fram kom í fréttum 11. febrúar þar sem haft var eftir forseta ASÍ að kraftur væri kominn í kjaraviðræðurnar við Samtök atvinnulífsins. Það þykir ekki ýkja mikill kraftur ef marka má að liðinn er rúmur mánuður frá því að þessi orð forsetans birtust í fréttum og ekkert hefur gerst.

Alþingi Íslendinga þarf að tryggja það að atvinnurekendur komist ekki upp með það að geta dregið kjaraviðræður eins og þeim dettur í hug vegna þess að það er ekkert tryggt frá hvaða tíma viðkomandi samningar eiga að gilda. Það þarf með öðrum orðum að tryggja að kjarasamningar gildi ávallt frá þeim tíma sem þeir renna út þannig að það myndist einhver pressa á Samtök atvinnulífsins að ganga frá samningum við launafólk. Eins og staðan er í dag eru það bara atvinnurekendur sem hagnast á því að draga kjarasamninga eins lengi og þeim sýnist. Allt á kostnað íslenskra launþega. Þarna verður Alþingi Íslendinga að grípa inn í því verkalýðshreyfingin hefur ekki kjark né þor til að lemja hressilega í borðið og krefjast þess að samningar gildi frá því að fyrri samningar runnu út.

10
Mar

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, deilt með Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka er græðgi!

Hvað skyldi Vilhjálmur Egilsson segja við launahækkun bankastjórannaHvað skyldi Vilhjálmur Egilsson segja við launahækkun bankastjórannaSamtök atvinnulífsins hafa mótað skýra stefnu, stefnu sem byggist á því að allir launþegar skuli fá sömu launahækkanir sem byggjast á svokallaðri samræmdri launastefnu. SA vill semja til þriggja ára og að heildarkostnaðarhækkanirnar séu á bilinu 7-8% sem gerir um 2,5% á ári. Alþýðusamband Íslands er sammála því að gengið verði frá kjarasamningum á grundvelli samræmdrar launastefnu til þriggja ára.

Rugl deilt með tveimur er rugl

Samtök atvinnulífsins hafa alfarið hafnað rökum Verkalýðsfélags Akraness þar sem félagið hefur óskað eftir að þau fyrirtæki sem að eru starfandi í útflutningi skili sínum ávinningi að einhverju leyti til sinna starfsmanna enda eru þessi fyrirtæki að hagnast gríðarlega vegna gengisfalls íslensku krónunnar og hækkunar á afurðaverði. Þessum rökum hefur Vilhjálmur Egilsson hafnað alfarið og segir að það muni ekki koma til greina að samið verði við starfsmenn útflutningsfyrirtækja með öðrum hætti heldur en gert verður við önnur fyrirtæki.   Vilhjálmur sagði meðal annars þegar deilan um fiskimjölsverksmiðjurnar stóð sem hæst í febrúar að launakröfur starfsmanna væru allt of háar. Og sagði hann orðrétt: „Rugl deilt með tveimur er rugl“. Þetta var svar hans við launakröfu upp á 13,5% sem hefði þýtt 28 þúsund króna hækkun hjá starfsmönnum fiskimjölsverksmiðjanna.

Marka láglaunastefnuna

En hverjir sitja nú í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins? Það eru þessir aðilar sem marka meðal annars stefnu Samtaka atvinnulífsins í kjarasamningsmálum. Jú, það er meðal annarra Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka sem fékk hækkun á sínum launum um 7,5 milljónir á ársgrundvelli eða sem nemur 625 þúsund krónum á mánuði. Og rétt er að geta þess einnig að í fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins, sem fer með æðsta vald í SA á milli ársfunda, situr enginn annar en bankastjórinn í Arion banka, Höskuldur H. Ólafsson. Höskuldur fékk 10 milljóna króna mætingarbónus og því til viðbótar hafa laun bankastjóra Arion banka hækkað frá árinu 2009 um 65,7% eða sem nemur 13,8 milljónum á ársgrundvelli sem gerir 1,1 milljón á mánuði.

Þessir aðilar sitja í Samtökum atvinnulífsins og krefjast þess núna af íslenskum launþegum að gengið verði frá hófstilltum kjarasamningum í anda samræmdrar launastefnu þar sem hækkunin skuli vera um 2,5% á ári. Siðleysið hjá þessu fólki er algjört enda getur þetta fólk nánast skammtað sér sín laun eftir eigin geðþótta. Á sama tíma líta þau á íslenskt launafólk eins og sauðsvartan almúga sem á að lúta því ægivaldi sem Samtök atvinnulífsins marka í launamálum í komandi kjarasamningum.  

Hvað ætla Samtök atvinnulífsins að gera?

Hvað skyldi Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segja við Birnu Einarsdóttur sem situr með honum í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins, sem hefur hækkað laun sín um 650 þúsund krónur á mánuði eða sem nemur 7,5 milljónum á ári. Eða við Höskuld H. Ólafsson, sem hækkaði laun sín um 1,1 milljón á mánuði, samtals 13,5 milljónir á ársgrundvelli og fékk 10 milljónir fyrir að stimpla sig inn, á sama tíma og það á að troða ofan í almennt verkafólk láglaunastefnu í anda samræmdrar launastefnu. Ætla Samtök atvinnulífsins að láta þessar gríðarlegu hækkanir átölulaust eða eru þessar hækkanir í anda þeirrar samræmdu launastefnu sem þeir berjast nú fyrir?

Samtök atvinnulífsins hafa sagt að ekki sé hægt að ganga frá hærri hækkunum til starfsmanna útflutningsfyrirtækja þó þessi fyrirtæki séu að skila milljörðum í hagnað. Ástæðan segja SA að umframhækkanir á þessa aðila myndu flæða yfir aðra hópa. Hvað með þessar hækkanir hjá stjórnarmönnum Samtaka atvinnulífsins upp á 30-65%? Á það ekki að hafa nein ruðningsáhrif á aðra hópa?

Rétt er að rifja upp aftur hvað Vilhjálmur Egilsson sagði um kröfu síldarbræðslumanna upp á 28 þúsund króna hækkun á mánuði: „Rugl deilt með tveimur er rugl.“

Ég vil svara þessari athugasemd frá Vilhjálmi Egilssyni um kröfu síldarbræðslumanna með því að segja: Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, deilt með Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka er græðgi í boði Samtaka atvinnulífsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image