• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Apr

Þolinmæðin gjörsamlega tæmd

Járnblendiverksmiðjan á GrundartangaJárnblendiverksmiðjan á GrundartangaVerkalýðsfélag Akraness, Framsýn,  og Verkalýðsfélag Þórshafnar óskuðu í morgun eftir fundi með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins um sérmál og launalið kjarasamnings aðila. Þessi þrjú félög ákváðu á sínum tíma að segja skilið við önnur stéttarfélög innan Starfsgreinasambands Íslands vegna mismunandi áherslna í kröfugerð sambandsins.

Þessi þrjú félög hafa lagt áherslu á að 200.000 króna tekjutrygging kæmi til framkvæmda strax.

Haft hefur verið eftir forseta ASÍ að 200.000 króna lágmarkslaunum verði ekki náð fyrr en 1. janúar 2013.  Það er mat Verkalýðsfélag Akraness að slíkt sé með öllu óásættanlegt, enda hefur nýtt neysluviðmið sem velferðaráðherra lét gera sýnt fram á að lágmarksframfærsla einstaklings þurfi að vera að lágmarki í kringum 280.000 kr. á mánuði.

Félögin þrjú hafa átt fundi með fulltrúum SA en þeir hafa ekki viljað ganga frá neinu meðan þeir hafa átt í viðræðum við landssambönd ASÍ og stjórnvöld.  Það er óþolandi hvernig forseta ASÍ hefur tekist að hrifsa til sín samningsumboð nánast allra stéttarfélaga í þessum kjaraviðræðum og stjórnar þessum viðræðum við SA með afar döprum hætti.

Nú er ekki margt sem bendir til þess að SA sé yfir höfuð að fara að semja um kjarabætur við verkalýðshreyfinguna ef marka má þær hótanir sem dunið hafa á launþegum síðustu daga og vikur.  En það hefur komið skýrt fram hjá Samtökum atvinnulífsins að ef Icesave lögin verði ekki samþykkt á morgun þá verði ekki samið við verkalýðshreyfinguna.  Öllu alvarlega er að forseti ASÍ og einstaka forystumenn innan verkalýðshreyfingarinnar hafa einnig rekið slíkan hræðsluáróður sem hefur vægt til orða tekið fallið í grýttan jarðveg hjá launþegum vítt og breitt um landið.

Það er sorglegt að t.d starfsmenn Norðuráls sem eru búnir að vera með sinn launalið lausan frá áramótum fái ekki kjarabætur vegna þess að forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins neita alfarið að semja fyrr en þeir eru búnir að semja við Gylfa Arnbjörnsson og co hjá ASÍ í anda láglaunastefnunnar sem byggist á samræmdri launastefnu sem Gylfi og Vilhjálmur hjá SA hafa mótað.  Einnig fær VLFA ekki að ganga frá kjarasamningum fyrir starfsmenn Elkem og Klafa vegna þessarar samræmdu launastefnu.  Rekstrarskilyrði þessara fyrirtækja er feikigóð um þessar mundir og ljóst að bæði þessi fyrirtæki eru rekin með umtalsverðum hagnaði þessa dagana en sem dæmi þá er álverð nú í hæstu hæðum eða um 2.600 dollarar pr. tonn.  Einnig er rekstur Elkem mjög góður en kísiljárn hefur hækkað um 58 % á liðnum misserum

Nú er það algjörlega orðið morgunljóst að þolinmæði Verkalýðsfélags Akraness er gjörsamlega búin og mun félagið strax eftir helgi skoða sína stöðu rækilega ef ekki sér til lands í þessum kjaradeilum ASÍ og SA.  Formaður VLFA vill ítreka það sem áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þar sem hann lýsir yfir fullkomnu vantrausti á forseta ASÍ til að leiða þessa kjaraviðræður enda er það mat formanns að hann sé algjörlega vanhæfur til þess og nægir að nefna að komið er á fimmta mánuð frá því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image